Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012
27.2.2012 | 20:51
Endurfundir eftir meiðsli og veikindi
Þessir voru: Jörundur, Magnús, Þorvaldur, Hjálmar, dr. Jóhanna, Haraldur, Heiðar, Stefán, blómasali, skrifari, Benz, Bjössi, Jóhanna Ólafs, Dagný, G. Löve og svo dúkkaði Kaupmaðurinn upp þegar hlaup var hafið. Hávaði í Benzinum sem þarf að stilla. Áhugi á brekkum hjá einhverjum og þeim var leyft að renna skeiðið út í Öskjuhlíð þar sem völ er á brekkum. Aðrir spakir, enda sumir búnir að fara langt á laugardag.
Skrifari nýstiginn upp úr meiðslum og Jörundur að lyfta höfði frá kodda eftir tveggja vikna flensu. Voru því ekki til stórræðanna í dag, en hlaup nauðsynlegt engu að síður. Fórum þetta afar hægt og héldum okkur aftast, má vel una við Trabant-nafngiftina þar. Magnús nálægur. Jörundur við það að gefast upp þegar hann fann að veikindin voru enn viðloðandi, en hélt þó áfram og seiglaðist þetta.
Þegar komið var í Skerjafjörð kom blómasalinn á miklum hraða og virtist ætla að taka á því, hætti þó fljótlega við og fór að kvarta yfir þyngdaraukningu og fitusöfnun, það væri sama hvað hann hlypi, ekkert gengi að léttast eða grennast. E.t.v. er orðið tímabært að fá næringarfræðing til þess að hjálpa okkur þessum sem nýtum vel matinn sem við borðum í forðasöfnun, verst að líklega myndum við ekki fara að ráðum viðkomandi.
Það var bara farinn Hlíðarfótur og þetta voru Magnús, Benzinn, skrifari og blómasali og trúlega hafa Bjössi og Dagný einnig farið þessa sömu vegalengd í kvöld. Mikið skrafað á leiðinni og Benzinn lýsti hneykslaður yfir því að Biggi hefði nefnt villikött í höfuðið á honum. Skaðræðisskepnu sem sæti um kettina hans Bigga og reyndi að vinna þeim allt til miska. Biggi tók sig til og fjarlægði kvikyndið úr Vesturbænum og fór með hann upp í Kattholt. En velviljaður Vesturbæingur leysti skepnuna úr prísundinni gegn greiðslu og kom honum til sinna fyrri heimkynna þar sem hann er öllum til ama og leiðinda. M.a. lenti Jörundur í mikilli rimmu við hann um daginn sem leystist ekki fyrr en hann sparkaði honum í burtu og henti grjóti á eftir honum.
Benzinn sagði: "Já, mér þætti gaman að sjá þig sparka mér svo auðveldlega í burtu, hvað þá heldur að grýta mig í ofanáálag!" Benzinn vissi að upplýsa okkur um prófessor Fróða, en það sást til hans ganga eðlilega um Háskólaplanið. Þegar hann sá Benzinn helltist hins vegar mikil helti yfir hann á vitlausum fæti. Sagðar fleiri sögur af Bigga og hlegið mikið. Og hver kemur þá ekki akandi eftir Hringbrautinni og öskrar ókvæðisorðum að okkur nema sjálfur téður Birgir!
Pottur hreint magnaður og sagðar sögur. Þangað mætti Flosi og hafði hjólað langa vegalengd. Nú fer að styttast í löng hlaup hjá sumum - vordagskrá fer að hefjast. Þetta fer bara batnandi!
13.2.2012 | 21:07
Félag eldri borgara lýsir með fjarveru sinni - ásetningur um árshátíð
Óvenju kjaptfor og ósvífinn eldri borgari hefur farið hamförum í Netheimum að undanförnu til þess að hallmæla virðulegum embættismönnum sem kljást við offitu og þyngdaraukningu, en sýna þó furðumikinn vilja til þess að takast á við vandann og bæta ástandið með hlaupum og heilbrigðu líferni. Því þótti furðu sæta og stappa nærri framhleypni að viðkomandi lætur ekki svo lítið að mæta til hlaupa á auglýstum hlaupatíma opinberra samtaka hlaupara í Vesturbænum.
Ekki skal farið mörgum orðum um mætta hlaupara, en þó skal getið Friðriks Guðbrandssonar, sem mætti til þess að auðsýna hlaupurum virðingu sína og heilsa upp á gamla félaga. Enn var spurt um Gústa gamla og hvort hann væri ekki á leið í Marathon des Sables. Óljósar fregnir af honum. G. Löve æfir skv. brezku prógrammi sem kveður á um 8 mílna sprett á miðvikudag. Verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig það gengur fyrir sig.
Það væri að æra óstöðugan að hafa yfir þuluna um betri hlaupara og lakari hlaupara, en aðgreiningin gerist bara meiri og meiri. Þó held ég að til sé að verða hlaupakategorían "skárri hlauparar" og myndi skrifari flokka sjálfan sig, Helmut, Dagnýju, jafnvel Benzinn með og einnig Þorvald í þá grúpperingu. Þessir hlauparar aðgreindu sig með afgerandi hætti gegn Trabant-tendensinum, sem þó saknaði foringja í stað og var líklega framan við tölvuna að ausa úr sér óforskömmugheitum yfir vammlaust fólk.
Töluverður sunnanstrekkingur og var hálfgert til leiðinda, þó hlykkjast stígurinn með ströndinni svo mjög að maður var ýmist með vindinn í hliðina, í fangið eða í bakið. Og stundum lygndi. Tekið vel á því að góðu tempóhlaupi og má Benzinn hafa heiður fyrir með sín 104 kg að hafa pínt skrifara með sín 89 kg á góðum hraða, Helmut og Dagný fyrir framan okkur, Þorvaldur á einhverju óljósu róli í kringum okkur.
Er komið var í Nauthólsvík beið Helmut eftir okkur og ég benti áfram á Flanir. "Suðurhlíð?" sagði Helmut. Skrifari samsinnti. Aðrir beygðu af og fóru Hlífðarfót. Við hertum hlaupið ef eitthvað var og tókum það sem eftir var á tempói. Brekkan upp Suðurhlíð steinlá og við önduðum vart úr nös er komið var upp hjá Perlu. Afgangurinn var bara formsatriði og við sprettum úr spori.
Eins og menn vita er blómasalinn veikur fyrir súkkulaði. Á nýlegri ferð sinni til Flórída keypti Benzinn Hershey´s súkkulaði. Hann hafði það með sér í dag. Pokinn var rifinn upp í Útiklefa og blómasalinn sótti sér lúku. Svo sat hann á bekknum og maulaði meðan aðrir drifu sig í sturtu. "Ummm, þetta er gott," sagði blómasalinn og taumurinn lak niður munnvikin. Við máttum bíða eftir honum í einar tuttugu mínútur áður en hann sýndi sig í Potti.
Þar var Björn kokkur og spurði hvort áhugi væri á árshátíð. Skrifari greip boltann á lopti og nefndi Viðey. Nú er spurt: er áhugi fyrir því að halda árshátið Hlaupasamtakanna í Viðey í aprílmánuði þegar veður eru sæmileg og sæmilega bjart fram eftir kvöldi? Vafalítið væri kokkurinn fús til að liðsinna með próvíant við sanngjörnu verði. Meira um það seinna.
12.2.2012 | 13:42
Kyrrlátum sunnudagsmorgni varið til hlaupa
Þeir eru einstakir, sunnudagsmorgnarnir í Vesturbænum, varla sál á ferli og tæplega að bærist hár á höfði manna eða dýra. Menn eru mættir stundvíslega kl. 10:10 við Laug, alklæddir í hlaupagalla, því að enn opnar Laug ekki fyrr en kl. 11 og er þó fólk enn að koma kl. 10 haldandi það dyr verði opnaðar fljótlega. Jæja, að þessu sinni voru það skrifari, Magnús og Þorvaldur sem hugðu á hlaup. Nú verða sjálfsagt einhverjir hissa að sjá ekki nafn Formanns til Lífstíðar, Jörundar eða Einars blómasala, en þeir tveir síðastnefndu hafa verið einkar háværir um afrek sín í hlaupum og með ónot við ónefnda félaga þeirra sem hafa misst af einu og einu hlaupi vegna mikilvægra embættisferða til Brussel. Hvað um það, félagsskapurinn var góður og engin ástæða til að ætla annað en hlaup yrði farsælt.
Skrifari að vísu þungur á sér þar sem hann hafði farið Þriggjabrúahlaup í gær, laugardag, á þokkalegasta tempói. Það er nauðsynlegt að grípa til ráðstafana til að stemma stigu við hinni ógnvænlegu þyngdaraukningu síðustu vikna. En það var lagt í hann, rigningarlegt og einhver sunnanátt. Eðlilega var rætt um úrslit í Júróvisjón og voru menn sammála um að lagavalsins vegna mætti gjarnan fella niður þátttöku þetta árið. Þetta var morgunninn þegar fréttist af andláti söngdívunnar Whitney Houston þar vestur í Hollywood. Menn tjáðu hug sinn þar um og um það eiturlyfjaumhverfi sem þetta fólk býr við.
Nú bættist Flosi í hópinn á reiðhjóli og kvartaði yfir meiðslum, en hann hljóp einnig í gærmorgun. Þá vorum við komnir í Nauthólsvík þar sem standa yfir miklar framkvæmdir, bæði á plani uppi og eins niðri í fjöru. Fróðlegt verður að sjá hvað þar rís. Aðeins gerður stuttur stans og svo haldið áfram. Aftur gengið í Kirkjugarði, en eftir það var hlaupið alla leið.
Er komið var að Hörpu taldi ég heppilegast að ganga smáspöl vegna þreytunnar, en hélt svo áfram hlaupandi og náði þeim hinum fljótlega. Svo var aftur gengið upp Ægisgötu og þá skildu þeir Þorvaldur og Magnús mig eftir. Þrátt fyrir þetta var komið til Laugar á mun betri tíma en alla jafna og skakkaði líklega einum 15 mín.
Í Pott mættu syndaselir. Ó. Þorsteinsson kvað hlaupafatnað sinn ekki hafa náð að þorna yfir nótt frá hlaupi gærmorgunsins og verður að teljast á veikum grunni byggt. Hins vegar kom blómasalinn svo að segja beint úr nætursukki, Þorrablóti með vinum þar sem bæði var etið og drukkið ótæpilega. Ja, menn ættu að vera háværari í skeytum sínum! Þar að auki voru í Potti dr. Einar Gunnar og Tobba, sem ekki hefur sést að hlaupum lengi. Síðar bættust í hópinn Stefán verkfræðingur og frú Helga. Rætt um kosningaúrslit og bílnúmer, nýjustu jarðarfarir og misjafnar ævir manna.
8.2.2012 | 20:31
Örlög Jameson flöskunnar
Skrifari er vinur vina sinna. Meira um það seinna. Í fögru veðri söfnuðust margir valinkunnir hlauparar saman. Mátti bera kennsl á Þorvald, Magga, Möggu, Helmut, Bjössa, Stefán, Gumma, Ósk, Hjálmar, dr. Jóhönnu, Jóhönnu Ólafs, Harald, auk þess sem Kára brá fyrir, en ekki ljóst hvort hann hafi hlaupið. Skrifari var mættur. Miðvikudagur og þá er farið langt, ekki styttra en Þriggjabrúa, jafnvel lengra. Haraldur Jónsson að koma úr sjóbaði með loðhött á höfði.
Skrifari hitti blómasalann í gærkvöldi. Strengdu menn þar þess heit að hlaupa langt í miðvikudagshlaupi. Þeir áttu langt spjall. Skrifari var nýkominn úr mikilli svaðilför til Brussel. Á heimleiðinni var flogið gegnum Köben og varð hálftíma seinkun. Sem var allt í lagi, nema hvað eftir lendingu tók við þriggja tíma bið úti í vél eftir því að fá að koma inn í flugstöð, mönnum þótti víst vindurinn vera eitthvað háskalegur. Ekki urðu menn varir við vind úti í vél. Jæja, skrifari er vinur vina sinna og færir þeim gjarnan eitthvað eftir dvöl í útlöndum. Í þetta skiptið hafði hann hálfflösku af Jameson í handraðanum ætlaða blómasalanum. Nú voru góð ráð dýr! Ekkert að hafa í vélinni í þrjár klukkustundir! Hvað gera menn? Nú, þeir bjarga sér. Tappi dreginn úr Jameson og byrjað að teyga. Um það bil sem dyr á farkostinum voru opnaðar var komið niður í miðjar hlíðar á Jamesoninum.
Blómasalinn brást harla kátur við þegar honum var fengið Lindt súkkulaði og hálfur fleygur af Jameson. Litlu verður Vöggur feginn. Hann var fullvissaður um að næst fengi hann fullan fleyg. Það þurfti ekki meira til þess að gleðja þessa einföldu sál. Um sama leyti lýsti blómasalinn yfir því að það yrði farið langt miðvikudag. Hann lét hins vegar ekki sjá sig í hlaupi dagsins.
Nú, menn lögðu vissulega upp og Maggi hafði á orði að langt væri umliðið síðan Frikki Guðbrands hefði sýnt sig. Fórum þetta á léttu og rólegu dóli, en áður en langt var um liðið var "hinn" hópurinn búinn að skilja okkur lakari hlaupara eftir. Ég fór með Helmut og Magga og við vorum bara rólegir. Björn var rólegur líka, fór 5 km, er að byggja sig upp eftir hlaupaleysi Víetnam- og Taílandsfarar.
Óskaplega var skrifari þungur á sér eftir utanlandsferðina, skrýtið hvað svona ferðalög fara illa með skrokkinn á manni! En við djöfluðumst þetta inn í Nauthólsvík og svo var stýrt inn á Hlíðarfótinn hjá HR og þá leið tilbaka. Þetta voru Þorvaldur, Magnús og skrifari, en Helmut hélt áfram Þriggjabrúa. Hér var farið að kólna svo eftir var tekið og eins gott að ekki var farið lengra.
Ástandið skánaði þegar á leið og við vorum bara góðir á Hringbrautinni. Teygt með dr. Jóhönnu í Móttökusal. Svo var legið í Potti með Bjössa og Jóhönnu og rætt um austurlenska matreiðslu, ávexti og landabrugg.
1.2.2012 | 21:15
Bjartsýni ríkir þegar vorið nálgast - Bjössi mættur á svæðið
Þar sem skrifari ekur inn á Planið sér hann tvo hlaupara, þá Jörund og blómasalann. Þeir voru undirfurðulegir, en þó flugu engar svívirðingar á milli. Fjölmennt í hlaupi dagsins: Flosi, Jörundur, Magnús, Þorvaldur, Helmut, dr. Jóhanna, Maggie, Magga, Ósk, Kaupmaðurinn, Gummi, Stefán og skrifari. Nei, þetta er enginn voðalegur fjöldi.
Á miðvikudögum er alltaf farið Þriggjabrúahlaup og engin ástæða til að breyta því. Lagt í hann, veður nokkuð gott, en gat þó brugðið til beggja vona með hita og vind á leiðinni, svo að allmargir voru með balaklövur. Það sýndi sig vera skynsamlegt er komið var á leið.
Það fór nú svo sem oft vill verða að maður lenti í slagtogi við annan feitlaginn og þungstígan hlaupara, blómasalann, og Magnús tiplaði með okkur fyrstu 5 km. Það var rætt um landsins gagn og nauðsynjar, sölumennsku og tannlækningar. Það var sami barlómurinn í blómasalanum og maður hefur hlustað á í rúm þrjú ár, en á milli komu frásagnir af skíðaferðum til útlanda og ferðum í sólina til Kaliforníu. Einar kvaðst hafa fengið skeyti frá prófessor Fróða sem lýsti sig heilan heilsu, og því óskiljanlegt hví hann mætir ekki til hlaupa. Þá gat hann upplýst að búið væri að hreinsa Bigga að innan með góðum árangri og tæki hann því rólega út vikuna.
Við hlupum uppi Þorvald og saman fórum við fyrir neðan Kirkjugarð, en þeir Magnús ætluðu Suðurhlíð, meðan við Einar fórum yfir brú og í brekkuna hjá Bogga. Ég óttaðist að brekkan yrði okkur erfið, en svo reyndist ekki, enda dreifði umræðuefnið huganum, ræddum um Facebook og þær hættur sem fylgja því að tengjast öðru fólki þar.
Það voru einhver þyngsli í okkur báðum, kannski tengd Þorranum, þannig að maður hafði aldrei almennilega þessa léttu tilfinningu sem tekur yfir þegar maður er kominn 5 km. En það var farið yfir hjá RÚV, Hvassaleiti, brú á Miklubraut og Fram-heimili. Tíðindalaust niður Kringlumýrarbraut og niður á Sæbraut. Enn má vara sig á hálkunni.
Hlaupið í myrkri út að Hörpu, en þar er ávallt gengið. Svo var tölt á rólegu nótunum um Hafnarhverfið, upp Ægisgötu og tilbaka til Laugar. Í Móttökusal voru Helmut og Flosi að teygja, og svo var Kaupmaðurinn þar og hafði skoðanir á ýmsu. Pétur Einarsson óhlaupinn að því er bezt varð séð. Í Útiklefa dúkkaði Björninn upp, nýkominn frá Víetnam og Taílandi, uppfullur af ferðasögum. Svo var legið í Potti og Bjössi hafði orðið.
Fyrsti Föstudagur á föstudag. Kári grasekkill. Wine, women and song! Er e-u við það að bæta?