Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010
30.8.2010 | 21:50
Hlaupið með höfðingja
Nokkur fjöldi hlaupara í Brottfararsal og þykir ekki ástæða til að nefna aðra en próf. Fróða, sem hefur ekki sýnt sig mikið á meðal vor upp á síðkastið. Ég var upptekinn af að ræða við frænda minn og uppfræða hann um það helzta sem gerzt hefur í Vesturbæjarlaug í seinni tíð, og missti því af fyrirmælum þjálfara. Þótt ég ætti að vinna mér það til lífs gæti ég ekki sagt hvað þeir lögðu fyrir í kvöld. Seint og um síðir silaðist hersingin af stað og setti stefnuna á Víðimel. Þaðan í austurátt út á Suðurgötu og svo suður úr í átt að Skerjafirði.
Við frændur tókum því rólega, enda af mörgu að taka í umræðum um það sem nýlegast er. M.a. lýsti ég fyrir honum fyrirhugaðri eldamennsku í tilefni af brotthvarfi dóttur minnar til New York á morgun: Canelloni. Var það löng lýsing og ítarleg, með öllum ingredíönsum, kryddum og eldun. Nokkurn tíma helguðum við umfjöllun um hlaupafélaga okkar og það sem nýjast væri á þeim vettvangi. Gerður stanz í Skerjafirði og lagðar línur um spretti vestur úr. Við dóluðum okkur í humátt á eftir þeim hinum og töldum okkur trú um að þetta væru sprettir. Mættum Neshópi, þar sem fara í fylkingarbrjósti glaðbeittar og glæsilegar konur. Hver hlaupahópur væri vel sæmdur af svo glæsilegum fulltrúum!
Svo var aðeins Ægisíðan og við tókum glæsilegan lokasprett, það var staðnæmst við Hofsvallagötu, létum það gott heita. Aðrir fóru á Nes og skilst okkur að menn hafi lokið 12 km á hlandspreng, menn komnir af léttasta skeiði sáust á harðaspretti á eftir hindunum okkar sem þekkja hvorki þreytu né þrekleysi. Það var setið góða stund í potti og haldið áfram að fjalla um seinustu jarðarfarir og þau ævintýri sem gerast við slík tækifæri.
28.8.2010 | 16:22
Sagt frá tveimur hlaupum
Við Seltjörn fóru nokkrir í svalan sjóinn, hressandi sem endranær. Stundin var söguleg þar eð þetta var fyrsta sjóbað Ragnars. Hann kvaðst hafa spurt sjálfan sig: Er þetta skynsamlegt? Lét svo alla skynsemi sigla veg allrar veraldar og skellti sér ofan í. Menn töldu sig sjá fólk með myndavélar og sjónauka svo búast má við myndum fljótlega af berum skrokkum af Nesi á vef. Það verður þeygi fagurt.
Svo áfram en ekki fyrir golfvöll. Tilbaka á hægu tölti. Verið fremur stutt í potti og svo haldið til kvöldverðar. Það vakti athygli viðstaddra að Einar blómasali þáði ekki Cadbury´s súkkulaði sem ritari bauð honum.
Laugardagsmorgunn og enn er mætt til hlaups: báðir þjálfarar, Ósk, Gerður, Jóhanna, Flóki, Kári, dr. Jóhanna, Frikki, Rúna, blómasalinn, ritari og Biggi. Ýmis plön lágu í loftinu: dr. Jóhanna stefndi á 28 km, allmargir ætluðu Þriggjabrúa, og svo voru enn önnur plön. Veður fagurt svo af bar og óhjákvæmilegt að verja morgninum í hlaup. Lagt hægt upp og farið niður á Ægisíðu. Mættum fljótlega Jörundi og Helgu Jónsdóttur frá Melum. Kári farinn á undan okkur. Biggi enn slæmur af skurðinum, ritari með bólginn ökkla eftir misstig í gær. Maður var staddur þarna einhvers staðar á milli hópa, einn eins og venjulega. En svo artaði það sig þannig að við Biggi stilltum hraðann saman og höfðum félagsskap hvor af öðrum, með innslagi af Frikka öðru hverju, sem hljóp fram og aftur um stígana. Blómasalinn sást ekki. Dr. Jóhanna tók að sér að aumkva sig yfir hann, hann var staddur einhvers staðar langt að baki okkur.
Áfram á Flanir og fyrir neðan kirkjugarð, þar standa yfir framkvæmdir og hefur umferð verið beint um hjáleið vikum saman án þess að nokkuð hreyfist á stígunum. Áfram yfir brú á Kringlumýrarbraut og upp hjá Bogga. Málið er að kjafta nógu djö... mikið, þá tekur maður ekki eftir erfiðleikunum. Komnir yfir brú á Miklubraut án þess að átta okkur á því og svo niður Kringlumýrarbraut. Mikið af túristum á Sæbraut þar sem við hittum Frikka aftur sem hafði tekið þriggja kílómetra sprett á e-u geðveiku tempói.
Í stað þess að hlaupa beint til Laugar fórum við Biggi niður á Ægisíðu aftur og skelltum okkur í sjóbað. Það var ljúft. Hittum Ósk og Möggu og hafði Ósk farið í sjóinn í Nauthólsvík, og Magga í orði kveðnu. Svo var gengið á táslunum til Laugar. Teygt á Plani og grasflöt við Laug. Pottur þéttur og góður og rætt um sænskar lýs og sænska vandamálaframleiðslu. Næst er hlaupið í fyrramálið 10:10. Góða skemmtun!
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2010 | 21:14
Hvílíkur dagur! Hvílíkur hópur!
Marzipantertur eru ekki góður undirbúningur fyrir hlaup og kom það á daginn. Mæting með miklum ágætum, skulu nefndir auk áðurgetinna Jörundur stórhlaupari og stolt Samtaka Vorra, Ó. Þorsteinsson Formaður Vor til Lífstíðar, Helmut afmælisbarn, dr. Jóhanna, Flosi, Rúnar þjálfari, Kári, Maggi, Rakel, Dagný, Friðrik kaupmaður - gleymi ég einhverjum? Prófessorinn gekk um og óskaði mönnum til hamingju með hlaup í RM - mér fannst hálfvegis það vera gert til háðungar okkur lakari hlaupurum.
Svona að afloknu Reykjavíkurmaraþoni er leyfilegt að slaka aðeins á, fara rólega. Það var línan í dag, nema Rúnari fannst í lagi að 10 km hlauparar gerðu eitthvað extra. Ekki held ég margir hafi farið að orðum hans. Á móti kom að tekið var vel á því í hlaupi dagsins. Prófessorinn nýkominn niður af hæsta fjalli Póllands sem var snarbratt að sögn, 90 gráður sagði prófessorinn. Þar eð hann var óhlaupinn var ekki við öðru að búast en menn gerðu auknar kröfur á hann. Hann spretti úr spori og hafði Benzinn alvitlausan með sér. Benni eins og vakur, fjögurra vetra foli og tók góða rispu inn að Nauthólsvík, sneri þar við og fór sömu leið tilbaka.
Ég lenti með Helmut og Benzinum sem prófessorinn náði að hrista af sér, auk þess sem Maggi og Þorvaldur voru eitthvað að snövla í kringum okkur. Fjöldi fólks á Nauthóli að neyta áfengis. Við horfðum hneykslunaraugum í áttina að því og sendum því merkingarþrungin augntillit sem fluttu þeim spurninguna: "Á mánudegi!?" (Minnir á viðbrögð Fróða þegar VB sagði að skilnaði við okkur í potti hér um árið: "Gvuð gefi yður góðan séns!") Við settum stefnuna á Hlíðarfót.
Það var vindur, það var kalt. Hér settum við upp tempóið og fórum um lóðina hjá Gvuðsmönnum, þar sem fjöldi fólks var að safnast saman til þess að horfa á kappleik. Við hrópuðum: "Áfram KR!" Líklega hafa heimamenn átt að leika við Vesturbæjarstórveldið. Hér fyrst var hraðinn orðinn svoldið seríös, Benzinn leiddi dæmið, Helmut með og ritari skakklappaðist á eftir, fórum fram úr Kára á þessum slóðum, en hann hafði farið á undan okkur frá Laug.
Góður þéttingur norðan við flugbraut og í raun alla leið út að Háskóla, þeir félagar mínir skildu mig eftir, en ég náði þeim við Suðurgötu. Þannig var haldið áfram til Laugar. Það var of kalt til að teygja á Plani, svo að ég fór inn og teygði þar. Pottur ótrúlega þéttur og magnaður, þar voru rifjuð upp mörg gullkorn sem fallið hafa á hlaupum og í félagslífi Samtaka Vorra. En þegar Sif Jónsdóttir langhlaupari mætti til potts og talið barst að vegalengdum og tímum þá var mér eiginlega öllum lokið, yfirgaf pott niðurbrotinn á sál og líkam, vonsvikinn yfir að persónufræði og þjóðleg speki hafi þurft að víkja fyrir jafn fáfengilegum hlutum eins og hlaupatímum. Menn geta farið að hlakka til Fyrsta Föstudags í sept. og Reykjafellshlaups.
22.8.2010 | 14:00
Að loknu Reykjavíkurmaraþoni 2010
Að afloknu hlaupi var haldin hin árlega Chili con Carne veizla ritara, en að þessu sinni á heimili Jörundar á Seilugranda. Mæting góð og veitingar í heimsklassa, en því miður bauð veður ekki til útiveru nema að takmörkuðu leyti. Formaður til Lífstíðar hélt langa tölu um Samtökin og Vesturbæinn og hefðirnar sem umlykja hvort tveggja. Öllum að óvörum mætti Vilhjálmur Bjarnason er nokkuð var liðið á kvöld og hafði fyrr um daginn lokið hálfmaraþoni við ágætan orðstír. Urðu þarna fagnaðarfundir og um margt skrafað og skeggrætt fram eftir kveldi.
Jæja, þarna vorum við þá mættir, þrír vaskir hlauparar sem létu fyrstu haustlægðina ekki fæla sig frá hlaupi. Þeir voru þrekaðir eftir hlaup gærdagsins og báðu sér miskunnar, fara hægt. Farið hægt og rætt um ýmislegt úr hlaupi gærdagsins, en þar að auki um ástand þjóðmála. Ber þar hæst dapurlegt ástand íslenzku þjóðkirkjunnar. Mættum dr. Friðriki með einkennilegan hund í bandi. Gengið í Nauthólsvík og svo hlaupið í kirkjugarð, fáir á ferli. Veðurstofa. Hlaupið um tún sem hefur fengið hið opinbera heiti "Klambratún" Víð ákváðum að telja auð verzlunarrými á Laugavegi og komumst að því að þeim hefur fækkað úr 30 árið 2009 í 5 á ritandi stundu.
Hlupum um Austurstræti og Austurvöll þar sem gestir á Kaffi París gátu barið augum ímynd íslenzkrar karlmennsku á stuttbuxum á sunnudagsmorgni. Upp Túngötu, stanzað við Kristskirkju þar sem menn signdu sig til heiðurs Bjarna Benz. Áfram til Laugar. Hittum Bigga jóga sem var á leið í burtu. Teygjum sleppt, þeirra gerist varla þörf eftir svona hægt uppmýkingarhlaup.
Í pott mættu auk hlaupinna sjálfur Ó. Þorsteinsson, Mímir, dr. Einar Gunnar, dr. Jóhanna, Tumi og sjálf hetja gærdagsins: Ragnar maraþonhlaupari. Setið í klukkutíma og málin rædd.
18.8.2010 | 21:17
Síðasta æfing fyrir Reykjavíkurmaraþon
Fyrirmæli voru um rólegt hlaup um Hlíðarfót og nokkra létta spretti þar. Tíðindalaust að mestu á Plani, lagt upp í rólegheitum en þó gætti spennu fyrir RM. Fjórir hlaluparar hafa sagst ætla í heilt: S. Ingvarsson, Jörundur, Ragnar og Rakel. Nokkrir fara hálft og enn aðrir 10 km. Rætt um sveitamyndun.
Fátt tíðinda í svo stuttu hlaupi. Farið inn í Nauthólsvík og beygt inn Hlíðarfótinn, ég lenti með Magga sem var þreyttur að vanda. Við fórum þetta í rólegheitunum, slepptum sprettum, misstum raunar sjónar á fólkinu sem ætlaði í sprettina. Það kom strekkingur á móti okkur á þessum kafla og var eilítið kaldur. Fínt að komast fyrir vind við Hringbraut og gott dól tilbaka.
Í potti var rætt um störf, breytingar á störfum og við hvað mætti miða þegar menn ákveða hvort þeir skipta um starf. Einhver sagði að starf gæti verið leiðinlegt en vel borgað. Svo væru til störf sem væru skemmtileg en illa borguð. Rætt frá ýmsum hliðum, en ekki verður greint frá einstökum sjónarmiðum eða ummælum af tillitssemi við viðkvæma.
Eftir hlaup í RM er hlaupurum boðið í hina hefðbundnu Chili con Carne veizlu ritara, sem að þessu sinni verður haldin í garði Jörundar stórhlaupara. Vel mætt!
13.8.2010 | 20:49
Hlaupasamtök Lýðveldisins - þar sem hefðin ræður ríkjum
Nema hvað, fjöldi hlaupara mættur á föstudegi. Sigurður Ingvarsson mættur eftir fjarverur á fjöllum, dr. Karl, Flosi, Kári, Þorvaldur, fyrrnefndir Biggi og Benni, Ragnar, Guðrún (áður nefnd dóttir Sigríðar frönskukennara í Reykjavíkur Lærða Skóla), Frikki. Ekki man ég hvort fleiri voru mættir, alla vega vantaði dr. Jóhönnu og Helmut, af þeirri ástæðu var ekki farið á Nes, heldur farinn hefðbundinn föstudagur.
Menn eru eitthvað farnir að róast því að við Þorvaldur vorum fremstir lengi vel og aðrir gerðu ekki vart við sig fyrr en í Nauthólsvík. Á þessum árstíma er eðlilegt að menn ræði berjatínslu, sultugerð og saftar. Jafnvel íhugaðir möguleikar á að láta afurðirnar gerja og öðlast himneskt inntak. Ragnar beygði af og fór Hlíðarfót, við hinir áfram á Flanir, Hi-Lux og upp Brekkuna góðu. Hiti um eða yfir 20 stig svo að menn svitnuðu vel á leiðinni.
Nokkrir ákváðu að vera rólegir og fara hægt í kvöld, 5.20 tempó: Benni, Frikki, Siggi og Flosi. Hafði eitthvað að gera með að menn hyggja á hlaup um næstu helgi. Af sömu ástæðu beygði Ragnar af í Nauthólsvík, hyggur á sitt fyrsta maraþon í RM, gaman að fylgjast með því. Farið áfram hjá kirkjugarði, um Veðurstofu, söng- og skák, Hlíðar, Hlemm og niður á Sæbraut (Þorvaldur ku hafa svindlað, það sást til hans fara um Laugaveg), drukkið vatn við vatnsból. Dólað rólega tilbaka og farinn miðbær, Latínuskóli, Hljómskálagarður og sú leið.
Massívur pottur að venju á föstudegi, en ekkert sameiginlegt samsæti að kveldi. Það gæti þó orðið næsta laugardag að loknu RM, venju samkvæmt, um það verða fluttar upplýsingar síðar meir. Rætt um bílviðgerðir, en Biggi fór með bíl í viðgerð í morgun og sótti hann í framhaldi af hlaupum. Honum var bent á að það gæti verið hagkvæmara að láta félaga eins og Bjarna Benz kíkja á drusluna. Menn svermuðu fyrir Fyrsta, en leituðu að mögulegum frávikum: er ekki einhver regla sem mælir fyrir um að Föstudaginn 13da eigi félagar að koma saman o.s.frv.? Nei, þetta dugði ekkii. Hver fór til síns heima að hitta fjölskyldu og matreiða.
Framundan: rólegheit.
11.8.2010 | 21:30
Hvað er að gerast?
Rúnar var skeleggur er hann gaf út leiðbeiningar um hlaup. Þeir sem ætluðu í hálfmaraþon í RM áttu að taka Þriggjabrúa með þéttingi á Sæbraut. Aðrir máttu gera það sem hugur þeirra stóð til. Nú skyldi ekki hvarfla að neinum að þar með mættu þeir éta það sem úti frysi, því fer fjarri. Ávallt er hugað að velferð okkar minnstu bræðra og systra, sem hægast fara um stígana á Ægisíðu og í Fossvogi. Fólk virtist taka leiðbeiningum vel og hafa fullan hug á að gera þennan dag að eftirminnilegum hlaupadegi.
Lagt upp afar rólega, nema hvað Benedikt var með hefðbundinn derring og dró einhverjar villuráfandi sálir með sér. Aðrir voru svo rólegir að aðdáun vakti. Mættum fjölda fólks á leiðinni, ýmist gangandi eða hlaupandi, Bjössi þekkti ótrúlega marga. Það var ekkert verið að æsa sig. Fyrr en komið var í Skerjafjörðinn, þá varð maður var við aukinn hraða og hraðari öndun félaga í kringum sig. Biggi taldi sig eiga erindi við fremstu hlaupara og höfðu félagar hans enga ástæðu til að véfengja erindið.
Á þessu gekk, það dró sundur með fólki, og loks var staðan sú að ritari hafði félagsskap af Bjössa, sem er allur að koma til eftir langvarandi meiðsli, og Flosa. Við fórum á skeiði um Nauthólsvík, og þá voru fremstu hlauparar horfnir. Á þessum legg sannaðist skyldleiki Íslendinga við sauðkindina, því að enda þótt lokað væri fyrir stíginn þar sem hann beygir niður, rétt áður en komið er í kirkjugarð, þá skelltum við okkur þá leiðina, treystandi orðum Flosa um það að þetta væri allt ofgert og engin ástæða til að fresta hlaupi. Við urðum varir við graftrarmaskínur sem eru að búa til hjólastíg þar neðra, en við vorum ósnortnir af framkvæmdunum. Héldum áfram út að Kringlumýrarbraut og yfir brúna.
Brekkan hjá Bogga er alltaf erfið og hún tók í. Þarna mætti Rúnar og hvatti okkur áfram. Ragnar kom albrjálaður yfir því að hafa lent á eftir okkur vegna þess að hópurinn sem hann var með fór að þvælast um stíga í kirkjugarðinum, í stað þess að fara niður úr hjá framkvæmdunum. Hann tætir fram úr okkur á Bústaðavegi og er horfinn á tveimur sekúndum. Við kjögum þetta áfram, og gengur furðuvel. Bjössi sýnir viðleitni til þess að skilja mig eftir og það var allt í lagi. Hann svindlar við Framvöll, styttir. Ég fylgi hefðbundinni leið. Ég sé að framundan er Biggi, orðinn framlágur og beygður. Bjössi nær honum.
Ég út á Kringlumýrarbraut og set stefnuna á þá fóstbræður. Biggi fer að líta um öxl og angistarsvipur færist yfir andlitið: "Ritarinn er að ná okkur!" hrópar hann til Bjössa. Þeir ráða ekki við kraftinn og hraðann í þessari borgfirzku maskínu og ég næ þeim nálægt Grand Hótel Reykjavík. Fer fram úr og skil þá eftir. Niður á Sæbraut. Hugsa til þess að þar eigi að taka spretti. Hvernig gengur það?
Þegar á Sæbraut er komið erum við orðnir nokkuð jafnir. Við Bjössi tökum glæsilegan sprett á Sæbrautinni, en ég staldra við vatnið, Bjössi áfram. Svo er haldið áfram og farinn Miðbær. Biggi náði mér við Þjóðminjasafn og við dóluðum þetta tilbaka eftir það. Teygt á Plani í góðra vina hópi, og spjallað saman góða stund. Pottur góður í hálftíma, spurt hvort gleymst hefði að halda upp á einhvern Fyrsta Föstudag. Biggi hélt ádíens og sýndi af sér frumkvöðlaskap sem gæti nýtzt opinberum starfsmönnum þegar þeir glíma við erfiða viðskiptavini.
Að loknum vel heppnuðum hlaupadegi hélt hver til síns heima og hugaði að næringu og velferð sinnar næstu fjölskyldu. Framundan: föstudagur.
9.8.2010 | 21:14
Sprettir í byrjun viku
Plan dagsins: sprettir í Öskjuhlíð. Margrét ein með hópinn og virtist ráða fyllilega við óstýriláta hersinguna. Blómasalinn seinn að vanda, Friedrich Kaufmann - en menn höfðu litlar áhyggjur af þeim. Þeir voru vísir til að ná okkur. Farið af stað í rólegheitum, veður ágætt, skýjað, logn og hiti 15 gráður. Þetta skiptist von bráðar upp í kunnuglegar fylkingar, hraðafantar fremstir, ritari einn einhves staðar á milli, og svo hægfarar á eftir.
Það eru átök fyrir mann nýstiginn upp úr veikindum að brjótast á 5:30 tempói inn í Nauthólsvík, en það hafðist. Þar stóð Magga vaktina og gætti þess að allir færu rétta leið upp Hi-Lux og gerðu sig klára fyrir spretti í Löngubrekku. Svo var sprett úr spori, stefnt á 6-10 spretti, en við blómasalinn og Jörundur létum okkur nægja að taka fjóra, enda erum við feitir, gamlir eða þreyttir. Svo var stefnan sett á Hlíðarfót og Gvuðsmenn. Margt rætt af trúnaði sem ekki fer lengra, enda er blogg Hlaupasamtakanna ekki vettvangur gróusagna. Á næsta ári ætlar Jörundur að halda upp á sjötugsafmælið með því að hlaupa Laugaveginn og fulla porsjón í RM. Við blómasalinn melduðum okkur strax í heiðursvörðinn.
Pottur var einstaklega vel mannaður. Við blómasali fundum fyrir Ó. Þorsteinsson á tali við unga konu, sem ku vera dóttir Sigríðar sem kenndi ritara frönsku í Reykjavíkur Lærða Skóla. Svo var haldið áfram umræðu um þýzka gesti á Íslandi fyrr á tíð, ferðir þeirra, bæi sem þeir heimsóttu, bændur og búalið, ættingja og afkomendur. Áfram umræða um afdrif Þjóðverja sem sendir voru í fangabúðir á stríðsárunum og þaðan til Þýzkalands, þar sem þeir í vissum tilvikum lentu vitlausu megin við járntjaldið og misstu endanlega tengsl við ástvini á Íslandi. Stuttu síðar komu dr. Björn Á. Guðmundsson, dr. Jóhanna, próf. Flúss og Friedrich Kaufmann. Færðist þá gáski í umræðurnar.
Næst er hlaupið á miðvikudag. Verður farið langt?
8.8.2010 | 20:28
Reykjafellshlaup 2010
Þá er komið að hinu árlega Reykjafellshlaupi, sem að þessu sinni verður haldið laugardaginn 11. september.
Mæting við Vesturbæjarlaugina kl. 14.30. Íris hefur boðist til að flytja farangur að Varmárlaug fyrir þá sem óska þess. Hlaupið hefst stundvíslega kl. 14.45.
Hlaupið er um Ægisíðu, Nauthólsvík, Flanir, Fossvogsdal, Elliðarárdal, Grafarvog og sjávarstíg í Mosfellsbæ og að Varmárlauginni.
Vegalengdin er u.þ.b. hálft maraþon, en þeir sem vilja hlaupa styttra geti komið inn við Víkingsheimilið (ca. 13 km), við Elliðarárvoginn (ca. 10 km) eða við höggmyndir á hólnum fyrir ofan Gufunes (ca. 8 km).
Einnig er tilvalið að hjóla alla leiðina eða hluta þess.
Í Varmárlauginni má hvíla lúin bein og fara í sturtu. Frá Varmárlauginni förum við upp í sveitasæluna okkar að Reykjafelli og ættum við að koma þangað upp úr kl. 18.00.Þeir sem ætla hvorki að hlaupa, hjóla né að fara í sund koma beint þangað.
Þar er boðið upp á kraftmikla kjötsúpu, brauð og gos. Um aðra drykki sér hver sjálfur.
Ef veður leyfir ætlum við að kveikja varðeld eftir mat. Einn gítar er á staðnum og gott væri ef fleiri gætu komið með hljóðfæri og söngbækur.
Bestu kveðjur,
Helmut og Jóhanna
Dagskrá | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2010 | 15:11
Hlaupið á Fyrsta Föstudegi
Það var ákveðið að fara í sjóinn og urðu nokkrir til þess að taka glímuna við Atlanzhafið, en ritari hélt óbaðaður áfram vegna veikinda þeirra sem hafa herjað á hann undanfarnar tvær vikur. Fór skemmri leið á Nesi og hafði félagsskap af Þorvaldi á köflum. Það blés hressilega á sunnan á Nesinu. Er komið var tilbaka til Laugar rakst ritari þar á blómasalann sem kom klæddur fram og albúinn að þreyta hlaup. Ég spurði hvort hann kynni ekki á klukku. Hann kvaðst hafa verið að sinna viðskiptavinum og gæti ekki hlaupið frá þeim eins og hver annar ríkisstarfsmaður. Niðurstaðan varð sú að hann fór aumingja til þess að geta alla vega sagst hafa hlaupið.
Öllu fleiri komu í pott en hlupu og bættust nú við Denni af Nesi, Kári og Anna Birna og Benzinn. Pottur þétt setinn og lokuðum við alveg hringnum. Benzinn lenti í stimpingum við útlending sem hefur verið hingað kominnn til að vera á Gay Pride, en Benzinn vildi ekki rýma fyrir honum heldur lá endilangur í potti og meinaði óviðkomandi aðgöngu. Margt skrafað og skeggrætt drjúga stund, en svo hélt ritari á braut að hefja matargerð.
Það var boðið upp á flatböku að hætti hússins og salat með. Er skemmst frá því að segja að gestir luku lofsorði á kokkamennsku ritara og töldu sig sjaldan ef nokkurn tíma hafa bragðað annað eins góðgæti: þunnur, stökkur botn bakaður við 290 gráður! Og "alvörusalat" með eins og einhver orðaði það. Þarna vantaði bæði blómasalann og próf. Fróða og er furðulegur háttur þeirra að velja önnur boð þegar þeim býðst matur og félagsskapur í heimsklassa. Þetta skilur Jörundur sem lét sig ekki vanta.