Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Fyrsti Föstudagur haldinn hátíðlegur

Þetta var einn af þessum eftirminnilegum hlaupadögum. Svo var mál með vexti að Hlaupasamtök Lýðveldisins stóðu fyrir hefðbundnu föstudagshlaupi í dag og var til þess boðað með eðlilegum fyrirvara. Enda var komið að enn einum Fyrsta Föstudegi. Svo vildi þó til að frekar illa var mætt í hlaupið, eingöngu voru Flosi, Kári, Denni, Biggi, Bjössi, Benzinn, blómasalinn, Rúna, ritari - og líklega ekki fleiri. Þarna vantaði margt mætra sveina og meyja. Vakti það furðu viðstaddra.

Engar umtalsverðar móðganir flugu manna á milli, eindrægni ríkti og var ekki staldrað lengi við á Plani, en þó höfðu menn tíma til þess að gaumgæfa nýjan bækling um detox við Mývatn sem liggur frammi í Laug Vorri þessi misserin. Hlauparar þurfa ekki detox, þeir hlaupa.

Á föstudögum er hlaupið hefðbundið. Þá er farið rólega. Farið rólega af stað. Menn voru ólmir og voru kátir að hafa endurheimt Bigga. Biggi var sprækur framan af, en fljótlega eftir það eins og sprungin blaðra. Benzinn að mæta eftir langa fjarveru og var furðu ern. Það var afar hált á Ægisíðu og mátti fara varlega. Þetta skánaði er komið var í Skerjafjörðinn, þá var aftur hægt að fara að taka á því. Þetta tækifæri létum við helztu drengirnir ekki framhjá okkur fara, keyrðum á 5:18 mín. tempói út í Nauthólsvík. Þetta vorum við Flosi, Bjössi, Benzinn og einhver með okkur, sem ég man ekki alveg hver var.

Nema hvað, í Nauthólsvík gerðust hlutirnir. Við áfram upp Hi-Lux, en það fréttist af Bigga og Kára þar sem þeir tóku strikið út að HR þar sem fram fór skoðun á aðstæðum. Aðrir áfram hefðbundið. Það fór svo að við Bjarni höfðum félagsskap hvor af öðrum það sem eftir lifði hlaups. Til að byrja með ræddum við detox-fræði og sýndist hvorum sitt í þeim efnum. Fljótlega var farið að ræða pólitíkina og þegar komið var niður að Sæbraut var Bjarni farinn að hækka raustina svo hressilega að ég hafði áhyggjur af því að vegfarendur hringdu í lögreglu til þess að afstýra vandræðum. Hér var sleginn sá tónn að það bæri að manna víkingaskip og stilla forseta vorum uppi í stafni með bryntröll í hendi svo að fjandvinum okkar féllust hendur, titrandi af hræðslu andspænis þessum andlega jöfri, og bæðu um að fá að semja um hagstæðar endurgreiðslur skulda Íslendinga á Icesave-skuldum.

Bjarni var sprækur í hlaupi dagsins og ekki ónýtt að hlaupa með svona kappa, hélt manni við efnið og hraðanum uppi. Aldrei slegið af. Komið á Móttökuplan þar sem fyrir voru á fleti Flosi og Bjössi og svo einhver sem ég man ekki nafnið á. Teygt og talað. Þarna mætti Benedikt óhlaupinn að þessu sinni, en kvaðst hafa hlaupið um morguninn og að Magga þjálfari væri til frásagnar um það.

Pottur ljúfur sem ævinlega og fylltist maður auðmýkt og þakklæti fyrir að vera þeirrar gæfu aðnjótandi að þekkja slíkt úrval fólks sem þarna safnaðist saman til samtals eftir hlaup. Þó var enn betra að mæta til Fyrsta Föstudags á Dauða Ljóninu eftir hlaup - þar komu saman höfðingjar og áttu saman góða stund með bernaise-borgara og bjórkollu. Góð stund sem ástæða er til að þakka fyrir, jafnframt því að hvatt er til þess að fólk mæti af nýju til hlaups í fyrramálið frá Laug kl. 9:30. Langt.

PS - nýtt nafn á Skítastöð er Drulludæla. Það bara bessnar! See you - don´t wanna be you!

Hangikjöt og flugeldar teknir framyfir hlaup

Sumir hlaupa af ástríðu og metnaði. Aðrir hlaupa vegna vondrar samvizku. Í síðari hópinn fellur ónefndur blómasali sem þó stefnir á þátttöku í Parísarmaraþoni í apríl. Í kvöld, þegar hlaupið skyldi langt, lét hann undir höfuð leggjast að mæta til hlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, en kaus þess í stað að þiggja boð Kanttsprynufélags Vesturbæjarins um að sitja hangiketsveizlu og njóta að því búnu flugeldasýningar í boði félagsins. Kosturinn við boðið var að það mátti taka alla fjölskylduna með sér - svoleiðis boð standast sumir ekki. Blómasalinn beit þó hausinn af skömminni þegar hann mætti til Laugar á hlaupatíma til þess eins að skola af sér í útisturtu og geifla sig framan í viðstadda. Furðu vakti að hann tilkynnti þjálfurum um áform sín og fékk, að því er virtist, bara jákvæð skilaboð tilbaka. Hér eiga auðvitað þjálfarar að setja hlauparanum stólinn fyrir dyrnar og krefjast þess að hann forgangsraði rétt.

Furðu fáir mættir í hlaupi kvöldsins, mátti þar helzt bera kennzl á Magnús, dr. Friðrik, Ágúst, Flosa, Bjössa, Rúnar, Möggu, Þorbjörgu Karls., Ósk - og svo mætti ritari. Ekki man ég hvort fleiri voru mættir. Ekki man ég heldur hvort einhverjar leiðbeiningar gengu út til hlaupara, og áður en maður áttaði sig á var hersingin komin á hreyfingu. Ég lenti með fremstu mönnum þegar í byrjun og það var farið á 5 mín. tempói inn í Nauthólsvík. Þegar Ágúst var spurður út í hraðann, spurði hann á móti: "Átti ekki að fara bara rólega inn að Skítastöð?" Þennan hraða halda feitlagnir býrókratar ekki lengi út og því slakaði ég á í Nauthólsvík, enda var meiningin að fara 69 og til þess þurfti maður að fara sparlega með kraftana. Þeir hinir drógu ekki af sér og héldu áfram á fullu stími og voru fljótlega horfnir. Magga tætti fram úr þeim og hvarf út í myrkrið á ógurlegum hraða.

Líklega hafa flestir farið Þriggjabrúa, einhverjir eitthvað styttra, en við Ágúst og Bjössi fórum 69. Í Fossvoginum mætti ég líklega tveimur hlaupahópum, Laugaskokki og ÍR-hópnum, virtist þarna vera um 40-50 manns að hlaupa. Þar var líka boðið upp á eina herlega flugeldasýningu sem entist allan dalinn með ógurlegri litadýrð og hávaða svo glumdi í Kópavoginum hinum megin.

Veður var aldeilis dýrðlegt og færið ágætt, en þó fór að frysta á seinni hluta hlaups og þurfti maður að fara varlega af þeim sökum. Farið undir Breiðholtsbraut, út í hólmann og tilbaka aftur og yfir á Miklubraut. Var of mikið klæddur og svitnaði mikið og varð æ þyngri þar sem bleytan sat sem fastast í fötunum. Þannig að þetta var orðið erfitt þegar komið var á Sæbraut og inn að Útvarpshúsi (gömlu gufunni). Ákvað að fara gömlu leiðina hans Villa um Ægisgötu, þessum ágæta félaga til heiðurs. Skal viðurkennt að ég rölti upp á horn hjá Landakoti. Hlaupið rólega tilbaka.

Aðeins voru þeir við Laug sem lengst höfðu farið og teygðu innandyra. Legið í potti um stund þar sem Sif Jónsdóttir langhlaupari var mætt. Rætt um félaga sem ekki hafa sézt lengi, svo sem Bigga, og vöngum velt um ástæður þess að hann lætur ekki sjá sig. Kunni enginn skýringar á því. Svo einkennilega vildi til að enginn hafði orð á því að Fyrsti Föstudagur er n.k. föstudag, enda menn uppteknir af því að ræða hlaup, meiðsli og matargerð. Góður dagur og gott hlaup að baki, ekki orði andað um þið vitið hvaða málefni. Mikið var ég feginn!

Í dag var kalt að hlaupa

Í Brottfararsal var enn rætt um  Gamlárshlaup ÍR og spurt hvers vegna ritari hefði ekki mætt. Sumir gengu þó lengra og létu glósur fjúka sem jafna má til eineltis. Rætt um sólskinshlaupara. Ritari hafði sínar skýringar á fjarvistum. Einari varð tíðrætt um eigin dugnað og nefndi laugardagshlaup þar sem hann hefði farið yfir 20 km. Sirrý lækkaði í honum rostann með því að upplýsa að hann hefði hlaupið svo hægt að hún hefði neyðst til að skilja hann eftir. Meðal hlaupara í dag voru dr. Friðrik, S. Ingvarsson, próf. Fróði, Flosi, Þorvaldur, þjálfarar, Bjössi, Þorbjörg M., Dagný, Melabúðar-Friðrik, Eiríkur, o.fl. Það var fremur kalt í veðri og stefnt á spretti frá Skítastöð, farin lengri leiðin úteftir.

Ekki voru allir spenntir fyrir sprettum og nokkrir snæúlfar tóku sig út úr hjörðinni og héldu ferð áfram upp á eigin spýtur meðan Parísarfarar bjuggu sig undir spretti. Fyrir framan ritara voru þrír hraðfarar og skilst mér að fyrir framan þá hafi farið Flosi einn á hröðu stími. Ætlunin var að fara Þriggjabrúahlaup. Framan af var farið fremur hratt yfir, en svo hægðist á. Það var ansi kalt að hlaupa í kvöld, líklega vegna raka og vinds. Við mættum nokkuð mörgum hlaupurum sem tóku spretti eins og okkar hópur.

Ritari fór yfir hjá Borgarspítala, Útvarpshúsi og hefðbundið yfir Miklubraut og yfir á Kringlumýrarbraut, þaðan niður á Sæbraut. Tilbaka til Laugar. Klukkan var um sjö og flestir sem tóku sprettina voru horfnir eins og jörðin hefði gleypt þá, nema blómasalinn, sem hefur líklega verið eitthvað seinni í förum en hinir. Ekki fer milli mála að sveitastjórnarkosningar eru á næsta leiti, upprennandi stjórnmálamenn eru á þönum út um allt með gleið bros á vörum og hrista alla þá skítaspaða sem í boði eru. Skulu engir nefndir hér. Næst verður farið langt.                     

Fyrsta hlaup ársins 2010

Það var við hæfi að ritari hlypi fyrsta hlaup ársins 2010 einn. Þannig var að ritari sveikst um að hlaupa að morgni sunnudags 3. janúar þegar fram fór hefðbundið hlaup í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Í staðinn mætti hann til morgunsunds. Af reyfum sem þá héngu uppi í Útiklefa mátti ráða að mættir voru Ól. Þorsteinsson, Þorvaldur og Einar blómasali (sem af starfsfólki sundlaugarinnar er kallaður "sprettur" því hann er alltaf á fullu þegar hlaup er að hefjast). Um þetta fengust upplýsingar hjá Steinunni við komu ritara til Laugar síðar sama dag. Hún hafði aldrei heyrt viðurnefnið "blómasali". Hvað um það, ritari mættur að nýju kl. 17 og gerði sig kláran. Farnir um 10 km um Ægisíðu, Nauthólsvík og Suðurhlíð, upp að Perlu og niður hjá Gvuðsmönnum og tilbaka þá leið til Laugar. Veður hið ákjósanlegasta, stillt og svalt og ekki laust við löngun til sjóbaða. Teygt á Plani, rætt við Þorbjörgu K. Ágæt upphitun fyrir átök vikunnar.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband