Laugardagshlaup hlaupahópa 6. febrúar 2010.

Fyrsta sameiginlega laugardagshlaup hlaupahópa í Reykjavík var þreytt í morgun frá Laugum kl. 9:30. Af okkar fólki voru þessir mættir: Friðrik, Kári, blómasalinn, Eiríkur, Þorbjörg M., Rúnar, Margrét og Ólafur ritari. Svo var Sif Jónsdóttir, sem eiginlega tilheyrir okkur, en hefur villst yfir í aðrar sóknir. Ég giska á að um 200 hlauparar hafi verið samankomnir við Laugar. Veður fínt, það var óðum að birta, heiðskírt, hiti um frostmark og logn. Þó blés af austri er komið var út á Kársnes og hafði maður vindinn í fangið á þeirri leið.

Farið sem leið lá út Laugardalinn, inn í Elliðaárdal, Mjódd, Kópavog og stefnan sett á Dalinn. Ég hljóp upp á hól til þess að gá hvort lífsmark sæist í Lækjarhjalla, átti alveg eins von á að sjá húsbóndann úti á svölum í náttsloppi reiðubúinn að heilsa hlaupurum. En það var aldeilis ekki! Sjaldan hef ég séð jafn kirfilega dregið fyrir alla glugga og öll opnanleg fög stöguð aftur. Ekkert lífsmark á því heimilinu.

Hlaup gærdagsins sat í manni, 11,3 km á 5 mín. tempói. Það vissi maður sosum fyrir hlaup. Margt var ágætra hlaupara á ferð í dag, og virtist manni jafnvel nokkurt kapp hlaupa í menn á Miklubrautinni. Varð mér sem snöggvast hugsað að einhverjir ætluðu að taka þessu sem keppnishlaupi, en einnig má líta svo á að þeir hafi tekið þessu sem kærkomnu tækifæri til þess að láta gamminn geisa.

Í Dalnum fór þreyta að segja til sín, en ég var ákveðinn í að klára mína 19 km í dag. Kjagaði því fyrir Kársnesið og áfram í átt að Kringlumýrarbraut. Er þangað var komið náði blómasalinn mér loksins, en einhverra hluta vegna hafði ég haldið honum fyrir aftan mig allan tímann. Spyrja má hvor okkar sé á leið í Parísarmaraþon! Ég hafði með mér appelsínusafa og fannst hann sízt verri en orkudrykkirnir sem maður hefur verið að kneyfa. Kringlumýrarbrautin var anzi erfið og í kringum mig var fólk sem greinilega var á svipuðum stað í æfingum og ég, margir þurftu hreinlega að ganga.

Það var ljúft að koma tilbaka og hitta félagana við Laugar. Boðið var upp á nýja próteindrykkinn frá MS, Hleðslu. Hann var fínn. Svo var bara skellt sér í heitan pott og slakað á. Sat um stund með Frikka og Kára og við horfðum á Svía, m.a. Línu Langsokk.

Frábært hlaup, frábært framtak! Næst verður það Grafarvogur, Árbær, ÍR - og svo Hlaupasamtökin í byrjun júní.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband