Veður gerast viðsjárverð

Vetrarmyrkrið allsráðandi í Vesturbænum þegar hlauparar safnast til hlaupa frá Vesturbæjarlaug sem er fimmtíu ára þessa dagana. Meira um það seinna. Mættir: Magnús, Helmut, blómasali, skrifari, Magga, Ósk, Hjálmar, Heiðar, Haraldur, Ragnar, dr. Jóhanna og Jóhanna Ólafs. Hlaupið tvískipt í dag: annars vegar þeir sem fara hratt, þeir tóku spretti á Flugvallarbraut; en við hinir fórum Suðurhlíð, það voru skrifari, blómasali, Helmut og Maggi. Við fórum fremur hægt, en héldum þó vel áfram, t.d. upp Suðurhlíðina, sem er löng og tekur á.

Brautir voru hreinar og greiðfærar, en einhver hálka og mátti fara varlega. Ósk á utanvegaskóm með grófum sóla og virðist skynsemi í því. Veður betra en ætla mátti í upphafi og varð að létta á fatnaði á leiðinni. En í Nauthólsvík fór aftur að blása köldu og þá varð að draga balaklövu á ný yfir eyru. Á leiðinni komu fram margar góðar hugmyndir um hátíðahöld. M.a. var gerð tillaga um að tileinka föstudagshlaup hálfrar aldar afmæli Laugar Vorrar og halda að hlaupi loknu upp á Fyrsta Föstudag á völdum flatbökustað. Verður það auglýst sérstaklega.

Pottur fremur fámennur að hlaupi loknu, aðeins við Helmut. Nú verður fróðlegt að sjá mætingu á miðvikudaginn er kemur þegar spáð er 13 stiga frosti. Þá verður spurt: "Ertu maður eða mús?" Vel mætt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband