Sögur tannlæknisins

Er komið var í Útiklefa var þar fyrir á fleti Kári og skolaði af sér fyrir hlaup. Fljótlega bættust við Þorvaldur, Benzinn og Björn kokkur og höfðu tekið sér leyfi frá Landsfundinum til þess að mæta í hlaup. Sem betur fer eru þeir enn karlmenni, en ekki kjökrandi rakkar, enda væri slíkt með öllu óþolandi í Samtökum Vorum. Þorvaldur breiddi úr sér eins og hann er vanur og dugðu ekki færri en sjö krókar til þess að varðveita reyfið af honum þetta sinnið. Hann var áminntur um að það væru fleiri sem þyrftu króka, við værum í samfélagi bræðra, en hann skellti skollaeyrum við. Gott hljóð var í mönnum, en ljóst að sumir hafa bætt duglega við sig speki, Björn hins vegar orðinn skorinn og snyrtilegur að öllu leyti.

Er út var komið bættist Magnús tannlæknir í hópinn og á Plani var Rúna að hita upp. Kári teygði okkur út að vélfáki sem hann hefur nýlega innhöndlað, fimm ára gamlan Suzuki grip Boulevard, glæsilegt tæki með töskum fyrir ýmislegt og jafnvel sæti fyrir vinuna. Hann sagði okkur að í BNA væri hægt að kaupa sér jakka með áletruninni "If you can read this the bitch has fallen off" á bakinu, en hann myndi aldrei kaupa sér slíkan jakka. Við óskuðum honum til hamingju með gripinn og lýstum yfir ósk um að hann mætti vel njóta.

Hlaupið af stað í hreint ótrúlegri blíðu. 10 stiga hiti, logn og bara bongó í miðjum nóvember, hvenær hefur þetta gerst? Þeim mun meiri vonbrigði og furða á að ekki fleiri skuli mæta til hlaupa. Spurt var um próf. Fróða sem ku vera á leið til Marokkó í marz. Vissi einhver um afdrif hans? Einhver taldi sig vita að hann hefði ætlað að mæta fljótlega eftir meiðsli, en hafði ekki á reiðum höndum skilgreiningu á hugtakinu "fljótlega". Vitað var að barnakennarinn var í Genóu, blómasalinn í Washington, en menn voru alveg gáttaðir á fjarveru Jörundar prentara: hvað er í gangi hér? Er maðurinn að verða fráhverfur hlaupum með Hlaupasamtökum Lýðveldisins?

Okkur leið vel á Ægisíðunni, enda var samstaða um að fara hægt og stutt. Þorvaldur alltaf að derra sig eitthvað, þvælast fyrir fólki, taka útúrdúra með búkhljóðum, ræskingum, hóstum og ropum. Við hin vorum bara spök. Það tognaði á hópnum, Kári fór skynsamlega, hljóp, gekk og teygði. Benzinn var dapurlegur enda búinn að þyngjast mikið og farinn að daðra við þekkt desítonn, hann dróst aftur úr. Við hin héldum bara sama, rólega tempóinu. Fórum upp Hi-Lux og brekkuna í Öskjuhlíð. Dokuðum við efra ef vera skyldi að eftirlegukindur birtust, en þegar svo var ekki héldum við áfram.

Það var Veðurstofa, Saung- og skákskóli Lýðveldisins þar sem hann Vilhjálmur okkar aflaði sér menntunar sinnar, Klambrar og Hlemmur og loks var stefnan sett á Sæbraut. Einhver misskilningur hafði komið upp og menn týnst, en við mættumst aftur á Otharsplatz, og eftir það var farið saman til baka til Laugar. Það kom einhver púki upp í okkur og það var farið að segja vafasama brandara, sem ekki eru birtingarhæfir. Og of langt mál að skrifa þá niður.

Stuttur pottur, enda ábyrgir menn á ferð sem þurfa að elda ofan í mannskapinn. Í gvuðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband