Tekið til við hlaup á ný

Fjórir voru mættir til hefðbundins hlaups frá Vesturbæjarlaug á föstudegi, þrjú hraustmenni og einn lasburða skransali af Nesi. Þetta voru þeir Björn, Ólafur skrifari, Heiðar sálfræðinemandi og rannsakandi karlagrobbs og eineltis, og svo Denni okkar af Nesi. Sumum kynni að þykja þetta heldur lítilfjörlega samlingu hlaupara, en reyndin var önnur, menn tóku alveg þokkalega á því í hlaupi dagsins og skiluðu sér með góðum árangri tilbaka.

Menn veltu fyrir sér hvað ylli fjarveru þekktra hlaupara: hvar var Fróði, Flosi og blómasali? Töldu menn Powerade veita afsökun fyrir því að taka ekki þátt í hefðbundnu föstudagshlaupi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins? Jæja, við vorum ekki að sýta það, enda kappar á ferð sem höfðu um margt að ræða saman. Fyrst var nú að vígja sálfræðinemann í ýmsar launhelgar Samtaka Vorra. Við upplýstum um hunzun nýrra félaga fyrsta árið og svo eiginlegt einelti eftir það. Neminn virtist koma af fjöllum og kannaðist ekki við að hafa verið hunzaður til þessa. Virðist sem innra embættisverk Samtakanna hafi ekki virkað sem skyldi meðan skrifari var fjarverandi.

Það var ákveðið að hlaupa hægt. Og það var hlaupið hægt. En þrátt fyrir að það væri hlaupið hægt dróst félagi okkar af Nesi fljótlega aftur úr. Hann hafði að vísu sagt fyrir hlaup að líklega yrði hann einmana aumingi í hlaupi dagsins, eins og venjulega. Skrifari sagði að það kæmi ekki til greina, menn myndu halda hópinn og enginn yrði skilinn eftir. En að skransalinn hlypi á ÞESSUM hraða hefði mér aldrei dottið í hug, það var einfaldlega ekki hægt! Hann var skilinn eftir.

Við gjóuðum augunum eftir honum öðru hverju, en staðan virtist ekki ætla að batna. Úr Nauthólsvík var farinn Hlífðarfótur til þess að hlífa Birninum, en þaðan var ætlunin að fara um Klambratún og áfram. Þessa leið hefur skrifari aldrei farið og því spennandi að koma á nýjar slóðir í Hlíðunum. Þung umferð á Miklubraut, en við brutumst áfram og komumst á túnið og þaðan áfram á Rauðarárstíg og niður á Sæbraut. Þar var tekinn þéttingur og sprett úr spori, en svo hægt á hjá Hörpu og eftir það farið rólega. Við Björn áttum langt samtal um etíkettu og fólk sem kann sig ekki. Það er hreinsandi að baktala fólk. Einnig rætt um kynlega kvisti í Hlaupasamtökunum, sem eru margir.

Jæja, komið á Plan og teygt eftir vel heppnað hlaup. Þorvaldur Gunnlaugsson mættur í bleikri skyrtu og var áreittur venju samkvæmt. Í Útiklefa var blómasali gómaður óhlaupinn og hafði fáar afsakanir, aðrar en þær að hann þyrfti að keyra útlenska vinnumenn sína í gömlum Benz. Okkur var hugsað til hans Vilhjálms okkar sem átti að keppa í Útsvari í kvöld. Í Potti sat gamall barnakennari og hreykti sér af því að hafa hlaupið gott Powerade-hlaup í gærkvöldi. Verður ekki varpað rýrð á góðan árangur félaga okkar í myrkrinu í Selási.

Næsta hlaup:sunnudagur kl. 10:10 hefðbundinn hringur með frændum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband