Úrhelli á mánudegi

Engir þjálfarar á mánudegi, en hins vegar fullt af hlaupurum. Spurning hvort maður man eftir öllum, Þorbjargir tvær, dr. Jóhanna, Jörundur, Flosi, dr. Friðrik, próf. Fróði, René, Einar blómasali, Kári, Bjössi, Benzinn, ritari, Ragnar, Eiríkur, Flóki og Magnús. Þrátt fyrir að engir væru þjálfararnir komu menn sér saman um að taka hlaup út að Skítastöð og svo vestur á Nes og taka Bakkavarir, gamalkunna rútu. Og vegna þess að prófessorinn var að drepast í hásininni skyldi farið rólega. Haldið af stað í rigningarúða en hlýju veðri upp á Víðimel, svo út á Suðurgötu og stefnan sett á Skerjafjörðinn. Hér vorum við prófessorinn fremstir ásamt Flóka sem einnig hefur þurft að kljást við meiðsl og tempóið ekki yfir 5 mín.!

Tekinn Einhyrningur við Skítastöð og kúrsinn settur á Nes. René stytti sér leið og tók forystuna, á eftir komu Jóhanna og Ragnar, svo við Gústi. Tempóið hélt áfram á Ægisíðu og það fór að rigna fyrir alvöru.  Af því að Ágúst var meiddur fór hann bara rólega og tók fram úr þeim Ragnari og Jóhönnu á leiðinni á Ægisíðu, svo kom ég á eftir og tætti fram úr þeim, þau eru orðin voða róleg þessa dagana. En Flóki fyrir sitt leyti niðurlægði prófessorinn við Steinavör og þeyttist fram úr honum þar.

Bakkavör beið okkar, en einhverra hluta vegna kusu flestir að stíma framhjá, nema hvað við Jóhanna og Ragnar tókum nokkra þéttinga upp brekkuna, ég fjóra, þau átta. Ég fór svo Lindarbrautina yfir á Norðurströnd og lauk hlaupi holdvotur og á blautum og þungum skóm sem íþyngdu mér. Það voru lúpulegir menn sem biðu mín í Móttökusal og höfðu farið stutt og hægt. Einkennilegt hvað menn svíkjast um þegar þjálfararnir eru ekki með til að halda uppi aga.

Gríðarlega þéttur pottur, við lögðum hann undir okkur allan hringinn. Biggi mætti og kvaðst vera farinn að hlaupa með Árbæjarskokki. Sagðar margar góðar sögur og höfð í frammi hvers kyns kerskni. Menn hlakka til bedúínatímans hjá blómasalanum, þegar fer að kólna í veðri og norðanvindur næðir um hold og bein. Venju samkvæmt á mánudögum mikið rætt um áfengi, m.a. hvernig mætti eima rauðspritt til drykkju. Var þá fullyrt að rauðspritt væri alls endis meinlaust til drykkju, það "tæki bara svolítið í augun"! Stundum finnst manni þetta vera drykkjusamkunda en ekki hlaupaklúbbur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband