8.4.2015 | 21:01
Þegar líkaminn segir nei.
Stundum þurfa menn að vera skynsamir, hlusta á líkamann og fylgjast með viðvörunarhljóðunum. Þessa lexíu lærðu blómasalinn og Óli hinn í dag.
Það vorum við helstu drengirnir sem mættum til hlaupa í dag: próf. Fróði, Þorvaldur, Magnús, Flosi, Einar blómasali og skrifari, auk þess sem fyrrnefndur Óli bættist í hópinn, Hjálmar borgarfulltrúa tíndum við upp af leið okkar og loks ku Rúna hafa rambað á suma félaga okkar í "skógi við hótel" (orð Flosa).
Jæja, það var furðu lítið um fúkyrði eða skæting í Brottfararsal, miðað við að Fróði var snúinn aftur frá Sikiley og greinilega orðinn "made man". Karlinn reyndi þó að mjólka aðstæður eftir bestu getu, en með litlum árangri, svo sé að þakka jafnaðargeði skrifara.
Bent var á í ljósi þess hve margir hlauparar kjósa að hlaupa í skærgulu að auðvelt væri að ruglast á slíkum og öskuköllum.
Samstaða um að fara tiltölulega stutt, utan hvað Fróði vildi 25. Við hinir kusum Hlíðarfót. Nú gerðust þau undur að skrifari hljóp léttfættur sleitulaust inn í Nauthólsvík og staldraði við þar af þeirri einu ástæðu að Einari blómasala lá við yfirliði og þurfti stuðning til þess að komast til baka. Skrifari var sá eini í hópnum sem fórnaði sér í verkefnið, aðrir létu sig hverfa.
Á Hringbrautinni römbuðum við fram á hinn Ólaf, heldur framlágan og raunar aðframkominn, gaf hann þá skýringu að hann hefði farið í hot yoga deginum áður og það virkað heldur illa fyrir hlaup dagsins.
Lukum samt hlaupi á nokkuð góðum nótum. Ljóst er af hlaupi dagsins að skrifari er á réttri leið í endurkomu sinni, þrek eykst, skrokkur í lagi og hlaupin lengjast smá saman.
Næstkomandi föstudag verður Laug Vorri lokað kl. 13:00 - svo að þrautalendingin verður víst Neslaug kl. 16:30 - og Fyrsti Föstudagur á Rauða Ljóninu á eftir.
22.3.2015 | 16:39
Yndislegur dagur
Dagurinn var yndislegur. Meira um það seinna. En hann byrjaði engu að síður með brunahringingu úr Garðabænum kl. 7:50 (á sunnudegi HALLÓ!!!). Húsráðendur töldu öruggt að einhver væri dauður. Hinum megin hljómaði rödd þingmannsins: "Hver er hinn maðurinn?" Frést hafði að V. Bjarnason hefði verið endurkjörinn skoðunarmaður reikninga hjá Hinu íslenska biblíufélagi og honum til fulltingis kosinn Pétur Þorsteinsson sóknarprestur Óháðra, sem er ekki allra. Vilhjálm setti hljóðan um stund er hann frétti hver hinn maðurinn væri, en sagði svo: "Pétur er ekki vondur maður. Mér er illa við vonda menn."
Mættir til hlaups á sunnudagsmorgni Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Ólafur skrifari og svo Rúna og Frikki. Aðrir hafa greinilega talið sig undanþegna hlaupum. Íslenskt samfélag er undanþágusamfélag, um leið og sett hafa verið ný lög eða reglugerðir byrjar kórinn: "Get ég fengið undanþágu?" Ef Íslendingar fara í viðræður við aðrar þjóðir um samninga sem eru skuldbindandi fyrir Íslendinga er óskað eftir undanþágum frá skuldbindingunum.
Þessi hópur tók vakurt skeið um Ægisíðu á fögrum sunnudagsmorgni sem ég held við getum kallað vormorgun. Það var hlaupið rólega til að hlífa Frikka sem er enn að jafna sig eftir Tókýó maraþonið. Farnar þekktar leiðir, spurt um bílnúmer og Persónufræði, og í kirkjugarði laust Frikki upp miklu ópi:"Þetta er yndislegt!" Orð hans fönguðu vel stemmninguna í dag sem náði hápunkti í kirkjugarðinum. Lukum góðum 12 km hring (já, líka skrifari) og komum þreyttir en ánægðir á Plan.
Pottur góður mannaður þekktum persónum, próf. dr. Einari Gunnari, Mími og Stefáni verkfræðingi. Baldur er í fríi frá Pottskyldum vegna búferlaflutninga og verður það næstu vikur. Sagðar krassandi sögur úr samkvæmislífi Reykvíkinga.
Nú hefst kvíðinn. Skrifari mun mæta til hlaupa næstu daga. Verður einelti? Verður niðurlæging? Verður maður hrakyrtur og kallaður "Þessi"? Að öllum líkindum, já. Þá er að standa það af sér og þreyta eineltismánuðinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2015 | 21:43
Bóndadagur
Denni var mættur og hafði með sér hjemmelaved hákarl. Hann sagði okkur að verkandinn hefði verið búinn að innbyrða heila stæðu af Egils gulli þegar hann mé á viðfangsefnið. Við rifum í okkur bitana, sem voru bragðgóðir þótt þeir væru ekki bragðsterkir. Mættir til hlaups á föstudegi: prófessor Fróði, Þorvaldur, Jörundur, Einar blómasali, Denni og skrifari. Nú brá svo við að skrifari var ekki atyrtur og fékk að þreyta hlaup athugasemdalaust, sem er nýmæli.
Prófessorinn er að þjálfa Einar fyrir Belfast og Einar vísar til prófessorsins sem leiðtoga lífs síns, og getur aldrei ógrátanda nefnt nafn hans. "Ó, þú ástsæli leiðtogi lífs míns!" Prófessorinn lagði línurnar fyrir hæfilega porsjón manni sem er á leið í maraþon. Ekki styttra en 18 km. Blómasalinn var fullur kapps og einbeitts ásetnings. Þorvaldur þagði. Við hinir tjáðum okkur lítt um vegalengdir.
Þetta var merkilegt hlaup. Fremstir fóru Ágúst, Þorvaldur og Einar, þá skrifari og loks þeir fóstbræður, Denni og Jörundur, og fóru hægt. Skrifari var giska ánægður að þreyta samfellt áreynslulaust hlaup alla leið inn í Nauthólsvík. Hann sá ekki til félaga sinna að baki sér, en frétti síðar að þeir hefðu farið stytztu leið um Suðurgötu og beint í Hólavallakirkjugarð, sem ku vera með líflegra móti á þessum árstíma. Þeir geta þó prísað sig sæla með að hafa átt afturkvæmt úr garðinum, sem verður ekki sagt um alla.
Af þeim hinum var það síðast vitað að það dró í sundur með þeim og varð ekki séð að jafnræði væri með þeim. Endanleg hlaupavegalengd rétt rúmir 12 km.
Skrifari hélt sínum kúrsi og kláraði góðan Hlíðarfót með sóma.
Er komið var til Laugar langaði okkur Denna og Jörund í hákarl, Denni var með dolluna. Afgreiðslustúlkan mótmælti hástöfum og hótaði að láta henda okkur út. Við gengum út fyrir og fengum okkur hákarl.
Í Pott mætti auk okkar hinna Kári og urðu fagnaðarfundir með okkur. Rætt um bóndadag og vandkvæði þess að að fá eiginkonur til þess að sýna eiginmönnum sínum hæfilega virðingu og t.d. létta af þeim eldhússtörfum akkúrat þennan eina dag ársins. Það ku ekki ganga eftir.
Upplýst var að búið væri að breyta staðsetningu Þorrablóts Samtaka Vorra í hús, að valinna manna ráði þótti skynsamlegast að hafa blótið að Denna á Nesi. Vallarbraut 17, eða þar um bil. Sumsé 6. febrúar kl. 19.
Í gvuðs friði
skrifari
21.1.2015 | 20:13
Blautbolskeppni
Mættir til hlaups á miðvikudegi: próf. Fróði, gamli barnakennarinn, blómasalinn, skrifari, Þorvaldur, Jörundur, Ingi, Rúna og Maggie. Í Brottfararsal var haft í frammi hefðbundið andlegt ofbeldi gegn skrifara, bent á hann og hann nefndur aumingi. Rætt um Einar, Belfast og prógrammið: hlaupa í skotheldu vesti með hjálm. Úti var glerhált og fremur napurt, en það fældi ekki frá hlaupi. Við lögðum upp með ólík markmið í huga, sumir vildu ná út að Skítastöð og tilbaka, aðrir stefndu á 10 mílur hið minnsta.
Það var dimmt úti og mjög fljótlega þurfti fólk að hafa augu og fætur hjá sér til að detta ekki. Við héldum hópinn býsna lengi, alveg út í Skerjafjörð, en svo fór að draga sundur með okkur - og Jörund sá ég bara í upphafi hlaups og ekkert meira. Skrifari kjagaði þetta áfram, en mátti jafnvel ganga þar sem mest hálka var, svo sem við Flugvöll. Var hikandi er kom að Skítastöð, átti maður að snúa við eða halda áfram? Jæja, við látum slag standa, þetta gengur svo vel.
Komið í Nauthólsvík og var ýmist hlaupið eða gengið eftir aðstæðum. Hér var hlaupari orðinn vel heitur og því var lítið mál að klára Hlíðarfót þótt engin met væru slegin í dag.
Við komu til Laugar hitti ég Ósk og Hjálmar, Ósk spurði hvort það hefði rignt svona mikið - og horfði á galla skrifara sem hefði sómt sér vel í hvaða blautbolskeppni sem er. Nei, Ósk, þetta var sviti, það var tekið á því í dag. Flosi og Einar komu stuttu á eftir mér og höfðu farið 10 km með Rúnu.
Framundan Þorrablót Hlaupasamtakanna - en fyrst verður hlaupið meira, næst á föstudag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2015 | 21:52
Fæddur með múrskeið í munni
Einar blómasali er einhver prúðasti og frambærilegasti félagi Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Ekki einasta er hann mikill, sanngjarn og heiðarlegur athafnamaður, heldur er hann einnig fjölskyldufaðir sem vílar ekki fyrir sér að bruna um sleðabrekkur höfuðborgarsvæðisins með dætrum sínum, þar með tryggjandi góð tengsl og uppbyggileg samskipti við ungviðið.
Einar blómasali boðaði okkur helztu drengina sem hlaupum með Hlaupasamtökum Lýðveldisins á Mímis bar kl. 18:00, að afloknu hefðbundnu föstudagshlaupi. Ekki varð það tíðindalaust né laust við dramatík. Sem skrifari Samtaka Vorra stóð við barinn og pantaði drukk á hamingjustundarverði af afgreiðslumanni sem ekki var talandi á íslenzku, dúkkar blómasalinn upp og óskar eftir hlutdeild í pöntuninni. Af alkunnri góðmennsku fellst skrifari á að hleypa blómasalanum inn í pöntunina, en eingöngu gegn heilögum svardaga um að sá síðarnefndi greiddi fyrir næstu pöntun.
Það var pantað pale ale - og nótan hljóðaði upp á 2.600 kr. Hér setti skrifara hljóðan og hann varð dapur og vonlaus til augnanna, en náði að stynja upp: "...en, er ekki heppíáur?" Stútungspiltur svaraði á ensku, að þessi hamingjustund gilti aðeins fyrir tilteknar gerðir bjórs, ekki pale ale. En þegar hann sá sorgina í augum skrifara viknaði hann, breytti bókuninni og sló inn tvo Thule bjóra og nótan breyttist úr 2.600 kr. í 1.100 kr. - sem er nokkuð sem blómasalinn hefði verið fullsæmdur af. En nú kemur það bezta.
Drykkirnir runnu ljúflega ofan í okkur félaga undir mikilvægum samtölum um vandamál einkalífsins, en svo var ekki hjá því komizt að blómasali keypti sinn gang. Nú var komið upp ástand á barnum. Þjónninn kannaðist ekki við happy hour konseptið og benti á spjald við inngang barsins þar sem stóð að happy hour væri milli 16 og 18. Blómasalinn fór inn á síma sinn og leitaði uppi vefsíðu hótelsins. Þar kom fram að það væri happy hour á Mímis bar alla daga milli 16 og 19. Á matseðli staðarins var hins vegar sagt á ensku að happy hour væri "on weekdays" milli 16 og 19, en "on weekends" milli 16 og 18. Hvað er weekday og hvað er weekend? Er það sama og virkur dagur og helgi? Við vorum engu nær.
Einar fór fram í lobbí og benti á þessa anómalíu og fékk liðsinni þaðan til þess að leiðrétta hlut Hlaupasamtakanna gagnvart hinum þvergirðingslega barþjóni. Eftir það þurfti ekki annað en benda á Einar og þá vildi barþjónninn allt fyrir okkur gera.
A endanum mættu þessi á hefðbundinn Fyrsta Föstudag hvers mánaðar: skrifari, blómasali, skransali, barnakennari, próf. Fróði, Bjarni Benz, Ólöf, Rúna, Ólafur Gunn, Þorvaldur, Flosi og loks rak Kaupfmann Friedrich inn höfuðið. Þá var loks hægt að taka upp hefðbundin fundarstörf. Samþykkt var að heimila blómasalanum að ferðast til Belfast í maí til þess að þreyta ódýrasta maraþon sem sögur fara af, 35 pund í þátttökugjaldi, farseðill á 16.000 kr. og annað eftir því. Samþykkt að fela Helmut og Jóhönnu að finna nýjar píslargöngur á fjöllum næsta sumar. Samþykkt að halda árlegt Þorrablót 6. febrúar nk. - þrír möguleikar: hjá Denna á Nesi, hjá skrifara í Siðmenningunni nærri Móðurkirkjunni - ellegar í Kópavogsdalnum hjá prófessor Fróða. Stefnt að svipuðu fyrirkomulagi og á seinasta ári, með tveimur missterkum gerðum af hákarli - og reiknað með að K.G. Kristinsson sýni af sér sömu rausn og þá að því er varðar hreinsun hins innri manns.
Þorrablót verður auglýst fljótlega og lýst eftir áhuga einstakra félagsmanna.
Þegar skrifari fór á barinn að panta meira var hann spurður hvort hann væri með "Vöskum mönnum". Það hvarflaði að honum að þetta væri nýtt vinnuheiti blómasalans fyrir hópinn í sætunum - svo að hann svaraði því játandi. Aftur fékk hann drykkinn á hálfvirði. Síðar kom í ljós að "Vaskir menn" væri eitthvert allt annað holl í salnum og búnir að loka að sér.
Í gvuðs friði,
skrifari
PS - já, það var víst hlaupið í kvöld og einhverjir ótilgreindir aðilar að sprikla, en það er aukaatriði.
21.12.2014 | 20:36
Kirkjuráðssögur
Við Magnús Júlíus vorum einir mættir til hefðbundins sunnudagshlaups Hlaupasamtakanna stuttu fyrir jól. Við söknuðum vina í stað, Ó. Þorsteinssonar og Einars blómasala- en ekki síður Gísla okkar Ragnarssonar, sem í eina tíð var einkennistákn Samtaka Vorra. Svo mjög herjaði söknuðurinn á Magnús að hann réðst á blásaklausan hlaupara á leiðinni og spurði: "Er það Gísli?"
Einar hafði lýst yfir ásetningi um hlaup, en svaf að eigin sögn til 10, og var því dæmdur úr leik. Ekki fékkst viðhlítandi skýring á fjarveru formanns - og Jörundur er að vinna á gamals aldri.
Við Magnús lögðum í hann í afbragðs veðri og góðri færð, engin hálka. Við vorum flottir. Það komu sögur úr Kirkjuráði, en fæstar birtingarhæfar. Fórum rólega yfir og var enginn asi á okkur. Varð hugsað til drengjanna sem ætluðu að þreyta Sólstöðuhlaup í dag. Svoleiðis menn eru náttúrlega ekki í lagi.
Komið í Nauthólsvík og beygt af, enda engir sagnamenn með í för, sem gætu réttlætt langa gönguspeli og sögur. Raunar vorum við Magnús búnir að afgreiða porsjón V. Bjarnasonar þessa vikuna og það snemma hlaups. Einnig var búið að ræða kirkjugarða og jarðarfarir.
Við kláruðum glæsilegt hlaup á góðum nótum - og um það er komið var til Laugar dúkkuðu upp tveir jólasveinar sem ætluðu að þreyta "Sólstöðuhlaup" - og var haft á orði af viðstöddum að svona menn kæmu óorði á hlaup.
Í Pott mættu valinkunnir Vesturbæingar, próf. dr. Einar Gunnar, próf. dr. Baldur, Ó. Þorsteinsson, Einar blómasali - síðar komu Pjetur og Unnur og Stefán verkfræðingur. Margt rætt af skynsamlegu viti, gamlar bílnúmeraæfingar rifjaðar upp og ættir manna raktar. Umræðan náði hápunkti þegar fjallað var um gamla einkunnastiga og viðleitni Jónasar frá Hriflu til að stemma stigu við yfirgangi embættismannakerfisins með aðförinni að Reykjavíkur Lærða Skóla 1928 - og Framsóknarmenn samtímans hafa tekið upp af nýju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2014 | 21:03
Aðeins þeir beztu...
Fáir mættir í föstudagshlaup á vegum Hlaupasamtaka Lýðveldisins þótt einboðið væri. Próf. Fróði, Einar blómasali, Ólafur Gunnarsson og skrifari. Prófessorinn ætlaði ekki styttra en 20 km - og Ólafur hinn ekki heldur, en við Einar höfðum raunsærri markmið enda er Evrópusambandið búið að stimpla okkur fatlafól. Kannski tímabært að fara að panta góðan hjólastól. Þæfingsfærð og því var farið varlega. Þeir hinir skildu okkur fatlafælurnar fljótlega eftir - og svo kom að því að leiðir skildi með okkur Einari.
Ég hljóp alla leið út að Skítastöð - OG TILBAKA! Þetta var erfitt en ég kom tilbaka til Laugar á Kristilegum tíma og fann Kára félaga okkar fyrir á fleti ásamt Gunný. Það urðu skiljanlega fagnaðarfundir og gengu sögur af högum hvors annars. Svo bættist Einar í hópinn og ekki minnkaði gleðin við það.
Nú er hafinn undirbúningur að heilagri jólahátíð, næst verður hlaupið á sunnudag kl. 10:10 - og þá verða helztu málefni haustþings krufin með hæfilegri blöndu af mannúð og bílnúmerum. Svo er það Kirkjuhlaupið á annan dag jóla.
Í gvuðs friði.
13.11.2014 | 20:45
Einar "gleymir" skónum
Það var búið að gefa út instrúx um hefðbundið miðvikudagshlaup og þegar skrifari mætti til Laugar æddi blómasalinn um landareignina eins og búfénaður sem misst hefur höfuðið. Ekki var auðvelt að giska á hvað olli æði þessa hugljúfa hlaupara. Kom þó á daginn þegar eftir var leitað að frú Vilborg hafði gleymt að setja skóna í töskuna eiginmannsins. Ekki varð af hlaupi og fór blómasali því í Pott með skrifara og stundi: "Niederlag! Niederlag!" Hlaupa gerðu próf. Fróði, Maggie, Flosi og Þorvaldur.
Próf. dr. Einar Gunnar mætti í Pott og áttum við gæðastund í umræðu um íslensk fræði.
Nú hefur verið um rætt að endurnýta Fyrsta Föstudag frá því í síðustu viku því hann var hálf misheppnaður, aðeins þrír mættir og kvöldið hálf nöturlegt fyrir vikið. Það yrði þá Ljónið aftur, og vonandi er Denni með á nótunum í þetta skipti.
Textinn er fremur stuttur í þetta skiptið, skrifaður á ipad með tveimur puttum.
Í gvuðs friði
skrifari
9.11.2014 | 14:53
Skrifarinn og prentarinn
Auglýst var hefðbundið Sunnudagshlaup hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á sunnudegi, og hvað gerist? Til hlaups mæta tveir alslökustu og aumustu hlauparar Samtakanna: Jörundur prentari og skrifari Samtakanna. Magnús tannlæknir var að vísu mættur, en fór uppstrílaður á Kirkjuráðsfund til þess að tala um gvuð, í stað þess að hlaupa með góðum drengjum og hugsa um gvuð. Svo sást til gamla barnakennarans að þreyta sund i Laug í stað þess að hlaupa. Það voru okkur Jörundi mikil vonbrigði að sjá ekki R-158 í stæði enda er það tilhugsunin um að eiga gæðastund að morgni með Formanni til Lífstíðar sem knýr okkur til að mæta hvern sunnudagsmorgun.
Jæja, ekki var að fást um það, heldur gíra sig upp í að fara út í norðangarrann og frostið. Það var kalt að hlaupa í dag, en við lögðum upp á sjö mínútna tempói og vorum stoltir af. Fyrsta hlaup skrifara síðan gvuðmávitahvenær og annað hlaup prentara frá upprisu. Fórum á rólegum nótum eftir Ægisíðunni og mættum fáum. Stefnan sett á Jósefínu, nú yrði enginn kirkjugarður eða veðurstofa. Tókum gönguhlé í Skerjafirði, en héldum svo ótrauðir áfram útí Nauthólsvík og ræddum ýmis þjóðþrifamálefni á leiðinni, svo sem Framsóknarflokkinn og þau þjóðþrif að losna við það fyrirbæri af yfirborði jarðar.
Farinn Hlíðarfótur og skrafað um landaeignir þar, um hjá Gvuðsmönnum og ferð hraðað um hlaðið á Hlíðarenda. Snúið í vestur og stefnan sett á Laug. Við bara býsna brattir og tókum heimferðina svo að segja í einum rykk. En það var kalt að hlaupa í dag.
Í Pott mættu helztu drengirnir, próf. dr. Einar Gunnar, prof. dr. Baldur, dr. Mímir, frú Helga Jónsdóttir Zoega o.fl., ing. Stefán, Pjetur og Unnur - og hver dúkkaði ekki upp án þess að sýna minnstu merki um iðrun annar en Formaður til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson Víkingur! Bar hann við köldu veðri þegar hann var spurður um fjarveru frá hlaupi dagsins. Þarna fóru fram spaklegar umræður um þarfleg málefni með vísbendingaspurningum, ættarnöfnum og bílnúmerum.
Nú er spurt: verður framhald á afrekum? Munu menn hlaupa af nýju á morgun, mánudag? Gvuð einn veit.
2.11.2014 | 20:15
Vetrartími
Upp er runninn vetrartími í starfsemi Hlaupasamtakanna, hvað menn athugi. Nú er hlaupið frá Laug Vorri á sunnudögum kl. 10:10. Þetta hefði Maggie betur athugað áður en hún kom stjórnlaus í hádegispott og úthúðaði öllum viðstöddum fyrir að senda óljós skilaboð.
Jæja, mættir í hefðbundið hlaup Formaður til Lífstíðar, frændi minn og vinur, Ó. Þorsteinsson, og Jörundur prentari. Þeir hlupu hefðbundið - og er þó Jörundur að jafna sig eftir hjartafeil, en þeir gerðu stanz þegar svo bar undir. Er þeir komu tilbaka beið þeirra heldur betur mannaður Pottur: próf. dr. Einar Gunnar Pétursson, sonur hans, Ólafur Jóhannes, Baldur Símonarson, dr. Mímir, Helga Jónsdóttir frá Melum, Helga Jónsdóttir af Ægisíðu, Stefán Sigurðsson verkfræðingur, Magano, skrifari auk téðra hlaupara. Eðlilega urðu fagnaðarfundir og menn hófu óðara að rifja upp nýleg andlát og jarðarfarir. Rætt um jólabækur, Helga frá Melum venju fremur ktítísk á rithöfunda samtímans. Upplýst um vegferð V. Bjarnasonar gegn braskarastétt einni - og var skrifari sleginn yfir að hafa ekki fengið erindi frá VB af því tilefni.
Formaður óskaði eftir að boðum yrði komið á framfæri við hlaupara að vetrartími er genginn í garð og hlaup stunduð frá Vesturbæjarlaug á sunnudögum kl. 10:10.