Kirkjuráðssögur

Við Magnús Júlíus vorum einir mættir til hefðbundins sunnudagshlaups Hlaupasamtakanna stuttu fyrir jól. Við söknuðum vina í stað, Ó. Þorsteinssonar og Einars blómasala- en ekki síður Gísla okkar Ragnarssonar, sem í eina tíð var einkennistákn Samtaka Vorra. Svo mjög herjaði söknuðurinn á Magnús að hann réðst á blásaklausan hlaupara á leiðinni og spurði: "Er það Gísli?" 

Einar hafði lýst yfir ásetningi um hlaup, en svaf að eigin sögn til 10, og var því dæmdur úr leik. Ekki fékkst viðhlítandi skýring á fjarveru formanns - og Jörundur er að vinna á gamals aldri.

Við Magnús lögðum í hann í afbragðs veðri og góðri færð, engin hálka. Við vorum flottir. Það komu sögur úr Kirkjuráði, en fæstar birtingarhæfar. Fórum rólega yfir og var enginn asi á okkur. Varð hugsað til drengjanna sem ætluðu að þreyta Sólstöðuhlaup í dag. Svoleiðis menn eru náttúrlega ekki í lagi. 

Komið í Nauthólsvík og beygt af, enda engir sagnamenn með í för, sem gætu réttlætt langa gönguspeli og sögur. Raunar vorum við Magnús búnir að afgreiða porsjón V. Bjarnasonar þessa vikuna og það snemma hlaups. Einnig var búið að ræða kirkjugarða og jarðarfarir.

Við kláruðum glæsilegt hlaup á góðum nótum - og um það er komið var til Laugar dúkkuðu upp tveir jólasveinar sem ætluðu að þreyta "Sólstöðuhlaup" - og var haft á orði af viðstöddum að svona menn kæmu óorði á hlaup.

Í Pott mættu valinkunnir Vesturbæingar, próf. dr. Einar Gunnar, próf. dr. Baldur, Ó. Þorsteinsson, Einar blómasali - síðar komu Pjetur og Unnur og Stefán verkfræðingur. Margt rætt af skynsamlegu viti, gamlar bílnúmeraæfingar rifjaðar upp og ættir manna raktar. Umræðan náði hápunkti þegar fjallað var um gamla einkunnastiga og viðleitni Jónasar frá Hriflu til að stemma stigu við yfirgangi embættismannakerfisins með aðförinni að Reykjavíkur Lærða Skóla 1928 - og Framsóknarmenn samtímans hafa tekið upp af nýju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband