Hvað er að gerast?

Bjart veður og hlýtt á Plani. Þar hreiðraði um sig ritari. Þangað dreif að fólk úr öllum áttum. Spennan að hefja hlaup að drepa menn. Magnús tannlæknir birtist og lýsti sig aumingja, bað um undanþágu frá hlaupi. Einar blómasali fjarverandi, staddur á Hellnum, þar sem hann hafði fullan hug á að þreyta löng hlaup (trúi því mátulega). Þarna voru Flosi, Kári, Bjössi, Þorvaldur, Rúnar (á hjóli), Rakel, Albert, Ragnar, Benedikt, Dagný, Rene hinn grannvaxni, Biggi, Gerður, Jóhanna, dóttir Sigríðar frönskukennara, Frikki Kaufmann seinn, Kalli - og....? Hverjir voru ekki? Ekki Ágúst, ekki Benzinn, ekki S. Ingvarsson, ekki Vilhjálmur, ekki dr. Jóhanna eða Helmut, ekki Magga. Albert mættur í bleikum sokkum og mótmæltu menn hástöfum, töldu slíkt ekki henta í Samtökum með það renommé sem Hlaupasamtök Lýðveldisins. En hann var forhertur og lét ekki segjast.

Rúnar var skeleggur er hann gaf út leiðbeiningar um hlaup. Þeir sem ætluðu í hálfmaraþon í RM áttu að taka Þriggjabrúa með þéttingi á Sæbraut. Aðrir máttu gera það sem hugur þeirra stóð til. Nú skyldi ekki hvarfla að neinum að þar með mættu þeir éta það sem úti frysi, því fer fjarri. Ávallt er hugað að velferð okkar minnstu bræðra og systra, sem hægast fara um stígana á Ægisíðu og í Fossvogi. Fólk virtist taka leiðbeiningum vel og hafa fullan hug á að gera þennan dag að eftirminnilegum hlaupadegi.

Lagt upp afar rólega, nema hvað Benedikt var með hefðbundinn derring og dró einhverjar villuráfandi sálir með sér. Aðrir voru svo rólegir að aðdáun vakti.  Mættum fjölda fólks á leiðinni, ýmist gangandi eða hlaupandi, Bjössi þekkti ótrúlega marga. Það var ekkert verið að æsa sig. Fyrr en komið var í Skerjafjörðinn, þá varð maður var við aukinn hraða og hraðari öndun félaga í kringum sig. Biggi taldi sig eiga erindi við fremstu hlaupara og höfðu félagar hans enga ástæðu til að véfengja erindið.

Á þessu gekk, það dró sundur með fólki, og loks var staðan sú að ritari hafði félagsskap af Bjössa, sem er allur að koma til eftir langvarandi meiðsli, og Flosa. Við fórum á skeiði um Nauthólsvík, og þá voru fremstu hlauparar horfnir. Á þessum legg sannaðist skyldleiki Íslendinga við sauðkindina, því að enda þótt lokað væri fyrir stíginn þar sem hann beygir niður, rétt áður en komið er í kirkjugarð, þá skelltum við okkur þá leiðina, treystandi orðum Flosa um það að þetta væri allt ofgert og engin ástæða til að fresta hlaupi. Við urðum varir við graftrarmaskínur sem eru að búa til hjólastíg þar neðra, en við vorum ósnortnir af framkvæmdunum. Héldum áfram út að Kringlumýrarbraut og yfir brúna.

Brekkan hjá Bogga er alltaf erfið og hún tók í. Þarna mætti Rúnar og hvatti okkur áfram. Ragnar kom albrjálaður yfir því að hafa lent á eftir okkur vegna þess að hópurinn sem hann var með fór að þvælast um stíga í kirkjugarðinum, í stað þess að fara niður úr hjá framkvæmdunum. Hann tætir fram úr okkur á Bústaðavegi og er horfinn á tveimur sekúndum. Við kjögum þetta áfram, og gengur furðuvel. Bjössi sýnir viðleitni til þess að skilja mig eftir og það var allt í  lagi. Hann svindlar við Framvöll, styttir. Ég fylgi hefðbundinni leið. Ég sé að framundan er Biggi, orðinn framlágur og beygður. Bjössi nær honum.

Ég út á Kringlumýrarbraut og set stefnuna á þá fóstbræður. Biggi fer að líta um öxl og angistarsvipur færist yfir andlitið: "Ritarinn er að ná okkur!" hrópar hann til Bjössa. Þeir ráða ekki við kraftinn og hraðann í þessari borgfirzku maskínu og ég næ þeim nálægt Grand Hótel Reykjavík. Fer fram úr og skil þá eftir. Niður á Sæbraut. Hugsa til þess að þar eigi að taka spretti. Hvernig gengur það?

Þegar á Sæbraut er komið erum við orðnir nokkuð jafnir. Við Bjössi tökum glæsilegan sprett á Sæbrautinni, en ég staldra við vatnið, Bjössi áfram. Svo er haldið áfram og farinn Miðbær. Biggi náði mér við Þjóðminjasafn og við dóluðum þetta tilbaka eftir það. Teygt á Plani í góðra vina hópi, og spjallað saman góða stund. Pottur góður í hálftíma, spurt hvort gleymst hefði að halda upp á einhvern Fyrsta Föstudag. Biggi hélt ádíens og sýndi af sér frumkvöðlaskap sem gæti nýtzt opinberum starfsmönnum þegar þeir glíma við erfiða viðskiptavini.

Að loknum vel heppnuðum hlaupadegi hélt hver til síns heima og hugaði að næringu og velferð sinnar næstu fjölskyldu. Framundan: föstudagur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband