Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Veitull höfðingi lyftir þaki

 Óljóst með þátttöku í hlaupi dagsins, föstudegi, sem átti að vera rólegt skv. ákvörðun þjálfara, 5-6 km. Sif Jónsdóttir langhlaupari mætt fyrst í Brottfararsal, og beið spennt.  Ummerki um Vilhjálm og Þorvald – ritari gekk til útiklefa og umklæddist. Sami hiti og s.l . miðvikudag. Þegar upp var staðið mættu fyrrnefndir og próf. Fróði, Rúna, Kári og e-r kollegi prófessorsins sem nafn vantaði á, e.t.v. Tom, hver veit? 

Hlauparar skiptast í ýmislegar greinar. Sumir hlaupa langt. Aðrir hlaupa hratt. Enn aðrir hlaupa hratt langt. Hlaupasamtök Lýðveldisins hlaupa til þess að hlaupa og til að líða illa. Unaður, engir þjálfarar. Nú gátum við gert eins og okkur sýndist. Menn vel stemmndir á Brottfararplani og ákveðið að fara hægt og stutt. Teddi með sýningu í Perlunni og orðrómur um lyftingu þaks á Kvisthaga, meira um það seinna.

 

Við fórum saman út, en svo fóru prófessorinn, langhlauparinn og kolleginn á undan okkur á hröðu stími, ég og Rúna og Kári þar á eftir og svo hinir, ekki það þetta hafi verið nein keppni. En svona lagðist þetta upp. Heitt í veðri, þó ekki væri jafnheitt og s.l. miðvikudag. Fórum mjög hægt út. Ritara líkaði þetta tempó, þetta hentaði honum.

Fórum aðskiljanlegar leiðir að Perlu og hittum þar fyrir il maestro Teddi, sem sýndi okkur verk sín, sem voru athyglisverð og fallin til þess að gefa sem tækifærisgjafir.

 

Héðan fóru þrír félagar á fund vinar í Vesturbæ: Ó. Þorsteinssonar, sem lýst hafði yfir reisugilli að Kvisthaga fjegur. Við mættum þar Vilhjálmur, Þorvaldur, og ritari. Viðstaddir heimtuðu höft á ritara, að maður svona sveittur fengi ekki aðgang að eigninni. Spurt var um blómasala: það fréttist af honum í Stykkishólmi á hádegi, svolgrandi í sig skelfisk og lepjandi hvítvín, ekki von að slíkur hlypi í dag. Boðið upp á 30 ára gamalt maltviskí innhöndlað í Edinborgarkastala og gefið húsráðanda í tilefni af afmæli hans á árinu. Gerð úttekt á upplyftingu og virðist hún standast væntingar. Góð stund í góðra viðurvist, m.a. konrektor Reykjavíkur Lærða Skóla, herr. prof. dr. Indridason, og mikið af geitungum sem löðuðust að hinum 30 ára gömlu veigum.  

 

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband