Heilabrot

Menn hafa verið að velta því fyrir sér af hverju Benzinn er svona snakillur í hlaupum. Hefur þetta einna helst bitnað á okkur vinum hans sem enn nennum að drattast með honum fetið um stígana. Nú maðurinn er alltaf að hlusta á Útvarp Sögu og mætir svo vel nestaður fordómum og hvers kyns bulli úr þessum fjölmiðli í hlaupin til okkar. Því var það að blómasalinn sagði við hann nú síðast: “Bjarni, hættu að hlusta á Útvarp Sögu.” Sjáum til hvort þessi lækning virkar.

En nú að hlaupi dagsins. Það var fagur dagur, heiðskír sunnudagsmorgunn, þótt napurt væri. Tveir þekktir hlauparar höfðu lýst yfir ásetningi um hlaup, blómasali og Benz. Hvorugur mætti. Hins vegar voru mættir tveir staðfastir hlauparar, þeir Þorvaldur Gunnlaugsson og skrifari. Þeir fóru fetið í fullkominni eindrægni og æðruleysi. Það var Hlíðarfótur hjá þeim fyrrnefnda, en full porsjón á sunnudegi hjá skrifara. Rætt um heilsufar og lífeyrismál.

Það var býsna ljúft að renna hefðbundið skeið á þessum fallega degi, þótt einmanalegt væri. Fyrir vikið gekk þetta hraðar fyrir sig, enda ekki verið að stoppa á völdum stöðum til að kjafta og leggja fyrir spurningar. 

Í Potti voru valinkunnir gáfumenn. Ó. Þorsteinsson bar fyrir sig að e-r Gugga hefði látið hann hafa hassperur og því gæti hann ómögulega hlaupið á sunnudegi. Rætt um dúfnarækt fyrr á tímum og allt aftur í hið forna Rómarveldi. Þar voru Einar Gunnar, Mímir, Guðni Kjartans og frú, og kennari einn margfróður úr Reykjavíkur Lærða Skóla. Og því var rætt um skólaskýrslur þeirrar merku stofnunar og einkunnagjöf fyrr og nú. 

Nú er að sjá hvort menn hristi af sér slyðruorðið og mæti til hlaups á mánudegi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband