Magnús með nótu

Við vorum mætt, nokkrir af drengjunum hennar Jóhönnu og fáeinar stúlkur, nánar tiltekið Bjarni Benz, Flosi, Súsanna, Tobba, Jóhanna sjálf, skrifari - og síðar bættust Hjálmar og Frikki í hópinn. Ætlunin var að taka sprettinn á hefðbundnum mánudegi. Jóhanna talaði eitthvað um fartleik, en þess háttar ábyrgðarlaust hjal fer gjarnan inn um eitt eyra og út um hitt hjá þessum hlaupara, án viðkomu þar í milli. 

Fyrirmæli dagsins: upp á Víðirmel, út á Suðurgötu, Skítastöð og svo átti að taka spretti ein, tú, trei, fire. Út á Nes. Ég kjagaði á eftir þeim á mínum snigilhraða, en er þó farinn að halda út í lengri vegalengdir. Er kom að Skítastöð stóðu Frikki, Tobba og Benzinn í hrókasamræðum um hlaupakosti og vegalengdir, og aðallega um það hvernig Tobba gæti náð 10 km.

Þau hin voru lögst í spretti. Ég setti stefnuna á Vesturbæinn og fannst við hæfi að láta 6 km duga eftir hlaup gærdagsins. Fín upphitun.

Í Útiklefa varð á vegi mínum Skerjafjarðarskáldið og kvaðst hann sakna frásagna minna á bloggi Samtaka Vorra af hrakförum hlaupafélaga minna, einkum væru eftirminnilegar frásögur af flugferðum prófessors Fróða "og svo var góð sagan af krossfestingunni í Öskjuhlíð". Er ég fór upp úr hitti ég Magnús tannlækni, óhlaupinn. Hann játaði strax, en sagði: "Ég er með nótu!" Hér hugsaði skrifari hvort frú Lína væri farin að falsa fyrir hann afsakanir fyrir að mæta ekki í hlaup. En Magnús dró upp reikning frá bifreiðaverkstæði - það var nótan.

Næsta hlaup kl. 6:02 í fyrramálið og þá mætir blómasalinn - kannski.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband