Þvílíkir snillingar!

Þeim er ekki fisjað saman, hlaupurunum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, þeim sem mæta til hlaupa þrisvar til fjórum sinnum í viku hverri. Nú voru mættir skrifari, Benz og Benzlingur, blómasali og Ólafur hinn. Svo mættu Ósk og Hjálmar alhress. Mikill mannjöfnuður var uppi um hvor væri meiri kappi, Benzinn eða blómasalinn. Aðrir stóðu horskir hjá.

Lagt af stað í fallegu veðri, stillu, þurru, hiti 6 stig. Þau Ósk og Hjálmar hurfu strax á fyrstu metrunum og höfðu hann Bjarna með sér. Má það kallast mannrán um miðjan dag. Við hinir á eftir og héldum þó þétt og gott tempó alla leið inn í Nauthólsvík, skrifari heldur á undan því honum leiddist barlómurinn í þeim hinum um gengissig og búksorgir hvers kyns. Nú datt það ofan yfir okkur Einar að við gleymdum að taka hann Magnús með okkur á trillunni, en Magnús hefur lýst miklum áhuga á trilluútgerð frá Vesturbæjarlaug.

Við róuðum okkur í Nauthólsvík og fórum fetið. En brátt settum við Benzinn upp tempóið og eftir það var ekki litið til baka. Máttu þeir hinir hafa sig alla við til að halda í við okkur. Fórum upp Suðurhlíð, yfir hjá Perlu og niður Stokk í niðamyrkri. Hringbrautin tekin með látum. Um það er við komum til baka kom Ólafur hinn og var eitthvað að sprikla undir lok hlaups, en við hinir leiddum það hjá okkur. 

Geysilega þétt og gott hlaup og góður pottur á eftir með umræðu um mat. Benzinn upplýsti að hann myndi hýsa julefrukost þetta árið. Söknuðum Gústa í hlaupi dagsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband