Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Prófessorinn hleypur einn

Þar sem skrifari haltrar með bólginn ökkla niður í búningsklefa Vesturbæjarlaugar verður fyrir honum prófessor Fróði að klæða sig í hlaupagírið. Klukkan var langt gengin sex - en þó ekki runninn upp lögbundinn hlaupatími á mánudegi. "Það lítur illa út með þátttöku í hlaupi dagsins," sagði prófessorinn. "Þú hleypur áreiðanlega einn," sagði skrifari. Hér beygði prófessorinn af og varð dapur í bragði. Hann kvaðst hafa lítið hlaupið upp á síðkastið vegna tognunar í kálfa. Skrifari lýsti sömuleiðis meiðslum sínum og sýndi bólginn  ökkla. Prófessorinn tók hann trúanlega við yfirborðslega skoðun. 

Rætt var um ókosti þess að hlaupa á Íslandi þar sem er kalt og dimmt og einkum vært fyrir ísbirni, en ekki mannfólk. Heppilegra væri að halda sig við suðlægari gráður þar sem er heitt og þurrt. Nú var spurt um ÍR-hlaupið á Gamlársdag og hvort prófessorinn myndi ekki setja sér það markmið að bæta tímann frá því í fyrra: 66 mínútur. Nei, hann hélt nú ekki, helst var hann á því að fara á lakari tíma, ekki undir 69 mínútum. Sixtínæn.

Skrifari óskar félögum sínum velfarnaðar í hlaupi morgundagsins og þakkar ánægjulegar samvistir á árinu sem er að líða.

Í gvuðs friði. 


Skrifari hljóp einn

Einmanaleikinn og einstæðingsskapurinn er fylgikona hlaupanna. Hlaupasamtök Lýðveldisins eru íþrótta- og menningarsamtök í Vesturbænum. Þar hlaupa alla jafna afrekshlauparar, jafnt konur og karlar, og svo fá menn eins og Einar blómasali og skrifari einnig að dingla með. Boð gekk út um hlaup á Þolláksmessu kl. 16:30 frá Laug Vorri. Mættir, nei, ég meina mættur: skrifari. Aðrir voru ekki mættir. Það má sosum ímynda sér að menn hafi verið að tapa sér í jólastressinu og ekki verið mönnum sinnandi. Skrifari er skilningsríkur maður. Vitanlega hefur maður skilning á því að menn vilji vera vel búnir undir hátíð Frelsarans. Síst hvarflar það að skrifara að fara að núa mönnum því um nasir að þeir forgangsraði vitlaust og láti Hátíð Kaupmanna (Federico included) ganga fyrir hlaupum, en þó fær hann ekki staðist þá freistingu að senda félögum sínum þessa jólakveðju: ÞIÐ ERUÐ SÓLSKINSHLAUPARAR!

Sjáumst í Kirkjuhlaupinu á Annandaginn, hlaupið frá kirkju þeirra á Nesinu stundvíslega kl. 10:00 á annan dag jóla. Kakó og kökur að hlaupi loknu.  


Jólasveinar einn og átta

Við vorum sem sagt níu sem hlupum í morgun, ef hundurinn hans Bjarna er talinn með. Þessir voru: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Magnús, Þorvaldur, Einar blómasali, Denni, Bjarni og Ólafur skrifari. Það var safnast saman venju samkvæmt í Brottfararsal og tekið spjall um helstu dægurefni. Þar bar hæst símhringing sem barst úr Garðabænum á Kvisthagann og óðamála maður á hinum endanum lýsti yfir vanþóknun sinni yfir því að Reykjavíkur Lærði Skóli, sú mikla menntastofnun, fengi 100 m.kr. til viðbótar samkvæmt nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi. 

Það var hált úti og við hvöttum hverir aðra að fara bara rólega og varlega. Denni einn á járnum. Lagt upp á rólegu nótunum eins og ávallt á sunnudögum. Veður einstaklega fallegt, bjart yfir, logn og 2ja stiga hiti. Maður hlakkaði bara til góðs hlaups í góðra vina hópi. Nú vantaði bara Jörund. Þorvaldur og Flosi fóru fyrir hópnum og komust nokkuð langt á undan okkur. Bjarni hafði hundinn lausan og boðaði það ekki gott, hann þurfti ævinlega að vera hlaupandi á eftir honum að rífa hann ofan af lóðatíkum sem nóg var af í dag og dróst aftur úr okkur af þeim sökum.

Á Ægisíðunni kvað við mikill dynkur sem ku hafa orðið til þess að G. Löve rumskaði af værum blundi í bæli sínu. Við sem fremstir fórum töldum þetta bara vera landskjálfta einhverrar tegundar, en í reynd hafði það gerst að Bjarni Benz flaug á hausinn í eltingarleiknum við hundinn og fékk stórt gat á hnakkann. Ekki varð honum þó teljandi meint af og ekki er fráleitt að giska á að hann hafi jafnvel skánað nokkuð til heilsunnar við fallið. Verst var þó að hafa misst af fallinu, það hefði verið vel þegin upplyfting í skammdeginu. 

Ekki var tíðinda á leiðinni inn í Nauthólsvík annað en að Flosi var kominn langt á undan okkur hinum sem fórum fetið og gættum þess eins að standa í lappirnar. Fyrstu fjórir kílómetrarnir inn í Nauthólsvík eru alltaf erfiðastir á sunnudögum, eftir það er maður orðinn heitur og eftirleikurinn því auðveldur. En það var gerður stans í Víkinni og Ó. Þorsteinsson boðaði spurningu sem hann hugðist leggja fyrir Baldur í Potti. "20. ágúst 1938 varð sá hörmulegi atburður að bíl var ekið út í Tungufljót og með honum fórust þrjár mæðgur, eiginkona og dætur Sigurbjörns í Ási. Ökumaðurinn var Pedersen garðyrkjumaður. Spurt er: hvaða bílnúmer bar bíllinn?" Það hlakkaði í Ólafi. 

Haldið áfram í Kirkjugarð og þaðan hefðbundið yfir Veðurstofuhálendi og niður í Hlíðar. Á leiðinni úr Grænuhlíðinni og út á Miklubraut voru miklir svellbunkar og máttum við ganga á þeim kafla. En svo var hlaupið af nýju yfir hjá Klömbrum og Óttarsplatz. Í dag var farinn Laugavegurinn í tilefni jóla og talin auð verslunarrými, þau reyndust vera 9, en voru mest 30 í Hruninu.

Farið um Austurvöll og nú var Túngatan hlaupin alla leið upp að Kristskirkju, þar tóku menn ofan og signdu sig fyrir kirkjudurum. Loks var þreytt hlaup niður Hofsvallagötu og frábæru hlaupi lokið á Plani.

Hefðbundin uppstilling í Potti með dr. Baldri, dr. Einari Gunnari og þeim hjónakornum Stefáni og Helgu Jónsdóttur Gröndal Zoega Flygenring. Ólafur Þorsteinsson lagði spurningu sína fyrir Baldur og auðvitað stóð hann á gati. Ólafur malaði eins og köttur af ánægju. Rétt svar: RE-884.

Flutt vísan um Þorstein Dalasýslumann.

Hefurðu séð þrjótinn þann
Þorstein Dalasýslumann,
kom ég víða en hvergi fann
karlhelvítisandskotann.

Og svarið:

Blótaðu ekki, Bjarni minn,
bíddu hægur, vinurinn,
kannski bráðum komi inn
karlhelvítisandskotinn. 

Jólahlaup verða auglýst fljótlega. 


Jólahlaðborð Hlaupasamtakanna

Svo sem boðað var í skeyti á Snjáldru var Jólahlaðborð Hlaupasamtakanna haldið að Hótel Borg hjá snillingnum Völla Snæ laugardaginn 7. desember sl. kl. 12:00. Skrifari hafði samkvæmt boðum um þátttöku látið taka frá pláss fyrir 20 manns og heilir 14 einstaklingar mættu! Þeirra sem boðuðu komu sína en létu ekki sjá sig skal látið ógetið, en þeir sem mættu voru: Þorvaldur, próf. Fróði og Ólöf, Helmut, Frikki og Rúna, skrifari og Íris, blómasalinn og Vilborg, dr. Baldur, Kári, og síðust en ekki síst, Ólafur Þorsteinsson og frú Helga Jónsdóttir frá Melum.

Nokkuð þurfti að bíða eftir boðsgestunum, en um hálfeitt tóku Þorvaldur og skrifari á sig rögg og fóru í röðina við hlaðborðið. Það var eins gott því fljótlega fylltist allt af fólki þar og aðeins með röggsemi að við fengum raðað fáeinum fiskréttum á diskana okkar. Svo komu félagar okkar á eftir okkur og röðuðu sér við réttina. Þá var hins vegar komin upp sú staða að í röðina var kominn gjörvallur kvenleggur útskriftarárgangs 1967 úr Reykjavíkur Lærða Skóla að því er okkar fremsti persónufræðingur, Ó. Þorsteinsson, fullyrti. Þessu til sönnunar taldi hann upp nokkrar nafnkunnar kvenpersónur úr hópnum, og ævinlega með orðunum "...allt frá NN og upp eða niður í XX...".

Nú fór í verra þegar kom að því að fara í annað skiptið í hlaðborðið. Þá var biðröðin orðin alllöng og tók ekki undir 15 mín. að komast að kjötkötlunum. Skrifari raðaði þeim mun meira á diskinn hjá sér í þetta skiptið að hann átti ekkert frekar von á því að komast aftur að borðinu, og ruddist í leiðinni framhjá nokkrum kellingum í árgangi 1967. Þegar matur er annars vegar verða allar kurteisisreglur að víkja, þetta hefur Einar blómasali kennt mér.

Jæja, þar sem skrifari slafrar í sig matnum verður hann var við fyrirgang í salnum. Kunnugir töldu sig sjá þann mæta sómamann Þorvald frá Óðagoti fljúga láréttan um loftið á Borginni haldandi disknum fyrir framan sig í sveiflu sem próf. Fróði hefði verið vel sæmdur af. Hann var þá að koma tilbaka í salinn eftir að hafa raðað á diskinn líkt og skrifari, en rekið tána í pall sem var í gangveginum, með þessum afleiðingum, að hann flaug í gólfið - og það sem var verst, missti matinn líka í gólfið, og búinn að eyða ekkert smátíma í að ná í hann!

Kvenfólkið í salnum jesúsaði sig og óttaðist það versta. En Þorvaldur stóð upp og dustaði af sér rykið og kvað sér ekki hafa orðið meint af byltunni. Hér hefði getað farið verr. Þakkaði hlauparinn ástsæli gott líkamlegt atgervi að ekki urðu líkamsmeiðsl af. Nú kom starfsfólk staðarins aðvífandi og spurðist fyrir um ástand hins fallna manns. Hann bar sig vel og endurtók mikilvægi þess að vera í góðu líkamlegu formi þegar kæmi að því að falla um palla í jólahlaðborðum. Honum var tjáð að hann fengi málsverðinn sér að kostnaðarlausu.

Hér kviknaði einhver kunnuglegur glampi í augum blómasalans og hann horfði á Vilborgu eins og hann hefði gert kaup lífs síns. Næst þegar hann fór að bæta á diskinn, það var í þriðja eða fjórða skipti, sást til hans þar sem hann var að taka tilhlaup að pallinum í salnum, og æfði í leiðinni trúverðugt diskakast. En hjá sumum vantar upp á mótoríska samhæfingu þegar menn eru of meðvitaðir um gjörninginn sem framundan er - eða hvort það var bara að hann vildi ekki henda því sem var á disknum í gólfið. Hann greiddi málsverðinn fullu verði.

Þarna áttum við sumsé ánægjulega hádegisstund sem lauk ekki fyrr en liðið var langt á dag, og jafnvel þá átti fólk erfitt með að slíta sig hvað frá öðru. Að lokum féllust menn í faðma og lýstu yfir ævarandi vináttu og skjótum endurfundum við hlaup og skemmtan.  


Takk, Jörundur!

Fjölmargir hafa komið að máli við skrifara Hlaupasamtaka Lýðveldisins og spurt: "Ólafur minn, eru allar þessar Brussel-ferðir virkilega nauðsynlegar?" Við þessu hefur skrifari svar á reiðum höndum: "Já!" Það var nefnilega þannig þegar mætt var til hefðbundins sunnudagshlaups að Vesturbæjarlaug á þessum sunnudagsmorgni að skrifari þurfti að tilkynna félögum sínum að hann myndi missa af næstu tveimur hlaupum vegna ferðar til Brussel í boði Jörundar. Mættir voru Ó. Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, Magnús Júlíus tannlæknir, Þorvaldur Gunnlaugsson, geðprúður vísindamaður ættaður af Dunhaga, barnaskólakennarinn geðþekki Flosi Kristjánsson, og loks rak lestina skrifari Samtaka Vorra. 

Athugulir lesendur munu taka eftir því að hefðbundnar skellibjöllur og hávaðaseggir eins og Bjarni Benz, Einar blómasali og Jörundur prentari voru fjarri góðu gamni. Segja má að hlaupið hafi verið í anda íslensks aðals, hófstillt, geðprútt og virðulegt. Magnús Júlíus var með böggum hildar, kvað bíl sinn hafa farið að hegða sér einkennilega og hann lagði honum því niður á Esso-stöðinni við Ægisíðu. Við inntum hann eftir einkennum, hann lýsti því að bíllinn hefði dúað mikið. "Dempararnir!" hrópaði skrifari, hafandi þó ekki hundsvit á bílum. Magnús heimtaði að við legðum lykkju á leið okkar og færum niður á benzínstöð og kíktum á bílinn.

Að sjálfsögðu var orðið við beiðni Magnúsar og við settum stefnuna á Esso-stöðina. Þar röðuðu menn sér allan hringinn á bílinn og hossuðu honum og fór ekkert milli mála hver vandinn var: dempararnir. "Er óhætt að keyra bílinn svona?" spurði Magnús. "Ekki ef þú vilt ekki fá lögguna á hælana á þér," svaraði skrifari. Við ráðlögðum honum að tala við blómasalann áður en hann gerði nokkuð.

Jæja, það var haldið áfram og farin Ægisíðan í austur í hávaðasunnanroki og rigningu, mótvindi. Okkur varð ljós skýringin á því hvers vegna fleiri væru ekki mættir til hlaupa, þetta hlaupaveður var bara fyrir karlmenni. Við vorum þó ekkert að flýta okkur, fórum bara fetið. Lítið rætt um skuldaleiðréttinguna, en meira um fráfall próf. emeritusar, frænda Ó. Þorsteinssonar, Þórhalls Vilmundarsonar. Þeir voru daglegir símafélagar um þrjátíu ára skeið og sjónarsviptir að merkum vísindamanni. 

Hlaupið í mótvindi og virtist ekki ætla að draga úr mótlætinu. Þó var staldrað við í Nauthólsvík og þeir sem þess þurftu léttu á sér. Gengið um stund. Skrifari kunni að segja frá þeirri merkilegu ritgerð sem hann sendi Þjóðminjasafni um sundvenjur í Vesturbæ. Tilskrifi þessu var óvenju vel tekið og uppskar skrifari mikið þakklæti fyrir. Fagstjóri þjóðháttadeildar hafði samband og bað um leyfi að mega senda nýja könnun. Skrifari verandi vinur Þjóðminjasafns og vill vita veg þess sem mestan brást vel við og bauðst til að fylla út nýja könnun. Hann fékk senda um hæl könnun sem heitir "Samkynhneigð á Íslandi".

 Jæja, það var haldið í Kirkjugarð og gengið um stund. Fljótlega eftir Garð urðum við Ólafur frændi minn viðskila við þá hina, þeim lá einhver ósköp á að ljúka hlaupi, en við vorum rólegir og leyfðum þeim að æða þetta áfram. Er komið var á Sæbraut brast á hellirigning sem gerði málið nú ekki bærilegra, en menn héldu haus og luku hlaupi af miklu harðfylgi. 

Pottur mannaður þeim dr. Mími, dr. Einari Gunnari, Margréti barnaskólakennara, dr. Baldri - auk hlaupara, og loks kom Stefán verkfræðingur til Potts. Ekki man ég fyrir mitt litla líf um hvað var rætt, en man þó að ég lofaði að segja samvizkusamlega frá öllu sem sagt yrði. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband