Færsluflokkur: Pistill Ritara

Flatbökuveizla Hlaupasamtakanna við Bragagötu

Að loknu hlaupi dagsins var mannskapnum stefnt til hinnar árlegu flatbökuveizlu Hlaupasamtakanna við Bragagötu. Þar er ónn einn góður sem bakar flatbökur á svipstundu. Á staðinn mættu: Helmut og Jóhanna, Flosi, Þorvaldur, próf. Fróði og Ólöf, Denni, Ragnar og frú, Frikki og Rúna, Pétur, skrifari, Bjössi og húnninn, Benzinn, Kári og Guðrún. Góð mæting og var gleðin við völd.

Þótt hvert rúm hafi verið skipað völdum einstaklingi, vakti eftirtekt að ónefndur blómasali lét ekki svo lítið að mæta á staðinn þrátt fyrir yfirlýsingar öndverðrar náttúru fyrr um daginn. Var mörgum getum leitt að því hvað ylli. Fyrstu getgátur voru á þá leið að hann kynni ekki á klukku. Svona geta menn verið illgjarnir!

Skrifari vissi þó að upplýsa að blómasalinn hefði ætlað í sumarhöll sína í Byskupstungum og trúlega hefði hann séð þann grænstan að halda beinustu leið í sveitina í stað þess að vera að staldra við í 101 og eyða peningum í mat sem mætti sem bezt útbúa kominn austur. Alla vega veltu menn vöngum fram og tilbaka um ástæður þess að hinn ágæti félagi okkar léti undir höfuð leggjast að mæta á Fyrsta Föstudegi.

Kvöldstundin var hin ánægjulegasta og nutu menn góðs matar og drykkja á Eldsmiðjunni - haldið var út í nátt og snæ í góðum gír.


Súludans norðurljósa

Ekki hafði skrifari mikla trú á mætingu sem neinu næmi í því grimmdarfrosti og glerhálku sem ríkti þennan síðasta dag nóvembermánaðar AD 2011. Og til að byrja með leit út fyrir að aðeins hörðustu harðdálkar myndu láta sjá sig þennan dag: Benzinn og Kári biðu í Útiklefa, að viðbættum barnakennaranum og skrifaranum úr kansellíinu þá stefndi í Naglahlaup. En svo fóru hinir og þessir að skjóta upp kollinum: blómasalinn, Hjálmar, Ósk, dr. Jóhanna, Helmut, Ragnar, Gummi, Haraldur og Heiðar. Með slíkri mætingu varð ljóst að ekki yrði settur neinn sérstakur hetjustimpill á hlaup dagsins. Engu að síður verður að gefa fólki plús fyrir að mæta í sjö stiga frosti og vitandi að stígarnir yrðu glærir af hálku.

Ræddir möguleikar í hlaupi dagsins og samþykkt að fara á Nes, þar væri síðan hægt að fara lengri eða styttri vegalengdir. En þegar komið var niður á Ægisíðu var hins vegar snúið til vinstri inn á Sólrúnarvelli í stað þess að fara til hægri á Nesið. Slík hjarðhegðun er bara rannsóknarefni fyrir félagsfræðinga, en skrifari er með prófgráðu í þeirri fræðigrein (ein af fjórum, ekki fimm)og ávallt heillaður af hegðun fólks. Ekki verður leitað skýringa á þessari breytingu, en hennar eingöngu getið þar sem hún er merkileg.

Stígar voru stórhættulegir, glerhálir og mátti fara varlega. Má merkilegt heita að ekki hafi verið borinn sandur á leiðir því fjölmargir leita á stíga út til heilsubótar sér og lífsfyllingar. Mætti halda að íhaldið væri komið til valda á ný í borgarstjórn og minnir á þá tíma að snjó var mokað af götum upp á gangstéttir svo að bílar auðstéttarinnar kæmust leiðar sinnar um götur borgarinnar og skítt með það þó farlama ellilífeyrisþegar brytu lappirnar við það að klöngrast yfir svellbúnkana.

Sama tvískipting og tíðkast hefur síðustu misserin og virtust hraðfarar ekki hafa miklar áhyggjur af hálkunni. En við hinir skynsamari menn, skrifari, blómasali, Benz og Helmut, tókum því rólega. Skrifari var kappklæddur, í tvennum buxum, bol, flíspeysu og úlpu, balaklövu og öðru eftir því. Þeir hinir eitthvað aðeins léttklæddari, en fóru sér hægt engu að síður. Á leiðinni var rætt um hvaða leið yrði farin. Við tókum eftir að norðurljós dönsuðu kringum friðarsúlu Lennons og vildi Helmut ólmur halda í áttina að þeim, fara helst Þriggjabrúa og um Sæbraut. Skrifari var það þungur á sér að hann vildi fara stytztu leið tilbaka, Hlíðarfót. Niðurstaðan varð sú að fara Hlíðarfót og lengja um Miklubraut, Klambratún, Rauðarárstíg og gera stanz á Sæbraut til að skoða norðurljós. Við tíndum Kára upp á leið okkar, hann var hægur.

Framangreind fyrirætlan gekk eftir að mestu og má kalla kraftaverk að við sluppum við meiriháttar slys og líkamsmeiðsl, skrifara skrikaði fótur í Eskihlíð eða þar um bil, og Helmut datt fagmannlega á Sæbraut, en spratt upp sem fjöður áður en hann var lentur. Við virtum norðurljós fyrir okkur um stund, en héldum svo í átt að Hörpu, sem skartaði fagurri ljósasýningu í kvöld.

Teygt vel í Móttökusal, en það er merkilegur fjandi hvað sumum er alkóhólið hugleikið. Það var farinn hringurinn og innt eftir hvað hver og einn ætti mikið af jólabjór í ísskápnum. Slíkt mætti reyna að forðast, því að eftir hlaup, þegar búið er að byggja upp góðan þorsta, er ekki gott að færa talið að hinum gullna miði sem svalar þyrstum hlaupara betur en nokkur annar drykkur. E.t.v. ætti að stofna bindindismannadeild í Hlaupasamtökunum fyrir þá sem þola illa áreitið af eilífu tali um bjór.

Jæja, mýsnar dvöldu heima í dag og kallast því með réttu mýs en ekki menn. Og á föstudag halda Hlaupasamtökin upp á Fyrsta Föstudag á Eldsmiðjunni við Bragagötu þar sem hún Jóhanna okkar hefur tekið frá borð fyrir þá sem látið hafa vita að þeir munu mæta. En fyrst er hlaupið. Vel mætt!


Veður gerast viðsjárverð

Vetrarmyrkrið allsráðandi í Vesturbænum þegar hlauparar safnast til hlaupa frá Vesturbæjarlaug sem er fimmtíu ára þessa dagana. Meira um það seinna. Mættir: Magnús, Helmut, blómasali, skrifari, Magga, Ósk, Hjálmar, Heiðar, Haraldur, Ragnar, dr. Jóhanna og Jóhanna Ólafs. Hlaupið tvískipt í dag: annars vegar þeir sem fara hratt, þeir tóku spretti á Flugvallarbraut; en við hinir fórum Suðurhlíð, það voru skrifari, blómasali, Helmut og Maggi. Við fórum fremur hægt, en héldum þó vel áfram, t.d. upp Suðurhlíðina, sem er löng og tekur á.

Brautir voru hreinar og greiðfærar, en einhver hálka og mátti fara varlega. Ósk á utanvegaskóm með grófum sóla og virðist skynsemi í því. Veður betra en ætla mátti í upphafi og varð að létta á fatnaði á leiðinni. En í Nauthólsvík fór aftur að blása köldu og þá varð að draga balaklövu á ný yfir eyru. Á leiðinni komu fram margar góðar hugmyndir um hátíðahöld. M.a. var gerð tillaga um að tileinka föstudagshlaup hálfrar aldar afmæli Laugar Vorrar og halda að hlaupi loknu upp á Fyrsta Föstudag á völdum flatbökustað. Verður það auglýst sérstaklega.

Pottur fremur fámennur að hlaupi loknu, aðeins við Helmut. Nú verður fróðlegt að sjá mætingu á miðvikudaginn er kemur þegar spáð er 13 stiga frosti. Þá verður spurt: "Ertu maður eða mús?" Vel mætt!


Þriggjabrúa í hálku

Veður alvitlaust á hádegi þegar skrifari fékk eftirfarandi sms-skeyti frá villuráfandi blómasala sem telur sér hentara að spóka sig í útlöndum en að vinna á þyngdaraukningu sem er farin að valda áhyggjum í ólíklegustu stöðum:"Langs 2 egils gull og burger king grande meal. Julefrukost í kvöld." Lýsti hann yfir fyrirætlunum um að drekka julebryg í stað þess að hlaupa. Hvað er enda eðlilegra þegar menn eru staddir í Kóngsins Kaupinhafn? Hvar er Jörundur? Af hverju mótmælir hann ekki utanlandsferðum kapítalista?

Þessir mættir: Þorvaldur, dr. Jóhanna, skrifari, Hjálmar, Haraldur, Ósk, Magnús og svo bættist Ragnar í hópinn í myrkrinu á Ægisíðu. Ekki mikil mæting og ljóst að sólskinsnafnbótin ætlar að ná þokkalegri útbreiðslu. Á þessum tímapunkti var veður að mestu gengið niður og orðið stillt, þurrt, en þó svalt, allgott hlaupaveður og var maður feginn að hafa haft rænu á að mæta. Ekki urðu umræður í Brottfararsal um vegalengdir eða leiðir, skrifari tók af skarið og fór út að hlaupa.

Nú er myrkur á Ægisíðu um það leyti sem hlauparar hefja hlaup. Þá er hætt við að hlauparar rekist á gangandi vegfarendur, en slíkri hættu var forðað í kvöld. Farið á þokkalegu tempói, en fljótlega fóru þau hin fram úr skrifara og rann það upp fyrir honum að Hlaupasamtökin væru að skiptast í ólíkar deildir: hraðferð og hægferð, svoldið eins og tvistar og þristar í framhaldsskólunum. Hér áður fyrr hlupu menn saman í hóp og áttu uppbyggilegar samræður, en nú hlaupa hraðafantar fremstir og tala aðeins um eitt: hlaup. Þvílíkur bömmer!

Jæja, skrifari sat uppi með Þorvald af Kleppi og hlupum við þegjandi inn í Nauthólsvík, ekki orð var sagt. Fyrr en Þorvaldur spurði um eitthvað sem ég man ekki lengur hvað var og getur ekki hafa verið merkilegt. Hann lét sig falla til baka um þetta leyti og ljóst að stefndi í styttingu. En skrifari var einbeittur í að leggja að baki ekki færri en 13,6 km í dag. Hann hélt því áfram niður hjá Kirkjugarði og stefndi á Kringlumýrarbraut. Yfir brú og upp hjá Bogga, fór þetta léttilega. Allnokkur hálka á stígum og mátti fara varlega.

Það var Útvarp, Miklabraut, Kringlumýrarbraut í norður og svo Sæbraut. Enginn reyndi að keyra mig niður og var ég því þakklátur. Einhver þreyta fór að gera vart við sig á Sæbraut, en skrifari er í teygjuprógrammi hjá dótturinni út af hamstringinu, sem er búið að vera í tómu tjóni í tvö ár og varð til þess að hann varð að ganga frá Emstrubotnum á Laugaveginum sællar minningar í sumar alla leið í Þórsmörk. Þetta verður til þess að eymslin og sársaukinn vaknar til lífs á ný, en gott að því leyti að það er tekið á málunum, verkurinn tældur upp á yfirborðið og tekizt á við hann eins og Grettir tókst á við Glám forðum.

Jæja, þetta gekk nokkuð vel, farið um verbúðahverfið þar sem veitingastaðir spretta upp eins og gorkúlur. Upp Ægisíðu og svo tilbaka hefðbundið. Pottur stuttur og snarpur, þar var rætt um þýzka representasjón á Íslandi, sem hefur verið misjöfn. Benzinn mættur í Útiklefa óhlaupinn og eiginlega ekki viðræðuhæfur. Ræddar sameiginlegar áhyggjur af ólifnaði ónefndra blómasala.


Er hjólreiðafólk og hlauparar réttdræpir?

Móðir skrifara sálug hafði ímugust á tveimur stéttum manna: leigubílstjórum og fasteignasölum. Hún fylgdist með blöðum og ef frétt birtist um að óvandaður fasteignasali hefði lent í þeirri ógæfu að svindla á viðskiptavinum og verið dæmdur til afplánunar í betrunarhúsi, hringdi hún gjarnan í næstu fasteignasölu og þóttist vera áhugasamur íbúðarleitandi. Eftir að hafa teymt sölumann á asnaeyrum nokkra stund sagði hún:"En er ykkur fasteignasölum nokkuð treystandi? Var ekki verið að stinga einum ykkar inn í fangelsi í morgun?"

Fasteignasalar koma ekki við þessa frásögn, en leigubílstjórar hins vegar. Er þar fyrstan að telja Bjarna Benz, sem mættur var í Útiklefa uppfullur af ásetningi um hlaup. Aðrir voru: blómasali, barnakennari, Þorvaldur, skrifari, Helmut, dr. Jóhanna, Jóhanna Ólafs, Magga, Jörundur, Guðmundur sterki, Haraldur, Ragnar, Heiðar og Ósk. Manni fannst þetta vera mökkur af fólki og langt síðan svo stór hópur hefur hlaupið saman. Oft eru mánudagarnir fjölmennastir, þá er fólk uppfullt af góðum ásetningi eftir sukk helgarinnar, en svo daprast einbeitingin er líður á vikuna og þá eru það bara við, þessir staðföstu, sem mæta.

Blómasalinn nýkominn frá Washington, barnakennarinn frá Genóu, og ekki var Jörundur að hafa miklar áhyggjur af því. Hann beindi sem fyrr spjótum sínum að skrifara sem er alsaklaus af utanferðum síðustu sex vikurnar. Og svo fer blómasalinn aftur utan á miðvikudag. Jæja, veður fer kólnandi, hríðarhaglandi fyrr um daginn og stefndi í hálku. Ákveðið að fara austur Ægisíðu og stefna á Öskjuhlíð. Ekki ljóst hvað skrifari ætlaði að gera. Lenti í slagtogi við Helmut, sem sagði farir sínar ekki sléttar. Hann lenti í því í hjólreiðatúr sl. föstudag að það var ekið á hann inni í Sigtúni. En kurteis sem hann er bað hann ökumanninn afsökunar á að hafa verið að þvælast fyrir honum og kvaðst vona að bíllinn hefði ekki skrámast. Þrátt fyrir þessa limlestingu var hann mættur til hlaupa daginn eftir og fór 20 km úr Laugardal.

Eðlilega var hiti í mönnum að heyra svona sögur af tillitsleysi og ólæsi ökumanna á sitt nánasta umhverfi. Þeir sem vildu hraða för sinni í Öskjuhlíðina fóru fremstir og er líklega óþarfi að nefna nöfn; svo komu minni spámenn eins og við Helmut, Guðmundur og Þorvaldur, og á eftir okkur heyrðist í Bjarna Benz, Jörundi og blómasalanum, en þeir þögnuðu eftir 2 km. Í Nauthólsvík rákumst við á Flosa og það var ákveðið að fara Suðurhlíð. Helmut alltaf sterkur í brekkunni og skildi aðra eftir, við hinir eins og mæðiveikirollur á eftir.

Efra var dimmt og varð að fara varlega við Stokk og niður hjá dælustöð og niður að Flugvallarvegi. Svo var farið á góðu tempói um Hringbraut tilbaka. Við Þorvaldur héldum hópinn og hægðum á okkur er við komum að Sóleyjargötu. Þar kom leigubíll aðvífandi og hægði á sér, að því er við skildum, til þess að hleypa okkur yfir. Þorvaldur af stað, en þegar hann er framan við leigubílinn ætlar hann að rífstarta, Þorvaldur gerir vart við sig og leigubíllinn verður að snarstanza, en bílstjórinn leggst á flautuna frekar en ekki neitt. Við formælum honum ákafliga, og hefðum líklega dregið hann út úr bílnum og lamið hann ef við hefðum ekki verið hlaupandi séntilmenn. Oft hefur hurð skollið nærri hælum á viðburðaríkri hlaupaævi Þorvaldar félaga okkar, en ég hygg að aldrei hafi hann verið nær því að láta keyra yfir sig en í kvöld.

Jæja, það var farið á þokkalegu tempói tilbaka. Kom í ljós að þeir Jörundur, Benzinn og blómasalinn höfðu stytt. Almenn ónot á Plani. Heitur pottur að loknu hlaupi og nú fer þetta að verða algjör lúxus því það er farið að kólna í veðri og gott að komast í ylinn. Hálka á hlaupabrautum.


Sögur tannlæknisins

Er komið var í Útiklefa var þar fyrir á fleti Kári og skolaði af sér fyrir hlaup. Fljótlega bættust við Þorvaldur, Benzinn og Björn kokkur og höfðu tekið sér leyfi frá Landsfundinum til þess að mæta í hlaup. Sem betur fer eru þeir enn karlmenni, en ekki kjökrandi rakkar, enda væri slíkt með öllu óþolandi í Samtökum Vorum. Þorvaldur breiddi úr sér eins og hann er vanur og dugðu ekki færri en sjö krókar til þess að varðveita reyfið af honum þetta sinnið. Hann var áminntur um að það væru fleiri sem þyrftu króka, við værum í samfélagi bræðra, en hann skellti skollaeyrum við. Gott hljóð var í mönnum, en ljóst að sumir hafa bætt duglega við sig speki, Björn hins vegar orðinn skorinn og snyrtilegur að öllu leyti.

Er út var komið bættist Magnús tannlæknir í hópinn og á Plani var Rúna að hita upp. Kári teygði okkur út að vélfáki sem hann hefur nýlega innhöndlað, fimm ára gamlan Suzuki grip Boulevard, glæsilegt tæki með töskum fyrir ýmislegt og jafnvel sæti fyrir vinuna. Hann sagði okkur að í BNA væri hægt að kaupa sér jakka með áletruninni "If you can read this the bitch has fallen off" á bakinu, en hann myndi aldrei kaupa sér slíkan jakka. Við óskuðum honum til hamingju með gripinn og lýstum yfir ósk um að hann mætti vel njóta.

Hlaupið af stað í hreint ótrúlegri blíðu. 10 stiga hiti, logn og bara bongó í miðjum nóvember, hvenær hefur þetta gerst? Þeim mun meiri vonbrigði og furða á að ekki fleiri skuli mæta til hlaupa. Spurt var um próf. Fróða sem ku vera á leið til Marokkó í marz. Vissi einhver um afdrif hans? Einhver taldi sig vita að hann hefði ætlað að mæta fljótlega eftir meiðsli, en hafði ekki á reiðum höndum skilgreiningu á hugtakinu "fljótlega". Vitað var að barnakennarinn var í Genóu, blómasalinn í Washington, en menn voru alveg gáttaðir á fjarveru Jörundar prentara: hvað er í gangi hér? Er maðurinn að verða fráhverfur hlaupum með Hlaupasamtökum Lýðveldisins?

Okkur leið vel á Ægisíðunni, enda var samstaða um að fara hægt og stutt. Þorvaldur alltaf að derra sig eitthvað, þvælast fyrir fólki, taka útúrdúra með búkhljóðum, ræskingum, hóstum og ropum. Við hin vorum bara spök. Það tognaði á hópnum, Kári fór skynsamlega, hljóp, gekk og teygði. Benzinn var dapurlegur enda búinn að þyngjast mikið og farinn að daðra við þekkt desítonn, hann dróst aftur úr. Við hin héldum bara sama, rólega tempóinu. Fórum upp Hi-Lux og brekkuna í Öskjuhlíð. Dokuðum við efra ef vera skyldi að eftirlegukindur birtust, en þegar svo var ekki héldum við áfram.

Það var Veðurstofa, Saung- og skákskóli Lýðveldisins þar sem hann Vilhjálmur okkar aflaði sér menntunar sinnar, Klambrar og Hlemmur og loks var stefnan sett á Sæbraut. Einhver misskilningur hafði komið upp og menn týnst, en við mættumst aftur á Otharsplatz, og eftir það var farið saman til baka til Laugar. Það kom einhver púki upp í okkur og það var farið að segja vafasama brandara, sem ekki eru birtingarhæfir. Og of langt mál að skrifa þá niður.

Stuttur pottur, enda ábyrgir menn á ferð sem þurfa að elda ofan í mannskapinn. Í gvuðs friði.


Daðrað við desítonnið

Í töflubók Hlaupasamtaka Lýðveldisins jafngildir desítonn 100 kílógrömmum. Alla jafna eru ekki margir hlauparar í námunda við þann líkamsþunga. En þessi missirin eru þó sumir farnir að halla hættulega mikið í þá áttina, farnir m.ö.o. að daðra við desítonnið. Af minna tilefni hefur verið sagt við menn af þessari alkunnu nærgætni sem við félagar Samtakanna erum svo þekktir fyrir: "Djöfull ertu orðinn feitur!" Jæja, fyrr á þessum degi heyrðist landskunnur blómasali hafa yfir heitstrengingar um hlaup í dag til þess að vinna gegn þyngdaraukningu undanfarinna vikna. En hvað gerist: enginn blómasali þegar safnast var saman í hlaup kl. 17:30. Mætt: Maggi, Flosi, Magga, dr. Jóhanna, Helmut, Ósk, skrifari og Heiðar sálfræðinemi, síðar bættust Jóhanna Ólafs, Haraldur og Frikki kaupmaður í hópinn, en það er búið að banna þeim síðastnefnda að hlaupa.

11 stiga hiti, uppstytta og einhver vindur. Orðið aldimmt þegar hlaupið er. Haldið upp á Víðimel og þaðan Suðurgötu og suður úr á allhröðu tempói. Skerjafjörður og svo fórum við Helmut og Maggi austurúr, og Flosi þar fyrir framan. Aðrir hafa líklega haldið á Nes. Það var einhver mótvindur þarna, en ekkert til þess að gera veður út af. Við vorum nokkuð sprækir og héldum góðum hraða út í Nauthólsvík, þar sem sást til Flosa fara Hlíðarfót og Maggi hélt í humátt á eftir honum. Við Helmut vorum staðráðnir að fara Suðurhlíðar en liggja dauðir ella.

Brekkan var engin fyrirstaða, það var keyrt upp á fullu tempói, upp að Perlu og þaðan áfram niður stokkinn í myrkrinu. Eftir þetta var hlaupið bara sæla og var gott að taka vel á því á Hringbrautinni. Hér varð manni hugsað til þess digra, mikið hefði hann haft gott af því að renna skeiðið í dag! Skyldi honum ekki líða illa að hafa misst af hlaupi?

Teygt vel og lengi á Plani og í Móttökusal. Þau hin komu tilbaka um svipað leyti og við, útkeyrð eftir spretti. Umræður í Potti skiptust í tvennt. Blómasalinn ræddi um klósett, upphengi, málningu og veraldlegar eigur. Dr. Jóhanna talaði um Heimsljós Nóbelsskáldsins og klassíska snilldina í verkum hans. Svona eru áhugasviðin ólík í hópi vorum og ekkert um það að segja.

Það má lengja lítillega á miðvikudag.


Vassmýrarvegur

Fagur sunnudagsmorgunn og fjórir mættir til hlaupa í Hlaupasamtökum Lýðveldisins: Flosi, Magnús, Ó. Þorsteinsson og skrifari. Það var tekin löng sessjón á Plani þar sem þetta var helzt: útför Ólafs Oddssonar íslenzkukennara í Reykjavíkur Lærða Skóla, sextugsafmæli Ingjalds Hannibalssonar og frammistaða hans Vilhjálms okkar í Hrepparnir keppa. Eftirminnilegur leikur Magnúsar á svari VB við spurningunni um staðsetningu BSÍ: "Hringbraut, Hringbraut. Vassmýrarvegur!" hrópaði Villi, henti frá sér blýantinum, hallaði sér aftur með sigurglott á vör og malaði eins og köttur.

Er við fórum á hægu tölti mætti okkur blómasalinn og kvaðst þá þegar vera búinn að fara tíu kílómetra, ekki veitti honum af enda væri hann orðinn feitur og þungur. Viðstaddir tóku undir þær áhyggjur hans og spurðust fyrir um hvernig á því stæði. Mataræði. Veður var hagstætt, 9 stiga hiti, þurrt og nánast logn. Skrifari spáði fyrir um að við myndum mæta tveimur mönnum í dag: Vilhjálmi og Jörundi. Ekki vorum við komnir langt á hlaupabrautinni er okkur mætti kunnugleg sýn: þarna var kominn sjálfur Vilhjálmur Bjarnason á reiðhjóli og staðnæmdist til þess að eiga við okkur stutt spjall. Ekki höfðum við heldur lengi skrafað er við sáum aðra kunnuglega sýn: Jörundur Guðmundsson prentari hlaupandi og horfði á okkur tómu augnaráði, sagði ekki orð en hljóp framhjá okkur eins og við værum honum með öllu ókunnugir.

Á leiðinni út í Nauthólsvík var haldið áfram að greina umræðuefni dagsins, sem við rétt tæptum á í upphafi hlaups. Bar á góma þekktar herrafataverzlanir í Shaftesbury Street í Lundúnum, þar sem mönnum er enn í minni heimsókn þeirra Vilhjálms Bjarnasonar og Ólafs Þorsteinssonar 1979. Merkjaæði Ólafs er þekkt og var í dag rætt um vaxborinn jakka frá Barbour, sem ku vera afbrigði af Burberry. Í Kirkjugarði var hlaupið framhjá leiði Ottós N. Þorlákssonar og spurði blómasalinn hvaða maður það væri. Ekki tók betra við þegar við fórum að tala um Hendrik og Hvíta stríðið, hann vissi ekkert um Hensa eða augnveika rússneska gyðingastrákinn sem Ólafur Friðriksson reyndi að hjálpa. Hér vorum við hinir alveg gáttaðir á þessum þekkingarskorti. Það er víst bara hægt að tala um klósett, málningu, festingar og prófíla við þennan mann.

Gengið á réttum stöðum og gnægð umræðuefna hvarvetna. Búið að skrúfa fyrir vatnið á Sæbraut og verður ekkert þar að hafa fram á næsta sumar. Þór lá við festar í Reykjavíkurhöfn og er tignarlegt skip. Messu að ljúka í Kristskirkju og einhverjir signdu sig. Komið á Plan að nýju í rólegheitunum eftir gott hlaup.

Í Potti voru Helga Jónsdóttir og dr. Einar Gunnar. Var mikil friðsæld yfir þessum pottverjum sem endranær, og var áfram haldið umræðu og greiningu frá því í hlaupi dagsins. Spurt var: hvað stendur N-ið í nafni Ottós N. Þorlákssonar fyrir? Aðeins barnakennarinn hafði rétt svar á takteinum: Nóvember.


Tekið til við hlaup á ný

Fjórir voru mættir til hefðbundins hlaups frá Vesturbæjarlaug á föstudegi, þrjú hraustmenni og einn lasburða skransali af Nesi. Þetta voru þeir Björn, Ólafur skrifari, Heiðar sálfræðinemandi og rannsakandi karlagrobbs og eineltis, og svo Denni okkar af Nesi. Sumum kynni að þykja þetta heldur lítilfjörlega samlingu hlaupara, en reyndin var önnur, menn tóku alveg þokkalega á því í hlaupi dagsins og skiluðu sér með góðum árangri tilbaka.

Menn veltu fyrir sér hvað ylli fjarveru þekktra hlaupara: hvar var Fróði, Flosi og blómasali? Töldu menn Powerade veita afsökun fyrir því að taka ekki þátt í hefðbundnu föstudagshlaupi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins? Jæja, við vorum ekki að sýta það, enda kappar á ferð sem höfðu um margt að ræða saman. Fyrst var nú að vígja sálfræðinemann í ýmsar launhelgar Samtaka Vorra. Við upplýstum um hunzun nýrra félaga fyrsta árið og svo eiginlegt einelti eftir það. Neminn virtist koma af fjöllum og kannaðist ekki við að hafa verið hunzaður til þessa. Virðist sem innra embættisverk Samtakanna hafi ekki virkað sem skyldi meðan skrifari var fjarverandi.

Það var ákveðið að hlaupa hægt. Og það var hlaupið hægt. En þrátt fyrir að það væri hlaupið hægt dróst félagi okkar af Nesi fljótlega aftur úr. Hann hafði að vísu sagt fyrir hlaup að líklega yrði hann einmana aumingi í hlaupi dagsins, eins og venjulega. Skrifari sagði að það kæmi ekki til greina, menn myndu halda hópinn og enginn yrði skilinn eftir. En að skransalinn hlypi á ÞESSUM hraða hefði mér aldrei dottið í hug, það var einfaldlega ekki hægt! Hann var skilinn eftir.

Við gjóuðum augunum eftir honum öðru hverju, en staðan virtist ekki ætla að batna. Úr Nauthólsvík var farinn Hlífðarfótur til þess að hlífa Birninum, en þaðan var ætlunin að fara um Klambratún og áfram. Þessa leið hefur skrifari aldrei farið og því spennandi að koma á nýjar slóðir í Hlíðunum. Þung umferð á Miklubraut, en við brutumst áfram og komumst á túnið og þaðan áfram á Rauðarárstíg og niður á Sæbraut. Þar var tekinn þéttingur og sprett úr spori, en svo hægt á hjá Hörpu og eftir það farið rólega. Við Björn áttum langt samtal um etíkettu og fólk sem kann sig ekki. Það er hreinsandi að baktala fólk. Einnig rætt um kynlega kvisti í Hlaupasamtökunum, sem eru margir.

Jæja, komið á Plan og teygt eftir vel heppnað hlaup. Þorvaldur Gunnlaugsson mættur í bleikri skyrtu og var áreittur venju samkvæmt. Í Útiklefa var blómasali gómaður óhlaupinn og hafði fáar afsakanir, aðrar en þær að hann þyrfti að keyra útlenska vinnumenn sína í gömlum Benz. Okkur var hugsað til hans Vilhjálms okkar sem átti að keppa í Útsvari í kvöld. Í Potti sat gamall barnakennari og hreykti sér af því að hafa hlaupið gott Powerade-hlaup í gærkvöldi. Verður ekki varpað rýrð á góðan árangur félaga okkar í myrkrinu í Selási.

Næsta hlaup:sunnudagur kl. 10:10 hefðbundinn hringur með frændum.


Af gömlu fólki

Hinn 12. nóvember n.k. verða liðin 100 ár frá andláti lang-langafa okkar Ólafs Þorsteinssonar, Ólafs bæjarfulltrúa Ólafssonar og Danabrókarmanns, fædds 1831. Um þetta var rætt er við frændur hittumst framan við Vesturbæjarlaug, sem enn er lokuð á sunnudögum til kl. 11 og enn drífur fólk að sem ekki veit af því. Við vorum tveir einir að hlaupi líkt og síðasta sunnudag, og var þó ekki hægt að kvarta yfir veðri. Við dokuðum við um stund, en héldum svo af stað í hefðbundið sunnudagshlaup.

Eðlilega var rætt um ættfræði og persónufræði og gat frændi upplýst mig um gamlar Lækjarkotsfrænkur hans megin í ættinni og um afdrif þeirra. Þetta var mikilvirkt handverksfólk, eins og þær eru frænkurnar mín megin í ættinni. Einnig var rætt um fjarverandi hlaupara og ættir þeirra. Ég gat frætt frænda um svör Jörundar við fyrirspurn minni á föstudaginn um hvers vegna hann hefði ekki heilsað okkur í síðasta sunnudagshlaupi. Ólafur varð hugsi um stund, en kvað svo upp úr með það að þetta væri klárlega Allinn að herja á félaga okkar. Á því væri ekki nokkur vafi.

Ekki verður sagt að óvæntir viðburðir hafi átt sér stað í þessu hlaupi, það voru kunnuglegir áfangar, Nauthólsvík, Kirkjugarður, Veðurstofa, Saung- og skákskóli, Klambratún og svo Sæbraut. Stoppað á hefðbundnum stoppustöðum. Að þessu sinni var þó talin ástæða til þess að doka við framan við hinn nýja Þór og berja þann glæsilega farkost augum.

Í Pott mættu auk hlaupara dr. Einar Gunnar, Ragna Briem, Helga Jónsdóttir og Stefán Sigurðsson - og svo kom Einar blómasali og kvaðst hafa látið fjölskylduna ganga fyrir þennan morgun. Hann snaraði umbeðinn fram forláta kjúklingauppskrift sem Helga kvaðst mundu notfæra sér. Málin rædd framundir eitt, að menn tíndust úr Potti til skylduverka. Enn einn frábær hlaupamorgun að baki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband