Mánudagur - Brekkusprettir

Mættir fjölmargir í vondu hlaupaveðri, þriðja hlaupið á jafnmörgum dögum hjá sumum okkar, þessi var með samanlagt 81 km í liðinni viku. Talning fór ekki fram en fjöldi slagaði í 20. Friðrik læknir mættur eftir nokkra fjarveru. Þjálfarar vildu fara með okkur í Bakkavörina. Farið upp á Reynimel og þaðan vestur úr og út á Nes. Þar mættum við Neshópi sem var seinn út vegna hefðbundinna upphitunaræfinga sem við sleppum.

Sprett úr spori í Bakkavörinni og munu hafa verið teknar einar 11. Ritari nennti þessu ekki eftir fimmtu ferð, en hélt áfram um Kallabrekku og Lindarbraut og lét gamminn geisa á Norðurströndinni. Tel ég að þar hafi eigi verið farið yfir 5 mín. tempói. Aðrir hlauparar fóru stytztu leið til Laugar og enduðu á innan við 10 km - ritari fór rétt um 11. Magnús Júlíus mættur óhlaupinn, en uppfullur af glensi sem ekki er hafandi eftir. Þar var sjósundsfólk á ferð sem vakti mikla aðdáun Birgis, og þurftu viðstaddir að minna hann á að hann væri sjálfur sjósundsmaður og nagli.

Þegar komið var tilbaka hafði veður breytzt til hins betra og var dottin á góðviðrisblíða.  Biggi tók jógastöðu sem er öndverð við það er gengur og gerist: á haus. Hélt henni dágóða stund. Teygt vel og lengi og gert góðlátlegt grín að einstökum félögum sem upp á slíkt bjóða. Margt fróðlegt úr fortíð einstakra hlaupara kom fram hér, en verður ekki tíundað af virðingu fyrir fjölskyldum þeirra. Áfram var haldið í potti í sama anda, en auk þess snerist umræðan um hagfræði og kvöldmat.

Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband