Þorvaldur lýkur sundur munni

Það fer almennt ekki mikið fyrir honum Þorvaldi í hlaupum. Ef maður er svo óforsjáll að hlaupa Sólrúnarvellina við hlið hans er maður umlukinn hvítlauksskýi sem er ekki endilega heppilegasti valkosturinn við ástundun iðju sem krefst lágmarksmagns af súrefni. En nú brá svo við í hefðbundnu hlaupi sunnudagsins að það kjaftaði á honum hver tuska. Umræðuefnið var forsetaframbjóðendur og fullyrðingar þeirra, oft í fylgd með prósentum, sem óvíst væri að styddust við vísindalegar rannsóknir. 

Við vorum sem sé mættir nokkrir drengir til hlaupa á sunnudagsmorgni, skrifari, blómasali, Formaður til Lífstíðar og nefndur Þorvaldur. Ætlunin var að taka snarpt hlaup og ræða heimsmálin í leiðinni. Við afgreiddum forsetakosningarnar á kortéri, vorum þá komnir langleiðina inn í Nauthólsvík. Gengið í Nauthólsvík og farið yfir veikindi þekktra einstaklinga. 

Á leiðinni vann blómasalinn það einstaka afrek að ættfæra manneskju rétt, þ.e. feðraði hana og gat sagt hvert starf föðurins var. Þetta fannst Formanni svo einstakt að það skyldi fært á bækur. Er það hér með gert.

Veðurstofa og Klambrar, ekkert tíðenda, utan hvað menn köstuðu kveðju á tréð hans Magga. Á Sæbraut var fjöldi ferðamanna og var heilsað á báða bóga. Þorvaldur sparkaði grjóti í unga ferðastúlku og varð henni allhverft við, hefur greinilega talið Íslendinga friðsæla og meinlausa. Nú kynntist hún nýrri hlið á landsmönnum. 

Hylling á Austurvelli. Upp Túngötu og til Laugar. Í potti voru Baldur, Einar Gunnar og Ólafur Jóhannes ásamt fleirum. Rætt áfram um forsetakosningar og EM í fótbolta. Það er allt að gerast. 

Minnt er á minningarhlaup Guðmundar Gíslasonar nk. þriðjudag.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband