Hlaupið með stút á munni

Þetta var náttúrlega engin hemja hvernig menn hegðuðu sér í hlaupi dagsins. Talandi um metoo, þarf ekki að fara að ræða saman um youtoo? Meira um það seinna.

Menn minntust þess í dag að félagi okkar, Vilhjálmur Bjarnason, á afmæli. Tildrög máls voru þau að hlauparar söfnuðust saman til hefðbundins föstudagshlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á föstudegi. Mættir voru Flosi, Þorvaldur, próf. Fróði, Ólafur heilbrigði, Benz og Benzlingur, skrifari og blómasali - seinn að venju. Mér var eiginlega misboðið að sumir skyldu mæta fimm mínútum of seint og ætlast til þess að beðið væri eftir þeim. Kom ekki til greina. Við Þorvaldur af stað á hægu tölti. Hlaup okkar tveggja eru jafnan tíðindalítil, fátt er sagt og hvítlaukurinn ríkir ofar hverri kröfu. Eitthvað rætt um einhliða leiðara, eitthvað úr eðlisfræðinni hjá dr. Fróða. Þegar menn nefna eðlisfræði rennur niður járntjald í huga undirritaðs og hann óskar sér þess að vera helst staddur annars staðar. Því var ekki margt rætt með okkur félögum. 

Nema hvað áður en mjög löng vegalengd var að baki var þessi hlaupari á fullu stími og varð ekki við neitt ráðið. Hann varð ekki var við aðra hlaupara fyrr en í Nauthólsvík - og Gústa fyrst í brekkunni upp hlíðina. Spurt var um afdrif blómasala. Prófessorinn kvaðst hafa veitt honum uppbyggilegar ráðleggingar, sumsé að vera ekkert að reyna að hlaupa neitt langt í dag. Ekki þurfti að viðhafa miklar fortölur til þess sannfæra blómasalann að það væri engin glóra í að fara lengra en að Skítastöð og snúa þar við og stefna á Laug. Að hugsa sér- þetta kalla menn vini sína!

Jæja, þarna tættum við upp hlíðina, og takið eftir: skrifari var enn í för með félögum sínum. Nema hvað þegar upp er komið vita menn ekki fyrr til en það dúkkar upp föngulegur kvenmaður á reiðhjóli sem kannast eitthvað við Gústa, en hann missir gjörsamlega taumhaldið, breiðir út faðminn og gerir ráðstafanir til þess að nálgast viðfangið með stút á vör. Við félagarnir náðum ekki að grípa inn í til þess að forða Samtökum Vorum frá álitshnekki, kossaflangs átti sér stað og dreyminn Fróði hljóp eftir þetta með stút á vör.

Þetta var hefðbundinn föstudagur, frá Öskjuhlíð var farið um Veðurstofuhálendi, Hlíðar og Klambra, en þá var skrifari orðinn einn. Hlemmur og Sæbraut í fullkominni einsemd og eindrægni. Meira sem þessi hlaupari gat áorkað í hlaupi dagsins, enda var ekki þurr þráður á honum er komið var til Laugar. 

Í potti veltu menn fyrir sér muninum á eðlisefnafræði og lífefnafræði. Ágúst fullyrti að Guð væri eðlisefnafræðingur. Bjarni ætlaði að fara og fá sér hammara með trúbróður sínum, Denna af Nesi, og var ekkert að auglýsa það of mikið.

Næst verður hlaupið á sunnudag kl. 9:10. Hvað menn athugi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband