Góð æfing fyrir Holtavörðuheiðina

Eftir rúma viku verður þreytt Holtavörðuheiðarhlaup hið fyrsta og því mikilvægt að menn séu vel undirbúnir fyrir viðburðinn. Ætla má að menn þurfi að leggja allt að 20 km undir sóla áður en yfir lýkur. Af þeirri ástæðu var ágæt mæting í hlaup dagsins hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins, 8 manns, þessir: Jörundur, Þorvaldur, Magnús, Benzinn, skrifari, Maggie, Rúna og Denni. Allt saman þokkalegir hlauparar.

Hersingin silaðist af stað af gömlum vana, en fljótlega tók Maggie forystuna og ætlaði ekki að slá slöku við. Bjarni ótrúlega sprækur þrátt fyrir að hafa ekki hlaupið í einar 6 vikur, vildi kanna hvað stelpunni gengi til og setti á sprett á eftir henni. Þau voru komin nokkuð langt á undan öðrum, skrifari þar á eftir og svo þau hin langt fyrir aftan.

Skrifari þungur á sér eftir viku fjarveru frá hlaupum, en tókst þó þokkalega upp í hlaupi dagsins. Benzinn beið í Nauthólsvík og Maggie sneri við til að sækja okkur og saman fórum við í Hi-Lux brekkuna. Á þessu gekk í hlaupi dagsins, skrifari dróst aftur úr og þau hin dokuðu við eftir honum eða komu að sækja hann. Á þann hátt náði Maggie að hlaupa tveimur km lengra en við hinir.

Við sáum lítið til annarra hlaupara, þeir voru svo langt fyrir aftan okkur, en ku þó hafa farið Sæbrautina og ekki Laugaveginn, framhjá Hörpu eins og við hinir fremstu hlauparar og upp Ægisgötuna. Skrifari vel blautur eftir mikil átök og allgott tempó. Menn taka niður höfuðföt við Kristskirkju og signa sig. Svo er tölt til Laugar og teygt á Plani.

Í Pott mættu öllu fleiri hlauparar en þeir sem hlupu, og voru það Kári, dr. Jóhanna, Helmut og blómasalinn, svíramikill og sílspikaður. Í Potti var rætt um Laugaveginn, veikindi Helmuts sem urðu til þess að hann varð að segja sig frá hlaupi, bilaða spindilkúlu í bíl Jörundar, ketti Bigga jóga sem eru nú þegar flúnir að heiman þegar danskir gestir hafa sezt að þar. Góð stund og nærandi fyrir andann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband