Kvikmyndataka og söngur í Laug.

Í kjölfar þáttar um finnska karlmenn sem baðast í finnskri gufu varð okkur ljóst að gildi Hlaupasamtakanna væru í raun vinátta, virðing og hluttekning. Það sannaðist í hlaupi dagsins þar sem flestir af helztu hlaupurum Samtakanna mættu. Þarna mátti bera kennsl á próf. dr. Fróða, Flosa, Bjarna Benz, Karl Gústaf, dr. Jóhönnu, Kára, Helmut, Björn kokk, Einar blómasala, Guðrúnu, Ólaf ritara, Bigga (nei, djók!), Þorvald, Denna af Nesi, Ragnar, Rúnu, Magga tannlækni, o. fl. Spurt var hvert skyldi haldið, menn héldu úti fingri og gizkuðu á að skynsamlegt gæti verið að halda á Nes með öfugum hætti. Það var myndarlegur hópur sem hélt á Nes. Þá birtist Federico kaufmann. Kári fór einhverja vitleysu, og Maggi á eftir honum. Við hin um Flosaskjól á Nes.

Jæja, það heyrir til sögu að blómasalinn fékk sér fimm flatbökusneiðar í hádeginu, og á eftir þeim fylgdu nokkrar snittur. Af þessari ástæðu var þessi feitlagni og feilgjarni félagi okkar frekar hægur á sér í kvöld, en lýsti engu að síður yfir fullum og eindregnum ásetningi að mæta til hlaups í fyrramálið og fara ekki skemur en 20 km. En það var bara dapurlegt að horfa upp á hann í hlaupi dagsins, hann dróst aftur úr okkur lakari hlaupurum þar sem við fórum fetið um Nesveg, Lambastaðabraut og þá leið vestur á Nes. Með ofurmannlegu átaki tókst honum að ná ritara áður en komið var að sundlaug þeirra Nesverja og tókst honum að sannfæra ritara að snúa tilbaka.

Hér fóru fram miklar samræður um nám til iðnmeistaraprófs í húsasmíði og við settum stefnuna á Ströndina. Þar sáum við Kára og Magnús tannlækni og hrópuðum á þá. Ritara fannst ótækt að eyðileggja hlaup fyrir þessum hægfara hlaupurum þannig að úr varð að við fórum á Nes öndvert við það sem við höfðum áætlað. Á endanum héldum við Magnús hópinn, hlupum að Lindarbraut, fórum suður yfir og þá leið tilbaka. Litum öðru hverju um öxl í leit á félögum okkar, en sáum þá ekki meira. Þeir ku hafa gengið töluverðan hluta leiðarinnar tilbaka.

Fólk fór mislangt í kvöld. En að hlaupi loknu fylltum við Barnapott. Franskar kvikmyndagerðarkonur að mynda Millipott. Hvað gat verið áhugavert að heyra eða sjá þar? Þá hófum við upp raddir vorar og sungum "Nú andar suðrið" svo fallega að ekki var að sjá þurrt auga á gjörvöllum sundlaugarbakkanum. Við það beindust kvikmyndavélar að potti Hlaupasamtakanna, sem var nokkurn veginn það sem við höfðum vonast eftir. Nú er heimsfrægð handan við hornið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband