Gamansögur á föstudegi - Fyrsti á Nesi

Biggi sagði okkur skemmtilega sögu af skagfirzkum bónda sem var numinn á brott af geimverum og lenti af einhverjum ástæðum í ristilskoðun (anal probe). Í beinu framhaldi af þessari sögu var rifjuð upp sagan af Haraldi Gormssyni, Danakonungi, sem var að koma úr velheppnaðri aðför að óvinum, kom sér fyrir á völlunum við varðeldinn, kraup á kné og hallaði sér fram á við til þess að njóta vel ylsins. Pálnatóki, helzti óvinur konungs, kom sér vel fyrir í heppilegri fjarlægð, lagði gulli vafiða ör á streng og skaut, þanninn að örin lenti í afturenda konungs, smó hann í gögnum og endaði með oddinn standandi út úr munninum. Lét konungurinn þar lífið með heldur óvirðulegum hætti og þótti viðstöddum býsn mikil.

Hlaupasamtök Lýðveldisins eru menningarsamtök sem halda við þjóðararfinum, frásögum af skemmtilegu fólki og áhugaverðum afdrifum þess. Mætt til hlaupa að afloknu Flugleiðahlaupi voru dr. Jóhanna, Helmut, Kári, Þorvaldur, Birgir, Denni, Rúna, Ósk, Hjálmar, Brynja, Karl, Einar blómasali, Ólafur annálaritari, Kristján af Nesi, Bjarni Benz, Eiríkur og Benedikt. Svo var þýzkur félagi mættur sem ég man ekki nafnið á, e.t.v. Michael. Í útiklefa var hart sótt að Einari og hann spurður hvernig gæti staðið á því að hann hefði látið ritara grilla sig í hlaupi gærdagsins. Blómasali hafði engar haldbærar skýringar á þessu, en reyndi að leiða talið að mat.

Fólk ræður ekki fyllilega við þær aðstæður þegar þjálfarar eru ekki viðstaddir og kom fát á mannskapinn að vita ekki hvað bæri að gera. En á endanum var farið hægt af stað og víst voru allir sammála um að fara hægt og stutt. Ekki erfitt að halda það loforð enda flestir stirðir eftir átök gærdagsins. Benedikt hins vegar byrjaður að derra sig og farinn að æða áfram meir en góðu hófi gegnir. Einn nýbúinn að ljúka maraþoni.

Blómasalinn var ákveðinn í að standa sig í hlaupi dagsins eftir dembuna sem hann fékk yfir sig í útiklefa, leit vel út til að byrja með og var hann með fremstu mönnum. Við Bjarni héldum kompaní inn í Nauthólsvík og þá fór maður að velta fyrir sér: á að fara Hlíðarfót eða áfram? Ég hugsaði sem svo: Hlíðarfótur er fyrir lúsera, maður er rétt að byrja hlaup, á að fara að ljúka því? Þá var bara að halda áfram og taka vel á því.

Við sáum blómasalann ganga upp Hi-Lux, uppgefinn. Náðum honum og hann kvaðst vera búinn. Bjarni hvatti blómasalann til þess að gefast ekki upp, en halda áfram og gefa í upp brekkuna. Blómasalinn fór að tala um tvo 300 gr hamborgara sem hann hefði neyðst til að eta í hádeginu, auk hreindýrafilés sem hann hefði beðið ritara að hjálpa sér með, en ritari brugðist. Bjarni heimtaði að áfram yrði haldið upp brekkuna, ekki stoppað, gefið í. 

Það var haldið áfram um kirkjugarð, Veðurstofu, Söng- og Skákskólann við Litluhlíð þar sem hann Biggi okkar lærði að þenja raddböndin, svo um Hlíðar, Rauðarárstíg og Laugaveginn tilbaka. Á þessum kafla fórum við Bjarni geyst, ógnuðum túristum og eldri konum. En einhvers staðar á þessari leið kom perlan: Það er hellingur af brúklegum kellíngum á Laugaveginum!

Stytzta leið um Miðbæ, Austurvöll, Túngötu og tilbaka á hröðu tempói. Bjarni hafnaði öllum tillögum um að slaka á og fara hægt, minnti á að minna en ár væri í næsta Flugleiðahlaup og ef einhvers árangurs væri að vænti þyrfti að gefa allt í brekkuna. Góður maður!

Teygt vel og lengi á Plani. Sem fyrr var Birgir í aðalhlutverki með leiðbeiningum sínum um jógaæfingar og heppilegar teygjur. Svo fóru menn inn sökum kulda og héldu áfram að teygja og beygja, Helmut með einkennilega teygju á vegg þar sem hann hékk sem köngurló fest á fingurbroddunum við dyraumgjörð. Birgir sá strax möguleikana á listrænni innsetningu og vildi fá aðstoð við að útfæra þemað í dansrænni tryllingu.

Svo var pottur. Ekki þarf að orðlengja að hann var kaldur og hlauparar orðnir bláir af kulda áður en yfir lauk. Denni bauð í Fyrsta Föstudag á Nesi af alkunnri rausn. Anna Birna átti afmæli og því varð að fresta gleði á Reynimel. Er komið var á Vallarbraut á Nesi hafði Denni kokkað yndæla fiskisúpu fyrir 20 manns, innihaldandi humar, skelfisk, krabbakjöt og annað góðgæti. Hins vegar létu aðeins þessir sjá sig: Bjarni, Helmut, Jóhanna, Birgir og Ólafur ritari. Miðað við rausnarskap bóndans á Nesi þá voru undirtektirnar ákveðin vonbrigði. Við áttum hins vegar ánægjulega stund á þessum vindasama stað og snörum þaðan betri menn (og konur).

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Hefði mætt í súpu á Nesi ef ekki væri barn í heimsókn. Þess utan: menn gleðjast yfir litlu, til dæmis árangri í Flugleiðahlaupi miðað við fæðingarár. Aðgætti árangur hjá jafngömlum hlaupurum og eldri og niðurstaðan varð:

30:41:00 Vöggur Magnússon 1947 Árbæjarskokk
33:35:00 Grétar Einarsson 1949 
33:48:00 Guðmundur Ólafsson 1949 ÍR Skokk
34:53:00 Flosi A H Kristjánsson 1951 Hlaupasamtök

Flosi Kristjánsson, 8.5.2009 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband