Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Súkkulaðifíkn

 Í hlaupi dagsins varð ljóst að ánægja manna er misjöfn, sbr. What is the pleasure of a monk? None (borið fram: Nun). Munnleg ánægja blómasalans er súkkulaði, eins og margútbreidd verðlaunatilkynning hans gefur til kynna: 400 g Cadbury´s með hnetum og pakki af Smarties, að auki súkkulaðisósa fyrir ískrem (vestur-íslenzka). En aðrir sætta sig ekki við neitt minna en slátur.  


20 manna harðskeyttur hópur mættur til hlaups á mánudegi. Allir helztu hlauparar Hlaupasamtakanna mættir, auk þjálfara. Rúnar þjálfari mjög leyndardómsfullur með kraga eins og settir eru á hunda sem búið er að meðhöndla á dýraspítala. (Þegar ég segir "með kraga" - þá á ég við að hann hélt á krögunum í hendinni, hafði þá ekki um hálsinn.) Hann gaf ekkert upp annað en að farið yrði um garða og út að Skítastöð. Þar yrðu svo gefin nánari fyrirmæli. “Hver þekkir leiðina um Garða?” – enginn gaf sig fram. “Þekkir enginn leiðina?” -  nú var bent á Flosa, bróður ritara. “Flosi þekkir leiðina”, sagði einhver. Já, bara fara hægt, engin læti, halda hópinn. Svo mörg voru þau orð.

 

Aldrei þessu vant var farið rólega, m.a.s. þekktir hraðafantar eins og Benedikt og Eiríkur voru bara rólegir. Á leiðinni var rætt um júlílöberinn og ekki laust við að téður hlaupari væri sperrtur eins og hani á fjóshaug. Derraði sig einhver ósköp og virtist hafa endurheimt löngunina til hlaupa, eins og sá sem hefur gengið í endurnýjun lífdaga. Við Skítastöð voru lagðar línur: 200 m á spretti, 100 m hvíldarhlaup, aftur 200 m, og endurtekningar þannig 10 sinnum. Hvaða tilgangi þetta átti að þjóna var okkur hulið, en treystum því að þetta væri gott fyrir hálfmaraþon n.k. laugardag.

Blómasalanum var mikið í mun að sanna að hann ætti nýlega heimta viðurkenningu verðskuldaða og tók vel á því. Tiplið fræga endurómaði um allan Skerjafjörðinn. Aðrir góðir hlauparar voru ekki síðri og draup sviti af hverju andliti eftir að við höfðum tekið sprettina. Svo mátti velja: halda áfram kvalræðinu eða gera eitthvað annað. Við Bjarni og blómasalinn vorum skynsamir og fórum fetið út í Nauthólsvík, meðan aðrir féllust á að láta kvelja sig áfram, þ.á m. Birgir í illaþefjandi hlaupafatnaði og er ekki til yndisauka fyrir félaga hans. Veit ekki hvaða tengsl voru milli pottsins sem geymdi fiskisúpuna og óhreinlætis, en hér er þörf á góðri úrlausn úrræðagóðrar eiginkonu.

 

Við sem sagt áfram og upp Hi-Lux – og þá tók hasarinn við. Sprett úr spori upp brekkuna og í reynd alla leið upp að Perlu. Telst sem tveir þéttingar. Niður stokk og farið um hjá Gvuðsmönnum og aftur þétt á Hringbraut. Langur þéttingur alla leið út að Sóleyjargötu. Hér fór blómasalinn í forystu og sýndi hvað í honum býr. Menn veltu fyrir sér hvað vakið hefði hlauparann í þessum lata manni. Var það tilnefning Rúnu? Eitthvað annað? Alla vega var maðurinn óstöðvandi í kvöld, og greinilegt að stefnir í harða keppni milli ritara og blómasala í hálfu á laugardaginn, fylgist með. Bræður munu berjazk, ok at bönum verðazk!

 

Á Brottfararplani mættust félagar úr ýmsum áttum og var teygt, ekki vanþörf þegar stefnir í átök. Hér small sprengjan: einhver sagði við Helmut “...og Þjóðverjar bara farnir heim!” Ritari bjóst við því að Helmut, þessi prúði drengur, myndi bregðast við með tilfinningaþrungnum hætti, en hann sagði bara: “Já, þetta var allt Íslendingum að kenna.”  Í potti var sögð svo átakanleg saga að hún verður ekki endurflutt hér í pistli, enda er gætt nærveru sálar í pistlum ritara. Þá tók Björn yfir pottinn og hóf mikinn ádíens, sögur úr ýmsum áttum af þekktum persónum.

 

Nánast hvíld n.k. miðvikudag, mesta lagi 12 km.  


Sunnudagur, sagðar fallegar sögur

Það færist til bókar að á þessum sunnudegi var hlaupið í Hlaupasamtökum Lýðveldisins og mættir óvenjumargir hlauparar, ekki færri en sjö: Ólafur Þorsteinssson, Vilhjálmur Bjarnason, Þorvaldur, Flosi, Bjarni Benz, Eiríkur og ritari. Ekki oft sem Eiríkur kemur til sunnudagshlaupa og nú fékk hann að finna fyrir því hvernig er að hlaupa án þess að menn séu undir þrýstingi að slá einhver met.

Vilhjálmur ávarpaði hópinn af Tröppum við upphaf hlaups og var það tekið sem teikn um gott ástand mála. Fluttar fregnir af því nýjasta í Lýðveldinu, enda Ó. Þorsteinsson ávallt með ferskar fréttir frá Reuter. Menn fylgjast af áhuga með framkvæmdum á Kvisthaga 4, þar sem opna á milli hæða í næstu viku. Af því tilefni fór álitsgjafinn að reikna og komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdirnar væru óréttlætanlegar út frá hagfræðilegu sjónarmiði. Það sló hálfgert í brýnu með þeim fóstbræðrum í kirkjugarðinum þar sem hópurinn var staddur á því augnabliki. En þó var líkt og greri um heilt áður en yfir lauk. Enda gáfust ýmislegt tilefni til að gleðjast, jarðarfarir eru jafnan nokkrar og skiptast þeir félagar á um að bera. Nýjast er að mönnum þykir spölurinn í Dómkirkjunni heldur stuttur; betra að vera í Hallgrímskirkju, þar er gangan löng og góður tími til að njóta stundarinnar.

Menn hafa áhyggjur af þróun Ólympíuleikanna, Ó. Þorsteinsson spáði því að áður en langt um liði yrði farið að keppa í pönnukökubakstri, réttritun og dráttarvélaakstri í þessari merku keppni. Athygli manna væri beint frá karlmannlegum íþróttum eins og rómverskri glímu, knattspyrnu og spretthlaupi. Alls kyns nýjar "íþróttir" væru leiddar til öndvegis á hverjum, nýjum leikum. Við þetta væri ekki unandi. Heimur versnandi fer.

Sumir kunna ekki að hlaupa Sunnudagshlaup. Þeir æða áfram eins og hauslausar hænur og yfirgefa hópinn, sjá sig um hönd, og snúa við, en eru horfnir jafnóðum og taka ekki hin lögbundnu stopp þegar sagðar eru sögur og gefnar vísbendingar. Það gera hins vegar fastir hlauparar og njóta hlaups til hins ýtrasta.

Ég naut þess heiðurs að verða samferða Vilhjálmi og Ólafi frænda mínum, og við rákumst á ónefndan veðurfræðing við Tollhúsið, sem gift er skáldi Lýðveldisins, og var ekki um annað að ræða en gera stuttan stanz og gera úttekt á ástandi mála.

Svo mjög lifðu menn sig inn í hlaupið að við frændur vorum síðastir að renna í hlað og má heita að slíkt sé einsdæmi, en lýsir líka alvöru málsins. Mannval í potti, þó vantaði dr. Einar Gunnar. Nokkuð um persónufræði og áfram sagðar fallegar sögur. Ó. Þorsteinsson náði að æsa Bjarna upp yfir flugvallarmálum og strunsaði sá síðarnefndi úr potti með öskrum, en Teddi horfði í kringum sig og sagði: ég er eins og fermingarstrákur við hliðina á honum þessum!

Framundan róleg vika, hvíld fyrir hálfmaraþon n.k. laugardag. Liðkun lima. Í gvuðs friði, ritari.

Hann er feitur, hann er latur, hann er hlaupari júlímánaðar

Í hófi að loknu hefðbundnu föstudagshlaupi, höldnu að heimili Bigga og Unnar, þar sem innbyrt var gómsæt fiskisúpa löguð af meistarakokknum Bjössa, var krýndur hlaupari júlímánaðar. Rúna sá um að velja gripinn og hafði þau orð um hann að hann væri feitur, latur, sífellt svangur, vildi drekka, borða súkkulaði og þrifist jafnt á mótlæti sem meðlæti. Var honum útdeilt veglegum verðlaunaborða og súkkulaðisósu á flösku. En sjálfur var júlílöberinn fjarverandi að berjamó með fjölskyldu og var því fjarri góðra vina faðmi.

 

Hvað um það, mættir til hlaups: Vilhjálmur, Flosi, Eiríkur, Bjössi, Biggi, Helmut, dr. Jóhanna, Kári, Rúna, ritari og... blómasalinn sást í Brottfararsal með sýnishorn af hlaupatreyjum og buxum sem verða valdar fyrir Berlín. Nú er komið að því að trappa niður fyrir Reykjavíkurmaraþon og fara róleg hlaup um helgi og í næstu viku. Engu að síður virtu ónefndir hlauparar fyrirmæli þjálfara í þá veru að vettugi og settu í fluggírinn frá fyrstu byrjun. Verður að teljast makalaust að Helmut, sá prúði drengur, skuli láta etja sér út í svona vitleysu. Hann og Bjössi fóru fremstir og fóru hratt og skildu aðra hlaupara eftir. Svona framferði er óþekkt í hópi vorum, sem leggur áherslu á samveru og samræður á hlaupum, þar sem gáfulegar umræður um háleit málefni sitja í  fyrirrúmi.

 

Aðrir fóru hægar og ræddu málefni dagsins, skipti á fólki í borgarstjórn höfuðborgarinnar. Einnig var töluvert rætt um blómasalann og kom mönnum saman um að þar færi öflugur hlaupari en latur. Tilgreind voru ýmis dæmi þess að hann ætti inni töluverða orku á hlaupi en nýtti hana ekki til þess að fara hratt, annað hvort af leti eða vegna þess að hann hafði misst sig í áti í hádeginu. Ekki hvarflaði þó að neinum að hann stæði uppi sem júlílöber áður en dagurinnn væri að kveldi kominn. En það eru fleiri latir en blómasalinn. Birgir og Eiríkur voru ekki að nenna að hlaupa og voru afar hægir, þannig að ritari náði að hanga í þeim. En þannig er það stundum, dagsformið fræga, stundum er þessi sprækur, næst er einhver annar sprækari, og alltaf einhver sem setur tempóið og dregur hópinn áfram.

 

Það gerðist markvert í hlaupinu að við mættum þjálfara á Hofsvallagötu og vorum myndaðir í bak og fyrir. Hann hefur lofað brekkusprettum á mánudag, til þess að liðka fæturna, eins og það er kallað. Fjölmennt í potti og rætt um lögun fiskisúpu. Loks hvarf hver til síns heima að undirbúa kvöldið. Ritari þakkar ánægjulegt kvöld að Bigga. Guðlaun!


Hinsegin dagur - hlauparar í þröngum sokkabuxum

Svo einbeittir voru menn að þreyta lukkað langhlaup á þessum miðvikudegi, hefð samkvæmt, að það gleymdist að færa handboltaleikinn við Þýzkaland í tal við Helmut. Seinna í hlaupinu bölvuðum við sumir yfir því að hafa misst af góðri spælingu. Aldrei þessu vant hafði þjálfari undirbúið stutta tölu og flutti hana sköruglega, og var aðeins truflaður af Sæma löggu, sem hvatti menn til þess að hlaupa í endurskinsfatnaði. M.a.s. Biggi hélt kjafti. Lagðar línur um langt, 26 km fyrir þá er lengst færu, taka maraþonhraða eftir 90 mín og halda honum í 5 km. En byrja hægt. Menn hlýddu andaktugir á boðskapinn, og voru þessir mættir: Flosi, Þorvaldur, dr. Friðrik, dr. Jóhanna, Helmut, Kári, Einar blómasali, Birgir, Björn kokkur, Kalli kokkur og sonur, báðir þjálfarar, Eiríkur, Benedikt, Denni og ritari. Seytján manns frá byrjun og ein kona sem mig vantar nafnið á og svo skilst mér að Ósk hafi bætzt í hópinn í Kópavogi.

Menn áttu að fara á hægu tempói út og halda því í 90 mín. - ca. 5:30. Þetta stóðst nokkurn veginn, en nánast frá byrjun fóru menn að hnappa sig saman og slíta hópinn í sundur. Fremstir þjálfarar og Benedikt og Eiríkur. Svo við Björn, Einar og Birgir. Þar fyrir aftan hitt fólkið og segir meira af því síðar. Sagt frá frækilegu Kópavogssundi þeirra Björns og Bigga í gær, synt frá Nauthólsvík og yfir í ríki Gunnars Birgissonar og tilbaka aftur. Þegar Biggi skjögraði veikum fótum upp á land grenjaði Bjössi yfir alla ströndina: Biggi! Þú ert Nagli! Bigga hlýnaði um hjartarætur og lét þau orð um munn sér fara síðar að loksins ætti hann vin sem hefði eitthvert álit á honum og hvatti hann áfram undanbragðalaust. 

Nú var spurning hvaða leið skyldi fara: Kársnes og þá rangala eða eitthvað hefðbundið. Niðurstaðan fyrir minn hóp var hefðbundið um Fossvog, Goldfinger og upp að Árbæjarlaug. Við vorum í fantaformi og fórum létt með brekkur og torfærur. Stöldruðum við hjá Stíbblu og biðum eftir blómasalanum og Bigga. Svo var gefið í og tekinn þéttingur upp að Laug, tempó 4:30. Slakað á við Laug og bætt á brúsa. Það var kalt þar efra og sannarlega ekki vanþörf á að fara að klæða sig í síðermaboli nú þegar haustar. Biggi var að venju í overkill fíling: svartar, síðar sokkabuxur, balaklava og síðermatreyja. Honum kólnaði ekki. Svo var tekinn annar þéttingur niður að Stíbblu hinum megin. Svo á rólegu tempói niður brekku hjá Rafstöðvarheimili og Rafstöð og yfir Elliðaárnar.

Miklabraut og Laugardalur. Ekki var slegið af tempói og kom í ljós við athugun eftir hlaup að meðaltempó hefði verið 5:20. Farið hefðbundið niður á Sæbraut og þar var síðasti þéttingurinn tekinn, 2 km á góðum spretti.  Við komum nokkuð jafnt til Laugar og höfðum þá farið rúma 24 km, aðeins styttra en þjálfari lagði til, en nokkuð hraðar. Menn voru sammála um að Biggi væri Nagli. Við hittum fljótlega Flosa, sem fór sömu vegalengd, en aðra leið, um Kársnes, Lækjarhjalla og þannig áfram; Kára og Denna sem fóru 22 km, og þegar við fórum upp úr lá dr. Jóhanna úti í glugga og hafði farið 28 km. Menn voru mjög sáttir með daginn, einkum í ljósi þess að sumir höfðu ekki sofið nema 3-4 tíma nóttina áður vegna Ólympíuleikanna sem sýnt er frá á nóttunni.

Þjálfari upplýsti að laugardaginn 6. september kl. 9:00 verði hlaupið 35 km hlaup til undirbúnings Berlín. Kom sú hugmynd fram að gaman væri að fara góða leið og eru félagar beðnir að leggja höfuð í bleyti og leggja drög að fjölbreyttri og fallegri hlaupaleið, t.d. suður í Hafnarfjörð og austur úr um hraun og dali. Eftir á mætti slá upp einfaldri næringarinntöku á heppilegum stað. Eina sem truflar er að 5. september er Fyrsti Föstudagur með sushi í boði blómasalans.

Hlaupið er n.k. föstudag, sem er Fyrsti Föstudagur í ágúst og er haldið upp á hann á veglegan hátt með fiskiveizlu í garði Bigga Jóga, og fiskisúpu að hætti Dalvíkinga. Vel mætt! Ritari.


Hlaupaáætlun f. 7. og 6. viku - Maraþonið nálgast

Æfingarnar
Þessi áætlun inniheldur tvær vikur frá 11. ágúst til 24. ágúst. Fyrri er í erfiðari kantinum, en sú síðari létt, enda er Reykjavíkurmaraþon í lok þeirrar viku. Á mánudeginum bjóðum við upp á Tempó-æfingu og á fimmtudaginn Brekkuspretti. Í síðari vikunni verður boðið upp á Sprettæfingu á mánudeginum (aðallega til að liðka fætur fyrir hálfa maraþonið í Reykjavík sem allir Berlínarfarar eru vonandi búnir að skrá sig í - og vonandi fleiri) en allar aðrar æfingar eiga að vera léttar. 

Æfingaáætlun

Vika 7.
I. Langt og rólegt 26 - 28 km, 5:00 - 5:45 - 6:30. Auka hraðann (4:20 - 5:00 - 5:30) eftir 90 mín. og halda í u.þ.b. 5 km

II. Tempó 12 - 15 km. 3 km upphitun og 2 km niðurskokk. 8 - 10 km Tempó, 4:15 - 4:45 - 5:30

III. Brekkusprettir 10 - 12 km. 4 km upphitun og 4 km niðurskokk. 2 - 4 km brekkusprettir (4-8 sprettir) , 4:15 - 4:30 - 5:15

IV. Rólegt hlaup 8 – 10 km, 4:50 - 5:30 - 6:00

V. Rólegt hlaup 8 – 10 km, 4:50 - 5:30 - 6:00

 

Vika 6.

I. Hálft maraþon í Reykjavík 25 - 27 km, 2-3 km upphitun og 2-3 km niðurskokk. 21,1 km hálfmaraþon, frjáls hraði!II. Sprettir 9 - 11 km, 3 km upphitun og 3 km niðurskokk. Sprettir 1-2x10x200, 0:45 - 0:55 - 0:60
III. Rólegt hlaup 6 - 12 km, 4:50 - 5:30 - 6:00IV. Rólegt hlaup 6 - 10 km, 4:50 - 5:30 - 6:00 

Reykjavíkurmaraþon
Hálfa maraþonið byrja eldsnemma eða kl. 8.40! Ef borðað er vel deginum áður þá ætti léttur morgunverður einum til tveimur tímum fyrir byrjun hlaups að vera nóg. Þetta er að vísu mjög persónubundið þannig að þið verðið að finna út hvað ykkur hentar best, t.d. með því að hlaupa einu sinni langt að morgni til!  Notið hálfa maraþonið í Reykjavík sem æfingu til að innbyrða íþróttadrykki og/eða gel sem þið ætlið að nota í Berlín. Það er annað að drekka í keppni en á æfingu og eins getur drykkurinn verkað öðru vísi. 

Við þjálfara munum vera við Listasafn Íslands kl. 8.00 og bjóða upp á upphitun.


He knows no fear, he knows no danger. He knows nothing.

 Fyrirsögn dagsins er sótt í alter ego James Bonds, Johnny English, hættulegasta spíon hennar hátignar eftir að Sean Connery hætti að gæta helgra dóma brezka heimsveldisins. Þykir við hæfi að vitna til heimsbókmenntanna þegar sú hátíðleg stund rennur að saman kemur eitthvert mesta mannval í Vesturbænum og þótt víðar væri leitað og hyggur á hlaup. Þessi viðburður varð í dag þegar helztu hlauparar Lýðveldisins voru mættir í Vesturbæjarlaug og til þess að einfalda málin er bezt að nefna þá sem ekki mættu, en hefði ella mátt kalla fulla mætingu: Jörundur Stórhlaupari, Gísli Ragnarsson, Vilhjálmur Bjarnason, dr. Karl Kristinsson og sjálfur Ó. Þorsteinsson Víkingur, að ógleymdum Unu og Þorbjörgu. Og Rúnu sem er nánast innlimuð í hópinn. Geta menn þá leitt í hug sér hvílíkt afreksfólk var mætt til þess að gera garðinn frægan á þessum ágæta degi.  

Ekkert að veðri, að því er virtist. Það var kallað eftir áætlun – en þjálfari var alveg blankur. Virtist sem hann væri hættur að trúa á áætlanir, gaf þó út leiðarlýsingu: hefðbundið út að Skítastöð og þaðan tempó eftir smekk, 6 km fyrir þá sem ætla 10 í Reykjavíkurmaraþoni – 10 fyrir þá sem ætla hálft. Það var lagt í hann, eitthvað voru menn með það á óhreinu hvað “hefðbundið” væri – en ekki Margrét þjálfari, hún leiðrétti kúrsinn þegar hersingin stefndi niður á Ægisíðu, farið skyldi um Hagamel. Nú eru þjálfarar helztu gæzlumenn reglu og festu í Samtökum Vorum og gæta þess að menn breyti í engu frá föstum sið.

 

Farið á upphitunartempói út í Skerjafjörð – sem var hratt tempó. Prófessor Fróði kom hlaupandi úr Kópavogi og ákvað að halda rakleiðis aftur í sveitarfélagið en sleppa þéttri æfingu með félögum sínum. Aðrir fylgdu fyrirmælum þjálfara og sprettu úr spori vestur úr. Farið á 5 mín. tempói, sumir hraðar. Aðrir hægar. Ég var í slagtogi við blómasalann, Helmut ekki langt undan. Björn og dr. Jóhanna þar fyrir framan. Haldið á Nesið. Eiginlega má segja að það hafi verið hlaupið í kyrrþey, því fólk fór á slíkum hraði að tóm gafst ekki til menningarlegra samskipta.

 

Sumir sveigðu á Lindarbraut, aðrir áfram að golfvelli og beygðu þar, enn aðrir fóru fyrir golfvöll, það voru þeir sem ekki hlustuðu á þjálfarann eða misskildu hann. Við Helmut og dr. Jóhanna fórum að golfvelli og svo með ströndinni að Gróttu. Við seinni vatnspóstinn var mig farið að svíða svo í augu af svitanum að ég varð að stoppa og lauga andlitið í köldu vatninu.

 

Þéttur pottur í Laugu, við fylltum setlaug og sátum góða stund og ræddum þörf málefni. Í útiklefa var Söngvari Lýðveldisins og hafði skoðanir á hlaupum. Taldi að við ættum ekki að vera að hlaupa þetta, slíta malbikinu og hnjánum á okkur. Við myndum enda á spítala eftir 3-4 ár með þessu áframhaldi. Ekki að vísu grannvaxnir menn eins og Magnús, en þessi (bendir á ritara), hann er nú með einn aukaþingeying utan á sér. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það þýðir að hlaupa með þennan umframfarangur.

 

Menn hafa áhyggjur af Berlín og því sem þar getur gerst. Rætt um sameiginlegt ákall þegar menn mæta í mark. Verða allir í lagi? Næst langt.


Ástin ríkir ofar hverri kröfu - Gay Pride framundan

Hér segir frá hlaupi í elzta og virðulegasta hlaupahópi landsins, Hlaupasamtökum Lýðveldisins, föstudaginn 8. ágúst 2008. Dagurinn einstakur til hlaupa og mæting eftir því. Þegar ritari kom í útiklefa blasti við honum sjálfur Gunnlaugur Pétur Nielsen af Bostonfrægð. Einnig viðstaddur bróðir ritara, próf. dr. Flúss, konrektor til Vestbyens Ungdomsakademi Hagatorgensis. Við skiptumst á gamanyrðum og ræddum ýmsa einkennilega karaktéra sem við höfum kynnst í gegnum morgunpott eða síðdegishlaup. Um stund örvæntum við um þátttöku í hlaupi dagsins, en svo birtust þeir hver af öðrum, Helmut, Kári, Birgir og Einar blómasali. Í Brottfararsal voru mættar dr. Jóhanna og dr. Anna Birna. Við söknuðum vina í stað, einbeittra hlaupara, sem láta sig ekki vanta þegar góð hlaup eru í boði, engin nöfn verða nefnd hér.

Veðurblíða einstök og gerist ekki betra veður til hlaupa en í dag. Skýjað, logn og hiti um 12 gráður. Samstaða um að eiga kyrrlátt og hægt hlaup saman. Margir óhlaupnir hlauparar sem þörfnuðust hlaupareynslu, svo sem eins og blómasalinn, Helmut og dr. Jóhanna, tvö síðastnefnd nýkomin frá Toronto í Kanada. Aðrir með góða reynslu eins og Biggi og ritari, með um 30 km á góðu stími frá s.l. miðvikudegi. Menn höfðu áhyggjur af Birgi og hans nýjustu áhugamálum, var nýbúinn að uppgötva mann sem hann sagði að héti Mengele og hefði bjargað dvergum í Þýzkalandi nazismans frá útrýmingu. Lýsti hann afreki þessu í smáatriðum, en menn voru ekki vissir hvort hann hefði ætlað að bjarga þeim eða ætlað að gera tilraunir á þeim. Birgir var þess fullviss að þetta væri mannvinur sem hefði platað foringjann og bjargað dvergunum. Þess vegna væru til dvergar í Þýzkalandi nútímans.

Helmuti leiddist masið í Birgi og spurði hvort menn þyrftu að sitja undir svona vitleysu alla leiðina. Líklega hefur það verið um þetta leyti sem fór að draga sundur með fólki. Gunnlaugur og blómasalinn fóru fremstir og héldu uppi hraða, á eftir komu Helmut, ritari, dr. Jóhanna og Flosi, Kári og Birgir – en þeir drógust fljótlega aftur úr. Það var derringur í blómasalanum og hann vildi, óhlaupinn maðurinn, sýna að það væri eitthvert púður í honum. Það er náttúrlega lítið mál fyrir menn sem aldrei mæta til hlaupa að spretta úr spori meðal manna sem fara 29 km á 5:14 meðaltempói – og hreykja sér af því. En svona var þetta í dag.

Minnst var á hlaup Hare Krishna í gær og spurt hvort einhverjir hefðu farið, enginn kannaðist við að hafa hlaupið kílómetrana fimm – raunar sagt sem svo að það tæki því ekki að fara í gallann fyrir svo stutta vegalengd, fólk væri rétt að hitna þegar hlaupi lyki. Er komið var inn í Nauthólsvík var ljóst að fólki var alvara með hlaupi dagsins, ekki slegið af, farið um Hi-Lux og upp án þess að þétta, áfram hefðbundið, Veðurstofa, Hlíðar, Klambratún (þéttingur), Hlemmur og niður á Sæbraut. Hér voru Birgir og Kári týndir okkur og taldir af. Þétt vestur úr og til Laugar.

Mannval í potti, bæði gildir limir Hlaupasamtakanna og verðandi. Setið lengi og rætt um Berlín og önnur brýn málefni. Aldrei er hægt í pistli að endurgefa neitt af því sem sagt er í potti og því er bezt fyrir áhugasama að mæta og verða aðnjótandi umræðunnar. Birgir upplýsti að næsta föstudag verður í boði fiskisúpa Hlaupasamtakanna að heimili hans í grandaskjólum (þar sem kettirnir öskra af hungri, skríða upp á þak á stiganum sem reistur var til höfuðs staranum og Biggi var rétt búinn að drepa sig á hér um árið og Jörundur kunni að segja okkur frá, sællar minningar). Samþykkt var að þetta yrði jafnframt Fyrsti Föstudagur þessa mánaðar, en beðið er eftir að Rúna tilnefni hlaupara júlímánaðar og velji viðkomandi heppilega viðurkenningu. Magnús mættur í útiklefa og gat upplýst að hann væri allur að koma til, byrjaður að æfa með minniháttar fólki, fyndi ekki til sársauka í hné og þetta væri allt að koma. Alls kyns elskulegheit í gangi, m.a. sagðist Birgir elska Einar blómasala, en ég veit ekki hvað það merkir.

Á morgun er Gay Pride og félagar Hlaupasamtakanna munu mæta þar og sýna samstöðu með baráttu samkynhneigðra. Gleðilega hátíð. Í gvuðs friði, ritari.  


29,08 km - tempó 5:14.

Miðvikudagur: langt. Hlaup eru umfram allt andleg íþrótt, þar reynir á vilja vs. vellíðunarlögmálið. Á þetta reyndi í hlaupi dagsins. Mættir: Flosi, dr. Friðrik, Bjarni, Una, Rúnar, Margrét, Björn, Ágúst, Jörundur, dr. Karl, Birgir og ritari. Það var sama kaosið við brottför, engin ræða, engar leiðbeiningar, hreytt í fólk "þú ferð 28 - þú ferð 24". Okkar minnstu bræður ætluðu eitthvað skemmra.

Tíðindalaust út í Skerjafjörð, þar mættum við Kára og dr. Önnu Birnu á e-u undarlegu róli sem enginn áttaði sig á. Kári reyndi að grípa til blekkinga með því að hlaupa aftur á bak, en gat ekki dulist. Þung undiralda kynlífsóra alla leið út í Nauthólsvík og jafnvel lengra, svo mjög að ritari mun ekki greina nánar frá því sem menn létu sér um munn fara af virðingu fyrir fjölskyldum og nánustu venzlakreðsum. E.t.v. voru hér greinanleg áhrif Hinsegin daga og rifjuð upp leðurbuxnaeign Hlaupasamtakanna.

Þjálfararnir hlaupa aldrei langt, þess vegna geta þeir spennt upp hraðann eins og þeim sýnist. Við sem ætluðum langt pössuðum okkur á þessu og fórum á upphitunartempói. Bjössi virtist eitthvað á báðum áttum hvert hann ætlaði, en ákvað svo að fylgja okkur Ágústi og Bigga á Kársnes, en varaði okkur við mikilli skítalykt bæði á nesinu og í sjálfum Kópavogsdal. Það hnussaði í Ágústi og hann kannaðist ekki við neinn óþef í heimabæ sínum. Hér fóru menn að auka hraða hlaups, enda orðnir vel heitir.

Fórum hratt um Kársnes og svo austurúr. Mættum ungum stúlkum, líklega úr HK, sem voru í æfingahlaupi. Tókum upp spjall við þær og sögðum það helzta af okkur, Björn gekk fram fyrir skjöldu til þess að impónera dömurnar, sagði að við hefðum lagt upp frá Vesturbæjarlaug og ætluðum 28 km. Já er það? sögðu dömurnar, heyrðu vinur, ég held þú sért að missa af félögum þínum. Svona kommentarar virka ekki vel á menn. Birgir talaði óskaplega mikið og hátt alla leiðina - en nam ekki nema ca. 58% af því sem við sögðum við hann -- og varð ítrekað að segja hlutina aftur og jafnvel byrja frásagnir frá byrjun því hann hafði ekki verið að fylgjast með. Þetta tók frá okkur orku.

Ólíkt því sem var s.l. miðvikudag efldumst við með hverju skrefi í Kópavogsdal og fórum æ hraðar. E-s staðar upphóf Birgir mikinn fróðleik um mikilvægi þess að innbyrða prótein fyrir hlaup. Menn mótmæltu, og sögðu, þú ert að rugla próteini saman við kolvetni. Björn lét einhverjar glósur fjúka. Erfiðar brekkur framundan, en Lækjarhjalli nálgaðist og Ágúst lofaði viðurgjörningi - "ef Ólöf sé heima" missti hann út úr sér þegar við vorum að koma á stéttina hjá honum heima.

Jæja, hvað um það. Frú Ólöf birtist þegar Ágúst var búinn að berja allt utan heima hjá sér í fimm mínútur. En Birgi var hvergi að sjá. Hann hafði dregist aftur úr þegar við komum upp brekkurnar - og við göluðum á hann, en fengum ekkert svar. Drukkum vel af svaladrykkjum og fengum m.a.s. gel til að bæta að orkubirgðirnar. Enn enginn Birgir. Hér fórum við að hugsa hvort við hefðum móðgað hann, hvort Björn hefði sært hann með ummælum sínum. Ágúst varð hugsi og sagði svo: Gaman væri að sjá Birgi spældan. Á endanum sáum við að við svo búið gat ekki gengið - Birgir hlaut að hafa fótbrotnað eða liðið í ómegin - við urðum að halda áfram ef við áttum ekki að stirðna upp. Áfram upp úr Dalnum og hefðbundið inn í Mjódd - upp Holtið og yfir í Elliðaárdalinn, upp að Árbæjarlaug þar sem við gerðum stuttan stanz og áttum vinalegar viðræður við ungviði bæjarhlutans.

Áfram niður úr á fantastími - Ágúst og Björn skiptust á upplýsingum um tempó, sem iðulega var í kringum 5/km. Við vorum allir í góðum málum og létum engan bilbug á okkur finna, fórum hjá Rafstöð og yfir Elliðaárnar. Upp í Fossvogsdal og gáfum í þar. Það var eins og við efldumst með hverri raun, og í stað þess að láta þreytu buga okkur, jukum við hraðann. Ég var ánægður að hafa fengið þá tvo sem hlaupafélaga í kvöld - þeir héldu mér við efnið og gættu þess að ég héldi þokkalegum hraða. Í Nauthólsvík verðlaunuðum við okkur með svalandi sjávarbaði, syntum út að flotbryggju þar sem ónefndur félagi gerði nokkrar tilraunir til þess að hneyksla nærstadda túrista með impróvíseruðum núdísma.

Áfram eins og spýtukarlar - mjöðmin fór að hrekkja mig og var ég lengi að hitna svo vel að ég gæti hlaupið að ráði, en þeir Ágúst og Björn fóru á undan á góðu skokki og bættu í ef eitthvað var. Hittum Birgi í potti og kröfðum hann skýringa. Hann hafði fengið aðsvif í Dalnum og misst sjónar á okkur, hringsólað í Kópavogi, en tekið svo strikið upp úr Kópavogi og þá leið sem preskríberuð var, Mjódd, Árbæjarlaug og svo Fossvog tilbaka. Líklega hefur Birgir tekið einhverja útúrdúra meðan á meðvitundarleysi hans stóð - því að þegar upp var staðið hafði hann hlaupið 30,1 km (ritari var vitni, las á Garmintækið hans að hlaupi loknu) - meðan við eymingjarnir fórum bara 29,08 km - og hann var kominn löngu á undan okkur til Laugar. Hér er komin rétt lýsing á Birgi: þegar hann er við það að bugast herðir hann hlaupið og bætir í. Hann var ausinn lofi og kallaður alvöruhlaupari í potti sem við hinir þyrftum að óttast og hafa áhyggjur af - en jafnframt skammaður fyrir að hunza gott boð góðrar konu í Lækjarhjalla sem lagði fram sérstakt glas honum til handa að bergja á.

Frábært hlaup sem við vorum ánægðir með, 29,08 km á meðaltempóinu 5,14 - lofar það ekki bara góðu? Næst stutt og rólegt á föstudag - einhverjir kunna að hafa áhuga á að hlaupa á morgun, fimmtudag - hlaup er í boði. En á föstudag, já, föstudag - þá er Fyrsti Föstudagur. Menn vita hvað það þýðir.

Hlaupaáætlun 8. viku - frá Þjálfurum

8. vikan 
ÆfingarnarLanga hlaupið á að vera langt, 28 km fyrir flest ykkar. Nú þurfið þið sem hafið aldrei hlaupið langt að morgni að prófa það! Í Berlín byrjar hlaupið kl. 9:00 en það er 7:00 að íslenskum tíma. Fimmtudaginn 7. ágúst, er boðið upp á 5 km keppnishlaup, Vatnsmýrarhlaupið, og hvetjum við ykkur til að taka þátt í því og nota það sem góða sprettæfingu.  

Æfingaáætlun.
Langt og rólegt, 26 - 32 km, 5:00 - 5:45 - 6:30
II. Keppni eða Interval 11 km, 3 km upphitun og 3 km niðurskokk, 5 km keppni/Interval (5X1km (90-120), 4:00 - 4:30 - 5:00III. Brekkusprettir, 10 - 12 km, 4 km upphitun, 3-4 km niðurskokk, 2 - 4 km brekkusprettir (4-8), 4:15 - 4:30 - 5:15IV. Rólegt hlaup 10 km, 4:50 - 5:30 - 6:00
V. Tempó, 8 - 12 km, 2 km upphitun, 6 - 10 km tempó, 4:30 - 5:00 - 5:30 

Drekkið á æfingum
Það skiptir miklu máli að sjá til þess að líkaminn þorni ekki upp þegar við erum að æfa löngu hlaupin. Við erum að tapa upp undir lítra (lágmark 600 ml.) af vökva á klukkustund. Nauðsynlegt er að drekka vel áður en lagt er af stað í löngu hlaupin og drekka síðan um 200 ml. á 20 mínútna fresti. Ef þið eruð bæði með vatn og íþróttadrykk er betra að nota hann fyrst en vatnið undir lokin. Upptaka í líkamanum er þannig að orkan á ekki eftir að nýtast eins vel úr drykknum undir lokin. Það sem drukkið er á fyrstu 10 km nýtist líkamanum mun betur en það sem drukkið er á síðustu 10. Ef líkaminn þornar upp þarf hann að erfiða miklu meira. Púlsinn fer upp, fæturnir stirðna og ýmislegt fleira getur gerst (t.d. hausverkur daginn eftir). Prófið að vigta ykkur áður en þið leggið af stað í langt hlaup og síðan þegar þið komið aftur. Ef þið hafið misst 2% eða meira af líkamsþyngd ykkar þá eruð þið ekki að drekka nóg - í raun langt frá því. Það er mjög mismunandi hvernig íþróttadrykkir fara í fólk. Sumir þola allt en aðrir ekki neitt af þessum drykkjum og svo allt þar á milli. Prófið ykkur áfram. Prófið einnig gel. Ekki nota orkudrykki eins og Magic og Red Bull. 

Hér er smá uppskrift að íþróttadrykk: 4 matskeiðar  sykur, ¼ teskeið salti, 60 ml. appelsínusafi, 850 ml. kalt vatn. Setjið ofurlítið af heitu vatni í lítersflösku og látið sykurinn leysast upp. Bætið síðan við saltinu og safanum. Bætið að lokum við kalda vatninu. Hristið.

Ekki einleikið...

Þrír mættir í sunnudagshlaup um verzlunarmannahelgi: Ólafur ritari, Þorvaldur og Jörundur. Hlaupið hefðbundið í góðu veðri. Við mættum myndarlegri konu strax komnir á Ægisíðu. Hún heilsaði. Jörundur sagði að þetta væri eiginkona hlaupafélaga. Hvers vegna hleypur hún þá ekki með okkur? spurði ég. Jú, sérðu til, sagði Jörundur, það er eina leiðin fyrir hana til þess að losna við kjaftaganginn í makanum, að fara ein út að hlaupa.

Mættum svo Vilhjálmi á reiðhjóli út við Suðurgötu. Er við höfðum spjallað við hann drykklanga stund kemur Ólafur Þorsteinsson hlaupandi í humátt á eftir okkur ásamt ektakvinnu sinni ágætri. Hér var öllum venjum og gildum snúið á haus svo að maður varð alveg ruglaður: hvað er í gangi? spurði einhver. Við sáum fram á að þeir Fóstbræður hefðu um eitt og annað að ræða og héldum því áfram hlaupi voru, en heyrðum áður "ég var að heyra að þau værir dauður!" - eða "ég var að vona að þú værir dauður", sem er algeng kveðja þeirra í milli. Einkennilegt samband.

Hlaupið inn í Nauthólsvík þar sem beðið var eftir Ólafi Þ. og föruneyti hans. Hann sneri hins vegar við enda búinn að hlaupa dag hvern í fríinu, alltaf jafnlangt,  alltaf sömu leið, alltaf einn.

Við Jörundur og Þorvaldur héldum áfram og einhver sagði að það væri gott að Ó. Þorsteinsson hefði snúið við, nú væri hægt að hlaupa án þess að stoppa á milli. Rætt um íslenzkar jurtir sem urðu á leið okkar og reyndist Þorvaldur skárri en enginn í að greina þær. Upplýst - þvert ofan í fullyrðingar Jörundar - að njóli væri innflutt jurt, kæmi alla leið frá Suður-Ameríku, líklega borist með skipum. Við Miklubraut vorum við orðnir heitir og jukum hraðann - lukum tíðindalitlu hlaupi á góðu stími.

Pottur vel mannaður, m.a. sat þar Benedikt af Ermarsundsfrægð, sundkappi, og var hann spurður spjörunum úr um sundið góða. Aðrir mættir: Dr. Einar Gunnar, dr. Baldur og Mímir.

Ákveðið að hlaupa að nýju í fyrramálið, mánudag 4, ágúst, kl. 10:10. Allir velkomnir. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband