Reykjafellshlaup 2010

Reykjafellshlaup fór fram laugardaginn 11. september þetta árið. Safnast var saman við Vesturbæjarlaug um 14:30, þessir mættir: Jörundur, Þorvaldur, Flosi, Magga, Rúnar (til ráðgjafar), Einar blómasali, Ólafur ritari, Helmut, dr. Jóhanna, próf. Fróði, Melkorka dóttir hans, Kári og Anna Birna á reiðhjólum, Albert, Ragnar, Frikki, Rúna, dr. Karl, Georg hinn þýzki, Rakel, Biggi jógi og Teitur á hjóli með vatnsbirgðir. Hiti 12 stig, uppstytta, logn, veður gerist ekki betra til hlaupa. Samstaða um að hafa þetta félagshlaup, fara rólega og halda hópinn. Þorvaldur æddi af stað á undan öðrum og prófessorinn á eftir honum, aðrir rólegri. Eftir það var tæplega um neitt félagshlaup að ræða, farið á 5:30 innúr og hraðinn jafnvel aukinn er fram í sótti.

Upphafið lofaði góðu, menn virtust vel á sig komnir og tilbúnir í langt. Á leiðinni birtust þeir Bjarni og Bjössi á reiðhjólum, hvatt var til þess að hópurinn gerði stanz við Víkingsvöll og tímajafnaði. Hér munu Þorbjörg K. og Þorbjörg M. hafa bætzt í hópinn, svo og Dagný, en þær voru farnar á undan. Bjössi kom inn í hópinn hér. Staldrað við í 8 mín. og svo haldið áfram í Elliðaárdalinn, yfir árnar á brú og inn Sævarhöfðann. Undir Gullinbrú og upp brekkuna löngu og erfiðu upp í Grafarvoginn. Aftur dokað við hjá myndastyttunum.

Haldið áfram og tempóið keyrt upp. Farið  meðfram ströndinni og golfvellinum, endalausir stígar. Maður var orðinn heldur þreyttur í lokin, en þó var hlaupi lokið með sóma. Komið í Varmárlaug um fimmleytið. Þar réðust menn á bjórkassa blómasalans, opnuðu og rifu til sín bjórana. Teygt fyrir utan laug og spjallað saman. Svo gekk hópurinn til baða og laugar, m.a. farið í pott með köldu vatni.

Eftir þetta var haldið í sveitina hjá Helmut og Jóhönnu, etið, drukkið og skemmt sér. Þar sem við Flosi þurftum að fara í afmæli mágkonu okkar stöldruðum við stutt við, en af frásögnum manna má merkja að kvöldið hefur verið viðburðaríkt. M.a. mun jóginn hafa mundað gítarinn og spilað flamenco, en prófessorinn hóf upp raust sína og söng um tilurð alheimsins.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Ég vil minna á að kaldi potturinn í Varmárlaug gerði mikla lukku þótt hann væri bara fiskikar með garðslöngu.

Það var mál manna að leggja til að slíkur pottur verði fenginn í Vesturbæjarlaug.

Svo vil ég líka færa til bókar, að ég hljóp fyrri hluta leiðarinnar en hjólaði seinni hlutann til skiptis á móti Bjarna.

Kári Harðarson, 12.9.2010 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband