Fyrsta sunnudagshlaup í endurkomu

Boð var látið út ganga um að hlaupið skyldi á sunnudegi kl. 9:10. Til öryggis hringdi skrifari bæði í Ólaf Þorsteinsson og Einar blómasala til að árétta tímann. Mættur auk þessara þriggja Flosi barnakennari. Einar búinn að fara eina 10 km að morgninum og stefndi á 20 samtals í dag. Magnús forfallaður í morgunkaffi. Ætlunin var að fara rólega og gefa sér góðan tíma til að njóta veðurblíðunnar og náttúrunnar á þessum fagra morgni. Reyndin varð síðan sú að Flosi og Einar tættu af stað og skildu okkur frændur eftir í rykskýi.

Málefni líðandi stundar rædd á leiðinni inn í Nauthólsvík, m.a. starfslok Ó.Þ. hjá akademíunni og það sem tekur við, en frændi er hlaðinn störfum á ýmsum vettvangi, m.a. við gerð sögusýningar um Víking í tilefni 110 ára afmælis knattspyrnufélagsins. Í Nauthólsvík biðu þeir félagar eftir okkur og saman var tölt í Kirkjugarð. Það var hátíðleg stund að rölta um garðinn og virða leiðin fyrir okkur. Áfram haldið um Veðurstofu og Hlíðar, sprett úr spori á Klömbrum, en þeir hinir aftur komnir aðeins á undan okkur. Það var einhver þreyta í karli í dag, trúlega hefur föstudagshlaup enn setið í honum.

Á Sæbraut fóru menn aðeins að róa sig og var hlaupið eftir það nokkuð saman og rætt um nýjasta flugdólginn. Engin hylling við Kaffi París, hornborðið setið af túristum. Einar smellti myndum af hópnum á Austurvelli. Það hlýtur að hafa verið tilkomumikil sjón. Gengið upp Túngötu, en skeiðað niður Hofsvallagötu. Gott 12 km hlaup og mega menn vel við una.

Í Pott mættu auk hlaupara dr. Einar Gunnar, Dóra, Jörundur og Þorbjörg. Fræðst um Emil Thoroddsen, tónskáld og einn af stofnendum Víkings.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband