Kári litli og Lappi

Friðrik Guðbrandsson mættur í hlaup dagsins og hafði með sér hund. Aðrir mættir: dr. Jóhanna, Ósk, Gummi Löve, Þorvaldur, Kári, skrifari. Ekkert ákveðið um vegalengdir eða leiðir eða hraða, enda eru Gummi, Jóhanna og Helmut á leið í Laugaveginn, svo það er bara rólegt. Og Kári hélt einfaldlega af stað og við eltum. Það þarf ekkert að vera flókið! Ægisíða.

Ég vildi sýna Kára og hundinum sólídarítet með því að hlaupa á sama hraða og þeir, óttaðist að verða stimplaður ójafnaðarmaður ella. En það verður að segjast eins og er: tempóið sem Kári og hundur ótilgreindrar tegundar velja sér hentar ekki hverjum sem er. Alla vega ekki miðaldra embættismanni í sæmilegu formi. Því gerðist það einhvern veginn af sjálfu sér að ég lak fram úr og sá ekki þá félaga um sinn. Þau hin voru náttúrlega löngu horfin, utan hvað ég hljóp uppi Þorvald einhvers staðar á leiðinni, þar sem hann var að vandræðast með hlaupaleið. Hann hvarf hins vegar upp hjá minnismerki um Allsherjargoða Íslands, en skrifari hélt áfram á Flanir.

Stefnan sett á Suðurhlíð og brekkan tekin með stæl. Hér varð skrifara hugsað til Ágústs hlaupafélaga og velti fyrir sér hvenær við mættum vænta þess að fara fetið saman um stíga á Kársnesi eða í Heiðmörk, ja, það voru sælir tímar! Ekki var laust við að skrifari yrði klökkur af tilhugsuninni, en hann harkaði af sér og hélt áfram hlaupi.

Upp brekkuna og alla leið upp að Perlu, svo áfram niður úr stokk og hjá Gvuðsmönnum. Er hann kom niður þar sá hann þá Kára og hundinn kjaga áfram og höfðu farið Hlíðarfót. Og Friðrik. Skrifari hljóp þá uppi án teljandi vandkvæða, en lét eiga sig að segja: Fögur er fjallasýnin, sem þó er legio í hópi vorum þegar við viljum niðurlægja fólk.

Sama var upp á teningnum nú, erfitt að fara fetið jafnhægt og Kári og hundurinn, svo að óhjákvæmilega sigldi skrifari fram úr og lauk hlaupi einn. Teygt á Plani, það kulaði af norðri og ekki hægt að standa lengi úti. Þá kom Ósk á Plan, og svo þeir Kári og Friðrik.

Ekki var tíðinda í Potti, talað um tölvur og annað temmilega intressant, hér er ekki persónufræðinni fyrir að fara, hvað þá að spurt sé um bílnúmer eða húseigendur við Ægisíðu. Skrifari hélt til verzlunar Kaupmanns að höndla fisk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband