Hlaupið á Fyrsta Föstudegi

Álitlegur hópur hlaupara mættur til hlaups föstudaginn 6. ágúst: Ágúst, Flosi, dr. Jóhanna, Þorvaldur, Ólafur ritari, Benedikt og Biggi. Fremur hlýtt í veðri en rigningarlegt. Ákveðið að fara á Nes og fór hersingin hefðbundna leið undir forystu próf. Fróða. Fremur var farið hratt að mati undirritaðs, en það var allt í lagi, maður réð við hraðann. Á leiðinni upplýsti ritari að hann myndi bjóða til Fyrsta Föstudags að heimili sínu þá um kvöldið.

Það var ákveðið að fara í sjóinn og urðu nokkrir til þess að taka glímuna við Atlanzhafið, en ritari hélt óbaðaður áfram vegna veikinda þeirra sem hafa herjað á hann undanfarnar tvær vikur. Fór skemmri leið á Nesi og hafði félagsskap af Þorvaldi á köflum. Það blés hressilega á sunnan á Nesinu. Er komið var tilbaka til Laugar rakst ritari þar á blómasalann sem kom klæddur fram og albúinn að þreyta hlaup. Ég spurði hvort hann kynni ekki á klukku. Hann kvaðst hafa verið að sinna viðskiptavinum og gæti ekki hlaupið frá þeim eins og hver annar ríkisstarfsmaður. Niðurstaðan varð sú að hann fór aumingja til þess að geta alla vega sagst hafa hlaupið.

Öllu fleiri komu í pott en hlupu og bættust nú við Denni af Nesi, Kári og Anna Birna og Benzinn. Pottur þétt setinn og lokuðum við alveg hringnum. Benzinn lenti í stimpingum við útlending sem hefur verið hingað kominnn til að vera á Gay Pride, en Benzinn vildi ekki rýma fyrir honum heldur lá endilangur í potti og meinaði óviðkomandi aðgöngu. Margt skrafað og skeggrætt drjúga stund, en svo hélt ritari á braut að hefja matargerð.

Það var boðið upp á flatböku að hætti hússins og salat með. Er skemmst frá því að segja að gestir luku lofsorði á kokkamennsku ritara og töldu sig sjaldan ef nokkurn tíma hafa bragðað annað eins góðgæti: þunnur, stökkur botn bakaður við 290 gráður! Og "alvörusalat" með eins og einhver orðaði það. Þarna vantaði bæði blómasalann og próf. Fróða og er furðulegur háttur þeirra að velja önnur boð þegar þeim býðst matur og félagsskapur í heimsklassa. Þetta skilur Jörundur sem lét sig ekki vanta.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband