Goldfinger á miðvikudegi

Enn kastaðist í kekki með þeim Bjössa og blómasalanum í Útiklefa; Bjössi nýkominn af myndinni Ghost Writer og blómasalinn sveik samkomulag um að mæta. Þeir fóru tveir, Bjössi og Biggi. Í hléi uppgötvaði Biggi að hann hafði týnt bíllyklunum. Sneri við hálfum bíósalnum í leit að lyklunum. "Þú ert ljóti dj... hálfvitinn!" sagði Bjössi. "Já, það má fara panta fyrir mig herbergi á stofnun", sagði Biggi. Þeir röltu gneypir áleiðis að umræddu farartæki, hvað þeir ætluðu að gripa til bragðs veit enginn, en frekar en gera ekki neitt reynir Biggi við hurðina. Viti menn! hún opnast. Hann þreifar um svissinn - þar fann hann lykilinn. Hann varð himinlifandi, en jafnhissa á því að þeir hefðu setið í gegnum heila kvikmynd og engum dottið í hug að stela bílnum. Bjössi var hins vegar ekki eins hissa.

Fjöldi hlaupara mættur í Brottfararsal. Fyrstir mættir Þorvaldur og prófessor Fróði, þeir biðu í Salnum, spenntir eins og litlir messudrengir, eftir að hlaup hæfist. Svo tíndust þeir hver af öðrum auk áðurnefndra, Flosi, dr. Karl, Dagný, dr. Jóhanna, Flóki, Magga þjálfari nýkomin frá Köben, Albert og svo kollegi sem þeir sögðu að væri frá Ástralíu, en mig grunar að sé þýzkur.

Menn eru afskaplega fastir í Þriggjabrúa - og Magga lagði það til. Það hnussaði í okkur Ágústi yfir þessu metnaðarleysi - kváðumst stefna á Goldfingar. Ég lagði hart að blómasalanum að koma með okkur. Nei, hann kvaðst þurfa að laga mat í kvöld. En Flosi féllst á að koma með okkur. Aðrir settu markið lægra. Hersing af stað og fljótlega vorum við Ágúst fremstir í flokki og sáum varla til hinna það sem eftir lifði hlaups, nema Flóki náði eitthvað að fylgja okkur eftir.

Einhver mótvindur á leiðinni, en í Nauthólsvík var dýfingakeppni af klettinum. Á Flönum var manni farið að líða bærilega - en enn þarf að brjóta sér leið niður hjá kirkjugarði, þar eru einhverjir verktakar að slugsa við skógarstíg og búnir að vera að þessu í allt sumar að því er virðist. Þar má fara varlega vegna vinnuvéla sem eru að moka. Áfram yfir brú, við förum að mæta hlaupurum í Laugaskokki, Gústi þekkir annan hvern þeirra.

Þegar komið er í Fossvoginn verða á vegi okkar fjölmennir hópar íturvaxinna kvenna sem skeiða fram og aftur um dalinn, og eru greinilega samantekin ráð að fara út að hlaupa og bæta líðan sína og heilsu. Ágúst tekur Kópavogslykkju, en ég held áfram. Doka við þegar komið er að Víkingsvelli og leyfi Gústa að ná mér. Við tökum þríhyrning þarna rétt hjá til þess að leyfa Flosa að ná okkur. En hann svíkur, hann setur stefnuna á 69. Við áfram og upp brekkuna góðu inn í Smiðjuhverfið.

Nú er hún Snorrabúð stekkur og Goldfinger búinn að vera. Þangað er ekkert lengur að sækja svo að við höldum áfram og undir brú á Breiðholtsbraut. Ágúst fer að segja mér sögu, sem myndi líklega flokkast með dónamannasögum í bókmenntafræðinni. En þetta er löng saga, svo löng að hann nær ekki að ljúka henni áður en leiðir skilja og hann setur stefnuna upp í Breiðholtið og upp að Stíbblu, en ég áfram niður Dalinn. Þetta verður framhaldssaga.

Nú fer maður að finna fyrir þreytu og þá er bara að drífa sig tilbaka. Það er erfitt og einmanalegt, en ég stytti mér stundir með ipodinum, hlusta á hvern snillinginn á eftir öðrum. Enn var pottur er komið var tilbaka, en maður gat aðeins staldrað stutt.

Næst er hvíld hjá þessum hlaupara og svo - Reykjafellshlaup. Vel mætt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband