Þjálfari herðir tökin

Það blés ekki byrlega til hlaupa í dag, mánudag, hvöss sunnanátt, rigning og almennt niðurdrepandi veður utandyra. Mann langaði einna helzt til að halda sig innandyra, draga fiður yfir haus og gleyma hlaupum. En þannig hugsa náttúrlega ekki alvöru hlauparar. Menn draga saman gírið í tösku og halda til Laugar. Ég var með nýja tösku í dag, sú gamla var búin að gera sitt gagn, heimilisfólkið var farið að kvarta yfir henni, dugði ekki einu sinni að hafa hana úti á svölum, alls staðar olli hún angri. Svo að hún lenti í öskutunnunni í gær og ég fékk gömlu sundtösku sonarins. Hann hefur forframast svo í sundíþróttinni að hann ber sundtösku merkta Lýðveldinu dags daglega. Nema hvað, til hlaupa mættir margir af máttarstólpum Hlaupasamtakanna: Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Ágúst, dr. Friðrik, Guðmundur, Magnús, Þorvaldur, Björn, Helmut, Una, Haukur, óþekkt kona, Ólafur ritari, og Margrét þjálfari. Í Brottfararsal gerði fnykur vart við sig og ljóst að einhver hafði ekki þvegið gallann sinn nokkrar undangengnar vikur. Af vináttu og virðingu fyrir hlaupurum, ástvinum þeirra og fjölskyldum, verður ekki farið nánar út í þessa sálma né nöfn nefnd - en brýnt sem fyrr fyrir hlutaðeigandi að sýna félögum sínum þá nærgætni og tillitssemi að mæta til hlaupa í hreinum hlaupafatnaði. Una hafði lagt frá sér Garmin-tækið sitt úti á tröppum svo að það næði tungli meðan hún blandaði geði við hlaupara inni. Er út var komið aftur var búið að stela tækinu hennar og er ótrúlegt til þess að hugsa að ekki megi líta af svona grip í fáeinar mínútur en búið er að nema það á brott. Hvers konar fólk gerir svonalagað eiginlega?

Það mátti skilja á þjálfaranum að nú væri hveitibrauðsdögunum lokið og nú tæki alvaran við. Birni og Helmut var svo brugðið við þessar fréttir að þeir lögðu af stað án þess að hlýða á fyrirmæli dagsins og fóru Aumingja. Aðrir hlýddu eins og þæg skólabörn á þjálfarann lýsa plani dagsins: fara hratt út á Hofsvallagötu, upp á Hringbraut, vestur úr og út að JL-húsi, þaðan út á Nes og að Hagkaupum, tilbaka Nesveg og að Faxaskjóli. Þar voru farnir sprettir þennan hálfhring sem Faxaskjólið er, 400 m, og svo hægt tilbaka. Þrisvar sinnum. Þetta tók á, enda hafði maður storminn í fangið á þessari leið. Samt voru menn furðu sprækir að fara þetta, m.a.s. próf. Fróði, sem er nú eiginlega orðinn spítalamatur, svo lasburða er hann orðinn, gengur milli lækna og sjúkraþjálfara þessi missirin og fær bara misvísandi upplýsingar um hvað að honum gangi og hvernig bezt sé að bregðast við kvillunum. Þrátt fyrir að hann hafi ströng fyrirmæli um að hvíla næstu þrjár vikurnar, hleypur hann ákafliga og tekur þéttinga - en ekki þéttinga eins og hann tæki væri hann heill heilsu. Við mættum Neshópi á Ægisíðu við sjoppuna og var þeim mjög brugðið, ekki vön því að mæta okkur á þessum slóðum á mánudögum.

Þegar við Ágúst vorum búnir að fara þrjú Faxaskjól - stöldruðum við um stund á mótum Ægisíðu, Faxaskjóls og Hofsvallagötu - Ólafur Þorsteinsson kom utanúr sortanum íklæddur Iðnaðarbankahúfunni og saman lögðum við í Ægisíðuna. Ekki var árennilegt að fara þarna um í sunnanrokinu, en við létum okkur hafa það. Einhverra hluta vegna sneri frændi minn við á miðri Ægisíðu, en við félagar skeiðuðum áfram inn í Skerjafjörð á töluvert hröðu tempói, sennilega undir 5 mín. Fórum öfugan mánudagshring og vorum bæði hissa og stoltir yfir því að heilar okkur byggju yfir hæfileika og sveigjanleika til þess að breyta áratugahefð um Mánudagshlaup og bara yfirleitt að rata þessa leið ... öf..., nei, öfugt. Það kom Ágústi á óvart að ritari, þessi feiti maður, skyldi geta haldið í við hann alla leiðina á þessu hraða tempói. Hafði hann orð á því að ritari hlyti að hafa verið að æfa í laumi undanfarnar vikur.

Teygt á stétt, mættum Magnúsi og Vilhjálmi, þeir voru á útleið, búnir með prógramm dagsins. Einar blómasali kom til þess að blanda geði við félagana, farinn á sál og líkam sökum bakverkja. Í potti var m.a. rætt um lögregluaðgerðir helgarinnar og gerður góður rómur að framgöngu Lögreglustjóra Lýðveldisins, sem virðist loksins vera farinn að taka á því óþolandi ástandi sem ríkt hefur í Miðborginni undanfarin ár. Rætt um bátinn blómasalans, Færeyinginn, og spurt hvenær Hlaupasamtökunum yrði boðið í túr. Jújú, það gæti sosum orðið af því. Og hvað tekur báturinn marga? 20? Njaaei, það geta kannski 5 fengið pláss þar...

Nú eru tímamót framundan: miðvikudagur 12. september. Þá segir sagan að Karl muni mæta til hlaupa að nýju eftir langt hlé. Ekki væri verra ef Sjúl léti svo lítið að sýna sig í kátra sveina hópi. Í gvuðs friði, ritari. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Takk fyrir pistilinn.  Ekki hljóp ég í gær, nema frá neðanjarðarlestinni í París inn á lestarpallinn á Gare Montparnasse þar sem hraðlestin fer til Rennes.  Ég var með 20 kílóa ferðatösku í annarri hendi og reiðhjólið sundurtekið í hinni svo úr varð hin ágætasta æfing - án upphitunar og teygju að vísu.

Kveðja, Kári

Kári Harðarson, 11.9.2007 kl. 10:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband