Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Holtavörðuhlaup hið fyrsta - kraftaverkin gerast enn

Laugardaginn 28. júlí sl. var þreytt hið fyrsta hlaup yfir Holtavörðuheiði á vegum Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Frá því afreki, og ýmsu tilheyrandi, verður sagt hér á eftir.

Menn vöknuðu að Melum, úthvíldir og hressir, eftir óslitinn nætursvefn í sveitaloftinu. Þetta voru Ó. Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, Magano, Þorvaldur, Ólafur ritari, Bjarni Benz, Hjálmar í hreppsnefndinni og Einar blómasali. Kvöldið áður hafði sá síðastnefndi matreitt dýrindis kjúklingapasta og salat beint úr garði frúarinnar á Melum. Að vísu kvörtuðu einhverjir yfir því að "kjúklinga-" væri misvísandi heiti á réttinum, þar eð kjúklingur var af heldur skornum skammti, en menn finna alltaf eitthvað til að kvarta yfir.

Eftir vel útilátinn morgunverð og spjall símleiðis við velunnara Samtaka Vorra, V. Bjarnason, álitsgjafa, var haldið á heiðina og höfðu nú Frikki og Rúna bætzt í hópinn. Það þótti sögulegt að Formaður treysti ektakvinnu sinni fyrir því að aka bíl þeirra hjóna, kampavínslitri jeppabifreið með auðkennisnúmerinu R-158, tilbaka yfir heiðina að Melum er búið var að skila mannskapnum á rásmark. Annað eins hefur ekki fyrr gerst í samanlagðri sambúð þeirra hjóna og má e.t.v. hafa til marks um það að nú falla þau vígin, hvert á fætur öðru.

Ekki var vel ljóst hver væri upphafspunktur hlaups og var þó búið að ganga á Formann um það smáatriði. Ekki fékkst nákvæmara hnit en "staður nálægt Fornahvammi". Er upp var staðið reyndist "staðurinn" vera í um 5 km fjarlægð frá Fornahvammi inni á heiðinni. Hér var útskot eftir fyrstu brekku, áður en kom að Byskupabrekku. Á var logn, sterkt sólskin og hiti kominn í 12 gráður. Klukkan var 9:27 að morgni. Lagt var upp.

Það voru samtals 11 hlauparar er þreyttu Holtavörðuhlaup hið fyrsta, því að áður en langt var liðið á hlaup bættust þeir Jörundur og Magnús tannlæknir í hópinn. Þar eð ekki var um keppnishlaup að ræða tókum við frændur því rólega framan af, enda tvær erfiðar brekkur framundan, Byskupabrekka og Hæðarsteinsbrekka. Óþarfi að eyða allri orku í þær. Því var gengið á þeim slóðum. En að öðru leyti var hlaupið.

Maggie var uppfull af keppnisskapi og skildi aðra hlaupara eftir, það þýddi ekki fyrir Benzinn að reyna að halda í við hana eða að ná henni, hvað þá aðra. Svo voru Einar og Hjálmar svolítið sperrtir, en það kom þeim í koll síðar og það sýndi sig að ekki var fyllilega innstæða fyrir kappinu er komið var á hæðina.

Það gladdi okkur frændur að menn sýndu af sér þann félagsþroska að bíða eftir okkur er komið var á háhæðina. Þar er vefmyndavél er sýnir aðstæður þar uppi hverju sinni. Svo var haldið áfram og nú var þetta að mestu niður á við. Ekki leið á löngu þar til unnt var að horfa niður í Hrútafjörð og þá datt inn þessi gamalkunna hugsun: "Þetta er búið áður en það byrjar." Skrifari Hlaupasamtakanna er náttúrubarn og vill njóta þess að vera úti í gróskunni. Á miðjum vegi vék hann sér því út í móa, dró af sér skúa og sokka, lagði frá sér höfuðfat og gleraugu og þvó andlit sitt og fætur upp úr gruggugu heiðarvatni. Svo áfram.

Þrátt fyrir geigvænlega veðurspá reyndist nægjanlegt að hafa með sér 75 cl af vökva að drekka. Þessu olli svalandi andvari sem blés á hlaupara á völdum stöðum á heiðinni. Það var ekki hlaupið í einni halarófu, heldur dró sundur með fólki, og var skrifari einn að mestu síðustu 10 km eða svo. Síðustu spelina var brugðið á göngu, enda er þetta lengsta hlaup skrifara í sumar, rúmir 23 km. Farið fram hjá Ormsá og að Melum. Hlaupurum var stillt upp að hlaupi loknu og hópurinn myndaður. Rúna studdist síðan við nútímatækni er hún sendi mynd og frásögn á mbl.is - sem birtist stuttu síðar.

Eftir hlaup var ekið sem leið lá á Hvammstanga og farið í sund. Að því búnu var leitað uppi útieldhús þar sem boðið var upp á grillað lamb. Þetta rifu menn í sig. Að því búnu var skoðuð eldforn Krambúð S. Pálmasonar, sótt heim kaffihús og Selasetur. Að kveldi var boðið upp á gæsalifur og grafinn lax að Melum í forrétt og grillað lamb í aðalrétt. Á eftir buðu Benz og skrifari upp á Irish Coffee af alkunnri rausn. Undir borðum las Hjálmar úr ævisögu langömmu sinnar er bjó að Melum á árum áður.

Frábært fyrsta Holtavörðuheiðarhlaup að baki á ógleymanlegum degi, svo sólfögrum og góðum. Nutum við gestrisni þeirra Melahjóna í hvívetna. Menn héldu harla glaðir í bragði í bæinn, þegar Benzinn var búinn að finna bíllykilinnn.


Varað við þjófnuðum úr Útiklefa

Sl. föstudag varð Bjarni félagi okkar fyrir því eftir hlaup að forláta vindjakka var stolið af snaga í Útiklefa meðan hann slakaði á í Potti. Missirinn er tilfinnanlegur fyrir karlinn því að flíkin var vönduð og dýr. Af þeirri ástæðu eru menn beðnir að hafa varann á sér er þeir hengja af sér reyfin og helst að vera í tötrum er þeir mæta til hlaups.

Á sunnudagsmorgni voru þessi mætt: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Bjarni, skrifari, Maggie og blómasali. Veður hálfleiðinlegt, vindbelgingur, rigningarlegt, en þó ekki kalt. Maggie var upplýst um helztu reglur sem gilda um sunnudagshlaup, m.a. um hraða, stoppin og sögurnar. Henni þótti uppleggið forvitnilegt. En hún kaus að fara ekki eftir því, setti strax í fluggírinn og var horfin okkur á Ægisíðu, en Bjarni náði að vísu að hanga í henni eitthvað inn eftir.

Aðalumræðuefnið var náttúrlega Holtavörðuheiðin og stóra spurningin þessi: mun Vilhjálmur mæta og ræsa hlaupið? Menn voru bjartsýnir og töldu góðar líkur á að af því gæti orðið. Svo var það ferðatilhögunin, menningardagskráin, söfn og sund á Hvammstanga, upplestrar og kvöldvaka á Melum, en umfram allt: matur og drykkur. Melalæri elduð af meistarakokki af Reynimelnum, og svo var rætt fram og tilbaka um forrétti, meðlæti og eftirrétti.

Við dóluðum þetta hefðbundið með stanzi í Nauthólsvík. Maggie löngu horfin og hafði tjáð Bjarna að hún myndi fara 18-20 km. Þar með missti hún af sögunni við stein þeirra hjóna Brynleifs og Guðrúnar, en ég hafði satt að segja hlakkað til þeirrar stundar, einkum að heyra hvaða tilbrigði eða frávik frændi myndi bjóða upp á í dag.

Er við komum á Rauðarárstíg dró okkur uppi pensíoneraður prentari og orðhvatur. Hann hafði ekki fyrr náð okkur en hann upphóf að útmála skrifara sem ósannindamann og færi með fleipur um látna rithöfunda. Óskaði prentari eftir því að fá bókuð mótmæli sín hjá Samtökunum. Gekk hann á Formann um að staðfesta slíkan gjörning. Formaður tók því fálega, og mátti skilja á honum að þess þyrfti ekki, enda væri hvers kyns nöldur umborið í Samtökum Vorum.

Saman lögðum við í Sæbrautina og héldum nokkuð vel hóp, utan hvað Jörundur og blómasali fóru hjá Hörpu, en við hinir hjá Útvarpshúsi samkvæmt gamalli hefð. Farið hjá Kaffi París, en enga hyllingu að hafa, áfram upp Túngötu. Ekki er hægt að skilja við pistil án þess að láta getið þeirra fjölmörgu kvenna sem mættu okkur á leiðinni og brostu allar við sínum elskuvini - Ólafi Þorsteinssyni. Hann vissi ekki einu sinni hvaðan hann ætti að þekkja þær: "Ja, þær koma þarna einhvers staðar innan úr akademíunni."

Í Potti vorum við helztu drengirnir, og bættust við hlaupara þeir dr. Einar Gunnar, dr. Baldur og Flosi, allir óhlaupnir. Haldið áfram að skipuleggja hlaup næstu helgar, en þó hugað að menningarmálum í bland við persónufræði.


Góð æfing fyrir Holtavörðuheiðina

Eftir rúma viku verður þreytt Holtavörðuheiðarhlaup hið fyrsta og því mikilvægt að menn séu vel undirbúnir fyrir viðburðinn. Ætla má að menn þurfi að leggja allt að 20 km undir sóla áður en yfir lýkur. Af þeirri ástæðu var ágæt mæting í hlaup dagsins hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins, 8 manns, þessir: Jörundur, Þorvaldur, Magnús, Benzinn, skrifari, Maggie, Rúna og Denni. Allt saman þokkalegir hlauparar.

Hersingin silaðist af stað af gömlum vana, en fljótlega tók Maggie forystuna og ætlaði ekki að slá slöku við. Bjarni ótrúlega sprækur þrátt fyrir að hafa ekki hlaupið í einar 6 vikur, vildi kanna hvað stelpunni gengi til og setti á sprett á eftir henni. Þau voru komin nokkuð langt á undan öðrum, skrifari þar á eftir og svo þau hin langt fyrir aftan.

Skrifari þungur á sér eftir viku fjarveru frá hlaupum, en tókst þó þokkalega upp í hlaupi dagsins. Benzinn beið í Nauthólsvík og Maggie sneri við til að sækja okkur og saman fórum við í Hi-Lux brekkuna. Á þessu gekk í hlaupi dagsins, skrifari dróst aftur úr og þau hin dokuðu við eftir honum eða komu að sækja hann. Á þann hátt náði Maggie að hlaupa tveimur km lengra en við hinir.

Við sáum lítið til annarra hlaupara, þeir voru svo langt fyrir aftan okkur, en ku þó hafa farið Sæbrautina og ekki Laugaveginn, framhjá Hörpu eins og við hinir fremstu hlauparar og upp Ægisgötuna. Skrifari vel blautur eftir mikil átök og allgott tempó. Menn taka niður höfuðföt við Kristskirkju og signa sig. Svo er tölt til Laugar og teygt á Plani.

Í Pott mættu öllu fleiri hlauparar en þeir sem hlupu, og voru það Kári, dr. Jóhanna, Helmut og blómasalinn, svíramikill og sílspikaður. Í Potti var rætt um Laugaveginn, veikindi Helmuts sem urðu til þess að hann varð að segja sig frá hlaupi, bilaða spindilkúlu í bíl Jörundar, ketti Bigga jóga sem eru nú þegar flúnir að heiman þegar danskir gestir hafa sezt að þar. Góð stund og nærandi fyrir andann.


Fámennt á föstudegi

Ástand Samtaka Vorra er heldur dapurlegt þessar vikurnar, aðeins örfáir hlauparar mæta til hlaupa hverju sinni. Nú voru það Þorvaldur, skrifari, Maggie og blómasali - og Frikki kaupmaður að vandræðast eitthvað. Heldur varð lítið úr hlaupi hjá blómasalanum, hann hljóp alla leið niður á Ægisíðu, en sneri við þar og hætti hlaupi með vanabundnum afsökunum. Þau hin hlupu sem leið lá hefðbundinn föstudagshring. Á leiðinni var rætt um aldur, fjölskyldustærðir og fleira af persónufræðilegum meiði. Maggie ansi hreint spræk og létt á sér og hélt uppi öflugu tempói fyrir okkur Þorvald.

Farið um Nauthólsvík og upp hjá allsherjargoðanum, Hi-Lux og svo löngu brekkuna. Dokað við er upp var komið eins og venja er, en svo haldið áfram hjá Veðurstofu og saung- og skák. Frikki mætti okkur á Klambratúni og saman var haldið að Hlemmi, þar skildu leiðir því þau hin settu stefnu á Laugaveg en skrifari Sæbraut. Er komið var að höfninni dúkkuðu þau Friðrik og Maggie þó upp og höfðu elt skrifara á Sæbraut. Þau voru hins vegar miklu frískari en skrifari og skildu hann fljótlega eftir.

Í Pott komu Kári og Anna Birna. Umræðan snerist um Helmut sem ákvað að hætta við Laugavegshlaup og skýringin "bólgur". "Bulgur"? spurði Frikki. "Af hverju var hann að éta bulgur?" "Nei, bólgur," sagði skrifari. "Líklega föðurlífsbólgur." Þá sagði Kári: "Hann fær þó ekki legsteina eins og konurnar." Svona gekk bullið fram og tilbaka.

Að kveldi var haldinn Fyrsti Föstudagur hjá þeim Ágústi og Ólöfu. Ágæt mæting helztu hlaupara. Við fengum að heyra löngu útgáfuna af slysi Ágústs í Sviss og um batahorfur, en líklega má karlinn fara að hlaupa á ný í september. Þá fara Samtök Vor að endurheimta fornan svip sinn.


Kári litli og Lappi

Friðrik Guðbrandsson mættur í hlaup dagsins og hafði með sér hund. Aðrir mættir: dr. Jóhanna, Ósk, Gummi Löve, Þorvaldur, Kári, skrifari. Ekkert ákveðið um vegalengdir eða leiðir eða hraða, enda eru Gummi, Jóhanna og Helmut á leið í Laugaveginn, svo það er bara rólegt. Og Kári hélt einfaldlega af stað og við eltum. Það þarf ekkert að vera flókið! Ægisíða.

Ég vildi sýna Kára og hundinum sólídarítet með því að hlaupa á sama hraða og þeir, óttaðist að verða stimplaður ójafnaðarmaður ella. En það verður að segjast eins og er: tempóið sem Kári og hundur ótilgreindrar tegundar velja sér hentar ekki hverjum sem er. Alla vega ekki miðaldra embættismanni í sæmilegu formi. Því gerðist það einhvern veginn af sjálfu sér að ég lak fram úr og sá ekki þá félaga um sinn. Þau hin voru náttúrlega löngu horfin, utan hvað ég hljóp uppi Þorvald einhvers staðar á leiðinni, þar sem hann var að vandræðast með hlaupaleið. Hann hvarf hins vegar upp hjá minnismerki um Allsherjargoða Íslands, en skrifari hélt áfram á Flanir.

Stefnan sett á Suðurhlíð og brekkan tekin með stæl. Hér varð skrifara hugsað til Ágústs hlaupafélaga og velti fyrir sér hvenær við mættum vænta þess að fara fetið saman um stíga á Kársnesi eða í Heiðmörk, ja, það voru sælir tímar! Ekki var laust við að skrifari yrði klökkur af tilhugsuninni, en hann harkaði af sér og hélt áfram hlaupi.

Upp brekkuna og alla leið upp að Perlu, svo áfram niður úr stokk og hjá Gvuðsmönnum. Er hann kom niður þar sá hann þá Kára og hundinn kjaga áfram og höfðu farið Hlíðarfót. Og Friðrik. Skrifari hljóp þá uppi án teljandi vandkvæða, en lét eiga sig að segja: Fögur er fjallasýnin, sem þó er legio í hópi vorum þegar við viljum niðurlægja fólk.

Sama var upp á teningnum nú, erfitt að fara fetið jafnhægt og Kári og hundurinn, svo að óhjákvæmilega sigldi skrifari fram úr og lauk hlaupi einn. Teygt á Plani, það kulaði af norðri og ekki hægt að standa lengi úti. Þá kom Ósk á Plan, og svo þeir Kári og Friðrik.

Ekki var tíðinda í Potti, talað um tölvur og annað temmilega intressant, hér er ekki persónufræðinni fyrir að fara, hvað þá að spurt sé um bílnúmer eða húseigendur við Ægisíðu. Skrifari hélt til verzlunar Kaupmanns að höndla fisk.


Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum...

Á sunnudagsmorgnum koma Öldungar Hlaupasamtakanna saman og taka léttan sprett um höfuðborgina sem er að vakna af svefni eftir sukk og svall nætur. Nú voru það Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur og Ólafur skrifari sem lögðu braut undir sóla. Veður gott og hlýtt. Laug opin frá kl. 9:00 að morgni og því hægt að hafa skipti á fatnaði.

Eðlilega var Holtavörðuheiðarhlaup aðalviðfangsefnið í dag. Nú stefnir í að ekki færri en tíu hlauparar spretti úr spori yfir heiðina um 20 km leið laugardagsmorguninn 28. júlí nk. Rætt hefir verið við sýslumanninn í Húnaþingi um aðkomu réttvísinnar að málum, en ekki hefur fengist á hreint hver hún verður. Hins vegar verður leitast við að haga málum svo að það aki bíll með blikkandi ljósum á eftir hópnum til að vara aðvífandi bílista við. Þannig má hugsanlega draga úr mannfalli á leiðinni.

Fyrstu og erfiðustu brekkur verða klipptar út úr hlaupinu, lagt til að það hefjist við Sigurjónsbrú, en þaðan ku vera um 20 km heim í hlað á Melum. Benzinn hefur gefið vilyrði fyrir akstri úr höfuðborginni gegn sanngjörnu endurgjaldi. Gisting í boði á Melum fyrir þá er þess fýsa, sundlaug á Hvammstanga, sem mun verða hápunktur ferðarinnar.

Jæja, um þetta var rætt á Ægisíðunni, og jafnframt það að Formaður Vor vill auglýsa þetta vel í blöðum svo að alþjóð þurfi ekki að frétta fyrst af viðburðinum í minningargreinum, eins og Þorvaldur benti svo illkvittnislega á. Enn fremur þótti sjálfsagt og var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að Vilhjálmur fengi að ræsa hlaupið með stæl.

Hlaupið í dag var í alla staði hefðbundið og ánægjulegt og ekki alltof erfitt, enda stoppað á hefðbundnum stöðum og málin rædd. Nú kom að því að Ó. Þorsteinsson var rekinn á gat í Potti í bílnúmerafræðum - af BALDRI SÍMONARSYNI! Spurt var: hver átti bílnúmerið R-206? Þetta vissi Ólafur ekki og var maður að minni fyrir vikið. Fékk hann verkefnið fyrir næstu viku að hafa uppi á eigandanum.


Aulabandalagið - eða að hlaupa í sátt við sjálfan sig

Maðurinn þarf að vera sáttur. Hann verður að hlusta á líkamann, hlera öll aukahljóð og ískur, huga vandlega að öllum kvillum og verkjum, og umfram allt: ekki ofgera sér. Hafi menn þetta hugfast er hægt að hlaupa fram á gamals aldur, eins og Jörundur okkar er helzta vísbending um. Nema hvað, þegar mætt er til Laugar er á fleti að finna eftirfarandi: Flosa, Helmut, dr. Jóhönnu, Magga og skrifara. Aðrir voru ekki, eftir því sem mig rekur minni til. Hlýtt í veðri, 17 stiga hiti, skýjað og nánast logn. Í Brottfararsal heimtaði Helmut eitthvað stutt og Magnús var fljótur að fallast á tillögu hans, skrifari staðfesti að myndað hefði verið Aulabandalag - eða A Confederacy of Dunces, eins og hann John Kennedy Toole skrifaði um hér á árunum. Annað átti eftir að koma á daginn.

Lagt upp og ákveðið að stefna á Suðurhlíð, þau Helmut og Jóhanna fara Laugaveg eftir tíu daga og því væntanlega að trappa niður. Farið afar rólega af stað, minnti hópurinn eiginlega á líkfylgd fremur en hlaupahóp. Hins vegar vaknaði von með skrifara um að hér væru að endurfæðast hin eiginlegu Hlaupasamtök, fólk sem heldur hópinn og ræðir menningu, persónur og málefni líðandi stundar og enginn er skilinn eftir. Kom á daginn að það fór nærri sanni.

Magnús hitti mann með barnakerru og bað um að fá að kíkja upp í ungabarnið, menn verða að vera vakandi fyrir viðskiptatækifærum! Það truflaði hann ekki mikið og hljóp hann okkur hin uppi af alkunnri snilld þar sem við fetuðum Sólrúnarbrautina. En við fórum hægt. Mættum manni sem minnti á Sjúl, en við vorum ekki viss hvort það var hann. Á leiðinni náðu okkur Rúna, Ragnar og Kaupmaðurinn og voru bara spræk.

Í Nauthólsvík var skrifari kominn með verk í síðuna og dróst aðeins aftur úr, en þó þannig að Magnús hægði ferðina og fylgdumst við að það sem eftir lifði hlaups. Okkur varð hugsað til þeirra glöðu tíma þegar menn skelltu sér í ölduna í Nauthólsvík, en það er víst búið mál. Nú gerist endrum og eins að menn skoli af sér á Nesi.

Við áfram út að Kringlumýrarbraut og svo upp brekkuna. Brekkan leynir á sér og það er mikilvægt að halda áfram og fara ekki að ganga, við héldum áfram alla leið upp að Perlu, þar gengum við stuttan spöl og sáum þá enn til þeirra hinna. En eftir það voru þau horfin sjónum okkar og munu líklegast hafa snúið upp í 101 í Þingholtunum að skoða hús eitt. En við Maggi héldum áfram hjá Gvuðsmönnum og lögðum svo í Hringbrautina.

Á leiðinni varð okkur hugsað til hans Gústa okkar. Hvort karlgreyið saknaði nú ekki sinna gömlu hlaupafélaga mikið og yrði kátur að hitta okkur. Magnús sagði að það væri nú gustuk að heilsa upp á karlinn. Þá sagði skrifari: "Ja, þó hann megi ekki stíga í fótinn, þá getur hann kannski fengið sér í tána." Upp úr því fæddist sú hugmynd að halda Fyrsta í Lækjarhjalla, en eins og menn gera sér vonandi grein fyrir brestur Fyrsti á á föstudag. Hér leið skrifara eins og sönnum mannvini og hugsaði sem svo: "Mikið held ég að prófessorinn verði glaður að hitta okkur."

Með þessar góðu hugsanir liðum við í Hlað á Laug og vorum glíkastir grískum goðverum. Þrátt fyrir allt höfðum við átt ágætt 10 km hlaup og vorum engir aumingjar, hvað þá aðrir sem höfðu lýst yfir aumingjaskap. Þannig gera hlaupin fólki gott: því líður vel á eftir. Nú gafst stuttur tími til bollalegginga, skrifari hafði heimilisskyldum að gegna og varð að hraða sér, tími í Potti varð því enginn. Hann mætti öðrum hlaupurum við brottför. Eftir stendur spurningin: Fyrsti?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband