Á vorfögrum sunnudagsmorgni

Ritari mættur snemma til Laugar og búinn að fara í heitan pott, gufu, gera teygjuæfingar, fara í nuddpott, raka sig og ræða við laugargesti áður en fyrsti hlaupari gerði vart við sig: Þorvaldur. Síðan komu þeir Magnús, Jörundur, blómasalinn og ská-tengdasonur Gústa, sem við fregnuðum að héti René og væri frá Toscana, því fagra héraði á Ítalíu. En enginn Ó. Þorsteinsson. Nú voru sumir okkar búnir að hlaupa mikið á undanliðnum dögum og von að menn spyrji: hvernig geta þeir þetta? Ja, er nema von menn spyrji?

Þetta var í alla staði hefðbundið hlaup, að undanskildu því að heldur færri stopp voru gerð og styttri sögur sagðar. Ég held ég megi fullyrða að ekki ein einasta ættrakning hafi farið fram og verður það að teljast afturför í hópi eins og okkar. Nóg var af hefðbundinni umfjöllun um bankahrun og fjársvik ýmiss konar. Einnig var a.m.k. ein gamansaga í anda Kirkjuráðs sögð. Þrátt fyrir langhlaup gærdagsins vorum við blómasalinn bara sprækir og tókum alveg þokkalega á því, alla vega svitnaði undirritaður á hlaupinu, sem gerist ekki oft í sunnudagshlaupum.

René fór aðra leið en við og hvarf okkur í Skerjafirði. En við áfram í alveg yndislegu vorveðri. Þegar við komum á Hlemm sáum við hann aftur þar sem hann skeiðaði niður Snorrabraut. Við Sæbraut gerðust stórtíðindi, René skaut Þorvaldi ref fyrir rass með svo glæfralegu stökki fram fyrir bifreiðar sem þar voru á ferð að það munaði ekki nema nokkrum sentimetrum að hann yrði keyrður niður. Það hvarflar að mér hvort hann hafi misskilið eitthvað aðdáun okkar á Þorvaldi, að  hann haldi að við lítum á þessi bílastökk sem sérstakt hetjubragð. Þetta endar náttúrlega bara með skelfingu, eins og Biggi sagði. Einhver endar ævina framan á stórri bílrúðu og það koma bara menn í hvítum göllum með kíttispaða að skafa leifarnar niður í svarta plastpoka.

Á Geirsgötu var hraði aukinn og tekinn góður sprettur, sem sýnir að menn eiga heilmikið eftir þrátt fyrir langhlaup gærdagsins. Teygt við Laug. Blómasalinn gerði úttekt á bíl Jörundar sem er farinn að lýsa rauðu ljósi og skýring finnst ekki á. Atli þjálfari KR kvartaði yfir því að ungviðið kynni ekki einföldustu líkamsæfingar, svo sem að sippa. Nú væri ekki hægt að hreyfa sig nema tengjast e-i maskínu sem knýr manninn áfram, hlaupabretti, stigtrappa eða hvað þetta heitir. Það er eitthvað annað með ykkur, sem þurfið ekki annað en guðsgræna náttúruna að hreyfa ykkur í!

Fámennt í potti, Baldur mættur og taldi Ó. Þorsteinsson vera á Túndru. Rætt um helztu verk í leikhúsum borgarinnar. Talað um tíma og spurt: hvað er réttur tími á Íslandi. Stuttu síðar komu frú Helga og Stefán - en fleiri voru ekki mættir þegar ritari þurfti að hverfa á brott í bröns uppi í sveit.

Á morgun hefst ný hlaupavika, mæting stundvíslega kl. 17:30. Sprettir, trúi ég. Nú fer þetta bara versnandi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband