Afmælisdrengur

2. apríl á sérstakur sómapiltur Hlaupasamtakanna afmæli: gamli barnatannlæknirinn. Hann mætti ekki til hlaups í dag fyrir sakir hógværðar og meðfæddrar hlédrægni. Magnús okkar er líklega fyrsti brotthvarfsnemandinn í menntasögu Lýðveldisins. Hann var ungur nemandi á Vesturborg hjá forvera eiginkonu skrifara og gegndi nafninu "Magnús prúði", en leiddist námið verandi kominn á sjötta aldursárið og ákvað að strjúka og var í framhaldinu sendur vestur á firði í vist.

Þessir voru mættir til hlaups: blómasalinn, skrifari, Helmut, dr. Jóhanna, Þorvaldur, Jörundur, Ólafur Gunnarsson, Baldur Tumi, Kaufmann, og loks kom hvítur hrafn steðjandi: sjálfur Benzinn, strýhærður og síðskeggjaður og úfinn í skapi og hafði ekki sést svo mánuðum skipti í Vesturbænum. Skrifari reyndi að beina honum í Útiklefa, en aðrir hlauparar komu í veg fyrir að hann ylli uppnámi í kvennaklefa. Síðar fréttist svo af Hjálmari og Ósk að hlaupum og Benedikt mættum við á Tröppum í lok hlaups. Þannig að kunnuglegum andlitum brá fyrir á þessum degi, en ekki sást prófessor Fróði. 

Átti að bíða eftir Benz? Nei, það kom ekki til greina. Við Helmut héldum af stað og fórum rólega. Aðrir biðu eitthvað, en er leið á hlaupið kom liðið streymandi. Blómasalinn fullyrti að skrifari skuldaði honum Cadbury´s súkkulaði. Ástæðan er sú að er skrifari sté á vigt Vesturbæjarlaugar seinni partinn í gær teljandi sig harla óhultan, dúkkaði blómasali skyndilega upp fyrir horn og náði að spenna glyrnum í töluna á skjánum. Hann hótaði að segja félögum Hlaupasamtakanna frá uppgötvun sinni ef skrifari léti honum ekki í té Cadbury´s súkkulaði. Málið er óuppgert þeirra í millum, en því má skjóta að hér í algjörum trúnaði að nú skilja aðeins tvö kíló þessa tvo félaga að í líkamsvigt, og er skrifari á hraðri niðurleið. Sannleikurinn kemur í ljós í fyrramálið, á lögbundnum vigtardegi Vesturbæjarins.

Nú, það var þetta hefðbundna, kjagað í mótvindi og mótlæti inn í Nauthólsvík þar sem var tímajafnað og Benzinum leyft að ná okkur, en það var þá sem Kaufmann Friedrich hljóp fram úr okkur. Við fórum inn á Hlíðarfótinn og söfnuðum hópnum saman. Hér vorum við fimm sem héldum hópinn, þessir lökustu og hægustu. En þó má segja að við höfum sótt í okkur veðrið er leið á hlaupið og tókum seinni hlutann af þó nokkrum röskleika. Enginn skilinn eftir, Hlaupasamtökin að ná vopnum sínum á ný.

Menn voru eitthvað seinir að koma sér til Potts og hefði þó ekki veitt af ærslafullum Benz til þess að ryðja pott fullan af aðkomufólki. Um síðir gafst skrifari upp og hélt á vit heimilislífsins. Honum var ofarlega í sinni Fyrsti Föstudagur og boð frænda hans og vinar, Ó. Þorsteinssonar, að heimili hans. Boðin þau eru ævinlega hátíðleg, þar er fjallað um sögu málaralistar á Íslandi, staldrað við bílnúmer og persónufræði. Vel mætt!  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband