Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Titill þessarar frásagnar var ritskoðaður í miðju hlaupi

Við erum misjafnlega viðkvæm fyrir því sem fer í blogg Samtaka Vorra. Ritari er ekki viðkvæmur fyrir því að láta sem mest flakka. Hins vegar hafa menn bannað mér að setja sumt í pistla. Jafnvel hringt í mig og beðið mig um að þurrka út úr frásögnum atriði sem þeim hafa þótt meiðandi. Hef ég orðið við því undanbragðalaust í öllum tilvikum.

Slíkur fjöldi mættur til hlaups að fljótlegra er að telja upp þá sem voru fjarverandi: Jörundur, Benedikt, Eiríkur, Dagný, Þorbjörg M., dr. Jóhanna - nei, heyrðu þetta getur haldið áfram í það endalausa. En mæting dagsins (22 hlaupandi, einn á hjóli) sýndi fram á að hér fer öflugur hlaupahópur og góður félagsskapur. Veður var líka með slíkum eindæmum að það hefði verið syndsamlegt að sleppa hlaupi: 8 stiga hiti, logn, haustblíða. Magga vildi breyta til. Kvíða- og angistarstunur liðu yfir Plan. Þegar til átti að taka var þetta sosum engin nýjung, dól út að skítastöð, og þéttingur út að Suðurhlíð, upp hjá Perlu, niður stokk, Flugvallarveg tilbaka í Nauthólsvík og svo tilbaka.

Við Ágúst horfðum hvor á annan og púkar hoppuðu á öxlunum á okkur og öskruðu: strákar! ekki gera eins og Magga segir ykkur! Ekki þurfti að endurtaka þetta oft, við ákváðum að á slíkum degi væri óhjákvæmilegt að lengja. Ég vildi draga blómasalann með mér, hann eygir enn von um haustmaraþon. Svo lagði ég að Magga að renna skeiðið inn að Elliðaám. Hann var fullur efasemda, en ætlaði að sjá til.

Gríðarleg stemmning á Ægisíðu, mikill hugur í fólki, mikið grín, mikið gaman. Ég bauðst til þess að rifja upp gamla brandara, en það var afþakkað. Ágúst upplýsti að hann ætlaði í Sveifluhálshlaup á laugardag, en það mun vera um 42 km. Ekki hafði hann orð á að öðrum væri boðið, en þó er ekki ósennilegt að fólk geti komið inn í hlaupið á völdum stöðum. Þarna munu einnig hlaupa Melkorka með maka í undirbúningi fyrir New York maraþon.

Bjarni varð óður þegar hjólreiðamaður kom á hlaupastígnum í Skerjafirði, við óttuðumst að hann myndi ráðast að manninum og reyndum að róa hann. Í Nauthólsvík var fjöldi fólks á baðströndinni og í sjónum, enda hásjávað. Áfram á Flanir og hér vorum við Maggi orðnir einir, en Einar kom í humáttina á eftir okkur. Við yfir brú og áfram í Fossvoginn, prófessorinn á undan okkur. Hann tók Kópavogslykkju og náði okkur, við fylgdumst að um sinn og mættum fjölda glæsilegra kvenna sem heilsuðu okkur.

Ágúst fór upp í Kópavoginn, en við fórum hjá Víkingsvelli og út í hólma í Elliðaám. Aftur undir Breiðholtsbrú og settum stefnuna á Stokk. Hér ákváðum við að hægja ferðina og ganga upp Stokk. Það var allt í lagi, við sögðum hvor öðrum ævisögur okkar, einkum þá hluta er við vorum Íslendingar í útlöndum að störfum á ólíkum vettvangi. Mikill fróðleikur, mikill lærdómur. Er komið var að Réttarholtsskóla dúkkaði blómasalinn upp að baki okkur og hafði tekið sprett. Eftir þetta héldum við hópinn og ræddum málin í þaula. Á einhverjum tímapunkti datt heiti pistils niður í kollinn á ritara, en hann var óðara stoppaður með titilinn þar sem hann þætti of djarfur.

Ósköp fannst manni þetta létt og löðurmannlegt verk, farið rólega yfir og reynt að njóta hlaupsins til hins ítrasta. Áður en maður vissi af var þessu lokið. Við Hagatorg ákvað Maggi að fara inn á Hótel Sögu og sækja einhvern til þess að vekja athygli á járni sem stendur upp úr jörðinni fyrir utan hótel og vegfarendum stafar hætta af. Við Einar áfram til Laugar og teygðum vel á Plani. Þar spannst umræða um breiðband og hvernig væri rétt að snúa sér í þeim málum og koma með krók á móti þessu skítabragði Símans. Allmargir farnir er komið var í pott, þó voru þar Flosi, Bjössi, Bjarni og Guðrún dóttir hans.  Síðastur til Laugar kom Ágúst og hafði farið 24,5 km.

Næst hlaupið föstudag, 16:30.


Sprett úr spori - Gísli mætir á ný til hlaups

Hver var ekki mættur til hlaups á mánudegi nema sjálfur Gísli rektor! Maður varð nú að hrista skítspaðann á honum þar eð svo langt var um liðið síðan hann sýndi sig síðast í vaskra sveina og meyja hópi. Hann var alhress og lýsti yfir staðföstum ásetningi sínum að hefja af nýju æfingar af fullum krafti eftir nokkra lægð.

Aðrir mættir: dr. Friðrik, dr. Jóhanna, dr. Karl Gústaf, dr. dentis Magnus Julius, prof. dr. Augustus Kvaran, Gerður, Jóhanna, Magga, Þorbjörg M., Einar blómasali, Bjössi, Kári, Benzinn, Rakel, Flóki, Ósk, Frikki á Horninu og Ólafur ritari. Hvílíkur hópur!

Staldrað við á Plani í fögru haustveðri, heiðríkja, 14 stiga hiti, hægur andvari. Gerist ekki betra! Magga lagði línur: rólega út að Dælu og sprettir þaðan. Við af stað og fórum á 5 mín. tempói upp á Víðimel, út á Suðurgötu og suður í Fjörð. Stoppuðum við Dælu. Boðið upp á 1 km og 500 m spretti vestur úr. Aðrir héldu áfram og fóru ýmist Hlíðarfót eða eitthvað lengra.

Það var sprett úr spori og farið hratt yfir, hröðustu hlauparar fóru 1 km - en við Rakel fórum 500 m og eftir einn sprett sameinaðist Bjössi okkur. En okkur brá mjög er við vorum að ljúka við fyrsta sprett, sáum blómasalann og Gísla rektor koma á hægu dóli á móti okkur. Þeir snöru við og sameinuðust kílómetrahlaupurunum og við héldum að nú ætti að taka sprett líka. En við sáum þá ekki meira og þeir hafa því snúið við eftir heldur snautlegt hlaup.

við tókum eina sex svona spretti á meðan þau hin skeiðuðu á fullu fram og aftur stígana. Fórum svo á hægu tölti tilbaka. Það var farið að kólna. Fundum ýmsa hlaupara á Plani og í Móttökusal. Teygt og spjallað. Glatt var á hjalla í potti og setið lengi. Seinast skiluðu sér Frikki og Gústi og höfðu farið tæpa 18 km á undir 5 mín. tempói.


Dómaramistök?

Í hlaupi dagsins voru mættir nokkrir af helztu hlaupurum Hlaupasamtakanna, alla vega þeir sem láta sig málefni samfélags og framfara nokkru varða. Þetta voru þeir Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Einar blómasali, Rene, Jörundur og Ólafur ritari. Skýringin var nærtæk, stutt var síðan öðlingur Samtakanna, V. Bjarnason, var í harðri keppni við Hvergerðinga og auk þess efni í skemmtiþætti byskupssonar á laugardagskveldinu. Um nóg var að tala í hlaupinu. Veður gott, hlýtt, stillt, allbjart.

Það var vaskur hópur hlaupara sem lagði upp frá Laug á hægu tölti. Jörundur var í miklum ham og taldi að dómari í spurningaþættinum Hrepparnir keppa hefði gert mistök þegar hann dæmdi svar Hvergerðinga við spurningu um fjölda sveitarfélaga á landinu rangt. Hafði hann um þetta nokkur vel valin orð og þóttu minna á fyrri fullyrðingar hans um þessa þætti. Hins vegar vorum við nokkrir sem rifjuðum upp skemmtiatriði Ara Eldjárns í Hugvekjuþætti byskupssonar á laugardagskveldi þar sem Ari lék V. Bjarnason leika flugvél, en þótti ekki sannfærandi, minnti ýmist á krossfestinguna eða snúrustaur. Okkur var ekki skemmt.

Við komum í Nauthólsvík og það reyndi á hvar Magnús myndi létta á sér. Hann fann einhverja skúrhlið til að skvetta á. Á meðan sagði Ó. Þorsteinsson okkur fallega sögu af nýjasta ástarsambandinu, sem hljómaði heldur ósennilegt, en var fallegt engu að síður. Áfram í Kirkjugarð, en þar sneri Rene við til þess að gæta bús og barna. En við áfram og héldum upp hjá Veðurstofu og hefðbundna leið tilbaka.

Mikið rætt um breiðband og framtíð sjónvarpsáhorfs hér á landi, þar sem ætlunin er að loka fyrir útsendingar nema fólk reiði fram stórar fúlgur fjár aukalega, fyrir utan nefskattinn. Mjög margir virðast vera uppteknir af því þessar vikurnar að að finna heppilegt svar við þessu útspili Símans. M.a. sást til Kára prílandi uppi á þaki að brasa við að koma upp loftneti. Alla vega eru þetta ekki þær fréttir sem fólk vill fá á tímum eins og þeim sem við lifum á nú.

Tíðindalítið á heimleið, farin Mýrargata og Ægisgata. Í potti voru auk okkar hlaupara Baldur Símonarson og þau hjón Helga og Stefán. Einkennilegur díalóg sem gengur í allar áttir og erfitt að fylgjast með.

Næsta hlaup á morgun, mánudag, kl. 17:30.


"Nei, takk!"

Stundum hefur ritara orðið á að segja "hvílíkur hópur!" - enn var ástæða til þess að viðhafa slík ummæli er horft var yfir hóp dagsins í fyrsta hlaupi Hlaupasamtakanna í októbermánuði. Hvílíkt mannval! Próf. Fróði, Flosi, Jörundur, dr. Jóhanna, Einar blómasali, Biggi, Bjössi, Bjarni, Guðrún Bjarnadóttir,Brynja af Nesi, Rúna af Nesi, Kári, Helmut og ritari. Enginn verulegur dónaskapur hafður í frammi á Plani og því lagt í hann. Stefnan sett á Nes.

Fljótlega upphófst tal um sjóbað og því lögð áherzla á að vinna upp góðan svita. Við vorum þarna í fylkingarbrjósti helztu drengirnir, ég og prófessorinn. Svo fóru menn eitthvað að derra sig, Bjössi, Helmut, Flosi og Bjarni. Aðrir langt að baki. Við fórum þetta á fimm mínútna tempói og ekkert slegið af, þrátt fyrir að það væri föstudagur.

Komið á baðstað og við skelltum okkur í svala ölduna, Fróði, Flosi, Helmut og ritari. Þótti okkur verða dráttur á að aðrir blönduðu sér í baðið. Sjórinn farinn að kólna eilítið og við vorum ekki lengi oní. Farnir að tínast upp úr þegar þau hin komu. Við biðum spenntir eftir stelpunum, en þær létu ekki sjá sig. Loks heyrðum við Jörund segja: "Já, en stelpur, viljið þið ekki koma og horfa á þá?" Ekki varð töf á svari. "Nei, takk!"

Við hysjuðum upp um okkur heldur skömmustulegir og héldum för áfram. Fórum um golfvöll til þess að lengja eilítið, en fórum þó tiltöluega rólega, Veður var fagurt, stillt, bjart og hiti nálægt 12 gráðum. Það er yndislegt að hlaupa á Nesi á svona dögum, þegar vindur blæs ekki, hvað þá úr öllum áttum eins og stundum gerist.

Ég fór lokaspölinn með Helmut og við vorum bara rólegir. Fórum hefðbundna föstudagsleið um Lambastaðahverfið og þá leið tilbaka. Komið á Plan og þar fór fram jógaæfing með Bigga. Einar blómasali stóð og hélt sér við staur og barmaði sér mikið, kvaðst vera lasinn. Farið í pott. Pottur þéttur, röðin óslitin allan hringinn. Enn varð manni hugsað: hvílíkur hópur! Menn yljuðu sér við tilhugsunina um það að okkar maður mundi keppa í hreppskeppninni í kvöld og að líkindum standa sig vel.

Fyrsti föstudagur haldinn með hefðbundnu sniði á Rauða Ljóninu. Þangað mætti fjöldi hlaupara og ýmis neyzluvara pöntuð.Að líkindum verður hlaup á morgun kl. 9:30.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband