Styttingar, endalausar styttingar!

Þarna stóðum við þjálfaralaus á Plani og vissum ekki okkar rjúkandi ráð. Hvert skyldi haldið? Hvað átti að gera? Þar til Þorvaldur tók af skarið og lagði til að farið yrði upp á Víðimel og þaðan hefðbundið austur úr út að Þjóðarbókhlöðu og Suðurgötu og svo í Skerjafjörðinn. Prófessorinn leit á ritarann og sagði: "Þorvaldur tekur forystuna. Þetta verður sögulegt!" Ritari samsinnti þessu. Aðrir hlauparar í dag: Karl Gústaf, S. Ingvarsson, Jörundur, Flosi, Einar blómasali, Þorbjörg Karlsd., Rakel, Frikki Meló, Ósk, Hjálmar og Bjössi. Ekki var um annað að ræða en fylgja Þorvaldi og ekkert sögulegt gerðist framan af. Ósk var útrústuð með myndavél sem átti að taka upp leiðina og má ætla að myndbandið verði komið á Youtube í kvöld.

Farið var nokkuð hratt af stað og á Suðurgötu var sett í fluggírinn. Það kemur lesendum e.t.v. á óvart að ritari hékk enn með hópnum á þessum kafla og var raunar í fylkingarbrjósti, allt þar til komið var í Skerjafjörðinn, þá hleypti hann öðrum fram úr og þar mátti m.a. bera kennsl á blómasalann sem spretti úr spori eins og hann hefur svo oft gert áður - og sprungið í beinu framhaldi. En þarna sigldi hver hlauparinn af öðrum fram úr ritara, hver blaðskellandi upp í andlitið á næsta manni og virtist ekki hafa hið minnsta fyrir hlaupinu. Þetta er svo frústrerandi! Maður er másandi og blásandi og hefur mikið fyrir hlutunum, enda vel í holdum eftir góða matarhelgi - en fólk siglir fyrirhafnarlaust fram úr manni.

Það var farið hjá Skítastöð og haldið áfram í átt að Nauthólsvík. Þarna náði ég blómasalanum aftur, og hann farinn að slaka á. En er komið var í Nauthólsvíkina gaf hann í og skildi okkur Þorvald eftir. Við sameinuðumst Kalla og fórum Hlíðarfót. Hér voru menn orðnir heitir og því var sett í tempógírinn og farið hratt. Þeir eru ginnkeyptir fyrir styttingum, félagarnir, og hafði ég á orði að ávallt væru menn að reyna að hafa af manni hlaup. Farið hjá Gvuðsmönnum, en við bættum okkur upp styttinguna með því að fara brýrnar á Hringbraut, Kalli hélt heim á leið um Hljómskálagarð, en við Þorvaldur fórum yfir fenin hjá Norræna húsinu, og stytztu leið tilbaka um Háskólahverfið og Hagamelinn.

Aðrir voru að tínast tilbaka um sjöleytið og munu hafa farið eitthvað lengra en við. Góð stund í potti með hefðbundnu spjalli um hlaup og matargerð. Næst: Þriggjabrúa með tempói. Vel mætt!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband