Í mótvindi á Sólrúnarbraut

Er komið var í Útiklefa kastaðist í  kekki með blómasalanum og Bjössa. Bjössi uppfullur af karlhormónum eftir að hafa horft á Expendables myndina hans Stallone og bjóst til að rjúka í blómasalann sem var með kjaftbrúk. Góðir menn gengu á milli og báru klæði á vopnin. Þarna voru auk þeirra mættir Flosi, Benzinn, Kári og ritari. Í Brottfararsal beið Magga þjálfari, Jörundur, S. Ingvarsson, Flóki, Jóhanna, Ragnar og dr. Jóhanna.

Menn sóru þess heit á Plani að fara bara hægt. Þjálfarinn sagði að við mættum gera það sem við vildum. Spurt hvort einhverjir ætluðu í Brúarhlaup á laugardaginn er kemur, jú, einhverjir taka daginn snemma, fara í berjamó og svo hlaup. Eftir að lagt var í hann bættist Frikki í hópinn. Það var stíf austanátt og því mótvindur á leiðinni austurúr, ekki beint uppáhaldsveðrið, en það var tiltölulega hlýttt og því mátti þrauka þetta. Fljótlega yfirgáfu Magga, Jóhanna og Flóki okkur hina lakari hlaupara, Frikki kom á feikna stími og kveikti í Sigga Ingvars - eftir það var tempóhlaup hjá þeim fremstu. Aðrir dóluðu í  humáttina á eftir þeim.  Flosi og Benzinn framarlega. Þá komum við dr. Jóhanna og Bjössi.

Það var fremur hratt tempó, ríflega 5 mín. Meðaltempó eftir hlaup sýndi sig vera kringum 5:15-5:20. Jæja, það var kunnuglegt, niður fyrir kirkjugarð, yfir Kringlumýrarbraut og upp hjá Borgarspítala. Gott gengi í okkur. Við Útvarpshús er hlaup hálfnað og eftir það hallar undan fæti. Fólk fór að flýta sér hér, stytta og spretta úr spori, ég var allt í einu orðinn einn og spennti á mig heyrnartæki tengd iPodinum, setti á Jimi Hendrix, Trúbrot o.fl. góða. Var yfirleitt heppinn með ljósin á þessari leið og gat haldið vel áfram.

Tók góðan þétting á Sæbraut, en sleppti vatnsbólinu, sem ég þó alla jafna stoppa við. Ekki sá ég til hlaupara að baki mér og var sosum sæll með sjálfan mig. Eftir Seðlabanka fór ég að hægja ferðina, fór gegnum Miðbæ og Hljómskálagarð, sá hitt fólkið á undan mér, það stytti gegnum Miðbæinn. Kem svo til Laugar vel heitur og sveittur, fólk að teygja á Plani. Stuttu síðar koma blómasalinn og Jörundur í hlandspreng og kváðust mundu hafa náð mér ef ekki hefði verið fyrir "ljósin"! Ég sagði þeim sallarólegur: piltar mínir, þið höfðuð bara ekkert að gera í mína snerpu, kraft og hraða. En ef þið eruð duglegir að æfa ykkur gætuð þið hugsanlega náð mér með tíð og tíma. Benti þeim á að ég hafi verið á niðurskokki og hvaða áttræð kona í hjólastól hefði getað náð mér.

Í potti spurðist það út að blómasalinn hefði æst Benzinn svo upp í Útiklefa að hann væri orðinn albrjálaður. Mönnum stóð ekki á sama og óttuðust það ófremdarástand sem gæti skapast í potti ef Bjarni væri erfiður. Loks birtist hann úr Útiklefa eins og óveðursský, en byrjaði sem betur fer í nuddpotti. Ég beið ekki eftir því sem verða vildi, kom mér fljótlega í burtu og veit því ekki hvernig mál æxluðust hjá þeim félögum.

Það styttist í Reykjafellshlaup, en fyrst kemur Fyrsti Föstudagur, 3. sept. nk. Ekki er ljóst hvernig upp á hann verður haldið. Í versta falli verður það Dauða Ljónið. Enn einum vel heppnuðum hlaupadegi lokið og maður bíður spenntur eftir þeim næsta.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband