Færsluflokkur: Pistill Ritara

Gömul kona dettur, eða var henni hrint?

Þar sem skrifari Hlaupasamtakanna er seztur í bifreið sína fyrir utan Melabúð Friðriks hafandi innhöndlað kostinn mæta þar hlauparar askvaðandi, óðamála og nánast slefandi af skelfingu, Magnús tannlæknir og Jörundur prentari. Þeir plöntuðu sér fyrir framan bíl skrifara og heimtuðu að ná tali af honum. Skrifari er maður fólksins og alþýðlegur í viðmóti og ævinlega reiðubúinn að hlýða á vanda annarra manna. Þeir segja sem svo að fjórir menn hafi haldið frá Laug fyrr um daginn: Benzinn, próf. Fróði, og þeir tveir, Jöri og Maggi. 

Segir nú ekki af ferð þeirra, utan hvað þeir tveir fyrstnefndu voru öllu sprækari og keikari, héldu hraðara tempói og voru þarafleiðandi á undan. Magnús og Jörundur horfðu á þá fyrrnefndu þar sem þeir mættu gamalli konu, sem féll við og lamdi andliti sínu í malbikaðan hlaupastíginn, braut tvær tönnur og blóðgaðist öll. Ekki báru þeir við Benz og Fróði að hjálpa konunni, létu sem þeim væri málið óviðkomandi og hlupu áfram. En slíkir öðlingar sem þeir eru, Magnús og Jörundur, þá reistu þeir konuna við, liðsinntu henni á alla lund, buðust til að lána hárband Jörundar til að þurrka blóð (sem var afþakkað), buðust til að skipta á skóm við hana (hún var á töflum, en vildi ekki þiggja hlaupaskó Jörundar). Og þannig frameftir götunum. Buðust til að aka henni heim, en hún treysti sér til að klára ferð sína.

Hér er vel lýst eiginleikum og geðslagi manna. Prúðmenni á borð við Jörund og Magnús halda á lofti heiðri Hlaupasamtakanna, dólgar eins og Benzinn og Fróði koma óorði á Samtökin.

Jæja, nú gerist það að skrifari heldur til Laugar. Sest þar í Pott og bíður þess sem verða vill. Það sást til dr. Einars Gunnars, Maggi henti sér í Laug, en hvörgi bólaði á Jörundi. Er skrifari hafði setið um stund í Potti dúkkaði upp kunnuglegt, búlduleitt andlit og tilheyrði þekktum blómasala í Vestbyen. Við hæfi þótti að hreyta í hann ónotum og kommentera á vaxtarlag. Hann virtist meðvitaður um aukningu í líkamsumfangi. Við tók samtal um lífið í Gvuðseinalandi, morgunverði á 25 dollara með beikoni, eggjum, pönnukökum og sýrópi.

Svo kom dr. Einar Gunnar í Pott, þar á eftir frú Helga Zoega, Stefán Sigurðsson verkfræðingur. Svo Benz og lét illa, en þegar prófessor Fróði sýndi sig á Laugarbakka stóðu skrifari og blómasali algerlega samtímalega upp úr Potti og létu sig hverfa.

Næsti föstudagur er Fyrsti Föstudagur hvers mánaðar. Þá mun skrifari bjóða upp á næringu fyrir illa haldna hlaupara að heimili sínu, en hver taki þó með sér drukk. Þá verður skrifari grasekkill og því svigrúm fyrir vín og villtar meyjar!

Gleðjumst!  


Vinátta

Þar sem skrifari gekk í hægðum sínum eftir Öldugötu til hádegisverðar að setri sínu við Bræðraborgarstíg rennir svört glæsibifreið upp að honum og nýkjörinn þingmaður Lýðveldisins ávarpar hann: "Á hvaða ferð eruð þér?" Skrifari gerði grein fyrir erindi sínu, en var jafnskjótt inntur eftir uppruna yfirhafnarinnar sem hann var í. "Er þetta Barbour?" spurði þingmaðurinn. "Það veit ég andskotann ekki," sagði skrifari, "mér er eiginlega alveg sama". Síðan tóku við stimpingar um fatnað sem hæfi herramönnum og merkjaóðum Vesturbæingum. Þingmaðurinn heimtaði að skrifari færi úr frakkanum og sýndi honum merkin. Skrifari hlýddi góðfúslega, enda er brýnt að löggjafarvald og framkvæmdavald vinni vel saman. Eftir að hafa skoðað frakka skrifara í krók og kring grýtti þingmaðurinn frakkanum í eigandann með þessum orðum: "Þetta er drasl!" 

Loks varð stutt samtal um vináttu og samskipti og bað hann fyrir kveðju til "fyrrverandi vina" sinna. 

Nú er frá því að segja að skrifari leggur leið sína sem oftar í Vesturbæjarlaug síðdegis hafandi þrælað allan daginn í Stjórnarráðinu. Þar verður á vegi hans prófessor Fróði sem á í fullu fangi með að hafa stjórn á ökutæki sínu og virðist honum vera um megn að stjórna svo stórri vél. Þar sem skrifari stendur á Plani heyrir hann klirra í ótölulegum fjölda vínflaskna í skotti bílsins og furðar sig á því að svo heilsusamur maður skuli láta slíkt vitnast að hann mæti til hlaupa um miðja viku með bílskottið fullt af áfengi. Prófessorinn var forhertur og kvaðst ætla að skila þessum birgðum, til þess eins að kaupa miklu dýrari og betri veigar.

Jæja, þar sem gengið er til Brottfararsalar innir prófessorinn skrifara eftir heilsu. Jú, það er setið við sama keipinn og beðið eftir bata. "Já," sagði prófessorinn, "þetta á eftir að taka sjö mánuði, og eftir það kemur ábyggilega eitthvert nýtt mein upp."

With friends like these... Það bætti heilsu skrifara að hitta Benzinn og son við Hamborgarabúlluna að loknum kvöldverði og eiga við þá stutt spjall. Sem betur fer eru enn til heilbrigðir menn í hópi vorum.  


Vinaríki

Skrifari Hlaupasamtaka Lýðveldisins er ríkur að vinum. Fyrir það ber að þakka. Flestir þeirra hlaupa með Samtökum Vorum og hafa sýnt skrifara mikinn hlýhug og skilning í meiðslum á hné. Þrír þeirra, Magnús tannlæknir, Bjarni Benz og Einar blómasali, hlupu með skrifara sl. miðvikudag í stuðnings- og tryggðaskyni, og blómasalinn fórnaði 18 km hring sem hann hafði hugsað sér að taka til þess að geta sýnt veikburða hlaupara sem var að koma tilbaka stuðning. Að vísu eru til skelmislegir félagar eins og Jörundur sem hreytir gjarnan ónotum í skrifara og býsnast yfir utanlandsferðum sem greiddar séu beint úr veski þessa fátæka prentara. En allar slíkar umvandanir eru fram fluttar af mikilli elsku og umhyggju fyrir velferð skrifara. 

Nú brá svo við að skrifari varð að hætta við hlaup dagsins vegna þess að fyrri meiðsli tóku sig upp, bólga og eymsli í hné sem kalla á meiri hvíld og meira Íbúfen. Hann saknaði þess að geta ekki hlaupið með félögum sínum á svo ágætum hlaupadegi. En það er paranormal aktívitet í Hlaupasamtökunum. Í hlaupi dagsins upplifði blómasalinn það að skrifari hefði plantað sér í mínímí útgáfu í höfðinu á honum og hvíslaði stöðugt: "Farðu hægt! Farðu stutt! Hvíldu þig, hvíld er góð." Líkt og litli kallinn í höfðinu á Magga sem er óþreytandi að reyna að sannfæra hann um að hann sé of þreyttur og slappur til að hlaupa.

Jæja, skrifari var ekki heillum horfinn, hann sá tækifæri til þess að rækta góðan þorsta í anda Hjálmars líkamsræktarkennara Hagaskóla Íslands. Mætti því til Laugar og viðhafði hefðbundna rútínu: heitasta pott, gufu, kalda sturtu, meiri gufu og loks Örlygshöfn. Þar var aðkomufólk fyrir á fleti - og Denni skransali, en óviðkomandi hurfu fljótt á braut þegar þeir heyrðu hvert umræður stefndu. Sá síðasti fór þegar Bjarni Benz mætti í Pott. Jæja, Denni var óánægður með að hafa ekki verið getið í pistli sl. föstudag. Þá hafði hann hlaupið með blómasala og Jörundi og inntekið allar veigar sem Gvuðmundur vinalausi hafði boðið upp á í veizlunni sem haldin var til að fagna komu Skálafells. Taldi hann að hér væri einelti á ferðinni, en Samtök Vor eru þekkt að slíku framferði. En málið er að Einar og Jörundur minntust ekki einu orði á skransalann er þeir loks komu í Pott eftir hlaup, vel maríneraðir úr rauðu og hvítu í boði útgerðarauðvaldsins.

Í Potti dagsins gafst skrifara tækifæri til þess að leiðrétta þennan leiða misskilning og árétta að hér væri sennilega á ferðinni sálræn meinloka hjá þeim félögum: þeir einfaldlega skilgreina ekki hlaupara af Nesi sem fólk og því þótti þeim ekki taka því að hafa orð á því að Denni hefði hlaupið, þrátt fyrir að hann sé fæddur Vesturbæingur og uppalinn við Hólatorg, sem ætti eiginlega að vera gæðastimpill á manninum. Hvað um það, Denni var fullvissaður um að hann væri fullgild persóna og meira en fullgildur í vorum hópi. Við þetta glaðnaði yfir Denna og hann upplýsti að stefnt skyldi að Palli 7. júní nk. Er hann heyrði að blómasali yrði á palli í Tiomaria USA og skrifari á palli í Brussel hjaðnaði gleðin og depurð helltist yfir. En svo lagði hann upp nýtt plott: hvað ef við flytjum Pall til 14. júní og segjumst eiga hann inni? Engar mótbárur bárust gegn þessari hugmynd og verður hún til ígrundunar næstu daga, fer þó allt eftir veðri.

Blómasali með heimboð í sveitina 1. júní nk. eftir Grafningshlaup. Matseðill tilbúinn. Vel mætt! Eintóm gleði. Í gvuðs friði.   


Endurheimtur skrifari - blómasali styttir

Mættir til hlaups á fögrum degi: próf. Fróði, Jörundur, Flosi, Kalli, Helmut, Benzinn, dr. Jóhanna, Baldur Tumi, Gomez, Maggi, Einar blómasali og skrifari. Sumir ætluðu stutt, aðrir lengra, og lengst allra ætlaði blómasalinn, ekki styttra en 18 km. Skrifari og Maggi ætluðu bara að fara Hlíðarfót þar sem Maggi var slappur og skrifari að snúa til hlaupa eftir þriggja vikna meiðsli. Nú skyldi látið á það reyna hvort hnéð dygði til að halda uppi þessum þunga skrokki á hlaupi. 

Skrifari fór að láta smúla í sér eyrun innan í gær og hitti við það tækifæri Frikka Guðbrands og Sjúl, hvorugur tók þó verkið að sér. Engu að síður var slegið á létta strengi í spjalli þeirra og kom þar að Frikki upplýsti að menn væru sendir af konum sínum til háls-, nef- og eyrnalæknis af þremur ástæðum: 1. þeir hrjóta (að sögn sömu kvenna), 2. þeir heyra illa (enn að sögn sömu kvenna), 3. þeir eru andfúlir (enn óstaðfestar fullyrðingar téðra kvenna). Skrifari var sem sagt álitinn heyra illa að mati ónefndrar konu í Vesturbænum. Nú er sá vandi úr sögunni og fannst honum háreysti mikil í hlaupi dagsins, og þurfti hvorki Bjarna né Jörund til.

Almennt var fólk rólegt í hlaupi dagsins, einhver asi á gamla barnakennaranum, og Ágúst að sperrast við að reyna að ná honum - og tók góða stund. Aðrir rólegir á eftir, Magnús, Benz, blómasali og skrifari og aftastir fóru Jörundur og Helmut. Af mörgu var að taka í umræðu dagsins, m.a. varpaði blómasali fram fyrraparti sem skrifari leiðrétti strax þar sem báðir stuðlar voru í lágkveðu. Hér brást blómasali ókvæða við og kvartaði undan smásmygli skrifara. Svona hefði nú frændi hans, Ó. Þorsteinsson, ekki brugðist við, enda þekktur fyrir viðkvæðið: "Það er nú ekki svo nöje með það." 

Er komið var í Nauthólsvík stóðu Maggi og skrifari við sitt, beygðu af og fóru inn á Hlíðarfótinn. Benzinn og blómasalinn fylgdu orðalaust á eftir, þrátt fyrir fyrri fullyrðingar um að ætla ekki styttra en 18 km í dag. Hins vegar hélt Jörundur áfram á Flanir. Það var gengið um stund svo að ekki yrði reynt um of á fót skrifara. Svo haldið áfram og farið hjá Gvuðsmönnum. Þar vildi Einar halda áfram um göng og yfir á Klambratún. Það var ekki tekið í mál, heldur kúrsinn settur á Vesturbæinn stystu leið. Hér upphófst slíkur fúkyrðaflaumur og formælingar í blómasalanum út í félaga sína að annað eins hefur ekki heyrst frá því Vilhjálmur Bjarnason hljóp með okkur. Menn héldu ró sinni og dóluðu sér áfram. Þó fengu þeir Einar og Benzinn að fara um brýr á Miklubraut meðan við Maggi fórum hjá flugbraut.

Er komið var í Vesturbæinn hlupum við fram á framkvæmdir ýmislegar þar sem fyrirtækin hétu ýmist Línuborun eða Múrlína og varð hugsað til hans Magga okkar. Komið til Laugar og hafði hnéð skrifara verið til friðs. Veit vonandi á gott. Góður langur Pottur með umræðu um mat. Þeir Ágúst og Jörundur voru á stétt úti og þegar þeir heyrðu hversu litlar fortölur hefði þurft til að fá blómasala til að stytta áform sín úr 18 km í 8 ærðust þeir og helltu sér yfir hann.

Næst: föstudagur. Nema Fjölnishlaup hjá e-m á morgun. Og Grafningshlaup 1. júní með málsverði að blómasala á eftir. Meira um það síðar.  


Erum við á réttri leið?

Þar sem skrifari Hlaupasamtaka Lýðveldisins situr í Potti dagsins að loknum erfiðisdegi í Stjórnarráðinu og eigandi spaklegar viðræður við hr. próf. dr. Einar Gunnar Pétursson fornaldarfræðing, koma þeir askvaðandi Jörundur og Einar blómasali. Ekki var frítt við að þeir önguðu eins og viskítunnur og voru þeir að auki drafandi í talanda eins og próf. dr. Fróði á góðum föstudegi. Þeir reyndu að hafa uppi tölur um hlaupna kílómetra og hraða, en enduðu þó á því að játa að kallað hefði verið í þá á Geirsgötu. Þar hélt útgerðin upp á nýjasta ávinning sinn, skip Gvuðmundar vinalausa Mjaltafell RE-7. Í skemmu var boðið upp á rautt, hvítt, bjór og snittur. Ekki þurfti langar samningaviðræður til þess að fá þá félaga inn í skemmuna til þess að taka þátt í skemmtuninni - og er oss illa brugðið, gömlum kommónistum félögum Jörundar sem laminn var í hausinn af löðreglu til staðfestingar því að hann væri einn reyfari, að svo ágætur félagi skuli láta glepjast af glerperlum og eldvatni óvinanna. 

Nema hvað: þeir hafa sig á endanum út fyrir dyr, en vita ekki fyrr til en ótilgreindur kvenkostur kallar í þá öðru sinni, að sögn Kolbrún morgunsundskona, og dreif hún þá inn í annan viðburð, þar sem dreypt var á veigum, hvítum, rauðum og kampavínsgulum. Þegar svo var komið var kapp allt úr þeim runnið og þeir náðu með herkjum að klára hlaup dagsins, sem þó var bara hefðbundið, rúmir 11 km. Á sama tíma runnu skeiðið eftir öðrum leiður og fjarri sollinum próf. dr. Ágúst Kvaran, Maggie, Benzinn og Flosi, fóru hratt yfir og lögðu rúma 18 km að baki sér án þess að blása úr nös. Þetta fólk er til fyrirmyndar, meðan blómasala og Jörundi er bent á að leita sér aðstoðar í næstu stúku, líkt og gert var þegar Emil í Lönneberga drakk mjöðinn hér um árið og kom svíninu á fyllerí.

Nú líður senn að því að skrifari mæti til hlaupa á ný, e.t.v. verður látið reyna á knéð á sunnudagsmorgun, þegar vænta má samfylgdar svo ágætra manna sem Ó. Þorsteinssonar og Magnúsar Júlíusar kirkjuráðsmanns. Í gvuðs friði.  


Hvað er tíðast?

Svo ávarpar gjarnan Formaður Vor til Lífstíðar, frændi og vinur skrifara, Ó. Þorsteinsson, mannfagnaði þar sem þeir verða: "Hvað er tíðast?" M.ö.o. hvað er í fréttum. Nú hefur skrifari ekki lagt inn pistla á vef Samtaka Vorra um nokkurt skeið og kemur ekki til af góðu: hann hefur verið í meiðslum. Engu að síður er vert að minnast þess að Hlaupasamtökin héldu árlega árshátíð sína í Viðey 11. maí sl. Á þriðja tug þátttakenda og Þorvaldur með ómegðina, en Bjössi kokkur kokkaði og Húnninn uppvartaði og þjónaði til borðs. 

Örlygur Hálfdánarson hélt hefðbundna kynningu í Viðeyjarkirkju, við minnismerki um Skúla, við Keleríislaut og í barnaskóla. Það blés og rigndi og var kalt. Því var kynningargangan venju fremur stutt. Komið til Tanks um 18:00. Þar hafði einvalalið með Björn í broddi fylkingar undirbúið veizlu. En áður en setzt var að borðum hélt skrifari stutt ávarp. Þá tók við Formaður til Lífstíðar og loks fékk próf. dr. Baldur Símonarson orðið og bauð upp á spurningakeppni. Ekki þarf að koma neinum á óvart að skrifari vann keppnina ásamt með frú Helgu Jónsdóttur frá Melum, þrjú rétt svör af fimm mögulegum.

Hófst þá loks borðhald. Stóð það yfir með ávörpum, söng og mikilli kurteisi fram undir kl. 22:00 þegar tímabært þótti að halda tilbaka. Einstök skemmtun og fór fram með mikilli hófsemd og stillingu. Gengið til báts og siglt heim.

Þá er komið að meiðslum skrifara. Hann sumsé bólgnaði upp á kné og var ekki mönnum sinnandi og fékk sig ekki hrært í nærfellt heila viku. Þegar bólgan hafði hjaðnað var í öryggisskyni haldið til læknis og leitað álits. Áður hafði dr. Vigfús Magnússon tjáð sig um bólguna og sagt að hnéð væri fullt af vatni og skrifari ætti ekki að vera að þessum hlaupum. Mannslíkaminn væri ekki gerður fyrir hlaup. Nú var leitað álits starfandi læknis. Skrifari heilsaði doktornum innilega og lýsti vanda sínum svo: "Ég er hlaupari og lenti í meiðslum á hné..." Ekki komst skrifari lengra þegar doktorinn greip frammí fyrir honum og sagði: "Hættu þá að hlaupa! Mannslíkaminn er ekki gerður fyrir hlaup. Auk þess ertu alltof feitur til þess að vera að leggja þetta á skrokkinn."

Svona kaldar kveðjur frá hinni medíkölsku stétt eru náttúrlega ekki uppbyggjandi. En skrifari mun hvíla enn um sinn, en heitir því að hefja hlaup jafnskjótt og allur verkur er horfinn úr hné - og fáein kíló eru frá líkam hans.  


Endurkoma skrifara

Eins og fram kemur í síðasta pistli skrifara var hlaupið í Uppsölum. Þess var getið að að hlaupi loknu gekk skrifari inn í staðinn og tók það um klukkutíma. Um kvöldið var svo staðið í eldahúsi í eina tvo tíma við að elda ítalskar kjötbollur. Afleiðingar þessa aktívitets létu ekki á sér standa: knén á skrifara bólgnuðu út og mátti hann sig vart hræra af kvölum. Hann kom sumsé stokkbólginn með vélinni heim frá Stokkhólmi á sunnudaginn. 

Hann mætti til Laugar í dag rétt fyrir sjö og vænti þess að vera fagnað af félögum sínum hlaupnum. En það var öðru nær. Honum mættu hæðnishróp og niðurlæging og töldu menn víst að heltan væri uppgerð. Spökúlasjónir fóru af stað um að það þyrfti að taka fótinn af skrifara við öxl. Blómasalinn var ekki mættur og sögðu menn að hann lægi á bæn, biðjandi himnafeðga um að líkna skrifara og lina bólgukvalir hans. Svona er hæðst að fólki!

Í Potti var aðallega rætt um árshátíðina 11. maí. En einnig var rætt um nýja afrekshóp Samtaka Vorra, sem þau fylla Gomez, Pedro, Juanita og Federico. Þau eru að leita að sponsorum og leitað hófanna hjá Mjólkursamsölunni. Fram kom hugmynd um að stofna sérstakan hóp innan Samtakanna, Biggest Loser, og setja af stað markvissa baráttu þyngstu hlaupara fyrir varanlegum líkamslétti.

Er heim var komið tók þó steininn úr þegar kona skrifara var að horfa á víðtal í sjónvarpi við fótalausa konu sem fékk hlaupafætur og var að prófa þá. Varð henni að orði: "Ja, það er ekki mikið mál að vera fótalaus!" Huggun það þegar mönnum er hótað fótaskorti.  


Hlaupið á sléttum Uppsalaauðs

Skrifari er ekki dauður úr öllum æðum. Hann notar hvert tækifæri sem gefst til þess að hnýta á sig skúa og leggja braut undir sóla. Nú var hann staddur í Svíaríki í mikilvægum embættiserindum, en að fundi loknum var stefnan sett á Uppsali, þann mikla menningar- og sögustað. Hér mun Snorri hafa verið á ferð á sínum tíma og lýsir fundi konungs með bændum þar sem Þórgnýr Þórgnýsson átti merkilega rispu og tuktaði kóngsa til með eftirminnilegum hætti, en sænskir kóngar, að Gústafi Adólf undanskildum, hafa ævinlega verið óttalegir vinglar. Sú sena útspilar sig þar sem nú heitir Gamla Uppsala og státar af konungagröfum frá 7du öld. Heimskringla, sumsé, Ólafs saga helga.

Jæja, þar sem skrifari vaknar harla glaður í bragði að morgni dags býr hann sig til hlaupa, hafandi snætt morgunverð og drukkið lögmæltan skammt af kaffi. Það er lagt upp í sterku sólskini og 12 stiga hita, svalandi golu á norðan. Stefnan sett austur úr frá Malma Backe og hlaupið beint af augum. Brátt kemur afleggjarinn að Gottsunda þar sem skrifari villtist með eftirminnilegum hætti hér um árið og var farið að dimma. Fór í eintóma hringi þar til hann loks fann veginn sem liggur inn í bæinn og að Dag Hammarskjöldsvegi. Farið bara rólega og engir útúrdúrar. Svo þegar cirka fimm kílómetrar voru að baki (að skrifara fannst, en hann á ekki Garmin-úr eins og hinir hlaupanördarnir), var einfaldlega snúið við og sama leið farin tilbaka. Einfalt. Góð hreyfing, nægur sviti, svalandi bað á eftir og svo var haldið í staðinn á eftir.

Alveg nauðsynlegt að hreyfa sig þegar menn eru á fundum dagana langa, eða sitjandi í flugvélum milli höfuðborga Evrópu. Vona að félagar mínir finni upp á e-u að gera þótt skrifari sé ekki á landinu. Og að Bjarni drattist til að spurja Kokkinn um prísinn á kvöldverðinum á árshátíðinni. Í gvuðs friði. 


Fáheyrð forherðing

Hlaupasamtök Lýðveldisins eru menningarsamtök. Þau eru þekkingarsamfélag. Þar safnast saman helztu sérfræðingar landsins á hverju sviði og deila þekkingu sinni meðan þreytt er hlaup um götur og stíga, ellegar að hlaupi loknu þegar setzt er í Pott. Þá bætast gjarnan við hlauparar án hlaupaskyldu, en með rannsóknir og dreifingu þekkingar á sinni könnu. Sunnudagar eru yfirleitt bitastæðari en aðrir dagar þegar litið er til þessa markmiðs í starfi Samtaka Vorra. Því kom það á óvart í dag að menn létu sig vanta. Mættir til hlaupa: Ó. Þorsteinsson, Magnús, Þorvaldur, skrifari og Maggie. Athugulir menn tóku þó eftir því að reyfið af ónefndum barnakennara hékk uppi í Útiklefa, en sjálfur lýsti hann með fjarveru sinni. Og ekki mætti blómasalinn eða Jörundur. Svona forherðing á slíkum drottins degi er óskiljanleg. 

Jæja, skrifari var eiginlega ekki að nenna þessu. En lét sig hafa það. Hvattur áfram af drengjum góðum og félögum. Sunnudagar eru einstakir að hlaupum. Og vitanlega ræddum við um hann Vilhjálm okkar sem tók móti Formanni sínum í sveitinni sinni, Garðahreppi, á fundi í FG á laugardaginn, og var þar sveitarhöfðingi, klappaði manna mest og strauk Formanni sínum að auki. Við vorum ákaflega stoltir af honum Vilhjálmi okkar og töldum góðar líkur á að hann myndi fljúga inn á þing eftir slíka frammistöðu.

Veðrið var bærilegra en í gær, eilítið hlýrra og ekki mikill vindur. Þó varð maður var við norðangjólu við Flugvöll og aftur þegar komið var á opin svæði eins og í Hlíðunum. Umræðuefnin tengdust mjög kosningum, og enda hafði J. Bjarnason tafið brottför hlaups í Brottfararsal með orðavaðli sem skrifari skildi ekki, en þeir hinir hlýddu dolfallnir á. Menn telja leikrit Sjálfstæðisflokks ekki til þess falllið að auka fylgi flokksins, en spurt var hvort Hanna Birna myndi eiga framtíð fyrir sér í pólutík eftir innlegg Eimreiðarinnar.

Það voru þyngsli og það var slappleiki. En áfram héldum við þó. Maggie með myndavélina á lofti og tók myndir af hópnum við margvísleg skilyrði. Svo tók Þorvaldur við ljósmyndarahlutverkinu og smellti af hægri vinstri, en ekki veit ég hversu mikið af því var nothæft. Kemur í ljós. Jæja, það er komið í Nauthólsvík og lagt til nýtt mótív: við drengirnir fyrir framan skúra Siglingaklúbbsins og Maggi að baki okkur að tæma skinnsokkinn. Það er dýpt í svona hugmyndum. Gengið og sagðar sögur. Svo áfram í Kirkjugarð.

Kirkjugarðurinn er helgur reitur. Þar er gengið og talað hljóðlega. Því brá ritara er hann sá einn félaga sinn standa álengdar við eitt leiðið líkt og hann væri að létta á sér. En sem betur fer var það missýn, enda hefði slíkt framferði verið fyrir neðan sygekassegrænsen.

Jæja, það var Veðurstofa og Klambrar. Hér vorum við frændur og nafnar orðnir einir og aftur úr, þau hin fóru hratt áfram og virtu ekki hefðbundnar reglur um stopp og göngur á Rauðarárstig. Þetta var allt í lagi. Við höfðum næg viðfangsefni að ræða um, m.a. var sagt frá hátíðarsamkomu á Þjóðminjasafni Íslands sl. föstudag þar sem Þór Magnússon var heiðraður vegna útkomu merkilegrar bókar hans um silfursmíð á Íslandi. Einnig var staðfest að Holtavörðuheiðarhlaup verður þreytt að jöfnu báðu milli Laugavegshlaups og Reykjavíkurmaraþons. Ástæða til að taka helgina frá og fara að hlakka til.

Fórum Laugaveginn að þessu sinni, bjuggumst við þræsingi á Sæbraut. Töldum ekki laus búðarpláss, en skoðuðum Harris Tweed hjá Kormáki og Skildi, horfðum á fillibittur fara inn á bari sem voru að opna og sáum erlenda ferðamenn leita að stöðum til þess að fá sér kaffi á. Miðbær, Kaffi París og Túngata. Ó. Þorsteinsson kvaðst vera tilbúinn með vísbendingaspurningar fyrir Baldur.

Vel mætt í Pott, bæði dr. Einar Gunnar og dr. Baldur, Helga Jónsdóttir Zoega Gröndal og Flygenring, Stefán maður hennar, dr. Mímir, auk hlaupara. Vísbendingaspurningar fjölluðu um útför Thatchers. Í ljós kom að það vantaði vísbendingarnar í vísbendingaspurningarnar, svo að þær voru dæmdar spurningar eingöngu. Fullyrt var: þegar kistan fer framhjá Big Ben nk. miðvikudag verður klukkum hring 87 sinnum. Spurt var: hvenær var það gert síðast og hversu oft var hringt? Rétt svar: við útför Winstons Churchills 1965 og klukkum var hringt 90 sinnum. Þá var spurt: hver mun flytja inngangserindið í jarðarförðinni og hvað gerir sú manneskja? Baldur stóð á gati. Rétt svar: Amanda, dótturdóttir Thatchers, tvítug og læknanemi í í USA. Loks var spurt: hvaða sálmar verða sungnir? Þetta vissi enginn og ekki heldur Ó. Þorsteinsson, svo að botninn féll eiginlega úr spurningakeppninni, sem eins og menn sjá, innihélt ekki eiginlegar vísbendingaspurningar. Enda mátti Ólafur Þorsteinsson þola þungar ákúrur af hálfu Baldurs fyrir að sigla undir fölsku flaggi, vera ekki með eiginlegar vísbendingaspurningar og ekki vita neitt sjálfur.

Nú tók Baldur við með eigin spurningakeppni og spurði margra snúinna spurninga um menn og viðburði og var frændi minn oft með rétt svör á takteinum svo að aðdáun vakti. Neyddist Baldur til að viðurkenna að Formaður Vor til Lífstíðar vissi eitt og annað. Tal barst að árshátíð þar sem frétzt hefur að Kokkur Vor muni sjá um matreiðslu. Fljótlega verður gefinn út instrúx um verð og greiðslutilhögun.

Í gvuðs friði.  


Feitur hlaupari hleypur langt

Vorkomunni er frestað um sinn. Í dag blésu norðanvindar og það var kalt. En hörðustu hlauparar mættu engu að síður til hlaupa eins og þeirra var von og vísa. Þetta voru: próf. dr. Fróði, dr. Jóhanna, Þorvaldur, Flosi, Maggi, Helmut, Maggie, Einar blómasali, Snorri, Haraldur, Heiðar, Hjálmar, skrifari og Benz. Teknar myndir af hópnum í Brottfararsal og höfðu menn á orði að tímabært væri að skipta um mynd á bloggsíðu Samtaka Vorra þar eð á myndinni sem nú prýðir síðuna er að finna fólk sem hefur ekki sést lengi að hlaupum. 

Áhugi á löngu, ekki styttra en Stokki. Framvarðarsveit með eigið prógramm, en við dauðlegir lögðum upp á hógværu tempói. Það var gorgeir í feitlögnum hlaupara sem stillti sér upp með fremsta fólki og taldi sig greinilega eiga eitthvert erindi í þann hóp. Það entist ekki lengi. Helmut hélt áfram að elta prófessorinn eins og honum væri borgað fyrir það.

Í Nauthólsvík stoppaði Frikki kaupmaður hópinn og tekin var kyrrðarstund. Maggi, Þorvaldur og Benzinn beygðu af og fóru Hlíðarfót. Við hinir áfram. Eftir brú beygði Helmut upp Boggabrekku og skrifari hafði hugsað sér sama leik. En hér voru gerð slík hróp að honum af hálfu ónefndra hlaupara annarra að hann sá sér ekki annað fært en halda áfram í Fossvoginn. Með í för voru prófessorinn, blómasalinn, barnakennarinn og Maggie. Framvarðarsveitin löngu komin í dalinn og mættum við þeim raunar þegar þau voru á heimleið en við á leið austur úr.

Við blönduðumst öðrum hlaupahópi eftir brú og þau virtust kannast við Gústa. Þetta var hið viðkunnanlegasta fólk, en fóru eilíitið hraðar en við. Er komið var að Víkingsheimili var skrifari orðinn einn og þreyttur í fótum. Hann leyfði því þeim Maggie, Gústa og Einari að fara út í Hólmann, en fór þvert yfir á Stokk og upp brekku. Skokkaði léttilega upp Stokkinn. Er upp var komið leit hann niður eftir og sá þau hin gónandi aftur fyrir sig eins og álkur. Hann veifaði til þeirra. Þegar Gústi sá skrifara kominn upp mátti sjá vonbrigðin í svipnum langar leiðir. Hann hafði nefnilega hugsað sér að reykspóla á fjarlægasta punkti frá Vesturbæjarlaug og skilja skrifara eftir í reykskýi. En í þetta skiptið skaut skrifari honum ref fyrir rass.

Þetta breytti nú sosum ekki miklu því eftir Réttarholtsskóla fóru þau öll fram úr skrifara og skildu hann eftir. Hér eftir var skrifari einn með sjálfum sér. Það var farið að kólna og vindurinn beit. Hlaupið hefðbundið hjá Útvarpshúsi, Bústaðaveg og niður hjá Benzínstöð, utan hvað þau hin styttu sér leið hér, meðan skrifari fór hjá Slökkviðstöðinni og í undirgöng hjá Gvuðsmönnum. Sú leið vestur úr. Þau hin alltaf framundan.

Komið til Laugar á viðunandi tíma og teygt inni. Í Potti var aðallega rætt um árshátíðina 11. maí nk. og dagskrána sem þar verður boðið upp á, en það verður karaoke, upplestur minningargreina, lesið úr 13. ljóðabók Tryggva Líndal, ratleikur, drykkjukeppni o.s.frv. Í gvuðs friði. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband