Bjartsýni ríkir þegar vorið nálgast - Bjössi mættur á svæðið

Þar sem skrifari ekur inn á Planið sér hann tvo hlaupara, þá Jörund og blómasalann. Þeir voru undirfurðulegir, en þó flugu engar svívirðingar á milli. Fjölmennt í hlaupi dagsins: Flosi, Jörundur, Magnús, Þorvaldur, Helmut, dr. Jóhanna, Maggie, Magga, Ósk, Kaupmaðurinn, Gummi, Stefán og skrifari. Nei, þetta er enginn voðalegur fjöldi.

Á miðvikudögum er alltaf farið Þriggjabrúahlaup og engin ástæða til að breyta því. Lagt í hann, veður nokkuð gott, en gat þó brugðið til beggja vona með hita og vind á leiðinni, svo að allmargir voru með balaklövur. Það sýndi sig vera skynsamlegt er komið var á leið.

Það fór nú svo sem oft vill verða að maður lenti í slagtogi við annan feitlaginn og þungstígan hlaupara, blómasalann, og Magnús tiplaði með okkur fyrstu 5 km. Það var rætt um landsins gagn og nauðsynjar, sölumennsku og tannlækningar. Það var sami barlómurinn í blómasalanum og maður hefur hlustað á í rúm þrjú ár, en á milli komu frásagnir af skíðaferðum til útlanda og ferðum í sólina til Kaliforníu. Einar kvaðst hafa fengið skeyti frá prófessor Fróða sem lýsti sig heilan heilsu, og því óskiljanlegt hví hann mætir ekki til hlaupa. Þá gat hann upplýst að búið væri að hreinsa Bigga að innan með góðum árangri og tæki hann því rólega út vikuna.

Við hlupum uppi Þorvald og saman fórum við fyrir neðan Kirkjugarð, en þeir Magnús ætluðu Suðurhlíð, meðan við Einar fórum yfir brú og í brekkuna hjá Bogga. Ég óttaðist að brekkan yrði okkur erfið, en svo reyndist ekki, enda dreifði umræðuefnið huganum, ræddum um Facebook og þær hættur sem fylgja því að tengjast öðru fólki þar.

Það voru einhver þyngsli í okkur báðum, kannski tengd Þorranum, þannig að maður hafði aldrei almennilega þessa léttu tilfinningu sem tekur yfir þegar maður er kominn 5 km. En það var farið yfir hjá RÚV, Hvassaleiti, brú á Miklubraut og Fram-heimili. Tíðindalaust niður Kringlumýrarbraut og niður á Sæbraut. Enn má vara sig á hálkunni.

Hlaupið í myrkri út að Hörpu, en þar er ávallt gengið. Svo var tölt á rólegu nótunum um Hafnarhverfið, upp Ægisgötu og tilbaka til Laugar. Í Móttökusal voru Helmut og Flosi að teygja, og svo var Kaupmaðurinn þar og hafði skoðanir á ýmsu. Pétur Einarsson óhlaupinn að því er bezt varð séð. Í Útiklefa dúkkaði Björninn upp, nýkominn frá Víetnam og Taílandi, uppfullur af ferðasögum. Svo var legið í Potti og Bjössi hafði orðið.

Fyrsti Föstudagur á föstudag. Kári grasekkill. Wine, women and song! Er e-u við það að bæta?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Trabantdeildin,skynsemin ræður, fór rólega af stað en jók svo hraðan. Sumir geistust af stað, en sprungu svo. Tímarnir staðfesta það.

Trabantdeildin (IP-tala skráð) 2.2.2012 kl. 15:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband