Súludans norðurljósa

Ekki hafði skrifari mikla trú á mætingu sem neinu næmi í því grimmdarfrosti og glerhálku sem ríkti þennan síðasta dag nóvembermánaðar AD 2011. Og til að byrja með leit út fyrir að aðeins hörðustu harðdálkar myndu láta sjá sig þennan dag: Benzinn og Kári biðu í Útiklefa, að viðbættum barnakennaranum og skrifaranum úr kansellíinu þá stefndi í Naglahlaup. En svo fóru hinir og þessir að skjóta upp kollinum: blómasalinn, Hjálmar, Ósk, dr. Jóhanna, Helmut, Ragnar, Gummi, Haraldur og Heiðar. Með slíkri mætingu varð ljóst að ekki yrði settur neinn sérstakur hetjustimpill á hlaup dagsins. Engu að síður verður að gefa fólki plús fyrir að mæta í sjö stiga frosti og vitandi að stígarnir yrðu glærir af hálku.

Ræddir möguleikar í hlaupi dagsins og samþykkt að fara á Nes, þar væri síðan hægt að fara lengri eða styttri vegalengdir. En þegar komið var niður á Ægisíðu var hins vegar snúið til vinstri inn á Sólrúnarvelli í stað þess að fara til hægri á Nesið. Slík hjarðhegðun er bara rannsóknarefni fyrir félagsfræðinga, en skrifari er með prófgráðu í þeirri fræðigrein (ein af fjórum, ekki fimm)og ávallt heillaður af hegðun fólks. Ekki verður leitað skýringa á þessari breytingu, en hennar eingöngu getið þar sem hún er merkileg.

Stígar voru stórhættulegir, glerhálir og mátti fara varlega. Má merkilegt heita að ekki hafi verið borinn sandur á leiðir því fjölmargir leita á stíga út til heilsubótar sér og lífsfyllingar. Mætti halda að íhaldið væri komið til valda á ný í borgarstjórn og minnir á þá tíma að snjó var mokað af götum upp á gangstéttir svo að bílar auðstéttarinnar kæmust leiðar sinnar um götur borgarinnar og skítt með það þó farlama ellilífeyrisþegar brytu lappirnar við það að klöngrast yfir svellbúnkana.

Sama tvískipting og tíðkast hefur síðustu misserin og virtust hraðfarar ekki hafa miklar áhyggjur af hálkunni. En við hinir skynsamari menn, skrifari, blómasali, Benz og Helmut, tókum því rólega. Skrifari var kappklæddur, í tvennum buxum, bol, flíspeysu og úlpu, balaklövu og öðru eftir því. Þeir hinir eitthvað aðeins léttklæddari, en fóru sér hægt engu að síður. Á leiðinni var rætt um hvaða leið yrði farin. Við tókum eftir að norðurljós dönsuðu kringum friðarsúlu Lennons og vildi Helmut ólmur halda í áttina að þeim, fara helst Þriggjabrúa og um Sæbraut. Skrifari var það þungur á sér að hann vildi fara stytztu leið tilbaka, Hlíðarfót. Niðurstaðan varð sú að fara Hlíðarfót og lengja um Miklubraut, Klambratún, Rauðarárstíg og gera stanz á Sæbraut til að skoða norðurljós. Við tíndum Kára upp á leið okkar, hann var hægur.

Framangreind fyrirætlan gekk eftir að mestu og má kalla kraftaverk að við sluppum við meiriháttar slys og líkamsmeiðsl, skrifara skrikaði fótur í Eskihlíð eða þar um bil, og Helmut datt fagmannlega á Sæbraut, en spratt upp sem fjöður áður en hann var lentur. Við virtum norðurljós fyrir okkur um stund, en héldum svo í átt að Hörpu, sem skartaði fagurri ljósasýningu í kvöld.

Teygt vel í Móttökusal, en það er merkilegur fjandi hvað sumum er alkóhólið hugleikið. Það var farinn hringurinn og innt eftir hvað hver og einn ætti mikið af jólabjór í ísskápnum. Slíkt mætti reyna að forðast, því að eftir hlaup, þegar búið er að byggja upp góðan þorsta, er ekki gott að færa talið að hinum gullna miði sem svalar þyrstum hlaupara betur en nokkur annar drykkur. E.t.v. ætti að stofna bindindismannadeild í Hlaupasamtökunum fyrir þá sem þola illa áreitið af eilífu tali um bjór.

Jæja, mýsnar dvöldu heima í dag og kallast því með réttu mýs en ekki menn. Og á föstudag halda Hlaupasamtökin upp á Fyrsta Föstudag á Eldsmiðjunni við Bragagötu þar sem hún Jóhanna okkar hefur tekið frá borð fyrir þá sem látið hafa vita að þeir munu mæta. En fyrst er hlaupið. Vel mætt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband