Bloggfærslur mánaðarins, september 2010
8.9.2010 | 21:18
Goldfinger á miðvikudegi
Enn kastaðist í kekki með þeim Bjössa og blómasalanum í Útiklefa; Bjössi nýkominn af myndinni Ghost Writer og blómasalinn sveik samkomulag um að mæta. Þeir fóru tveir, Bjössi og Biggi. Í hléi uppgötvaði Biggi að hann hafði týnt bíllyklunum. Sneri við hálfum bíósalnum í leit að lyklunum. "Þú ert ljóti dj... hálfvitinn!" sagði Bjössi. "Já, það má fara panta fyrir mig herbergi á stofnun", sagði Biggi. Þeir röltu gneypir áleiðis að umræddu farartæki, hvað þeir ætluðu að gripa til bragðs veit enginn, en frekar en gera ekki neitt reynir Biggi við hurðina. Viti menn! hún opnast. Hann þreifar um svissinn - þar fann hann lykilinn. Hann varð himinlifandi, en jafnhissa á því að þeir hefðu setið í gegnum heila kvikmynd og engum dottið í hug að stela bílnum. Bjössi var hins vegar ekki eins hissa.
Fjöldi hlaupara mættur í Brottfararsal. Fyrstir mættir Þorvaldur og prófessor Fróði, þeir biðu í Salnum, spenntir eins og litlir messudrengir, eftir að hlaup hæfist. Svo tíndust þeir hver af öðrum auk áðurnefndra, Flosi, dr. Karl, Dagný, dr. Jóhanna, Flóki, Magga þjálfari nýkomin frá Köben, Albert og svo kollegi sem þeir sögðu að væri frá Ástralíu, en mig grunar að sé þýzkur.
Menn eru afskaplega fastir í Þriggjabrúa - og Magga lagði það til. Það hnussaði í okkur Ágústi yfir þessu metnaðarleysi - kváðumst stefna á Goldfingar. Ég lagði hart að blómasalanum að koma með okkur. Nei, hann kvaðst þurfa að laga mat í kvöld. En Flosi féllst á að koma með okkur. Aðrir settu markið lægra. Hersing af stað og fljótlega vorum við Ágúst fremstir í flokki og sáum varla til hinna það sem eftir lifði hlaups, nema Flóki náði eitthvað að fylgja okkur eftir.
Einhver mótvindur á leiðinni, en í Nauthólsvík var dýfingakeppni af klettinum. Á Flönum var manni farið að líða bærilega - en enn þarf að brjóta sér leið niður hjá kirkjugarði, þar eru einhverjir verktakar að slugsa við skógarstíg og búnir að vera að þessu í allt sumar að því er virðist. Þar má fara varlega vegna vinnuvéla sem eru að moka. Áfram yfir brú, við förum að mæta hlaupurum í Laugaskokki, Gústi þekkir annan hvern þeirra.
Þegar komið er í Fossvoginn verða á vegi okkar fjölmennir hópar íturvaxinna kvenna sem skeiða fram og aftur um dalinn, og eru greinilega samantekin ráð að fara út að hlaupa og bæta líðan sína og heilsu. Ágúst tekur Kópavogslykkju, en ég held áfram. Doka við þegar komið er að Víkingsvelli og leyfi Gústa að ná mér. Við tökum þríhyrning þarna rétt hjá til þess að leyfa Flosa að ná okkur. En hann svíkur, hann setur stefnuna á 69. Við áfram og upp brekkuna góðu inn í Smiðjuhverfið.
Nú er hún Snorrabúð stekkur og Goldfinger búinn að vera. Þangað er ekkert lengur að sækja svo að við höldum áfram og undir brú á Breiðholtsbraut. Ágúst fer að segja mér sögu, sem myndi líklega flokkast með dónamannasögum í bókmenntafræðinni. En þetta er löng saga, svo löng að hann nær ekki að ljúka henni áður en leiðir skilja og hann setur stefnuna upp í Breiðholtið og upp að Stíbblu, en ég áfram niður Dalinn. Þetta verður framhaldssaga.
Nú fer maður að finna fyrir þreytu og þá er bara að drífa sig tilbaka. Það er erfitt og einmanalegt, en ég stytti mér stundir með ipodinum, hlusta á hvern snillinginn á eftir öðrum. Enn var pottur er komið var tilbaka, en maður gat aðeins staldrað stutt.
Næst er hvíld hjá þessum hlaupara og svo - Reykjafellshlaup. Vel mætt!
6.9.2010 | 20:49
Úrhelli á mánudegi
Tekinn Einhyrningur við Skítastöð og kúrsinn settur á Nes. René stytti sér leið og tók forystuna, á eftir komu Jóhanna og Ragnar, svo við Gústi. Tempóið hélt áfram á Ægisíðu og það fór að rigna fyrir alvöru. Af því að Ágúst var meiddur fór hann bara rólega og tók fram úr þeim Ragnari og Jóhönnu á leiðinni á Ægisíðu, svo kom ég á eftir og tætti fram úr þeim, þau eru orðin voða róleg þessa dagana. En Flóki fyrir sitt leyti niðurlægði prófessorinn við Steinavör og þeyttist fram úr honum þar.
Bakkavör beið okkar, en einhverra hluta vegna kusu flestir að stíma framhjá, nema hvað við Jóhanna og Ragnar tókum nokkra þéttinga upp brekkuna, ég fjóra, þau átta. Ég fór svo Lindarbrautina yfir á Norðurströnd og lauk hlaupi holdvotur og á blautum og þungum skóm sem íþyngdu mér. Það voru lúpulegir menn sem biðu mín í Móttökusal og höfðu farið stutt og hægt. Einkennilegt hvað menn svíkjast um þegar þjálfararnir eru ekki með til að halda uppi aga.
Gríðarlega þéttur pottur, við lögðum hann undir okkur allan hringinn. Biggi mætti og kvaðst vera farinn að hlaupa með Árbæjarskokki. Sagðar margar góðar sögur og höfð í frammi hvers kyns kerskni. Menn hlakka til bedúínatímans hjá blómasalanum, þegar fer að kólna í veðri og norðanvindur næðir um hold og bein. Venju samkvæmt á mánudögum mikið rætt um áfengi, m.a. hvernig mætti eima rauðspritt til drykkju. Var þá fullyrt að rauðspritt væri alls endis meinlaust til drykkju, það "tæki bara svolítið í augun"! Stundum finnst manni þetta vera drykkjusamkunda en ekki hlaupaklúbbur.
5.9.2010 | 15:05
Við stóðum okkur vel
Af nægu söguefni var að taka, enda Vilhjálmur bæði í sjónvarpi og Séð og heyrt. Ó. Þorsteinsson í hefðbundinni Víkingstreyju í tilefni af góðu gengi félagsliðs hans í boltanum og til að storka Möllerum og Schrömurum Vesturbæjarins. Þessi fámenni hópur afbragðshlaupara lagði rólega af stað í ágætu veðri, 15 stigum, þurru veðri og hægu. Það fengust fréttir af Fyrsta Föstudegi á Ljóninu þar sem nokkrir félagar lentu í slagtogi við hjúkrunarfræðinema sem gerðu sér glaðan dag. Voru nefndir til sögu blómasali, próf. Fróði, Jörundur og Biggi.
Fátt tíðinda gerðist framan af, en er komið var í Nauthólsvík tókum við eftir að búið er að helluleggja skotið hjá Brokey sem hann Magnús hefur merkt sér. Getgátur voru ennfremur uppi um að menn frá Rafmagnsveitum ríkisins hefðu lagt þar í rafmagnsþil í þeirri von að stuðla að auknu hreinlæti og bættri umgengni, en veggir þarna eru sumir mosavaxnir.
Það var þetta hefðbundna, Kirkjugarður, Veðurstofa, Hlíðar og Klambrar. Benzinn var með hávaða alla leiðina, meira hvað sá maður getur bæði hlaupið og blaðrað. Við héldum nokkurn veginn hópinn og stönzuðum til þess að tímajafna og drekka vatn. En það var haldið vel áfram, farið um Austurvöll og upp Túngötu, framhjá Kristskirkju, þar sem var stoppað og menn signdu sig.
Í potti voru þeir spekingar Mímir, Baldur og Einar Gunnar. Setið góða stund og tekin góð rispa á helztu málefnum.
4.9.2010 | 14:16
Magnús er maður, hann er ljón
Laugardagur kl. 9:30. Hlauparar safnast saman í Brottfararsal. Þar mátti þekkja Einar blómasala, Bjössa, Eirík, Magnús, Þorbjörgu K., Gerði, Flóka, Ragnar, ritara og Rúnar á reiðhjóli. Nýr maður, Örn, sem hljóp í Berlín í fyrra með Bjössa og Bigga. Blómasalinn búinn að fara 10 - ætlaði 30. Menn voru í misjafnlega góðu ástandi eftir skemmtanir gærdagsins, en það skyldi látið reyna á ásigkomulagið.
Magnús var í vafa með sjálfan sig, en langaði til þess að gera eitthvað meira en þennan hefðbundna Hlíðarfót. Stemmning fyrir Stokki. Það var leiðindastrekkingur á Ægisíðu, mótvindur. Farið hægt til að byrja með. En er fram í sótti var hraðinn aukinn og var orðinn þokkalegur í Fossvogi. Margir úti að hlaupa á þessum tíma, fjölmargar konur í litlum hópum. Farið framhjá Víkingsheimili og niður að Elliðaám og yfir.
Í stað þess að fara upp Stokkinn héldum við áfram inni Laugardal, á þessum kafla vorum við fjórir saman, ritari, Maggi, Bjössi og Örn, og héldum góðu tempói, mikil brennsla og mikill sviti. Drukkið vatn á Sæbraut og svo haldið áfram. Við Maggi fórum um miðbæ og Hljómskálagarð. Enduðum á einum 18 km - vel af sér vikið svo löngu hlaupi án mikils fyrirvara.
Í potti var rifjað upp að einhverjir ætluðu í Brúarhlaup, dr. Jóhanna, Frikki og e.t.v. Flosi. Einar kom í pott og hafði farið 23 km. Næstu helgi verður svo Reykjafellshlaup, safnast saman við Vesturbæjarlaug kl. 14:30.
1.9.2010 | 21:24
Í mótvindi á Sólrúnarbraut
Er komið var í Útiklefa kastaðist í kekki með blómasalanum og Bjössa. Bjössi uppfullur af karlhormónum eftir að hafa horft á Expendables myndina hans Stallone og bjóst til að rjúka í blómasalann sem var með kjaftbrúk. Góðir menn gengu á milli og báru klæði á vopnin. Þarna voru auk þeirra mættir Flosi, Benzinn, Kári og ritari. Í Brottfararsal beið Magga þjálfari, Jörundur, S. Ingvarsson, Flóki, Jóhanna, Ragnar og dr. Jóhanna.
Menn sóru þess heit á Plani að fara bara hægt. Þjálfarinn sagði að við mættum gera það sem við vildum. Spurt hvort einhverjir ætluðu í Brúarhlaup á laugardaginn er kemur, jú, einhverjir taka daginn snemma, fara í berjamó og svo hlaup. Eftir að lagt var í hann bættist Frikki í hópinn. Það var stíf austanátt og því mótvindur á leiðinni austurúr, ekki beint uppáhaldsveðrið, en það var tiltölulega hlýttt og því mátti þrauka þetta. Fljótlega yfirgáfu Magga, Jóhanna og Flóki okkur hina lakari hlaupara, Frikki kom á feikna stími og kveikti í Sigga Ingvars - eftir það var tempóhlaup hjá þeim fremstu. Aðrir dóluðu í humáttina á eftir þeim. Flosi og Benzinn framarlega. Þá komum við dr. Jóhanna og Bjössi.
Það var fremur hratt tempó, ríflega 5 mín. Meðaltempó eftir hlaup sýndi sig vera kringum 5:15-5:20. Jæja, það var kunnuglegt, niður fyrir kirkjugarð, yfir Kringlumýrarbraut og upp hjá Borgarspítala. Gott gengi í okkur. Við Útvarpshús er hlaup hálfnað og eftir það hallar undan fæti. Fólk fór að flýta sér hér, stytta og spretta úr spori, ég var allt í einu orðinn einn og spennti á mig heyrnartæki tengd iPodinum, setti á Jimi Hendrix, Trúbrot o.fl. góða. Var yfirleitt heppinn með ljósin á þessari leið og gat haldið vel áfram.
Tók góðan þétting á Sæbraut, en sleppti vatnsbólinu, sem ég þó alla jafna stoppa við. Ekki sá ég til hlaupara að baki mér og var sosum sæll með sjálfan mig. Eftir Seðlabanka fór ég að hægja ferðina, fór gegnum Miðbæ og Hljómskálagarð, sá hitt fólkið á undan mér, það stytti gegnum Miðbæinn. Kem svo til Laugar vel heitur og sveittur, fólk að teygja á Plani. Stuttu síðar koma blómasalinn og Jörundur í hlandspreng og kváðust mundu hafa náð mér ef ekki hefði verið fyrir "ljósin"! Ég sagði þeim sallarólegur: piltar mínir, þið höfðuð bara ekkert að gera í mína snerpu, kraft og hraða. En ef þið eruð duglegir að æfa ykkur gætuð þið hugsanlega náð mér með tíð og tíma. Benti þeim á að ég hafi verið á niðurskokki og hvaða áttræð kona í hjólastól hefði getað náð mér.
Í potti spurðist það út að blómasalinn hefði æst Benzinn svo upp í Útiklefa að hann væri orðinn albrjálaður. Mönnum stóð ekki á sama og óttuðust það ófremdarástand sem gæti skapast í potti ef Bjarni væri erfiður. Loks birtist hann úr Útiklefa eins og óveðursský, en byrjaði sem betur fer í nuddpotti. Ég beið ekki eftir því sem verða vildi, kom mér fljótlega í burtu og veit því ekki hvernig mál æxluðust hjá þeim félögum.
Það styttist í Reykjafellshlaup, en fyrst kemur Fyrsti Föstudagur, 3. sept. nk. Ekki er ljóst hvernig upp á hann verður haldið. Í versta falli verður það Dauða Ljónið. Enn einum vel heppnuðum hlaupadegi lokið og maður bíður spenntur eftir þeim næsta.