Gæði umfram magn

Það var föstudagur og stórkaupmaður í Vestbyen var að sögn búinn að greiða gömlum barnakennara fyrir ónýtt Garmin-úr, uppsett verð, að sögn. Einhverjir hlupu í Icelandair hlaupi og náðu að setja persónuleg met; aðrir náðu að ljúka hlaupi. Svo fara Laufáss-hjón á fjöll á morgnana áður en nokkur maður er kominn á fætur. Ýmislegt hafast menn að. 

Þessir voru mættir í hlaup föstudags: próf. Fróði, Helmut, Bjarni Benz, skrifari, Kári og Ingi. Við áttum gæðastund í Brottfararsal fyrir hlaup og hvöttum hver annan til afreka á þessum degi. Helmut spurði að vísu hver væri stytzta þekkt vegalengd í hlaupi svo að það fengist viðurkennt sem hlaup. Prófessorinn misskildi spurninguna og fór að tala um 50 og 60 m hlaup - skrifari sagði hins vegar að stytzta þekkta hlaup hjá Samtökum Vorum væri út að Skítastöð og tilbaka.

Dr. Jóhanna og Rúna sviku okkur í dag, ákváðu að fara frekar á reiðhjólum inn í Heiðmörk.

Við lögðum af stað í ágætu veðri, sólbjart var, stillt og hiti 12 stig. Farið hægt af stað. Kári var ósáttur við að Maggi mætti ekki til hlaups, hann hafði fyrir því að viða að sér brandörum til þess að kæta tannlækninn, svo mætir hann ekki! Þess í stað sagði hann okkur brandarana. Einn var um konu sem kom á lögreglustöðina og sagði farir sínar ekki sléttar, Land Roverinn hefði drepið á sér þegar hún var á leið til vinnu og átti ófarna 100 m, svo að hún varð að snúa við og fara heim, en þegar heim var komið gómaði hún eiginmanninn við að máta kjólana hennar framan við spegilinn "og hvað á ég að gera, lögreglumaður?" "Sko, þegar Land Rover drepur á sér 100 m frá vinnunni þá er líklega kominn skítur í olíuverkið og það þarf að hreinsa það rækilega..." Svo var annar brandari um mann sem gat lýst bílnum sínum betur fyrir lögreglu en brotthlaupinni eiginkonu. 

Þarna dóluðum við okkur, missprækir, Gústi alveg að springa af orku og spenningi, Benzinn bara nokkuð flottur og sömuleiðis þeir hinir, skrifari í alveg þokkalegu formi. Ingi og Kári tóku skemmri skírn í dag, Kári kvaðst hafa farið Hlíðarfót, en við Benz og Gústi fórum hefðbundið, hjá Jósefínu, Hi_Lux, Kirkjugarður og Veðurstofa. Hér hafði skrifari orð á því að hafin væri herferð til höfuðs Samtökum Vorum á vefsíðunni hlaup.is - þar sem hlauparar sem ganga undir heitinu KR-skokk gefa sig út fyrir að vera einu hlaupararnir í Vesturbænum og hafi sankað að sér 50 manns, aðallega eldri og miðaldra einstaklingum í lítilli þjálfun. Það er til sanns um þá staðreynd að Hlaupasamtök Lýðveldisins eru hógværasti hlaupahópur landsins að þau skuli láta þennan ófögnuð yfir sig ganga og halda jafnaðargeði sínu. Enda afgreiddi prófessorinn málið með þessum orðum: "Það er sitthvað magn og gæði. Geta þessir einstaklingar eitthvað hlaupið? Hafa þeir unnið afrek?" Segir maður sem kýs að hlaupa 250 km í eyðimörkinni frekar en að draga á sig hlaupaskúa og drattast 7 km eins og sumir.

Jæja, þetta var svolítið erfitt, skrifari að koma tilbaka og byggir upp þrek og þol. Gústi beið eftir okkur á öllum strategískum punktum, svo sem í brekkunni í Öskjuhlíðinni og þá gekk ekki að drolla, við píndum okkur upp brekkuna. Sama gerðist á Klambratúni og Sæbraut, það var þéttingur frá Sólfari að Hörpu. Þar fundum við Benz slöngu sem kalt vatn rann úr, drukkum kalt vatn ekki vitandi hvaðan það var runnið, en gott var það! Einhver bið virðist ætla að verða á því að Hreppsnefndin skrúfi frá krönum Borgarinnar þrátt fyrir fögur fyrirheit. 

Höfn, Ægisgata og Ágúst framlengdi í Ánanaust, en við Benz tókum niður höfuðföt, hneigðum höfuð okkar í bljúgri bæn og signdum okkur frammi fyrir krossi Krists í Kristskirkju. Hér söknuðum við Denna sálufélaga okkar. Haldið niður Hofsvallagötu á hæfilegu tempói og lukum hlaupi löðrandi sveittir og þreyttir. Frábært!

Stuttur Pottur með þátttöku próf. dr. emeritusar Einars Gunnars Péturssonar, en minnt er á sunnudagshlaup kl. 9:10 nk. sunnudag. Mánudagur verður vandamál þar eð Laug verður lokuð, og Seltjarnarnesslaug verður einnig lokuð! Hvað gera bændur þá? Laugardalur?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband