Frásögur af nýlegum afrekum

Skrifari hefur vanrækt pistlaskrif upp á síðkastið, en hlaup hafa verið iðkuð af kappi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins í haust og vetur. Einnig hefur verið stofnuð göngudeild fyrir hlaupalúna og eldri félagsmenn sem ekki treysta sér til að hlaupa. Hittist hún á sömu tímum og hlauparar. Félagslíf stendur með miklum blóma og er skemmst að minnast jólaboðs hjá honum Jörundi 15. desember þar sem um 30 manns mættu og gerðu jólamatnum góð skil.

Hlauparar úr hópi vorum tóku þátt í kirkjuhlaupi TKS á annan daginn og sumir mættu einnig í Gamlárshlaup ÍR í arfavitlausu veðri. En reglubundin hlaup halda áfram. Fámennur hópur fór daginn fyrir Gamlár, þegar Einar fékk í magann og varð að snúa við, 2. jan og svo í gær, 4. janúar. Þetta eru skrifari, Einar blómasali, Bjarni Benz og svo ýmist Ólafur Gunn eða Ólafur Þorsteins. Einnig hefur sést til Þorvaldar Gunnlaugs og Inga. Tobba og Rúna fóru með okkur á miðvikudag og Baldur Tumi einnig. Svo að menn sjá hvílík gróska er í starfi voru. Enda ekki hægt að kvarta yfir veðrinu, 10 stiga hiti dag eftir dag og snjólaust. Með gönguhópi fara Helmut, Maggi, Jörundur og Flosi. En til próf Fróða sést ekki, stundum dúkkar veðurbarið andlit hans á Fésbók þar sem hann kveðst hafa hlaupið upp að Steini, en lætur annars asfalt og jafnsléttu eiga sig. Og þaðan af síður að menn haldi upp á Fyrsta.

Verst er náttmyrkrið á þessum árstíma því að sumir menn eru náttblindir og rata illa um skógarstígana í Öskjuhlíðinni í myrkri. Hér má hafa not af ennisljósum sem sumir eiga. En nú fer sól hækkandi á lofti og verðum við hlauparar varir við það þegar í lok mánaðarins. 

En það var sum sé hlaupið, og gengið, í gær, föstudag. Helmut var einn, en hlauparar voru Einar blómasali, Bjarni, Óli Gunn og skrifari. Til þeirra sást, Denna skransala og Sæma, þar sem þeir fetuðu sig áfram upp Hofsvallagötu í átt að brynningarstöðunum, löngu áður en eiginlegt hlaup hófst. Við hinir fórum okkar hefðbundnu leið niður á Ægisíðu. Hittum Magga á leiðinni með hund í taumi sem hafði gert sín stykki á gangstéttina og Maggi benti stoltur á afurðina. Það var stífur mótvindur út í Nauthólsvík og varla að það heyrðist mannsins mál á leiðinni. Líklega var það þess vegna sem Benzinn sá sig knúinn að hækka róminn. Eða var það vegna þess að þegar hann sýndi mér nýju Asics Kayano hlaupaskóna sína sagði ég þá henta fyrir starfsemi Gönguklúbbs Sjálfstæðiskvenna á Seltjarnarnesi? Bjarni var ekki sáttur við þá einkunn.

Það varð strax bærilegra í Öskjuhlíð og fórum við sem leið lá undir Bústaðaveg og gerðum úttekt á tröppunum góðu. Hugsuðum hlýlega til Dags borgarstjóra og hans Hjálmars okkar sem ávallt bera hag okkar fyrir brjósti við endurnýjun samgöngumannvirkja. Svo var farið þetta hefðbundið um Hlíðar og Klambra og spannst mikil umræða um kjör ríkisstarfsmanna. Laugavegur með látum og öskrum. Menn signdu sig á Landakotshæð og héldu til Potts. Ekki sást reykurinn af þeim Helmut, Denna eða Sæma. Spurning hvort Fyrsti Föstudagur hafi verið tekinn fullsnemma?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband