Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Þjálfari herðir tökin

Það blés ekki byrlega til hlaupa í dag, mánudag, hvöss sunnanátt, rigning og almennt niðurdrepandi veður utandyra. Mann langaði einna helzt til að halda sig innandyra, draga fiður yfir haus og gleyma hlaupum. En þannig hugsa náttúrlega ekki alvöru hlauparar. Menn draga saman gírið í tösku og halda til Laugar. Ég var með nýja tösku í dag, sú gamla var búin að gera sitt gagn, heimilisfólkið var farið að kvarta yfir henni, dugði ekki einu sinni að hafa hana úti á svölum, alls staðar olli hún angri. Svo að hún lenti í öskutunnunni í gær og ég fékk gömlu sundtösku sonarins. Hann hefur forframast svo í sundíþróttinni að hann ber sundtösku merkta Lýðveldinu dags daglega. Nema hvað, til hlaupa mættir margir af máttarstólpum Hlaupasamtakanna: Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Ágúst, dr. Friðrik, Guðmundur, Magnús, Þorvaldur, Björn, Helmut, Una, Haukur, óþekkt kona, Ólafur ritari, og Margrét þjálfari. Í Brottfararsal gerði fnykur vart við sig og ljóst að einhver hafði ekki þvegið gallann sinn nokkrar undangengnar vikur. Af vináttu og virðingu fyrir hlaupurum, ástvinum þeirra og fjölskyldum, verður ekki farið nánar út í þessa sálma né nöfn nefnd - en brýnt sem fyrr fyrir hlutaðeigandi að sýna félögum sínum þá nærgætni og tillitssemi að mæta til hlaupa í hreinum hlaupafatnaði. Una hafði lagt frá sér Garmin-tækið sitt úti á tröppum svo að það næði tungli meðan hún blandaði geði við hlaupara inni. Er út var komið aftur var búið að stela tækinu hennar og er ótrúlegt til þess að hugsa að ekki megi líta af svona grip í fáeinar mínútur en búið er að nema það á brott. Hvers konar fólk gerir svonalagað eiginlega?

Það mátti skilja á þjálfaranum að nú væri hveitibrauðsdögunum lokið og nú tæki alvaran við. Birni og Helmut var svo brugðið við þessar fréttir að þeir lögðu af stað án þess að hlýða á fyrirmæli dagsins og fóru Aumingja. Aðrir hlýddu eins og þæg skólabörn á þjálfarann lýsa plani dagsins: fara hratt út á Hofsvallagötu, upp á Hringbraut, vestur úr og út að JL-húsi, þaðan út á Nes og að Hagkaupum, tilbaka Nesveg og að Faxaskjóli. Þar voru farnir sprettir þennan hálfhring sem Faxaskjólið er, 400 m, og svo hægt tilbaka. Þrisvar sinnum. Þetta tók á, enda hafði maður storminn í fangið á þessari leið. Samt voru menn furðu sprækir að fara þetta, m.a.s. próf. Fróði, sem er nú eiginlega orðinn spítalamatur, svo lasburða er hann orðinn, gengur milli lækna og sjúkraþjálfara þessi missirin og fær bara misvísandi upplýsingar um hvað að honum gangi og hvernig bezt sé að bregðast við kvillunum. Þrátt fyrir að hann hafi ströng fyrirmæli um að hvíla næstu þrjár vikurnar, hleypur hann ákafliga og tekur þéttinga - en ekki þéttinga eins og hann tæki væri hann heill heilsu. Við mættum Neshópi á Ægisíðu við sjoppuna og var þeim mjög brugðið, ekki vön því að mæta okkur á þessum slóðum á mánudögum.

Þegar við Ágúst vorum búnir að fara þrjú Faxaskjól - stöldruðum við um stund á mótum Ægisíðu, Faxaskjóls og Hofsvallagötu - Ólafur Þorsteinsson kom utanúr sortanum íklæddur Iðnaðarbankahúfunni og saman lögðum við í Ægisíðuna. Ekki var árennilegt að fara þarna um í sunnanrokinu, en við létum okkur hafa það. Einhverra hluta vegna sneri frændi minn við á miðri Ægisíðu, en við félagar skeiðuðum áfram inn í Skerjafjörð á töluvert hröðu tempói, sennilega undir 5 mín. Fórum öfugan mánudagshring og vorum bæði hissa og stoltir yfir því að heilar okkur byggju yfir hæfileika og sveigjanleika til þess að breyta áratugahefð um Mánudagshlaup og bara yfirleitt að rata þessa leið ... öf..., nei, öfugt. Það kom Ágústi á óvart að ritari, þessi feiti maður, skyldi geta haldið í við hann alla leiðina á þessu hraða tempói. Hafði hann orð á því að ritari hlyti að hafa verið að æfa í laumi undanfarnar vikur.

Teygt á stétt, mættum Magnúsi og Vilhjálmi, þeir voru á útleið, búnir með prógramm dagsins. Einar blómasali kom til þess að blanda geði við félagana, farinn á sál og líkam sökum bakverkja. Í potti var m.a. rætt um lögregluaðgerðir helgarinnar og gerður góður rómur að framgöngu Lögreglustjóra Lýðveldisins, sem virðist loksins vera farinn að taka á því óþolandi ástandi sem ríkt hefur í Miðborginni undanfarin ár. Rætt um bátinn blómasalans, Færeyinginn, og spurt hvenær Hlaupasamtökunum yrði boðið í túr. Jújú, það gæti sosum orðið af því. Og hvað tekur báturinn marga? 20? Njaaei, það geta kannski 5 fengið pláss þar...

Nú eru tímamót framundan: miðvikudagur 12. september. Þá segir sagan að Karl muni mæta til hlaupa að nýju eftir langt hlé. Ekki væri verra ef Sjúl léti svo lítið að sýna sig í kátra sveina hópi. Í gvuðs friði, ritari. 


Kære nordiske venner

Já, í dag var hlaupið í anda sannrar, norrænnar vináttu, nánar tiltekið í kompaníi við þær mæðgur Else og Maju. Þær mættu kappklæddar og útrústaðar myndavél - og þótti við helst til fáklæddir sem aðeins vorum á stuttum hlaupabuxum og með handleggina bera. Mættir á sunnudagsmorgni voru Magnús, Þorvaldur, Guðmundur, Hjörleifur, Birgir, Kári, annálaritari og loks kom Einar blómasali er tvær mínútur lifðu til brottfarar. Hann dokaði við á gólfi Brottfararsalar, baðaði út öngunum og benti á klukkuna babblandi einhverja vitleysu: Tvær mínútur, sagði hann. Hann fékk mjög eindregin tilmæli að drulla sér út í klefa og hafa fataskipti. Það olli nokkrum vonbrigðum að hvorugur þeirra fóstbræðra, Ólafur Þorsteinsson eða Vilhjálmur Bjarnason, mættu til hlaups í dag. Það var rifjað upp að sá fyrrnefndi hafði boðið þeim síðarnefnda til óðala sinna í Hrútafirðinum og mun Villi hafa þekkst boðið. Lýsir það stórlyndi og göfugmennsku frænda míns, blíðlyndi og hógværð, eins og hann á ættir til, að bjóða helzta gagnrýnanda og andmælanda sínum til helgardvalar á þessum sælureit að Melum.

Jafnframt var það rifjað upp að VB var mættur í útvarpsþáttinn Vikulok í gærmorgun og fór þar mikinn, afgreiddi skipulagsóreiðu í einu orðinu, efnahagsóreiðui í hinu. Spurt var hvort hann hefði munað eftir að nefna Hlaupasamtökin - að það mun hann ekki hafa gert, en minntist víst eitthvað á hreyfingu.

Veður ákjósanlegt til hlaupa, hlýtt og bjart. Það var enginn vandræðagangur á okkur á Brottfararplani, við tættum af stað þegar blómasalinn kom út og fórum allhratt. Magnús og Guðmundur fremstir, sá síðarnefndi allur að koma til og að verða með beittustu hlaupurum. Magnús hvarf og segir ekki meira af honum á blöðum þessum. Það var reynt að halda uppi samræðum við norsku mæðgurnar, ýmist á skandinavísku, blandinavísku eða ensku. Birgir var duglegur að fræða þær um land og þjóð og ýmis sérkenni, að vísu kannaðist ég ekki alveg við lýsingar hans á sérkennum, hann hefur kannski verið að rugla saman við Færeyjar.

Í Nauthólsvík beygðum við Birgir og Kári niður á rampinn, afklæddumst og skelltum okkur í sjóinn, og vorum þar myndaðir í bak og fyrir. Komum svo upp úr og héldum mikla kroppasýningu sem vakti hrifningu. Myndirnar munu birtast í norsku hlaupatímariti og mega sjósundskappar búast við frægð á Norðurlöndunum í framhaldi. Einar kom gangandi inn í Nauthólsvík, farinn í bakinu. Hann var látinn gera teygjuæfingar sem geta lagað slæmt bak - en kaus að halda ekki áfram hlaupi, heldur ganga tilbaka. Það var niðurbrotinn blómasali sem gekk heimleiðis, en við héldum áfram inn í kirkjugarð. Fórum gegnum lúpinugerðið Jörundar og komum upp þegar komið var framhjá hliðinu í garðinn, Birgir talaði svo mikið að hann áttaði sig ekki á staðsetningunni. Ég varð að hrópa á fremstu hlaupara og fá þá til að snúa við, annað hefði verið brot á ritúali.

Stundum var staldrað við og genginn smáspölur, en líklega heldur minna en alla jafna. Tempóið var hægt og notalegt, okkur leið bara vel alla leiðina. Fórum niður á Sæbraut og þá leið tilbaka. Birgir sagði mæðgunum frá Tónlistarhöllinni er senn myndi rísa í höfninni. Sagði hann þeim að glerið sem nota ætti í húsið væri búið til úr sandi, framleitt á tvö hundruð metra dýpi undir sjávarbotni og kostaði tvo milljarða, hannað af Ólafi Elíassyni. Þeim fannst þetta afar athyglisvert. Upp Ægisgötu, Túngötu, Hofsvallagötu til Laugar.

Í útiklefa sat Einar blómasali niðurbrotinn á sál og líkama, hafði setið þannig í 30 mín. og kom sér ekki til þess að gera neitt. Hann lifnaði strax við er við birtumst og brátt var hann farinn að brosa á ný, honum fannst lífið hafa öðlast tilgang á nýjaleik er félagar hans komu, uppfullir af góðum ráðum við bakverk. Birgir hófst þegar handa um að láta blómasalann teyjga. Ég fór inn í sturtu og rakstur. Er ég kom út aftur, var enn verið að teygja blómasalann, þessi mikli skrokkur lá á gólfi útiklefa og Birgir jógi sat ofan á honum og teygði í skankana - baðgestum er komu í útiklefa var nokkuð brugðið við þessa sýn, sem vonlegt er. Í potti voru mættir dr. Baldur og dr. Einar Gunnar, var nokkuð rætt um ónefnda, fjarstadda félaga. Kári kvaddi, hann fer til Franz í fyrramálið, nánar tiltekið Rennes, verður þar fram í desember að vísindast.

Á morgun er nýtt hlaup - með þjálfara. Í gvuðs friði, ritari. 


Dagskrá hlaupa í Hlaupasamtökum Lýðveldisins

Frá hausti 2007 er hlaupið sem hér segir í Hlaupasamtökum Lýðveldisins:

Mánudaga kl. 17:30
Miðvikudaga kl. 17:30
Fimmtudaga kl. 17.30
Föstudaga kl. 16:30
Laugardaga kl. 10:00
Sunnudaga kl. 10:10

Þjálfarar eru með okkur alla daga nema föstudaga og sunnudaga. Hlaupið er frá Vesturbæjarlaug.


Er hlaupið dagana sem ritari hleypur ekki...?

Þessi existensíalíska spurning dúkkaði upp í huga ritara er hann kom á Brottfararplan í dag. Hún er í ætt við viðhorf þeirra sem telja að sá heimur sé ekki til sem þeir upplifa ekki sjálfir af eigin raun. Pæling. Nema hvað, hér kemur Lýðveldisins þjón og erfiðismaður, slitinn af amstri, áhyggjum og streitu dagsins, búinn að standa vaktina fyrir Fósturjörðina og fórnaði hlaupi að auki - hvað mætir honum annað en aðkast og móðganir? Á stétt úti stóðu hlaupararnir dr. Jóhanna, próf.dr. Fróði, Einar blómasali, Jói, Birgir og Kári, öndvegisfólk í alla staði. Þar fyrir utan var stödd á stétt ungfrú Maja, norskrar ættar og dóttir kollega ritara. Hafði hún fylgt hlaupurum eftir og myndað þá í bak og fyrir - þ.e.a.s. þá sem hlupu með henni. Ágúst kvartaði yfir að hún hefði aðallega smellt myndum af "þeim"  - með fyrirlitingu og benti á Einar, Birgi og Kára. 

Í útiklefa ræddu Birgir og Einar af ákefð um Lego-kubba, ég áttaði mig ekki fyllilega á því hvert þetta stefndi, nema áður en ég vissi orðið af var Birgir búinn að lofa sér í þegnskylduvinnu hjá Einari. Stundum nær maður ekki samhengi hlutanna. Í potti var rætt um fimmtudagshlaupið - einhver taldi sig hafa séð fimm hlaupara mætta - "voru það ekki bara fremstu hlauparar?" spurði annar hlaupari. "Jú, það hlýtur að vera svo." Fróðlegt verður að heyra frásagnir þátttakenda, en ritari hefur boðið mönnum að senda sér línu og láta vita af afrekum.

Það var Fyrsti Föstudagur. Farið á Mimmann. Þar mættu: Ágúst, Denni, Magnús, Kári, Jói, Ólöf og ritari. Drukkið við sleitur. En svona lifnaður dugir ekki hlaupandi fólki, á morgun er nýr hlaupadagur, mæting kl. 10:00, farið hægt og hljótt með þjálfara. Vel mætt! Ritari. 

Bert hold á eyðiey

Í dag var farið í sjóinn og það sást bert hold, bæði hérna megin vogsins, flóans eða fjarðarins, allt eftir því hvernig menn vilja skilgreina hlutina, og hinum megin. Meira um það seinna. Sem fyrr voru of margir mættir til þess að hægt sé að fara með nafnaþuluna, 22-24 eftir því hver taldi eða hvernig var talið, kannski slæddust með einhverjir sundlaugargestir sem áttu bara leið um. Þó verður ekki hjá því komist að nefna þann einstakan mann er mætti og var sögulegt: Ólaf Þorsteinsson Víking af Víkingslækjarætt. Er þetta í fyrsta skipti í áratugi að hann mætir til hefðbundins hlaups á virkum degi -  en þar með uppfyllandi loforð er hann gaf s.l. sunnudag í Nauthólsvík. Nærvera hans sætti tíðindum, enda tíðum kallaður Formaður Vor til Lífstíðar, og var ekki laust við að maður fylltist stolti yfir að njóta félagsskapar svo ágæts foringja og leiðtoga - og synd að þjálfarinn skyldi strax taka orðið frá honum, sem ella hefði verið trúandi til að flytja snjalla tölu af tröppum VBL. En sumir hlauparar töldu sig sjá andlit og hnúa hvítna, svita, og jafnvel blóð, spretta undan hársrótum ónefndra aðila, en við því var ekki að gera, svona er að lifa í Samtökum þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja.

Þjálfarinn, Rúnar Reynisson, lagði línurnar, fara hægt og ekki reyna um of á sig, taka teygjur á Ægisíðunni, jóga. Svo fengu menn að velja vegalengdir, hraða o.s.frv. Keyrt af stað. Skeiðað inn í Nauthólsvík, farið í sjóinn, þessir: dr. Friðrik, Flosi, Birgir, Sig. Ingvarsson, próf. Fróði og annálaritari. Á ströndum Kópavogs var bert hold að gera sig klárt fyrir sjósund - einn selshaus sást í víkinni hafandi svamlað yfir Voginn. Sjávarhiti 11,3 gráður, fremur heitt fyrir þennan hóp. Síðar greindum við ekki færri en fimm manneskjur sem syntu án fylgdar yfir Voginn - virtist ekki góð hugmynd. Flosi illa skorinn af sundi, blóð lagaði úr fæti, en hann lét sem hann sæi það ekki, brá sér hvorki við sár né bana.

Áfram í dalinn, þeir feðgar Sigurður og sonur reyndu að trekkja próf. Ágúst upp í hraðara tempó, en ég, Birgir og dr. Jóhanna héldum aftur af honum, hann er meiddur og hefur ströng tilmæli læknis um að hvíla. Að fara á tempóinu 5:20 er að hvíla skv. kokkabókum Nagamura. Ekkert slegið af - margvísleg málefni krufin, ég náði að halda Ágústi svo uppi á snakki að hann gleymdi Kópavogslykkjunni, sem þeir Keldnafeðgar tóku.

Sem endranær var maður teygður út að Elliðaám, og þar skildu félagar mínir mig eftir, ég náði að hanga í þeim upp Stokkinn, en við Réttarholtsveg var ég orðinn hinn klassíski, einmana hlaupari, vinalaus og yfirgefinn! Það breytti hins vegar ekki ásetningi mínum um að ljúka miðvikudagshlaupi með fullri reisn - það var líka reyndin, var rétt á eftir hinum, en dálítið óheppinn með öll rauðu ljósin á leiðinni sem hin losnuðu við.

Hold var berað í hlaupinu. Að hlaupi loknu sagði ég Birgi þessa sögu og hann heimtaði hana inn á Eter: sem ungur maður fór ég gjarnan í Borgarbókasafnið á Hofsvallagötu 16, 3. hæð. Þar sat (þá) gömul (að mér fannst), gráhærð kona (látin fyrir fáeinum árum) og stimplaði bókakort fyrir þær bækur sem maður tók. Maður mátti taka eina bók fyrir hvert kort, ég var með fimm kort, þrjú fyrir mig, tvö fyrir Pétur bróður minn. Í einni ferðinni fann ég bók með brúnum kili og gyllingu, á kilinum var titill bókarinnar: Bert hold á eyðiey. Við þessa uppgötvun varð ég allur fír og flamme, byrjaði að titra og skjálfa yfir tilhugsuninni um að sleppa með þetta kontraband framhjá gráhærðu konunni sem stimplaði. Frávita af spennu tók ég þessa bók og laumaði henni sakleysislega í bunkann með hinum bókunum, en bjóst alveg eins við að konan myndi lyfta henni upp í fullkomnum viðbjóði, úthrópa mig sem óvenju ungan pornodog og neita að leyfa mér að fara heim með ritið. En áætlunin gekk fullkomlega upp, konan tók ekki eftir neinu og ég gekk sigri hrósandi út með mitt fyrsta klámrit, og það af bókasafni í eigu almennings. En þegar heim kom fór nú glansinn af ævintýrinu, gyllingin hafði greinilega ekki tekist sem bezt, bókin sem ég hafði tekið hét Berthold á eyðiey, og fjallaði um einhvern leiðinlegan, þýzkan (fyrirgefðu Helmut) vandræðaungling sem hét Berthold og lenti á eyðiey líkt og Róbinson forðum og glímu hans við óblítt umhverfið. Hér með er auglýst eftir fleiri unglingum sem lentu í þessari sömu klemmu.

Setið í potti um stund og skrafað um ketti, árshátíð, illa meðferð á börnum - og fleira uppbyggilegt.
Nú er að sjá hversu mæting verður næstu daga, annálaritari er upptekinn af verkum í þágu Lýðveldisins, og getur í fyrsta lagi mætt n.k. laugardag - en altént sunnudag. Brýnt er fyrir fólki að iðka hreinlæti og kurteisi. Í gvuðs friði, annálaritari.  

Frábær fyrsta hlaupaæfing

Ekki færri en 22 hlauparar mættu til fyrstu hlaupaæfingar Hlaupasamtaka Lýðveldisins haustið 2007. Þegar slíkur fjöldi mætir til hlaups nær náttúrlega engri átt að reyna að telja alla upp sem voru viðstaddir - nær væri að telja þá upp sem ekki mættu. Beinast liggur við að harma fjarveru frænda míns, Ó. Þorsteinssonar, sem þó var búinn að lýsa yfir ásetningi um beinskeytta stjórnarandstöðu, en málefnalega. Einnig söknuðu menn Sjúls, sem ekki hefur mætt um skeið. Nánast allir aðrir félagar Hlaupasamtakanna sem vettlingi geta valdið voru mættir, nema kannski Flosi, sem er þekktur fyrir að valda hvítum vettlingum. Ekki færri en fimm konur voru mættar og hefur slíkur fjöldi ekki sézt í manna minnum. Það hellirigndi utandyra, og upp komu hugmyndir um að slaufa æfingu og halda skemmtun innanhúss. En þjálfarinn, Margrét, tók það ekki í mál. Hún skipti hópnum gróflega upp í tvennt, þá sem eru vanir að fara langt og hratt, og hina sem eru ekki búnir að hlaupa mikið. Hún spurði: Hverjir eru í lítilli æfingu? Ég ætla að fara með þeim. Hér voru ótal hendur á lofti og ólíklegustu menn töldu sig vera í slæmu formi, m.a. Magnús, sem fór hálft maraþon fyrir skemmstu á 1:46:26. "Ég fer bara með henni" sagði Magnús lítillátur. Línur voru lagðar fyrir hlaupið, farið skyldi inn að kirkjugarði á rólegum takti, snúið við og teknar hraðaæfingar.

Hraðafantar fundu hjá sér þörf fyrir að spenna upp hraðann og hurfu okkur skynsamari hlaupurum, þar á meðal voru Ágúst, Sigurður Ingv., Magnús, dr. Jóhanna og sjálfsagt fleiri, gott ef menntaskólaneminn Tumi var ekki þar á meðal. Þegar menn eru komnir með þjálfara verða þeir að tileinka sér fullkomna einbeitingu, fylgjast vel með leiðbeiningum og fylgja þeim. Gat þetta fólk það? Nei. Það var auðvitað til of mikils ætlast að það sneri við hjá kirkjugarðinum, það var tekin einhver gömul Kirkjugarðslykkja sem rifjaðist upp fyrir þeim þegar kom að hinum helga hvíldarreit. Þegar við hinir skynsamari menn, ég og blómasalinn komum inn að Garði mættum við Benedikt og dönskum ofurhlaupara, svo Eiríki, og var asi á þeim. Við fundum fyrir Gísla, Guðmund og Hauk og urðum þeim samferða tilbaka. Margrét þjálfari mætti okkur og lagði línurnar fyrir þéttingana sem urðu einir fjórir, hálfrar mínútu þéttingar, hvílt í tvær mínútur á milli og virkaði vel á okkur. Fyrst skildum við Gísla og Guðmund eftir, og svo dróst blómasalinn aftur úr, en við Haukur skeiðuðum með Margréti eins og ... (mér datt í hug "stóðhestar" - en líklega passar það ekki í virðulegum hlaupasamtökum) .. herforingjar. Við veltum fyrir okkur hvort blómasalinn væri ein eða tvær persónur. Svo miklar áhyggjur hefur hann af hollningunni, segir í einu orðinu að hann sé í átaki; í næsta orði segir hann: "Það verða fish and chips hjá mér í kvöld."

Eftir á að hyggja vorum við gizka ánægðir með æfinguna, hún tók svolítið á, en ekki kom blóðbragðið upp í munni okkar. Teygt vel á stétt á eftir og svo var farið í pott. Þar lýsti Vilhjálmur yfir því að við værum allir vitleysingar. Hann sagði að menn hlypu sér til skemmtunar og geðbótar, en ekki til þess að setja met - ef menn vildu stunda keppnisundirbúning og keppnistal gætu þeir hlaupið annars staðar: Hlaupasamtökin myndu halda sínu striki og halda í sínar hefðir!

Næst er hlaupið á miðvikudag, þá kemur hinn þjálfarinn, Rúnar. Bjartsýni ríkir í hópnum um að hægt verði að koma mönnum til nokkurs hlaupaþroska undir handleiðslu þeirra Margrétar og Rúnars. Í gvuðs friði. Ritari.

PS - var að horfa á stórkostlegan kappleik milli Fjölnis og Fylkis í bikarkeppninni, ég dáðist að knattleikni fyrrnefnda liðsins, sem mun vera úr Grafarvogi, ódrepandi baráttuþreki og baráttuvilja. Þetta eru Vormenn Íslands, það er tilhlökkunarefni að fá íþróttamenn af þessum kalíber inn í Landsbankadeildina - þá verður kannski leikin knattspyrna á Íslandi!


Miðaldra, hvítir karlmenn hlaupa á sunnudagsmorgni

Nokkrir af helztu máttarstólpum Hlaupasamtaka Lýðveldisins voru mættir til hlaupa þennan sólskinsfagra sunnudagsmorgun og skulu þessir nefndir: Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur, Magnús, Birgir, Ólafur annálaritari og Guðmundur. Veður eins og þau gerast bezt á haustin, heiðskírt og fremur hlýtt. Magnús tilkynnti strax að hann hefði merkilega sögu að segja okkur, en vildi bíða með hana þar til allir væru komnir. Við urðum mjög spenntir enda ekki á hverjum degi sem Magnús kemur með slíkar tilkynningar. Ólafur gaf lýsingu á afmælisveizlu sem hann sótti í gærkvöldi, afmælisbarnið var Einar Baldvin Stefánsson, Ólafssonar, Þorsteinssonar járnsmiðs Tómassonar í Reykjavík, sem kvæntur var Valgerði Ólafsdóttur, f. 1. jan. 1858 í Viðey, og sögð "að upplagi blíðlynd, hæglát og hógvær" (Víkingslækjarætt I). Kannast menn við lýsinguna? En meginástæðan fyrir minni nærveru þennan morgun var eftirvæntingin að heyra greiningu Ó. Þorsteinssonar á ástandinu.

Það var lagt í hann og farið hægt, eins gott því að ritari var stirður eftir gærdaginn og að hlaupa þriðja daginn í röð, maður nýstiginn upp úr veikindum. Ég hélt mig í námunda við Ólaf frænda minn og beið eftir greiningu, reyndi m.a.s. að ýta við honum með því að draga upp sögulegan samanburð af yfirtöku ónefnds aðila á stjórnmálaflokki og ríki. En ekki fékkst hann til að hefja greininguna. Svo það var kjagað áfram Ægisíðuna og inn í Nauthólsvík. Á leiðinni sló það okkur að hér væru á ferð hvítir, miðaldra karlmenn - blanda sem ekki væri líkleg til að uppfylla kröfur pólitískrar rétthugsunar. Og ekki kom frásögn Magnúsar.

Í Nauthólsvík var staldrað við. Sögustund. Hér féll loks sprengjan. Ó. Þorsteinsson upplýsti viðstadda um að hann væri kominn í námsleyfi og hygðist leggja stund á nám í gæðastjórnun við Háskóla Íslands. Samfara þessari breytingu yrði sú breyting að hann hygðist mæta til almennra hlaupa þá daga sem hlaupið verður. Þar mun hann halda uppi virkri, hvassri en jafnframt málefnalegri stjórnarandstöðu með frammíköllum og háðsglósum þegar svo ber undir. Var tilkynningu hans tekið fagnandi og er það fagnaðarefni að fá svo ágæta viðbót við hópinn. En ekki kom sagan Magnúsar.

Það var skeiðað áfram á hægu tempói, við mættum spúsu Ólafs og skildum við hann þar, héldum áfram í Garðinn. Í stað þess að stöðva héldu Þorvaldur og Magnús áfram hlaupandi upp úr Garðinum en við Vilhjálmur, Birgir og Guðmundur tókum lögákveðið stopp og ræddum ýmsar greinar persónufræðinnar. Biðum nokkra stund eftir því að Ólafur næði okkur, en vorum svo orðnir úrkula vonar og héldum áfram. Það var farið hefðbundið og Vilhjálmur sagði okkur merkilega sögu með kristilegum undirtóni sem kannski verður endurtekin í hlaupi morgundagsins. Við sáum ekki meira til Magnusar og Þorvalds og lukum hlaupi á gamalkunnum nótum. Ég mætti Magnúsi þar sem hann var að drífa sig til verka í Lýðveldinu og innti hann eftir sögunni: "Ég segi ykkur hana síðar, hún er svo GÓÐ!"

Fyrir í potti voru Jörundur og Gísli, lúnir eftir 17 km hlaup umhverfis Elliðavatn með Öl-hópi. Einnig voru Mímir og dr. Baldur - loks dúkkaði Einar blómasali upp og var bæði með raksápu í eyrum og kinnina blóðuga, viðstaddir bentu á þetta og lét Einar sig síga undir vatnsborðið svo að valdabrölt hans væri ekki jafn augljóst. Svo sem venja er var ræða úr Nauthólsvík endurflutt viðstöddum til upplýsingar og skemmtunar. Margt virðingarfólks var að laugu þennan fagra sunnudag og þekkti það allt Ólaf Þorsteinsson, enda er hann reykvízkt valmenni í kynslóðir.

Á morgun, mánudag, er fyrsti raunverulegi hlaupadagur með þjálfara og verður fróðlegt að sjá hver mæting verður -  en þó aðallega hvernig æfingin gengur fyrir sig. Vel mætt, annálaritari.  

Fyrsta hlaupahátíð Vesturbæjarins vel heppnuð

Í dag var í fyrsta skipti haldin hlaupahátíð Vesturbæjarins í samstarfi Vesturgarðs (ÍTR), Melabúðarinnar og Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Þátttakendur söfnuðust saman á Brottfararplani Vesturbæjarlaugar kl. 14, þar sem Guðrún Arna, forstöðukona laugarinnar, ávarpaði viðstadda og setti hátíðina. Prófessor Ágúst Kvaran, helzti og mesti hlaupari Hlaupasamtakanna, stolt þeirra, sverð, sómi og skjöldur, tók til máls og kynnti tilhögun hlaupa. Hlaupi var skipt í þrennt: 10 km, unglingahlaup og barnahlaup (400 m) - kynntir voru hlaupaþjálfarar, Margrét Elíasdóttir og Rúnar Reynisson, sem munu veita hlaupurum aðhald á mánudögum, fimmtudögum og laugardögum, sbr. auglýsta dagskrá hér á eftir. Nú brast á með rigningu - og þá var brugðið á það ráð að hefja 10 km hlaup. Um 30 hlauparar voru mættir til þess að hlaupa þennan sprett og Margrét í forystu. Raunar fór það svo að hún spretti úr spori og sást varla meira það er eftir lifði hlaups. Við Jörundur og Sigurður Ingvarsson fórum rólega af stað og vorum með öftustu mönnum - enda meiningin að reyna að halda utan um hópinn. Svo fór okkur að leiðast og fórum úr 5:45 upp í 5:00 og keyrðum stíft. Fórum að grilla fremstu hlaupara. Þá fór Sigurður að velta fyrir sér hvað þjálfarinn væri að hugsa og vildi kynna sér þessa strategíu, setti á fullan blast og hvarf, Jörundur þar á eftir og ég einn - eins og venjulega.

Það var hlaupið að bekkjunum áður en komið er að göngubrúnni yfir Kringlumýrarbrautina, snúið við og sömu leið til baka. Pissustopp fyrir þennan hlaupara, keyrt áfram, en nú var kominn leiðindaþræsingur, stíf vestanátt og ekki gaman að berjast gegn þessu í hátíðarhlaupi. Ég mætti Birgi, Einari blómasala og Friðriki verzlunarmanni - þeir komu eins og Skt. Bernharðshundar að bjarga villuráfandi hlaupurum - nema hvað það vantaði eitthvað á hálsinn á þeim. Seinna mætti ég Flosa bróður sem vildi líka hjálpa til - og þar á eftir mætti ég prófessor Fróða og Gísla barnakarli - þeir börðu í mig kjark til að klára hlaupið - "eru einhverjir eftir?"spurðu þeir - mér fannst þetta lítilsvirðing, voru þeir að spyrja hvort ég væri síðastur? Ég laug því til að það væru alla vega tíu manns á eftir mér. Barðist svo áfram gegnum rokið og rigninguna og kláraði hlaup.

Á Aðkomuplani var búið að slá upp veizlu, þar voru grillaðar pylsur og bornir fram vatnsdrykkir í boði Melabúðarinnar, Toppur með bragði. Mér var tjáð að hlaup hefðu tekizt vonum framar: Gísli hljóp með smottingunum 400 m og það tók hann 10 mín. Svo var farið með unglingana og tókst ekki síður vel til. Allt í allt telst oss að um 100 manns hafi tekið þátt í þessari fyrstu Vesturbæjarhátíð og var hún öllum aðstandendum til mikils sóma. Á engan er hallað þótt hlutur forsprakkans og eldhugans, Hauks Arnþórssonar, sé sérstaklega dreginn fram í þessu samhengi. Samstarf við Vesturbæjarlaug og við ÍTR lofar góðu og hlakka allir til hlaupadagskrár vetrarins. Hátíð lauk með fyrirlestri Sigurðar P. Sigmundssonar, þjóðsagnapersónu íslenzkra hlaupa og Íslandsmethafa í maraþoni, og var gerður góður rómur að máli hans.

Farið í barnapott og legið þar í klukkustund - margt fróðlegt bar á góma sem ekki verður tilgreint hér. Upplýst að um 10 nýir hlaupafélagar hafa skráð sig til þátttöku í hlaupum Hlaupasamtakanna og var lögð áherzla á að hlaupahópnum verði skipt upp, þannig að nýir, óreyndir hlauparar geti farið styttri vegalengdir, 3-5 km, til að byrja með, þar til þeir venjast hinum löngu og alræmdu hlaupum Hlaupasamtakanna, Goldfinger,  69, Árbæjarlaug, o.s.frv. Í barnapotti voru þessir mættir: Einar blómasali, Birgir, Gísli, Ágúst, Flosi, annálaritari, frú Ólöf, dr. Jóhanna, Helmut, Jörundur, Sigurður Ingvarsson, Haukur og svo fólk sem tengdist Birgi. Áður en menn vissu orðið af var Jörundur búinn að stofna til slíkra illinda að til vandræða horfði, hann var svo afundinn og erfiður að hann minnti einna helzt á Vilhjálm Bjarnason - menn bentu honum á þetta og báðu hann að stilla sig. Dr. Friðrik sást á svæðinu eftir frækilega framgöngu í Brúarhlaupi á Selfossi, þar sem Rúna mun einnig hafa gert garðinn frægan og lent í þriðja sæti í sínum flokki í hálfu maraþoni. Lagðar línur um skemmtanahöld haustsins og minnt á að margir Fyrstu Föstudagar væru eftir óútteknir.

Ljóst er að Hlaupasamtökin eru í miklum vexti og boðið upp á nýja hlaupamöguleika - engu að síður eru fastir liðir á dagskrá sem fyrr: mannfræði, þjóðfræði, mannbetrun, persónufræði og slúður í sunnudagshlaupi, kirkjugarður og klukka í fyrramálið kl. 10:10, miðaldra sagnamenn munu hlaupa og ganga og láta skeika að sköpuðu, við munum láta gamminn geisa, móðan mása, pennann rápa, hugann reika, við munum ekki láta deigan síga eða linan lafa, NEI! Verum hvassir. Í gvuðs friði. Annálaritari.




« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband