Hlaupasamtök Lýðveldisins - þar sem hefðin ræður ríkjum

Benni hitti blómasalann í dag, nýkominn af Hellnum. Blómasalinn átti erindi við Benna, hann var fullur alvöru, hann var maður með hlutverk og tilgang. Hann brýndi fyrir Benna að mæta til hlaups í dag. Fjarvera jafngilti svikum. Í hlaupi dagsins var blómasalinn fjarverandi, en Benni nærverandi. Biggi hafði sömu sögu að segja, hafði heyrt í blómasalanum sem hvatti til hlaupa á þessum mikilvæga degi. Ég held ég muni aldrei öðlast skilning á þessum manni!

Nema hvað, fjöldi hlaupara mættur á föstudegi. Sigurður Ingvarsson mættur eftir fjarverur á fjöllum, dr. Karl, Flosi, Kári, Þorvaldur, fyrrnefndir Biggi og Benni, Ragnar, Guðrún (áður nefnd dóttir Sigríðar frönskukennara í Reykjavíkur Lærða Skóla), Frikki. Ekki man ég hvort fleiri voru mættir, alla vega vantaði dr. Jóhönnu og Helmut, af þeirri ástæðu var ekki farið á Nes, heldur farinn hefðbundinn föstudagur.

Menn eru eitthvað farnir að róast því að við Þorvaldur vorum fremstir lengi vel og aðrir gerðu ekki vart við sig fyrr en í Nauthólsvík. Á þessum árstíma er eðlilegt að menn ræði berjatínslu, sultugerð og saftar. Jafnvel íhugaðir möguleikar á að láta afurðirnar gerja og öðlast himneskt inntak. Ragnar beygði af og fór Hlíðarfót, við hinir áfram á Flanir, Hi-Lux og upp Brekkuna góðu. Hiti um eða yfir 20 stig svo að menn svitnuðu vel á leiðinni.

Nokkrir ákváðu að vera rólegir og fara hægt í kvöld, 5.20 tempó: Benni, Frikki, Siggi og Flosi. Hafði eitthvað að gera með að menn hyggja á hlaup um næstu helgi. Af sömu ástæðu beygði Ragnar af í Nauthólsvík, hyggur á sitt fyrsta maraþon í RM, gaman að fylgjast með því. Farið áfram hjá kirkjugarði, um Veðurstofu, söng- og skák, Hlíðar, Hlemm og niður á Sæbraut (Þorvaldur ku hafa svindlað, það sást til hans fara um Laugaveg), drukkið vatn við vatnsból. Dólað rólega tilbaka og farinn miðbær, Latínuskóli, Hljómskálagarður og sú leið.

Massívur pottur að venju á föstudegi, en ekkert sameiginlegt samsæti að kveldi. Það gæti þó orðið næsta laugardag að loknu RM, venju samkvæmt, um það verða fluttar upplýsingar síðar meir. Rætt um bílviðgerðir, en Biggi fór með bíl í viðgerð í morgun og sótti hann í framhaldi af hlaupum. Honum var bent á að það gæti verið hagkvæmara að láta félaga eins og Bjarna Benz kíkja á drusluna. Menn svermuðu fyrir Fyrsta, en leituðu að mögulegum frávikum: er ekki einhver regla sem mælir fyrir um að Föstudaginn 13da eigi félagar að koma saman o.s.frv.? Nei, þetta dugði ekkii. Hver fór til síns heima að hitta fjölskyldu og matreiða.

Framundan: rólegheit.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband