Þorvaldur lýkur sundur munni

Það fer almennt ekki mikið fyrir honum Þorvaldi í hlaupum. Ef maður er svo óforsjáll að hlaupa Sólrúnarvellina við hlið hans er maður umlukinn hvítlauksskýi sem er ekki endilega heppilegasti valkosturinn við ástundun iðju sem krefst lágmarksmagns af súrefni. En nú brá svo við í hefðbundnu hlaupi sunnudagsins að það kjaftaði á honum hver tuska. Umræðuefnið var forsetaframbjóðendur og fullyrðingar þeirra, oft í fylgd með prósentum, sem óvíst væri að styddust við vísindalegar rannsóknir. 

Við vorum sem sé mættir nokkrir drengir til hlaupa á sunnudagsmorgni, skrifari, blómasali, Formaður til Lífstíðar og nefndur Þorvaldur. Ætlunin var að taka snarpt hlaup og ræða heimsmálin í leiðinni. Við afgreiddum forsetakosningarnar á kortéri, vorum þá komnir langleiðina inn í Nauthólsvík. Gengið í Nauthólsvík og farið yfir veikindi þekktra einstaklinga. 

Á leiðinni vann blómasalinn það einstaka afrek að ættfæra manneskju rétt, þ.e. feðraði hana og gat sagt hvert starf föðurins var. Þetta fannst Formanni svo einstakt að það skyldi fært á bækur. Er það hér með gert.

Veðurstofa og Klambrar, ekkert tíðenda, utan hvað menn köstuðu kveðju á tréð hans Magga. Á Sæbraut var fjöldi ferðamanna og var heilsað á báða bóga. Þorvaldur sparkaði grjóti í unga ferðastúlku og varð henni allhverft við, hefur greinilega talið Íslendinga friðsæla og meinlausa. Nú kynntist hún nýrri hlið á landsmönnum. 

Hylling á Austurvelli. Upp Túngötu og til Laugar. Í potti voru Baldur, Einar Gunnar og Ólafur Jóhannes ásamt fleirum. Rætt áfram um forsetakosningar og EM í fótbolta. Það er allt að gerast. 

Minnt er á minningarhlaup Guðmundar Gíslasonar nk. þriðjudag.

 


Magnús með nótu

Við vorum mætt, nokkrir af drengjunum hennar Jóhönnu og fáeinar stúlkur, nánar tiltekið Bjarni Benz, Flosi, Súsanna, Tobba, Jóhanna sjálf, skrifari - og síðar bættust Hjálmar og Frikki í hópinn. Ætlunin var að taka sprettinn á hefðbundnum mánudegi. Jóhanna talaði eitthvað um fartleik, en þess háttar ábyrgðarlaust hjal fer gjarnan inn um eitt eyra og út um hitt hjá þessum hlaupara, án viðkomu þar í milli. 

Fyrirmæli dagsins: upp á Víðirmel, út á Suðurgötu, Skítastöð og svo átti að taka spretti ein, tú, trei, fire. Út á Nes. Ég kjagaði á eftir þeim á mínum snigilhraða, en er þó farinn að halda út í lengri vegalengdir. Er kom að Skítastöð stóðu Frikki, Tobba og Benzinn í hrókasamræðum um hlaupakosti og vegalengdir, og aðallega um það hvernig Tobba gæti náð 10 km.

Þau hin voru lögst í spretti. Ég setti stefnuna á Vesturbæinn og fannst við hæfi að láta 6 km duga eftir hlaup gærdagsins. Fín upphitun.

Í Útiklefa varð á vegi mínum Skerjafjarðarskáldið og kvaðst hann sakna frásagna minna á bloggi Samtaka Vorra af hrakförum hlaupafélaga minna, einkum væru eftirminnilegar frásögur af flugferðum prófessors Fróða "og svo var góð sagan af krossfestingunni í Öskjuhlíð". Er ég fór upp úr hitti ég Magnús tannlækni, óhlaupinn. Hann játaði strax, en sagði: "Ég er með nótu!" Hér hugsaði skrifari hvort frú Lína væri farin að falsa fyrir hann afsakanir fyrir að mæta ekki í hlaup. En Magnús dró upp reikning frá bifreiðaverkstæði - það var nótan.

Næsta hlaup kl. 6:02 í fyrramálið og þá mætir blómasalinn - kannski.


Hlaupið lítillega á sunnudegi.

Við vorum mættir félagarnir á Hvítasunnunni, Ólafur Þorsteinsson, blómasali og skrifari. Hlupum létt skeið á Ægisíðu og vorum í fantaformi. Rætt um það helsta sem borið hefur á góma í Vesturbænum upp á síðkastið. Þessi vísa eftir Hjálmar Freysteinsson flaut með:

Fyrst þeir ræddu flókin mál,

fóru svo að snæða.

Sigurður Ingi sagði "Skál!"

sem er ágæt ræða.

Einar blómasali er iðjusamur framkvæmdamaður og leyfði tímaplan hans ekki að farið yrði lengra en um Hlíðarfót, sem var allt í lagi og skárra en að fara alls ekki neitt.

Í Potti voru próf. emeriti Baldur og Einar Gunnar. Rætt um mat og merkjavöru og ættir nýkjörins Neskirkjuprests. Baldur rakti þær gjörla. Einar Gunnar rifjaði upp ummæli Jónasar frá Hriflu um Bændaflokkinn"Bændaflokkurinn er dauður, en hann veit bara ekki af því." Taldi hann það sama geta átt við Davíð Oddsson.

Boðið er upp á hlaup af nýju á annan í hvítasunnu kl. 10:10 frá VBL.


Hvílíkur kraftur, hvílík lipurð, hvílík hógværð!

Metþátttaka var í hlaupi dagsins hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Þessir voru: Þorvaldur, Fróði, Jóhanna, Flosi, Benzinn, Maggi, Rúna, skrifari, Ingi, Frikki, Hjálmar og Ósk auk þess sem Súsanna var viðstödd, en hjólaði. Langt er síðan slíkur fjöldi hefur komið saman til hlaupa. Skrifari gat upplýst um morgunverð blómasala í Danaveldi í morgun: vafningur, tvö egg, ristað brauð með áleggi - og einn kaldur á eftir.

Spurt var um plan dagsins og Jóhanna nefndi nokkrar Perlur. Ágúst varð áhyggjufullur. Flosi lagði af stað á undan okkur. Svo lagði heila hersingin upp, mishratt, og var Hjálmar sýnu hraðastur, án þess að sjáanleg ástæða væri fyrir asanum á svo ágætum degi í hópi dáindismanna og -kvenna.

Nú brá svo við að skrifari var furðu léttur á sér og enda þótt hann drægist venju samkvæmt fljótt aftur úr þeim hinum hélt hann uppi óslitnu hlaupi alla leið inn í Nauthólsvík og er það í fyrsta sinn á þessu vori. Það er breakthrough og vísbending um að þrotlausar æfingar undanfarinna vikna eru farnar að skila sér. Nú fer hálfmaraþon að verða að raunhæfu markmiði.

Ég sá til þeirra hinna framundan mér, en vissi sosum lítið um afdrif þeirra. Einhverjir fóru Hlíðarfót, aðrir í Öskjuhlíð og enn aðrir eitthvað lengra. Þetta var bara flott hlaup, þrek og styrkur að koma tilbaka hjá þessum hlaupara.

Pottur kunnuglegur, skrifari, Flosi, Benzinn, Frikki og Súsanna. Svo kom m.a.s. Þorvaldur. Rætt um skúrbyggingar, Sigga sundvörð og kúka í lauginni. Nú fer tilveran að verða lík sjálfri sér, nú vantar bara blómasalann.


Hlauparar niðurlægðir

Mættir til sunnudagshlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins Helmut, Jörundur, Magnús, Ó. Þorsteinsson og skrifari. Hlaupasamtökin eru að ná vopnum sínum og viðburðir Samtaka Vorra að ná fyrri virðingu og eftirtekt. Helstu málefni reifuð í Brottfararsal, en frekari ígrundun beið hlaups. Nægur var tíminn, við sáum fram á hátt í tveggja tíma hlaup, göngu, sögur og hvers kyns greiningar. Sunnudagshlaup eru hátíð. Góðir, velviljandi og velmeinandi piltar taka töltið og segja sögur.

Menn ræddu málefni próf. Fróða, sem ætlar í eitt langt hlaup í Grenoble í sumar, 170 km með 10.000 metra hækkun. Var það álit manna að prófessorinn væri magnaður afreksmaður verandi ekki íþróttamannslegar vaxinn. En þetta var nú bara okkar prívat skoðun, nokkurra vaskra drengja í Vesturbænum. 

Tölt var af stað í yndislegu veðri, björtu og fögru þótt svalt væri. Sama sagan og áður með þá Jörund og skrifara, nokkuð langt í að eðlilegt þrek byggist upp eftir árs fjarveru frá hlaupum, en þetta kemur vonandi smám saman. Farið hægt um Ægisíðu og Formaður heilsaði á báða bóga - á ensku - sýnandi að í þessu landi býr kúltíveruð þjóð sem kann erlend tungumál. Þeir hinir nokkuð á undan, en við Jörundur bara spakir. 

Sama gilti og síðasta sunnudag, stefnan sett á Nauthólsvík með gönguhléum, eftir það er skrokkurinn orðinn heitur og ræður betur við eðlilegan hlaupatakt. Í Kirkjugarði fóru þeir Helmut, Jörundur og Magnús að vitja vökumanns garðsins, sem jarðsettur var þar 1932, en við frændur héldum áfram upp úr garði og settum stefnuna á Veðurstofuhálendið. Rætt um reykingar og ísbúðir. 

Héldum raunverulega nokkuð góðu tempói og samfelldu hlaupi út á Rauðarárstíg, þar sem félagar okkar náðu okkur loksins. Niður á Sæbraut og svo áfram um Miðbæ og Túngötu.

Gott hlaup, hiti og sviti. Blómasalinn kom í Pott og kvaðst hafa verið upptekinn við að spartsla, slípa og mála heima við. "Maður verður að forgangsraða" sagði hann til skýringar. Hlaut hann háðulega ádrepu fyrir svo vanhugsaða "forgangsröðun" Hlaup hafa alltaf forgang.

Aðrir í Potti: Unnur og Pjetur, Mímir, próf. dr. Einar Gunnar, Stefán og Helga - auk fyrrnefndra hlaupara. En hlutirnir komust fyrst á hreyfingu þegar Maggie kom, hún tilkynnti vafningalaust að Fyrsti Föstudagur maí-mánuðar yrði hjá henni á Ljósvallagötu 30, föstudaginn 6. maí nk. Í boði verður namibískur matur. Strictly BYOB policy. Skipulegt borðhald hefst kl. 19:00. Formaður minnti á Melahlaup í lok júlí, en þar stendur Maggie vel að vígi að vinna bikarinn til eignar eftir góða frammistöðu síðastliðin tvö ár. 

Næst er hlaup á morgun kl. 17:30.


Hamingja

Hvílíkur hópur sem mættur var til hefðbundins sunnudagshlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Formaður Vor til Lífstíðar, Þorvaldur, Bjarni Benz og svo við Jörundur, ef okkur skyldi kalla, þvílíkir erum við nú um stundir. En hálfmaraþon er framundan í sumar og ekki dugar að slá slöku við. Veðrið var bara eins og úr íslenskri kvikmynd, sól, stilla, milt, 2ja stiga hiti sem hækkaði skjótt. 

Rætt um þá lúðulaka og lufsur sem Kári segir að fylli þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Er Þingmaður Vor þar á meðal? Um það var spurt á þessum fallega morgni. Við vorum keikir er við lögðum upp, en söknuðum þó félaga okkar, Magnúsar og blómasalans. Með slíkum hefði hópurinn verið nánast fullmannaður.

Jæja, lagt upp á rólegu nótunum og þeir fóru fyrir Formaður, Þorvaldur og Benzinn. Frétzt hefur að Denni hafi óskað eftir frestun á Fyrsta Föstudegi til 15. apríl nk., og er sjálfsagt að verða við því að því tilskildu að fram komi uppbyggileg tillaga frá téðum frestunarsinna um virðulegan og viðeigandi viðburð þann dag. Varla munu menn sætta sig við Ljónið, trúlega ala einhverjir í brjósti sér vonir um svenska köttbullar, prins korv og revbensspjäll. 

Jæja, þetta gengur vonum framar, létt skokk, létt spjall og menn bjóða góðan daginn á báða bóga. Einhverra hluta vegna býður frændi minn gjarnan góðan daginn á ensku, hafandi ekki í hug sér að flestir sem hann mætir eru Íslendingar. Þeir verða skiljanlega forviða á svo framandlegri kveðju, og mætti e.t.v. benda honum á að bregða fyrir sig "nýfenginni þýzkukunnáttu", svo vitnað sé til próf. dr. Baldurs. Meira um það seinna.

Fátt varð tíðenda á leið okkar, engir þekktir einstaklingar urðu á vegi okkar og enginn sem þurfti að stöðva og ræða heimsmálin við. 

Nú kemur upp spurningin: hversu langt skal halda í dag hálf farlama manni og fótafúnum? Skítastöð, Hlíðarfótur eða hvað? Jörundur sagði skrifara í algjörum trúnaði: "Ólafur Þorsteinsson mun hætta hlaupi eftir Kirkjugarð og taka upp göngu og kjaftagang, svo að það skiptir engu máli þótt við fylgjum honum þangað." Á þann veg plataði hann skrifara að fylgja þeim hinum eftir alla leið inn í Nauthólsvík og þaðan áfram í Kirkjugarð. Sem var hið besta mál því að félagar okkar biðu eftir okkur Jörundi og sáu til þess að eðlileg umræða og upplýsing gæti átt sér stað.

Eftir Kirkjugarð er þetta nánast búið, Hlíðar þar sem Vilhjálmur Bjarnason mundi ekki nafnið á Björk Guðmundsdóttur, Miklabraut þar sem Þorvaldur Gunnlaugsson hefur æ ofan í æ storkað almættinu, Klambrar þar sem ónefndur heilbrigðisstarfsmaður tæmir gjarnan skinnsokkinn sinn undir vel völdu tré, Rauðarárstígur þar sem ávallt er gengið og hér margfölduðust kveðjur Formanns til forviða og óundirbúinna túrhesta.

Stefnan sett á Sæbraut og þar mátti svala þorstanum í vatnsbrunni Hjálmars okkar, og kaldara og heilnæmara vatn býðst ekki annars staðar í Borgarlandinu.

Nú seig á seinni hlutann í hlaupi dagsins, Bjarni bara í fantaformi og þeir Jörundur og skrifari furðu sprækir, hefur þó sá síðarnefndi vart hreyft sig í heilt ár. Farið hefðbundið um Miðbæ, hylling hjá Café París, og þaðan upp Túngötubrekkuna. Við Jörundur signdum okkur hjá Kristi og mömmu hans, enda höfum við ekkert upp á þá slekt að klaga. Komið á Plan og teygt, sviti og þreyta, en hamingja að afstöðnu ágætu endurhæfingarhlaupi.

Pottur hreint ótrúlegur, Baldur að vísu farinn á vit schitzchel von kalb, að sögn Formanns, sem varð tilefni orðahnippinga milli hans og Baldurs í Brottfararsal og fram kom ásökun prófessorsins áðurnefnd um "meinta" þýzkukunnáttu" Formanns. Aðrir mættir frú Helga læknuð handarmeina sinna og Stefán verkfræðingur, Unnur og Pétur, próf. dr. Einar Gunnar, Mímir, og svo fyrrnefndir hlauparar. Ungt par var og í Potti sem skrifari taldi að myndi flæmast fljótt á brott, en annað kom á daginn og sátu þau sem fastast og nutu sérvitringslegrar umræðu með vísbendingaspurningum, persónufræði og bílnúmerum. 

Það voru mikil vonbrigði að hvorki Magnús né blómasalinn skyldu mæta í svo ágætt hlaup, ganga í vaskra sveina hópi um Kirkjugarðinn á sunnudagsmorgni. Ef það er ekki hamingja þá skil ég ekki hugtakið. Næsta hlaup á morgun kl. 17:30.


Skrifari mætir til hlaupa á ný

Þau tíðindi urðu í dag í annálum Samtaka Vorra að Skrifari mætti til hlaups á sunnudegi og mun vera í fyrsta skipti í ár að það gerist. Aðrir mættir voru Jörundur, Maggi og Einar blómasali. Veður fagurt, hægur vindur og 6 stiga hiti, gerist vart betra á þessum árstíma. Var skrifara að vonum fagnað eftir svo langa fjarveru, en jafnframt lýst yfir vilja til að fara hægt, jafnvel ganga inn á milli.

Í Brottfararsal var sett fram hugmynd um það að Vilhjálmur þingmaður vor flytti tillögu í þingflokknum um slit stjórnarsamstarfs. Með því tryggði hann sér þingsetu alla vega eitt kjörtímabil í viðbót. 

Lagt upp frá Laug á hægu tempói og snerist umræðan um væntanlegan Kastljóssþátt í kvöld þar sem er að vænta mikillar afhjúpunar. Við Jörundur héldum hópinn en þeir hinir fóru á undan með miklum gorgeir og yfirlýsingum. Fórum bara rólega og ræddum möguleikann á að hlaupa hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoni, við myndum þó alla vega vera á undan VB þótt engar yrðu rósirnar.

Gengið í Skerjafirði og leitað að Bauganesi. Svo var hlaupið áfram og eftir það skiptist á göngu og hlaupi sem er svo sem ekkert nýtt á sunnudögum. Náðum þannig einum 5 km og allnokkrum svita sem verður að teljast bara þokkalegt í fyrsta hlaupi eftir meiðsli. Mættum Línu á leið til kirkju og lýsti hún yfir mikilli ánægju með þessa tvo hlaupagarpa.

Pottar allir meira og minna dysfunksjónal svo að menn urðu að hnappast í stóra pottinn, en þar var valinn maður í hverju rúmi: Helmut og Jóhanna, Unnur og Pjetur, Tobba, Einar Gunnar, Mímir, Dóra og Stefán verkfræðingur auk okkar Jörundar. Sumsé enginn Formaður til Lífstíðar og er því eðlilegt að menn spyrji: hvar var Formaður á svo ágætum degi þegar við helstu drengirnir í Vestbyen hlupum?

Næst er hlaupið á morgun mánudag kl. 17:30.


Hádegispottur

Pottur vel mannaður á nýju ári: Formaður Vor til Lífstíðar, Jörundur prentari, Mímir, Einar Gunnar, Þorbjörg, Dóra, Helga, Unnur, Pjetur, Stefán og skrifari. Hér var ekki töluð vitleysan. Upplýst om tvær nýjar krossfestingar: Ólafur Þorsteinsson er nýr handhafi gull merkis Víkings, sem aðeins 20 manns fá að bera á hverjum tíma. Jörundur var heiðraður með silfurmerki Flugbjörgunarsveitarinnar. Það eru heiðursmenn á meðal vor. Rætt um væntanlegar hreinsanir meðal toppa lögreglunnar í Reykjavík, hrókeringar í röðum sendiherra í utanríkisþjónustu og væntanlega frambjóðendur til forseta Íslands.

Minnt er á Þorrablót Samtaka Vorra 5. febrúar nk. Þátttaka óskast tilkynnt skrifara.

í gvuðs friði.


Þvílíkur fábjáni

Ekki þekkir maður marga fábjána. Kannski er fábjáni engin definitív stærð, heldur aðili sem tekur rangar ákvarðanir í gefnum aðstæðum. Alla vegana var sú ákvörðun blómasala að mæta ekki til hlaups í dag þegar skrifari mætti með ferskt gæðasúkkulaði frá Belgíu röng. Skrifari kom sumsé með beinu flugi frá höfuðborg Evrópusambandsins og lenti kl. 15:15 og hafði gert stuttan stans á Landakotshæð þegar haldið var til Laugar. Hafandi baðast hitti hann fyrir Flosa og Ólaf heilbrigða og bauð þeim upp á forláta súkkulaði. Blómasalinn mætti ekki til hlaups og fékk þarafleiðandi ekki forláta belgískt gæðasúkkulaði.

Allir vorum við sammála um að blómasalinn væri skammsýnn, að ekki sé minnst á prófessor Fróða, sem sleppti alfarið hlaupi í dag, á Fyrsta Föstudegi. 

Fjarri sé það mér að kalla nokkurn mann fábjána, en...


Enn er hlaupið

Einhverjir kynnu að halda að hlaup væru almennt fallin niður hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á sunnudögum. Svo er ekki. Nú voru mættir skrifari, Formaður Vor, Magnús og Einar lærisveinn. Einar var léttur á sér eins og skógarhind og skottaðist í kringum okkur glaður í bragði þar sem við siluðumst áfram Ægisíðuna. Mikill og hvass mótvindur alla leið austur á Flanir. Hlaupið var hefðbundið með vikuskammti af sögum um vini okkar og því helsta úr bæjarslúðrinu. Gengið á völdum stöðum, en annars haldið vel áfram og tekið á því. Lítil dramatík og hlaupi lauk á léttum nótum á Plani.

Í Potti var lögð ein löng vísbendingaspurning fyrir Helgu sem hún leysti merkilega vel úr með tilheyrandi persónufræði og ættfærslum. Nýr félagi án hlaupaskyldu, Dóra Guðjohnsen, vígð í samfélag vort og fengið nýtt nafn á dr. Baldur. Baldur var fjarverandi og fær ekki að heyra af hinu nýja nafni nema hann sýni sig í Potti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband