Heilabrot

Menn hafa verið að velta því fyrir sér af hverju Benzinn er svona snakillur í hlaupum. Hefur þetta einna helst bitnað á okkur vinum hans sem enn nennum að drattast með honum fetið um stígana. Nú maðurinn er alltaf að hlusta á Útvarp Sögu og mætir svo vel nestaður fordómum og hvers kyns bulli úr þessum fjölmiðli í hlaupin til okkar. Því var það að blómasalinn sagði við hann nú síðast: “Bjarni, hættu að hlusta á Útvarp Sögu.” Sjáum til hvort þessi lækning virkar.

En nú að hlaupi dagsins. Það var fagur dagur, heiðskír sunnudagsmorgunn, þótt napurt væri. Tveir þekktir hlauparar höfðu lýst yfir ásetningi um hlaup, blómasali og Benz. Hvorugur mætti. Hins vegar voru mættir tveir staðfastir hlauparar, þeir Þorvaldur Gunnlaugsson og skrifari. Þeir fóru fetið í fullkominni eindrægni og æðruleysi. Það var Hlíðarfótur hjá þeim fyrrnefnda, en full porsjón á sunnudegi hjá skrifara. Rætt um heilsufar og lífeyrismál.

Það var býsna ljúft að renna hefðbundið skeið á þessum fallega degi, þótt einmanalegt væri. Fyrir vikið gekk þetta hraðar fyrir sig, enda ekki verið að stoppa á völdum stöðum til að kjafta og leggja fyrir spurningar. 

Í Potti voru valinkunnir gáfumenn. Ó. Þorsteinsson bar fyrir sig að e-r Gugga hefði látið hann hafa hassperur og því gæti hann ómögulega hlaupið á sunnudegi. Rætt um dúfnarækt fyrr á tímum og allt aftur í hið forna Rómarveldi. Þar voru Einar Gunnar, Mímir, Guðni Kjartans og frú, og kennari einn margfróður úr Reykjavíkur Lærða Skóla. Og því var rætt um skólaskýrslur þeirrar merku stofnunar og einkunnagjöf fyrr og nú. 

Nú er að sjá hvort menn hristi af sér slyðruorðið og mæti til hlaups á mánudegi.


Frásögur af nýlegum afrekum

Skrifari hefur vanrækt pistlaskrif upp á síðkastið, en hlaup hafa verið iðkuð af kappi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins í haust og vetur. Einnig hefur verið stofnuð göngudeild fyrir hlaupalúna og eldri félagsmenn sem ekki treysta sér til að hlaupa. Hittist hún á sömu tímum og hlauparar. Félagslíf stendur með miklum blóma og er skemmst að minnast jólaboðs hjá honum Jörundi 15. desember þar sem um 30 manns mættu og gerðu jólamatnum góð skil.

Hlauparar úr hópi vorum tóku þátt í kirkjuhlaupi TKS á annan daginn og sumir mættu einnig í Gamlárshlaup ÍR í arfavitlausu veðri. En reglubundin hlaup halda áfram. Fámennur hópur fór daginn fyrir Gamlár, þegar Einar fékk í magann og varð að snúa við, 2. jan og svo í gær, 4. janúar. Þetta eru skrifari, Einar blómasali, Bjarni Benz og svo ýmist Ólafur Gunn eða Ólafur Þorsteins. Einnig hefur sést til Þorvaldar Gunnlaugs og Inga. Tobba og Rúna fóru með okkur á miðvikudag og Baldur Tumi einnig. Svo að menn sjá hvílík gróska er í starfi voru. Enda ekki hægt að kvarta yfir veðrinu, 10 stiga hiti dag eftir dag og snjólaust. Með gönguhópi fara Helmut, Maggi, Jörundur og Flosi. En til próf Fróða sést ekki, stundum dúkkar veðurbarið andlit hans á Fésbók þar sem hann kveðst hafa hlaupið upp að Steini, en lætur annars asfalt og jafnsléttu eiga sig. Og þaðan af síður að menn haldi upp á Fyrsta.

Verst er náttmyrkrið á þessum árstíma því að sumir menn eru náttblindir og rata illa um skógarstígana í Öskjuhlíðinni í myrkri. Hér má hafa not af ennisljósum sem sumir eiga. En nú fer sól hækkandi á lofti og verðum við hlauparar varir við það þegar í lok mánaðarins. 

En það var sum sé hlaupið, og gengið, í gær, föstudag. Helmut var einn, en hlauparar voru Einar blómasali, Bjarni, Óli Gunn og skrifari. Til þeirra sást, Denna skransala og Sæma, þar sem þeir fetuðu sig áfram upp Hofsvallagötu í átt að brynningarstöðunum, löngu áður en eiginlegt hlaup hófst. Við hinir fórum okkar hefðbundnu leið niður á Ægisíðu. Hittum Magga á leiðinni með hund í taumi sem hafði gert sín stykki á gangstéttina og Maggi benti stoltur á afurðina. Það var stífur mótvindur út í Nauthólsvík og varla að það heyrðist mannsins mál á leiðinni. Líklega var það þess vegna sem Benzinn sá sig knúinn að hækka róminn. Eða var það vegna þess að þegar hann sýndi mér nýju Asics Kayano hlaupaskóna sína sagði ég þá henta fyrir starfsemi Gönguklúbbs Sjálfstæðiskvenna á Seltjarnarnesi? Bjarni var ekki sáttur við þá einkunn.

Það varð strax bærilegra í Öskjuhlíð og fórum við sem leið lá undir Bústaðaveg og gerðum úttekt á tröppunum góðu. Hugsuðum hlýlega til Dags borgarstjóra og hans Hjálmars okkar sem ávallt bera hag okkar fyrir brjósti við endurnýjun samgöngumannvirkja. Svo var farið þetta hefðbundið um Hlíðar og Klambra og spannst mikil umræða um kjör ríkisstarfsmanna. Laugavegur með látum og öskrum. Menn signdu sig á Landakotshæð og héldu til Potts. Ekki sást reykurinn af þeim Helmut, Denna eða Sæma. Spurning hvort Fyrsti Föstudagur hafi verið tekinn fullsnemma?


Þvílíkir snillingar!

Þeim er ekki fisjað saman, hlaupurunum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, þeim sem mæta til hlaupa þrisvar til fjórum sinnum í viku hverri. Nú voru mættir skrifari, Benz og Benzlingur, blómasali og Ólafur hinn. Svo mættu Ósk og Hjálmar alhress. Mikill mannjöfnuður var uppi um hvor væri meiri kappi, Benzinn eða blómasalinn. Aðrir stóðu horskir hjá.

Lagt af stað í fallegu veðri, stillu, þurru, hiti 6 stig. Þau Ósk og Hjálmar hurfu strax á fyrstu metrunum og höfðu hann Bjarna með sér. Má það kallast mannrán um miðjan dag. Við hinir á eftir og héldum þó þétt og gott tempó alla leið inn í Nauthólsvík, skrifari heldur á undan því honum leiddist barlómurinn í þeim hinum um gengissig og búksorgir hvers kyns. Nú datt það ofan yfir okkur Einar að við gleymdum að taka hann Magnús með okkur á trillunni, en Magnús hefur lýst miklum áhuga á trilluútgerð frá Vesturbæjarlaug.

Við róuðum okkur í Nauthólsvík og fórum fetið. En brátt settum við Benzinn upp tempóið og eftir það var ekki litið til baka. Máttu þeir hinir hafa sig alla við til að halda í við okkur. Fórum upp Suðurhlíð, yfir hjá Perlu og niður Stokk í niðamyrkri. Hringbrautin tekin með látum. Um það er við komum til baka kom Ólafur hinn og var eitthvað að sprikla undir lok hlaups, en við hinir leiddum það hjá okkur. 

Geysilega þétt og gott hlaup og góður pottur á eftir með umræðu um mat. Benzinn upplýsti að hann myndi hýsa julefrukost þetta árið. Söknuðum Gústa í hlaupi dagsins.


Sunnudagshlaup

Í Brottfararsal á sunnudagsmorgni var um það rætt með hvaða ráðum við gætum dregið hann Magnús okkar með okkur í hlaupin á ný. Það voru Ólafur Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, Einar blómasali og Ólafur skrifari sem lögðu á ráðin um heilsubót fyrir fjarstaddan tannlækni. Veður gott, stilla, frost, yndislegt! Hlaupið hefðbundið en fáir urðu á leið okkar og enginn sem bað um viðtal. Fyrr en í Nauthólsvík að hún Irma varð á vegi okkar á ferð með Landvættum sem stunda hlaup, sjósund, göngur og ég veit ekki hvað. Her manns sem steðjaði upp úr fjörunni og við fundum til smæðar okkar, einungis þrír eldri herramenn á ferð.

Tröppu miðar vel áfram og menn sjá fyrir sér pallinn þar sem Formaður getur staðið og flutt snjallar ræður yfir konum með ættarnöfn. Leiðin lá um þekktar slóðir enda erum við ekki þekktir fyrir að breyta mikið til. Þó voru gerð afbrigði er komið var á Hlemm, farin Hverfisgata niður í bæ og gerð úttekt á nýbyggingum, sem margar hverjar munu vera undir íbúðir.

Pottur var fullmannaður að heita má, utan hvað Guðni Kjartansson lét sig vanta og var miður því að uppi voru óskir um að ræða við hann orðbragð Keflvíkinga á knattspyrnuvellinum á sjöunda áratugnum. Þarna voru Jörundur prentari, Stefán, Mímir, dr Einar Gunnar, Margrét barnakennari - auk hlaupara. Vantaði bara dr Baldur til þess að pottur gæti talist fullsetinn.


Fyrsti í nóvember

Boðað var til hlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á föstudegi, þeim hinum Fyrsta í nóvember og þarafleiðandi fyrirheit um drykkju að hlaupi loknu. Þá mæta oft sumir hlauparar. En ekki nú, í dag voru aðeins hinir staðföstu mættir: Flosi, Benz, Einar blómasali, Ólafur skrifari og Benzlingur. Veður var stillt, en ekki hlýtt og því tekin ákvörðun um balaklövu. Það sást til Gísla Ragnarssonar, fornfrægs félaga vors, og hafði hann góð orð um það að fara að mæta á ný til hlaupa með okkur. Hins vegar sást ekkert til prófessors dr Fróða sem hefur haft sig mjög í frammi á samfélagsmiðlum og haft uppi bæði hótfyndni og hortugheit. 

Við hlupum saman af stað og héldum hópinn allan tímann, enda eru föstudagshlaup félagshlaup. Rætt var um einhvern mikinn skandala sem ég er búinn að gleyma hver var, en var mjög svívirðilegur og bæði Bjarni og blómasalinn voru mjög fonnemmaðir, Bjarni raunar svo mjög að hann tók aukahopp og hlaup upp á nærliggjandi hljóðmanir til þess að tjá reiði sína. Svo var það gleymt og við héldum áfram. 

Við hlupum framhjá Bragganum og vorkenndum fólki sem þar sat inni og neytti veitinga. Aumingja fólkið, að þurfa að hírast þarna inni þegar það gæti fyllt kátra sveina hóp á stígum úti! 

Jæja, næst var það Öskjuhlíð og stígurinn upp, hann var glerháll og var skrýtið að fara úr marauðu í Vesturbænum í glerhálkuna í Austurbænum, sem þó er landfræðilega nálægur hinum fyrrnefnda, þótt margt sé í kúltúr, innræti íbúa og hugarfari sem greini þessa bæjarhluta að. Fórum að tröppunum góðu upp á Veðurstofuhálendið, verki vindur fram, og gladdi það okkur mjög að sjá hitalagnir í tröppunum, sem þýðir að þær verða auðar í vetrarbyljunum. 

Nú var hlaup hálfnað og við fórum hjá Saung- og Skák, um Hlíðar og Klambra og kíktum inn á málverkagallerí á Rauðarárstíg og sáum Kjarval, sem Benzinn sagði að væri alls enginn Kjarval. Þeir hefðu nefnilega umgengist hvor annan hér forðum daga og hann þekkti sinn Kjarval. Áfram niður Laugaveginn með öskrum og látum sem linnti ekki fyrr en á Landakotshæð þar sem Benzinum tókst að fá hóp af skólakrökkum upp á móti sér og hlupu með öskrum á eftir þeim feðgum út úr porti katólskra.

Pottur óvenju heitur og góður og þar sat próf dr Einar Gunnar. Sænskir túristar sátu þar einnig og furðuðu sig á tilburðum Bjarna í kalda pottinum. Skrifari útskýrði að maðurinn væri ekki alveg eðlilegur. Þeir skildu það. 

Enginn Fyrsti á eftir, enda fjölskyldumenn hér á ferð, en ekki ábyrgðarlausir unglingar. Hins vegar heitstrengingar um frekari hlaup, næst sunnudag kl 10:10. Í gvuðs friði.


Skrifari uppfræðir tannlækninn

"Magnús" sagði ég. "Hefurðu velt því fyrir þér að tærnar, að undanskilinni stórutá og litlutá, bera engin nöfn? Fingurnir heita allir eitthvað, en þessar þrjár tær heita ekki neitt." Magnús var bæði hissa og sleginn. "En vissirðu líka að það er ætlast til þess að þú getir hreyft hverja og eina þeirra individúellt. Þetta sagði snyrtifræðingur mér þegar ég var í fótsnyrtingu eitt sinn. Og hún bað mig aukinheldur um að hreyfa eina tiltekna tá. Þegar það tókst ekki fullyrti hún að það þyrfti bæði gáfur og einbeitingu til þess að sveigja líkamann að duttlungum hugans." Nú var Magnús aldeilis dolfallinn, og er hann þó útskrifaður úr anatómíu.

Þeir frændur, Formaður til Lífstíðar og skrifari, mættu einir til boðaðs sunnudagshlaups kl 10:10 sl sunnudag. Veður stillt og milt, hiti 9 gráður og hlaup ákjósanlegt. Þarna spannst eitt samfellt samtal sem aldrei féll niður og var þó farin hefðbundin leið um Nauthólsvík, Kirkjugarð, Veðurstofu, Klambra, Sæbraut og þannig til Laugar. Hittum fjölda fólks sem vildi ná af okkur tali og veittum við fúslega áheyrn þótt það ylli töf á hlaupi. Pottur fjölmennur og var þar ekki töluð vitleysan frekar en endranær.

Nú rann upp miðvikudagur og voru þessir mættir til hlaups: skrifari, Benz, blómasali, Hjálmar og Ólafur heilbr. Bjart veður en svalt og varð töf á brottför þeirra þriggja þar eð Hjálmar vildi ræða einhverjar nýstárlegar nýbyggingar í Vesturbæ, við Benz lýstum frati á þá og lögðum í hann. Hittum fyrir tannlækninn snemma á Ægisíðu með HUND. Segi og skrifa: HUND. Var hann að passa hundinn fyrir son sinn og var hundurinn hinn geðþekkasti, eins og Magnús sjálfur. Héldum við Benzinn svo áfram för okkar. Spurt var um Benzling og fékkst svarið greiðlega: "Hann er að hlaupa inni á bretti með kellingum." Útmáluðum við báðir hvílík fásinna slíkt væri þegar byðist að hlaupa í svölu haustloftinu fylltu benzíngufum frá vellinum. Nema hvað Benzinn hélt uppi paról í hlaupinu, fyrst ættfræði sem hefði sómt sér vel í hvaða sunnudagshlaupi sem er, og svo flugvélar, flugvélamótorar og saga þeirra. Við fórum nokkuð greitt inn í Nauthólsvík og svo inn á skógarstíga í Öskjuhlíðinni, út að nýju tröppunum sem eru að taka á sig mynd og þá leið til baka. Ekki vitum við hvað varð af félögum okkar, en ekki voru þeir komnir til Laugar er við hurfum þaðan eftir vel heppnað miðvikudagshlaup.


Hvarerann Kvaran?

Ja, er von menn spyrji þegar hvert hlaupið á fætur öðru er þreytt hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins og afrekshlaupari vor lætur ekki sjá sig? Er maðurinn orðinn svo Hallur úr heimi að hann hefur gleymt uppeldisstöðvunum? Eða eru þeir einfaldlega hættir að sleppa út af Grundinni svona seint? Svona hljómuðu spurningarnar í vaskra sveina hópi er mættur var á föstudagssíðdegi til þess að spretta úr spori. Þessir voru: Bjarni Benz, blómasali, skrifari, Ólafur Gunn., og Benzlingur. 

Veður fallegt en frekar napurt. Planið var að fara að skoða spjöll þau er unnin hafa verið á tröppunum upp á Veðurstofuhálendið, sem þýddi í reynd hlaup inn að Kirkjugarði hið stytzta. Menn voru ágætlega sprækir, en eitthvað fór fljótlega að kastast í kekki með þeim feðgum og ræddu þeir málin með hávaða sín í millum eins og tveir tröllkarlar staddir í sitthvorum landsfjórðungnum. Sonurinn vildi fara að snæða flatböku, en faðirinn að skoða söguleg spjöll á hefðbundinni hlaupaleið Samtakanna. Það var allnokkur hávaði og leist mér ekki á að verða samferða þeim ópum niður Laugaveginn.

Því var það léttir er við komum inn að Kirkjugarði, fórum að tröppunum og létum í ljós vanþóknun okkar á framkvæmdinni og tókum að því loknu beinustu leið tilbaka. Umræða spannst um konfektbitana sem Kaupmaður Vor trakteraði okkur félagana á sl sunnudag, og þrír þeirra hurfu hljóðalaust ofan í blómasalann áður en nokkur náði að segja bú eða bé. Þótti það með þeim mun meiri ólíkindum að sami maður hafði nýlokið við að segja okkur frá miklum edik-kúr sem hann væri að hefja og væri til þess fallinn að hann tapaði 15 kílóum hið minnsta á aðeins þremur mánuðum. Þótti okkur áformin hafa farið fyrir lítið fullsnemma. 

Er ekki að orðlengja nema við ljúkum þarna ágætu hlaupi og komum kátir og endurnærðir á sál og líkam til Laugar. 

Næst er boðið til hlaups að sunnudegi kl 10:10. Vel mætt!


“Sá aumingi!”

Fáir mættir á boðuðum hlaupadegi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, nánar tiltekið Bjarni Benz og Skrifari. Hefðbundið sunnudagshlaup framundan. Skrifari gjóaði augum um allt og hafði á orði að Einar hefði haft góð orð um að mæta. “Sá aumingi!” hreytti þá Benzinn út úr sér. Ekki er auðvelt að giska á hvað búið hefur að baki svo eindreginni yfirlýsingu, en hlaupið þreyttum við tveir í suðvestan garra, hliðarvindi út alla Ægisíðu, en það truflaði hvorki hlaup né innihaldsríka umræðu um hvaðeina er til framfara horfir í landi voru. 

Sem við erum að tölta inn í Nauthólsvíkina laumast hjólafantur að baki okkur og dinglar mikið í bjöllu sína. Kom það mér á óvart þar sem við hlupum á göngustíg og hjólastígurinn greinilega merktur til hliðar við okkur. Var þá ekki téður Einar mættur á reiðhjóli og sagði að hann hefði tafist vegna þess að hann hefði þurft að ræða við konu sína! Stuttur stanz gerður við Braggann og úttekt framkvæmd og stráin skoðuð. Haldið svo áfram um Öskjuhlíð og hjá Garði og næst gerð úttekt á spellvirki við uppgöngu á Veðurstofuhálendið, en þar er búið að rífa upp tröppur og þarf að klífa moldarbing til þess að komast leiðar sinnar.

Á Klömbrum falaðist Benzinn eftir hjólfáki blómasala og fékk að renna sér út að Flókagötu. Nú var tekinn Laugavegurinn enda langt síðan að staða verzlunarrýma var könnuð þar. Mest fór fyrir steinkössum sem rísa þar á hverjum lófastórum bletti og gamla tímanum lyft í burtu. Bjarni fór niður Laugaveginn og Bankastrætið með hávaða og bægslagangi eins og honum er einum lagið. Skrifari hugsaði með sér að það væri ekki vitlausara en hvað annað að eyða sunnudögunum svona úr því að ferð í Kirkjugarðinn með Formanni til Lífstíðar væri ekki í boði. Vonandi rætist úr því næsta sunnudag.

Nú kom rúsínan í pylsuendanum. Kaupmaður vor hafði boðað okkur á sinn fund að hlaupi loknu og kíktum við til hans á kontórinn þar sem við þágum kaffi og súkkulaðimola yfir spjalli um peisið í maraþonhlaupum. Vart er hægt að hugsa sér betri lok á hlaupi en þetta. Svo var setið í Potti í klukkutíma og rætt um hlaup dagsins og þá sem fjarstaddir voru. Sunnudagarnir gerast ekki öllu betri.


Prófessor með kjánaprik

Hann var eins og lítill drengur sem eignast eftirsótt leikfang, prófessorinn með kjánaprikið, sem einnig er kallað selfie-stick. Festi símann í græjuna og beindi henni í allar áttir, myndaði alla hlaupara dagsins í bak og fyrir og talaði inn á upptökuna, en þessir voru: Jóhanna, Irma, Benz, Skrifari og téður Fróði. 

Við hlupum af stað í rigningarúða og prófessorinn myndaði á meðan. “Hér kem ég hlaupandi. Hér hlaupa Bjarni og Skrifari. Hér hleyp ég fram úr Bjarna og Skrifara.” Og trúlega hefur hann sagt eitthvað álíka gáfulegt þegar hann hljóp fram úr Jóhönnu og Irmu, ef hann náði því þá. 

Það var hefðbundinn föstudagur og við Bjarni héldum hópinn af gömlum vana. Ég sagði honum söguna af Pétri pokapresti, holunni á planinu hans sem hann fullyrti að hann Hjálmar okkar hefði grafið, sandfyllingu Borgarinnar og síðar steypu og áletrun prestsins í blauta steypuna. Það var falleg saga. 

Hlaup gekk vel enda þótt við hefðum gengið óþarflega mikið, en þannig er það bara suma daga. Fórum Sæbraut og hjá Hörpu og um Ægisgötu tilbaka, sáum René akandi en ekki hlaupandi. 

Í pott komu Kári og Gunný og Ágúst sagði þeim upp alla söguna af rassbeinsmarinu, lækningunni og öllum stuðningnum og hvatningunni sem hann fékk frá “vinum” sínum á feisbúkk, einkum Jörundi sem getur ekki með nokkru móti gleymt því þegar Gústa var mokað aftur í skátabifreið eftir 9 hlaupna km af 10 fyrirhuguðum. 

Ágúst færði sterk og sannfærandi rök fyrir því að Fyrsti í heimahúsi væri eiginlega ekki það sama og Fyrsti og því mætti líta svo á að við ættum enn inni Fyrsta Föstudag maímánaðar. Því var stefnan sett á Ljónið, en ekki sá Skrifari þá kumpána þar.

Hefðbundinn sunnudagur næst kl. 9:10, á sama tíma og blómasalinn þreytir maraþon í Køben. Sendum góða strauma!


Hlátur

”Nú verður aftur hlýtt og bjart um bæinn.

Af bernskuglöðum hlátri strætið ómar,”

orti hið ástsæla skáld Vesturbæjarins, Tómás Guðmundsson. Og víst gullu við hlátrasköll um Vesturbæinn í gær, á hlaupadegi hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Einar blómasali hló hæst, hinir gátu þó hætt. Tilefnið var heiðvirð tilraun hjá tveimur hlaupurum, Magnúsi tannlækni og Ólafi skrifara, til þess að þreyta hefðbundið hlaup á miðvikudegi. Þegar þeim mætti öskublindbylur beint frá Norðurpólnum þá þegar er komið var niður á Ægisíðu sáu þeir að það var engin glóra að reyna hlaup illa búnir og hurfu tilbaka.

Þetta varð þeim Einari blómasala, Ólafi heilbrigða og Guðmundi Löve að yrkisefni. Þeir settu saman stuttan leikþátt sem fluttur var í miðju hlaupi þessara nefndu hlaupara og hófst að lokinni tilraun okkar Magnúsar og við gerðir sem afskræmislegastir og aumkunarverðastir þar sem við brutumst gegnum smáél og örlitla golu og sammæltumst um að hverfa til Laugar. Og svo hristust hin nýfundnu leikskáld ákafliga yfir eigin fyndni. Einar geislaði sem Vesturbæjarsólin er hann kom til Laugar að loknu hlaupi og ætlaði aldrei, að sögn vitna, að geta hætt að hlæja.

Jæja, er nú skórinn kominn á hinn fótinn, ef þið takið meiningu mína! Skrifari mætti af nýju til Laugar á fimmtudegi, staðráðinn í að hefna fyrir sneypuför gærdagsins, og lagði upp í einkahlaup kl. 16:20. Það var stífur mótvindur og kalt í veðri, en ég lét það ekki stöðva mig, enda útrústaður með balaklövu í þetta skiptið og aukabol. Það var ekkert sólskin líkt og í gær, enda sólskinshlaupurum ekki út sigandi. Á sínum tíma, eftir Nauthólsvík brast á með glórulausri hryðju sem ætlaði engan endi að taka. En það stöðvaði ekki þennan hlaupara. Hann hljóp í einni beit frá Laug, um Nauthólsvík, Suðurhlíð, hjá Perlu og tilbaka til Laugar án þess að stoppa og án þess að blása úr nös. Fyrsta heila meðallanga hlaupið í endurkomu, eftir innan við tvo mánuði. 

Hlæið að því, ormarnir ykkar! 

Í gvuðs friði.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband