Hvarerann Kvaran?

Ja, er von menn spyrji þegar hvert hlaupið á fætur öðru er þreytt hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins og afrekshlaupari vor lætur ekki sjá sig? Er maðurinn orðinn svo Hallur úr heimi að hann hefur gleymt uppeldisstöðvunum? Eða eru þeir einfaldlega hættir að sleppa út af Grundinni svona seint? Svona hljómuðu spurningarnar í vaskra sveina hópi er mættur var á föstudagssíðdegi til þess að spretta úr spori. Þessir voru: Bjarni Benz, blómasali, skrifari, Ólafur Gunn., og Benzlingur. 

Veður fallegt en frekar napurt. Planið var að fara að skoða spjöll þau er unnin hafa verið á tröppunum upp á Veðurstofuhálendið, sem þýddi í reynd hlaup inn að Kirkjugarði hið stytzta. Menn voru ágætlega sprækir, en eitthvað fór fljótlega að kastast í kekki með þeim feðgum og ræddu þeir málin með hávaða sín í millum eins og tveir tröllkarlar staddir í sitthvorum landsfjórðungnum. Sonurinn vildi fara að snæða flatböku, en faðirinn að skoða söguleg spjöll á hefðbundinni hlaupaleið Samtakanna. Það var allnokkur hávaði og leist mér ekki á að verða samferða þeim ópum niður Laugaveginn.

Því var það léttir er við komum inn að Kirkjugarði, fórum að tröppunum og létum í ljós vanþóknun okkar á framkvæmdinni og tókum að því loknu beinustu leið tilbaka. Umræða spannst um konfektbitana sem Kaupmaður Vor trakteraði okkur félagana á sl sunnudag, og þrír þeirra hurfu hljóðalaust ofan í blómasalann áður en nokkur náði að segja bú eða bé. Þótti það með þeim mun meiri ólíkindum að sami maður hafði nýlokið við að segja okkur frá miklum edik-kúr sem hann væri að hefja og væri til þess fallinn að hann tapaði 15 kílóum hið minnsta á aðeins þremur mánuðum. Þótti okkur áformin hafa farið fyrir lítið fullsnemma. 

Er ekki að orðlengja nema við ljúkum þarna ágætu hlaupi og komum kátir og endurnærðir á sál og líkam til Laugar. 

Næst er boðið til hlaups að sunnudegi kl 10:10. Vel mætt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband