Fæddur með múrskeið í munni

Einar blómasali er einhver prúðasti og frambærilegasti félagi Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Ekki einasta er hann mikill, sanngjarn og heiðarlegur athafnamaður, heldur er hann einnig fjölskyldufaðir sem vílar ekki fyrir sér að bruna um sleðabrekkur höfuðborgarsvæðisins með dætrum sínum, þar með tryggjandi góð tengsl og uppbyggileg samskipti við ungviðið. 

Einar blómasali boðaði okkur helztu drengina sem hlaupum með Hlaupasamtökum Lýðveldisins á Mímis bar kl. 18:00, að afloknu hefðbundnu föstudagshlaupi. Ekki varð það tíðindalaust né laust við dramatík. Sem skrifari Samtaka Vorra stóð við barinn og pantaði drukk á hamingjustundarverði af afgreiðslumanni sem ekki var talandi á íslenzku, dúkkar blómasalinn upp og óskar eftir hlutdeild í pöntuninni. Af alkunnri góðmennsku fellst skrifari á að hleypa blómasalanum inn í pöntunina, en eingöngu gegn heilögum svardaga um að sá síðarnefndi greiddi fyrir næstu pöntun. 

Það var pantað pale ale - og nótan hljóðaði upp á 2.600 kr. Hér setti skrifara hljóðan og hann varð dapur og vonlaus til augnanna, en náði að stynja upp: "...en, er ekki heppíáur?" Stútungspiltur svaraði á ensku, að þessi hamingjustund gilti aðeins fyrir tilteknar gerðir bjórs, ekki pale ale. En þegar hann sá sorgina í augum skrifara viknaði hann, breytti bókuninni og sló inn tvo Thule bjóra og nótan breyttist úr 2.600 kr. í 1.100 kr. - sem er nokkuð sem blómasalinn hefði verið fullsæmdur af. En nú kemur það bezta.

Drykkirnir runnu ljúflega ofan í okkur félaga undir mikilvægum samtölum um vandamál einkalífsins, en svo var ekki hjá því komizt að blómasali keypti sinn gang. Nú var komið upp ástand á barnum. Þjónninn kannaðist ekki við happy hour konseptið og benti á spjald við inngang barsins þar sem stóð að happy hour væri milli 16 og 18. Blómasalinn fór inn á síma sinn og leitaði uppi vefsíðu hótelsins. Þar kom fram að það væri happy hour á Mímis bar alla daga milli 16 og 19. Á matseðli staðarins var hins vegar sagt á ensku að happy hour væri "on weekdays" milli 16 og 19, en "on weekends" milli 16 og 18. Hvað er weekday og hvað er weekend? Er það sama og virkur dagur og helgi? Við vorum engu nær.

Einar fór fram í lobbí og benti á þessa anómalíu og fékk liðsinni þaðan til þess að leiðrétta hlut Hlaupasamtakanna gagnvart hinum þvergirðingslega barþjóni. Eftir það þurfti ekki annað en benda á Einar og þá vildi barþjónninn allt fyrir okkur gera. 

A endanum mættu þessi á hefðbundinn Fyrsta Föstudag hvers mánaðar: skrifari, blómasali, skransali, barnakennari, próf. Fróði, Bjarni Benz, Ólöf, Rúna, Ólafur Gunn, Þorvaldur, Flosi og loks rak Kaupfmann Friedrich inn höfuðið. Þá var loks hægt að taka upp hefðbundin fundarstörf. Samþykkt var að heimila blómasalanum að ferðast til Belfast í maí til þess að þreyta ódýrasta maraþon sem sögur fara af, 35 pund í þátttökugjaldi, farseðill á 16.000 kr. og annað eftir því. Samþykkt að fela Helmut og Jóhönnu að finna nýjar píslargöngur á fjöllum næsta sumar. Samþykkt að halda árlegt Þorrablót 6. febrúar nk. - þrír möguleikar: hjá Denna á Nesi, hjá skrifara í Siðmenningunni nærri Móðurkirkjunni - ellegar í Kópavogsdalnum hjá prófessor Fróða. Stefnt að svipuðu fyrirkomulagi og á seinasta ári, með tveimur missterkum gerðum af hákarli - og reiknað með að K.G. Kristinsson sýni af sér sömu rausn og þá að því er varðar hreinsun hins innri manns. 

Þorrablót verður auglýst fljótlega og lýst eftir áhuga einstakra félagsmanna.

Þegar skrifari fór á barinn að panta meira var hann spurður hvort hann væri með "Vöskum mönnum". Það hvarflaði að honum að þetta væri nýtt vinnuheiti blómasalans fyrir hópinn í sætunum - svo að hann svaraði því játandi. Aftur fékk hann drykkinn á hálfvirði. Síðar kom í ljós að "Vaskir menn" væri eitthvert allt annað holl í salnum og búnir að loka að sér.  

Í gvuðs friði,

skrifari 

PS - já, það var víst hlaupið í kvöld og einhverjir ótilgreindir aðilar að sprikla, en það er aukaatriði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband