Nú kannast maður við sig

Ekkert tíðinda gerðist í Útiklefa. Þó mættu þar skrifari, gamli barnakennarinn, Helmut og Benz, auk blómasala sem enn er ekki úrkula vonar um að geta pressað Benzinn niður fyrir öll siðsemismörk í gjaldtöku fyrir akstur til Flyvehavnen. Svo var gengið til Brottfararsalar. Þar bættist Denni við og var útlit fyrir hefðbundið hlaup. Svo kom Maggi hlaupandi á síðustu stundu og sagði okkur að hlaupa af stað, en við sögðum að við biðum alltaf eftir vinum okkar. Skipti sosum ekki máli því að Benzinn var hvort eð er ekki kominn úr Útiklefa. Helmut og Denni lögðu af stað, þeim lá á að komast af stað, einhverra hluta vegna. Við hinir biðum.

Svo komu þeir, Benzinn og Maggi og við gátum lagt í hann. Fljótlega kom í ljós að skrifari var hægari en þeir hinir, ekki að hann væri þreyttur eða þungur á sér, bara hægari. Dróst aftur úr, samt var þetta hefðbundið föstudagshlaup, sem er félagshlaup og enginn skilinn eftir. En ekki að örvænta, þetta færi einhvern veginn! Maður þraukaði og hugsaði til þess að eftir því sem liði á hlaupið myndi skrokkurinn hitna og verða sprækari.

Þeir hinir voru þarna einhvers staðar aðeins á undan mér, ekki langt, kannski eina mínútu. Þegar þeir hinir komu í Nauthólsvík lagði Benzinn til við blómasalann að bíða eftir skrifara. Slíkum hugmyndum var hafnað snarlega. En Benzinn er sannur vinur vina sinna og beið, blómasalinn áfram. Hér ætlaði sá gamli að stytta, fara Hlíðarfót og hitta mannskapinn á Klömbrum. Skrifari sagði að það kæmi ekki til greina: hefðbundið merkir hefðbundið. Hi-Lux, Öskjuhlíð og þannig áfram. Hér voru þeir hinir rétt á undan okkur og reyndist brekkan þeim sumum erfið. Við vorum nánast búnir að ná þeim er upp var komið brekku.

Jæja,við fórum fram úr Denna og skildum hann eftir. Veðurstofa, saung- og skák, Hlíðar, Klambrar, Hlemmur og Sæbraut. Hér náði skrifari að fara fram úr flestum hlaupurum, nema Benzi sem stytti sér leið eftir Veðurstofu. En á Sæbraut losnaði skóþvengur á skúm skrifara og þar með var þetta búið. Ég mátti horfa á eftir þeim hinum þumbast áfram og ég að hnýta skúa mína. Hlaupið hjá Hörpu, um Höfn og upp Ægisgötu. Við Kristskirkju fór fram heilög signing og svo niður Hofsvallagötu. Þar var Denni, hann hafði náttúrlega stytt um Laugaveg, nema hvað.

Að hlaupi loknu er oss efst í hug þakklæti fyrir góða heilsu, gott líkamlegt ástand, gott veður og góða félaga. Gott hlaup, þrátt fyrir að það vantaði nokkra góða félaga eins og prófessor Fróða, Þorvald, Jörund o.fl. En nú er maður farinn að kannast við sig, farinn að renna hefðbundnar leiðir Hlaupasamtakanna með viðeigandi hreinsun hins innri manns. Framundan er vorið, birta, þingkosningar, og meðal annarra orða, þetta: 

D.ritstjóri betur um bætti 
og bullaði' að Morgunblaðshætti. 
Maðurinn mæddur 
svo mikið varð hræddur 
um kvöld eitt þá Kötu hann mætti.
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband