Hvað gerði blómasalinn á Jómfrúnni?

Nú ríður á að halda öllu því helzta til haga. Fáir mættir til föstudagshlaups, þrátt fyrir að í það hafi verið látið skína að þorsti manna yrði tekinn til sérstakrar athugunar og lagt á það mat hvort mæta mætti þörf mann fyrir vökvun með hefðbundnum hætti. Í dag voru mættir Jörundur, Þorvaldur, Ólafur ritari, blómasalinn, Friðrik kaupmaður og tveir menn til viðbótar sem ritara vantar nöfn á. Á föstudögum er hlaupið hefðbundið, engin breyting var gerð á því í dag. Enda engin ástæða til, veður var hreint frábært, algjört logn, hiti 6 stig, bjart og fagurt veður. Góð stemmning í hópnum. Á Hofsvallagötu staðnæmdist jeppi og flautaði að okkur, við létum sem við sæjum hann ekki. Jeppinn elti okkur og hélt áfram að flauta og á endanum þekktum vð skeggjað smettið á farþega í framsæti: sjálfur Bjarni Benz mættur með óljóst erindi í Vesturbæinn, altént ekki hlaupandi.

Farið rólega af stað enda fundu menn fyrir þörf að hita sig vel upp. Nema Frikki, sem bara æddi af stað og fékk sig öngvan veginn hamið. Hljóp fram og tilbaka og sótti okkur. Hann er á leið til Vínarborgar í fyrramálið og ætlar að ná leiknum við Frakka. Við tókum góða rispu frá Hofsvallagötu og alla leið að flugvelli til þess að kynna hinum nýju félögum helztu einkenni hlaupara í Hlaupasamtökunum: illkvittni, baktal, einelti og fleira í þeim dúr. Þeim leizt vel á. Jörundur og ritari rifjuðu upp bókatitlana sem þeir hefðu gefið blómasalanum, ritari gaf Flugu á vegg eftir Ólaf Hauk, en Jörundur gaf Hvernig á að forðast að verða geðveikur. Engar sögur fara af því hvort karlinn hafi lesið bækurnar.

Áfram í Nauthólsvík, þar var stanzað og spurt hvort áhugi væri fyrir sjóbaði - en einhvern veginn eyddist málið og við héldum áfram upp Hi_Lux. Hér rifjaði Jörundur upp daginn þegar komið var að Hi-Lux jeppanum. Upp löngu brekkuna og blómasalinn farinn að slá slöku við. Frikki sýndi vðleitni til þess að bíða eftir hinum slakari hlaupum, en það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að bíða eftir fólki sem hefur boðið sjálfu sér í þorramat í öðrum fyrirtækjum og misst sig í mat.

Svo var þetta nú bara hefðbundið og farið hratt yfir, ritari náði að hanga í Federico frá Klambratúni og vestur úr. Á Sæbraut var haft á orði að nú mætti Kári mæta með kajakinn sinn, svo lygn var sjórinn við Sundin. Við fórum um Miðbæinn, Lækjargötu og Hljómskálagarð, sem lengir hlaup lítillega. Tekið vel á því í lok hlaups, farið hjá Þjóðminjasafni og Hótel Sögu. Eftir hlaup var okkur sagt að þegar blómasalinn kom í Lækjargötu hefði hann þotið eins og blá elding yfir Lækjargötuna og beint inn á Jómfrúna. Honum þótti ekkert leiðinlegt að upplýsa okkur í Potti að þar hefði hann slokað í sig heilum bjór og rauðsprettubrauðsneið með remolaði. Ef einhverjum dylst hvers vegna þessum hlaupara gengur svo illa að búa sig undir París - þarf frekari vitnanna við?

 Nú brá svo við að tveir óhlaupnir mættu í Pott: Denni og Kári og höfðu báðir vondar afsakanir fyrir fjarveru, Kári í veseni með fólk sem var að hringja í hann, Denni eitthvað meiddur eftir meinleysislegt mánudagshlaup. Kári sagði okkur sögu af ölvuðum manni sem var að veizlu og kona sagði við hann: Þú ert ölvaður! Hann svaraði: Þú ert ljót. Og það sem meira er: á morgun verð ég edrú, en þú verður ennþá ljót. Ég veit ekki hvaða bókmenntagrein þessi saga tilheyrir, en slíkt má ræða á hlaupum næstu daga. Rætt um súrmeti, hval, skötu, og annað í þeim dúr.

Í fyrramálið verður sumsé farið snemma út, kl. 9:30 - og farið langt.





« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Hef trú á því að annar hlauparanna nafnlausu heiti Ólafur Kristjánsson. Hann er gamall drengur úr Hagaskóla Íslands og nágrennis; árin 1975 - 1978. Fullu nafni heitir hann Ólafur Unnar Kristjánsson og er kunnugur Birgi Jóga Jóakimssyni.

Kveðja úr Norðurárdal

Flosi Kristjánsson, 29.1.2010 kl. 21:34

2 identicon

Það er alltaf allt satt og rétt sem Flosi segir. Ég var maðurinn sem kjaftaði frá Jómfrúarheimsókn blómasalans.

Ólafur Unnar Kristánsson (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband